Hoppa yfir valmynd
29. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Morgunverðarfundur um hollustu matvara

Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið, Lýðheilsustöð og Samtök iðnaðarins efndu til sameiginlegs morgunverðarfundar á hótel Nordica í gær miðvikudaginn 28. mars undir yfirskriftinni “Samstarf um aukið framboð á hollum matvörum –markaðssetning, vöruþróun og skammtastærðir”. Mjög góð aðsókn var að fundinum og í pallborðs-umræðum eftir framsöguerindi spunnust áhugaverðar umræður um fundarefnið.

Rannsóknir víða um heim sýna að ofeldi, óhollt matarræði og hreyfingarleysi eru alvarleg ógn við heilsu og lífsgæði en samkvæmt Evrópuskýrslu Alþjóðaheilbrigðis-málastofnunarinnar frá árinu 2005 raða þættir, sem varða næringu, holdarfar og hreyfingarleysi, sér í sex af tíu efstu sætum yfir þá þætti sem helst lækka lífaldur og minnka lífsgæði.

Í ávarpi sínu benti Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra meðal annars á að fleiri börn eru nú með hærri líkamsþyngdarstuðul en æskilegt er talið og börnum sem glíma við offitu hefur líka fjölgað. Sagði ráðherra nauðsynlegt að snúa þessari þróun við en takist það ekki muni það þýða mjög aukið álag á heilbrigðiskerfið eftir nokkur ár og áratugi. Anna Elísabet Ólafsdóttir forstjóri Lýðheilsustöðvar sagði þá tilhneigingu skyndibita- og sælgætisframleiðenda að bjóða upp á sífellt stærri skammta meðal þess sem stuðlaði að offitu íslendinga. Fram kom hjá henni að 57% karla og 40 kvenna á aldrinum 15 til 80 ára eru yfir kjörþyngd hér á landi.

Ragnheiður Héðinsdóttir, matvælafræðingur hjá Samtökum iðnaðarins fjallaði um stefnu matvælaiðnaðarins í málum sem snerta vöruþróun, næringu og hreyfingu og benti meðal annars á ýmsar jákvæðar breytingar sem orðið hefðu á liðnum árum. Hún sagði að framleiðendur væru tilbúnir til að bjóða upp á meiri hollustu en markaðurinn væri ekki alltaf tilbúinn að taka við því. Iðunn Geirsdóttir gæðastjóri Myllunnar greindi frá þróunarvinnu og heilsustefnu Myllunnar og Stefán Jóhannsson gæðastjóri Subway á Íslandi fjallaði um hvernig skyndibitastaðirnir geta með tiltölulega einföldum hætti boðið upp á meira úrval af hollustuvörum. Friðrik Larsen, markaðsfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík velti upp spurningunni hvort það væri árangursríkara að markaðssetja óhollar matvörur en hollar. Í máli hans kom meðal annars fram að liðlega 80% af fæðutengdum auglýsingum í sjónvarpi fjölluðu um óhollustuvörur og að mest væri auglýst þegar börn væru að horfa.

Að lokum framsögum var umræðum um málið haldið áfram í pallborði en þátttakendur í því voru: Ragnheiður Haraldsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu, Anna E.Ólafsdóttir forstjóri Lýðheilsustöðvar,Jón Steindór Valdimarsson, aðstoðar-framkvæmdastjóri hjá Samtökum iðnaðarins,Guðrún E.Gunnarsdóttir formaður Matvæla-og næringarfræðafélags Íslands og Friðrik Larsen lektor við Háskólann í Reykjavík. Sigmar Guðmundsson sjónvarpsmaður var fundarstjóri og stýrði pallborðsumræðunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum