Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 541/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 541/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19080038

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Með kæru, dags. 5. ágúst 2019, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Gana (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. júlí 2019, um að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru má ráða að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 9. júlí 2019, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í 16 daga hjá sendiráði Íslands í Peking í Kína. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. júlí 2019. Þann 5. ágúst 2019 barst Útlendingastofnun kæra í málinu en kæru fylgdu athugasemdir og framsendi stofnunin kæruna til kærunefndar útlendingamála þann 26. ágúst 2019. Þann 10. september sl. bárust kærunefnd viðbótargögn frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þau gögn sem kærandi hafi lagt fram með umsókn sinni um vegabréfsáritun er varðar tilgang dvalar og skilyrði fyrirhugaðar dvalar hafi ekki verið áreiðanleg. Í símaviðtali við starfsfólk sendiráðs Íslands í Peking hafi kærandi haft litla þekkingu á Íslandi og hafi ekki getað útskýrt ferðaáætlun sína. Jafnframt hefði kærandi ekki verið búinn að greiða fyrir flugmiða og hótel. Einnig hefði starfsfólk sendiráðsins ekki getað staðfest það að kærandi væri nemi við “[...]“ og þá hefði kærandi ekki næg fjárráð til ferðarinnar. Þar sem að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga og 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010 um skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar, að mati Útlendingastofnunar, varumsókn hans um vegabréfsáritun synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í athugasemdum kæranda kemur m.a. fram að í samræmi við tilgreinda alþjóðlega útlendingalöggjöf sé ekki nauðsynlegt að kaupa flugmiða þegar ekki er búið að gefa út vegabréfsáritun. Þann 25. júlí sl. hafi hann keypt flugmiða eftir samtal við starfsfólk íslenska sendiráðsins. Þá vísar hann til þess að hann sé nemi við “[...]“ og að hann hafi jafnframt framvísað gögnum um bankainnistæðu að fjárhæð 4281 evrur en kostnaður vegna hótela á Íslandi væri einungis 184 evrur. Því væru rök íslenskra stjórnvalda fyrir því að hann hefði ekki næg fjárráð til ferðalagsins óskiljanleg.

V. Niðurstaða

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Gana þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er skv. fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. útlendingalaga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.

Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins þann 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir.

Við veitingu vegabréfsáritana ber íslenskum stjórnvöldum sem einu af Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um að öllum formskilyrðum sé fullnægt heldur einnig að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúi ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þannig er reynt af fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að rétt sé að lögfesta ákveðin sjónarmið sem beri að miða við í mati á umsókn um vegabréfsáritun. Séu þessi sjónarmið í samræmi við markmið útlendingalaganna og hafi mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Ennfremur segir í athugasemdum með frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem nefnd eru er ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út.

Íslenska sendiráðið í Peking tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Peking, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar. Fulltrúi íslenska sendiráðsins í Peking taldi tilgang ferðar kæranda ótrúverðugan og því var umsókn kæranda send til Útlendingastofnunar til ákvörðunar.

Meginástæða synjunar á umsókn kæranda um vegabréfsáritun var sú að Útlendingastofnun taldi hann ekki uppfylla skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir, þar sem ferðaáætlun hans væri ótrúverðug, hann hefði ekki næg fjárráð til ferðarinnar auk þess sem ekki lægi staðfesting fyrir um að hann væri nemandi við fyrrgreindan háskóla í Peking.

Kærunefnd fellst á mat Útlendingastofnunar um að ferðaáætlun kæranda geti gefið til kynna að ástæða sé að draga í efa réttmæti upplýsinga um tilgang eða skilyrði dvalar kæranda, sem átti skv. umsókn að eiga sér stað í ágúst sl. Við það mat hefur kærunefnd m.a. horft til þess að ferðaáætlun kæranda sé óraunhæf hvað varðar ferðatíma á milli áfangastaða sem eru víðsvegar um Ísland. Auk þess sem ferðaáætlun kæranda stemmir illa við upplýsingar um ferðaleið hans til og frá Íslandi sem hann lagði fram við meðferð umsóknar hans. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á sterk tengsl við heimaríki sitt eða Kína, auk þess sem framlagt bankayfirlit ber með sér að innistæða á reikningi kæranda sé 18.000 yuan, en ekki 33.000 yuan líkt og fram kemur í kæru. Með hliðsjón af framlagðri ferðaáætlun kæranda er framfærsla hans lág. Telur kærunefnd að þær athugasemdir sem koma fram í kæru breyti ekki því mati. Kærunefnd hefur lagt mat á öll gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Áslaug Magnúsdóttir, settur varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum