Hoppa yfir valmynd
1. júní 2022 Dómsmálaráðuneytið

Ofbeldisgátt 112 efld gegn kynferðisbrotum

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra - mynd

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra hefur falið Neyðarlínunni að þróa og efla ofbeldisgátt 112 þannig að 112.is verði sú gátt sem leitað er til vegna upplýsinga og úrræða um kynferðisofbeldi. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi en í starfshópnum sitja Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Guðfinnur Sigurvinsson, Hildur Sunna Pálmadóttir og Eygló Harðardóttir. 

Tillagan byggist á aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Þar er lagt til að bæta upplýsingamiðlun til þeirra sem verða fyrir kynferðisbrotum og vilja leita úrræða, meðal annars með kynningarmyndböndum og lifandi vefsvæði með frekara efni.  Einnig er bent á að bæta þurfi upplýsingagjöf um réttarvörslukerfið, hvernig það virkar og hver framvinda máls er innan kerfisins þannig að þau sem verða fyrir kynferðisofbeldi hiki ekki við að leita réttar síns og tilkynni brotin sem fyrst til að lögreglan geti aflað nauðsynlegra sönnunargagna.

Í upphafi Covid-19 faraldursins var tekin ákvörðun um að þróa vefsvæði Neyðarlínunnar, 112.is  í vefgátt gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum þar sem þolendur, aðstandendur og gerendur geta leitað upplýsinga og fundið úrræði til að stöðva ofbeldið. Síðar var bætt við upplýsingum um mansal og nú um kynferðisofbeldi. 

Neyðarlínunni er falið að vinna verkefnið í samstarfi við þá opinberu aðila, félagasamtök og einkaaðila sem veita þjónustu eða úrræði vegna kynferðbrota. Jafnframt er ætlunin að bætt verði við upplýsingum um réttarvörslukerfið, svo sem kynningarmyndböndum og tryggð speglun á samskonar upplýsingum og úrræðum á ofbeldisgátt 112.is og nýrri þolendagátt lögreglunnar (mitt.logreglan.is). Upplýsingarnar verða á íslensku, ensku og pólsku.

Samhliða aukinni upplýsingagjöf verða verkferlar neyðarvarða og viðbragðsaðila yfirfarnir til að tryggja að þau sem verða fyrir kynferðisofbeldi geti hratt og vel fengið nauðsynlega aðstoð og stuðning við að tilkynna brotin til lögreglu. 

 

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:

„Best væri ef afbrot ættu sér ekki stað, en þegar það gerist þurfa brotaþolar að geta gengið hratt og vel að upplýsingum og úrræðum til hjálpar. Þess vegna viljum við efla og þróa enn frekar ofbeldisgátt 112 þannig að þau sem verða fyrir kynferðisofbeldi hiki ekki við að leita réttar síns og tilkynni brotin til lögreglunnar sem fyrst.“

 

Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar:

„Hlutverk okkar hjá Neyðarlínunni er að hjálpa fólki í neyð. Með því að efla enn frekar ofbeldisgátt okkar 112.is, nú með upplýsingum gegn kynferðisofbeldi og um réttarvörslukerfið, viljum við gera enn meira til að hvetja fólk til að leita aðstoðar og fækka skrefum til hjálpar sem hefur ætíð verið hjartað í starfsemi Neyðarlínunnar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum