Hoppa yfir valmynd
9. september 1999 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála

í málinu nr. 4/1999:

A

gegn

Sameinaða lífeyrissjóðnum

-----------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála, fimmtudaginn 9. september 1999, var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi dags. 23. febrúar 1999 óskaði Lára V. Júlíusdóttir hrl. f.h A, starfsmanns Sameinaða lífeyrissjóðsins, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun forsvarsmanna Sameinaða lífeyrissjóðsins á að greiða henni sömu laun og samstarfsmanni hennar, B, bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga).

Kærunefnd óskaði upplýsinga frá Sameinaða lífeyrissjóðnum um:

  1. Launakjör A og B þann tíma sem þau hafi bæði starfað hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum.
  2. Hvaða skýringar væru á launamun þeirra, væri hann til staðar.
  3. Afstöðu Sameinaða lífeyrissjóðsins til erindis kæranda.

Auk þess óskaði nefndin eftir afriti af samningi Sameinaða lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna vegna sameiningar sjóðanna árið 1995 og af skipuriti hins nýja sjóðs ásamt starfslýsingum samkvæmt skipuriti ef til væru.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram af hálfu aðila málsins:

  1. Kæra dags. 23. febrúar 1999 ásamt fylgigögnum.
  2. Svarbréf Sameinaða lífeyrissjóðsins dags. 13. apríl 1999 ásamt fylgigögnum.
  3. Svarbréf lögmanns kæranda dags. 14. maí 1999.
  4. Ársskýrsla Sameinaða lífeyrissjóðsins fyrir árið 1998, lögð fram af kæranda.
  5. Bréf lögmanns kæranda dags. 13. júlí 1999 ásamt fylgigögnum og dags. 15. júlí 1999.
  6. Bréf lögmanns kærða dags. 13. júlí ásamt fylgigögnum.

Kærandi málsins kom á fund kærunefndar 23. júní 1999 ásamt Láru V. Júlíusdóttur hrl. Þann sama dag kom á fund nefndarinnar Gestur Jónsson hrl. f.h. kærða.

Sameinaði lífeyrissjóðurinn tók til starfa 1. júní 1992 og var þá B ráðinn innheimtustjóri. Fyrir liggur að 14. október 1994 var undirritað samkomulag milli stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins og stjórnar Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna um sameiningu lífeyrissjóðanna. Samkomulag var um að frá og með 1. janúar 1995 myndu félagsmenn í Lífeyrissjóði bókagerðarmanna hefja að greiða iðgjöld til Sameinaða lífeyrissjóðsins. Frá 1. janúar til 31. desember 1995 myndi þó starfa sérstök Bók-deild í Sameinaða lífeyrissjóðnum sem fara myndi með mál er varða eignir og skuldir, réttindi og skyldur er tilheyrðu Lífeyrissjóði bókagerðarmanna þegar hann yrði lagður niður.

Kærandi hafði verið framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna frá 1989. Með bréfi dags. 27. okt. 1994 var henni sagt upp störfum vegna sameiningarinnar og skyldu starfslok vera 30. apríl 1995. Í bréfinu kemur fram að frá ársbyrjun 1995 yrði hún starfsmaður Sameinaða lífeyrissjóðsins og jafnframt að Bókdeild hans myndi greiða þann mismun, sem væri á almennum launum hjá þeim sjóði og þeim launum sem hún hefði haft hjá Lífeyrissjóði bókagerðarmanna. Mánaðarlaun hennar er hún lauk störfum samkvæmt samningi við Lífeyrissjóð bókagerðarmanna voru samkvæmt launaseðli 1. apríl 1995 [ X krónur]. Mánaðarlaun hennar hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum voru samkvæmt launaseðli 1. maí 1995 [ X krónur].

Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna miðuðust laun kæranda við vaktavinnukaup sveina og textainnritara á kvöldvakt, samkvæmt kjarasamningi Félags bókagerðarmanna og Félags íslenska prentiðnaðrins auk greiðslu fyrir 65 klst. yfirvinnu á mánuði og skyldu þessi laun teljast föst mánaðarlaun. Í bréfi lögmanns kæranda dags. 15. júlí 1999 er áréttað að ákvæði í ráðningarsamningi um fjölda yfirvinnutíma segi ekki til um vinnuframlagið sem slíkt. Einungis sé verið að setja fram reglu um samsetningu launa. Ekki var greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu.

Þegar sameiningin átti sér stað urðu nokkrar breytingar á mannahaldi hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum. Ráðinn var viðskiptafræðingar í starf skrifstofustjóra, sem tók að sér ýmis verkefni sem B hafði áður haft með höndum, m.a. þau verkefni sem hann hafði haft yfirumsjón með. Á sama tíma var A ráðin til starfa við Sameinaða lífeyrissjóðinn. Aðilar málsins eru sammála um að A og B sinni sömu störfum. Í starfi sínu sem innheimtustjóri hafði B haft hærri laun en samstarfsfólk hans er annaðist innheimtu. Við breytinguna í ársbyrjun 1995 var ákveðið að B héldi fyrri launum sínum þrátt fyrir að starfssvið hans breyttist og yrði svipað og annarra starfsmanna við innheimtu. Meðalmánaðarlaun B árið 1995 voru [ X krónur] auk bifreiðastyrks er nam 16.607 krónum eða samtals [ X krónur] á mánuði eða 73% hærri laun en kærandi fékk í maí 1995.

Í máli kæranda kemur fram að við ráðningu hennar hafi henni ekki verið gerð grein fyrir því að B hefði hærri laun en hún og hvers vegna. Henni hafi orðið það ljóst sumarið 1997 og hafi hún þá óskað eftir leiðréttingu á launum sínum. Þeirri beiðni hafi verið synjað og hún hvött til að leita álits kærunefndar.

Kærandi leggur áherslu á að óumdeilt sé að störf þeirra B séu jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga og því beri að greiða sömu laun fyrir þau óháð kynferði. Ýmsar ástæður geti valdið því að launamunur milli tveggja einstaklinga sé til staðar án þess að um misrétti sé að ræða. Kærunefnd jafnréttismála hafi sett fram í máli nr. 4/1997 almenna reglu um hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir því að greiða einstaklingum mishá laun fyrir störf sem telja verði sambærileg og jafn verðmæt. Í fyrsta lagi þurfi launamunurinn að byggjast á fyrirfram skilgreindum og gagnsæum viðmiðum. Í öðru lagi verði munurinn að byggjast á mælikvörðum sem ekki séu til þess fallnir að mismuna kynjunum. Í þriðja lagi verði þeir mælikvarðar sem munurinn byggist á að vera starfsmönnum ljósir þannig að sjá megi á hvaða rökum launamunur í fyrirtækinu sé reistur og með hvaða hætti starfsmenn geti áunnið sér launahækkun.

Enda þótt fyrir liggi af hálfu kærða skýring á launamuninum, séu þau skilyrði sem fram hafi komið í framangreindu áliti kærunefndar ekki uppfyllt í þessu máli. Skýring kærða lúti eingöngu að því að B hafi áður verið í yfirmannsstöðu hjá fyrirtækinu og hafi haldið þeim launum. Kjósi vinnuveitandinn að lækka ekki karlkyns starfsmann í launum vegna breytingar sem þessarar verði hann engu að síður í starfsmannastefnu sinni að gæta jafnréttislaga og greiða þeim konum sem kunna að vinna sömu störf, sömu laun. Það hafi verið frjálst val vinnuveitandans að greiða B þessi laun og á þeirri ákvörðun verði hann að axla ábyrgð. Því hafi ekki verið haldið fram að B sé hæfari til að gegna starfinu, hafi meiri menntun eða starfsreynslu, þvert á móti sé menntun kæranda og starfsreynsla meiri. Kærandi leggur áherslu á að þau hafi bæði frá fyrri hluta árs 1995 unnið sömu störf fyrir sama vinnuveitenda og því sé óheimilt að mismuna þeim í launum.

Af hálfu kærða er því haldið fram að almennt tíðkist ekki að lækka laun starfsmanna við aðstæður eins og þær sem fyrir hendi séu í þessu máli. Ákvörðun um að lækka B í launum hefði að mati sjóðsins nánast jafngilt uppsögn. Ákvörðunin hafi því verið málefnaleg og ekkert haft með kynferði að gera.

Jafnframt benda stjórnendur sjóðsins á að yrði fallist á kröfu kæranda hlyti hið sama að gilda um alla aðra starfsmenn sem starfa við innheimtu hjá sjóðnum og jafnvel alla aðra almenna starfsmenn sjóðsins og með því yrði öllum launahlutföllum hjá sjóðnum raskað og rekstrarkostnaður sjóðsins stóraukinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Í greinargerð lögmanns kærða segir að ákvæði jafnréttislaga skuli skýrð þannig að séu launakjör karls og konu ekki jöfn þá verði atvinnurekandi að geta sýnt fram á að kjaramunurinn byggist á öðrum ástæðum en kynferði og að þær ástæður séu málefnalegar. Í gögnum málsins komi skýrt fram að B hafi verið ráðinn til yfirmannsstarfa við innheimtu hjá sjóðnum. Hið sama eigi hvorki við um A né aðra almenna starfsmenn við iðgjaldainnheimtu.

Við breytinguna hafi ekki verið skylt að lækka laun B til samræmis við laun A eða hækka laun hennar og annarra almennra starfsmanna til jafns við laun B þar sem mismunandi launakjör skýrist af því að A og B hafi í upphafi verið ráðin til mismunandi starfa hjá sjóðnum. Málefnalegar forsendur, sem ekki tengjast kynferði, séu fyrir því að B voru boðin óbreytt kjör þótt verkefnum hans hafi verið breytt. Það sé meginregla sem hafi m.a. stoð í lögum, sbr. t.d. 19. og 36. gr. laga nr. 70/1996, að ákvörðun vinnuveitanda um breytingar á störfum eða verksviði leiði ekki til launalækkunar hjá viðkomandi starfsmanni. Hið gagnstæða heyri til undantekninga.

 

NIÐURSTAÐA

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar mikilvægu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m. a. um launakjör starfsmanna.

Samkvæmt 4. gr. laganna skulu konum og körlum greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi og hvers kyns þóknun fyrir vinnu. Skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að launamunur milli starfsmanna af gagnstæðu kyni, skýrist af öðrum þáttum en kynferði þeirra, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Launamunur felur í sér launamisrétti, séu störf talin jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaganna, enda verði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem séu óháðir kynferði starfsmanna. Lögin tryggja starfsmanni ekki sjálfkrafa sömu laun og starfsmanni af gagnstæðu kyni. Þau skylda hins vegar launagreiðanda til þess að ákvarða laun karla og kvenna með sömu aðferðum og til að nota mælikvarða sem falla jafnt að eiginleikum beggja kynja.

Þann skilning verður að leggja í 1. mgr. 4. gr. jafnréttislaga að atvinnurekendur geti almennt ekki ráðið konu til að gegna sambærilegum og jafn verðmætum störfum og karlar gegna hjá fyrirtækinu gegn lægri launum, enda sé konan jafn hæf og karlarnir til að gegna starfinu. Störfin og hæfi starfsmannanna verður ennfremur að meta eftir fyrirfram ákveðnum, gagnsæjum mælikvarða sem ekki halli á konur. Með setningu jafnréttislaga setti löggjafinn samningafrelsi því nokkrar skorður.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar eru aðilar sammála um að störf þeirra A og B séu jafnverðmæt og sambærileg. Þá greinir hins vegar á um hvort skýring kærða réttlæti launamuninn gagnvart jafnréttislögum.

Í fyrsta lagi er til skoðunar í máli þessu hvort heimilt sé að færa starfsmann til í lægra setta stöðu án þess að skerða launakjör hans og/eða breyta launakjörum annarra starfsmanna til samræmis. Kærunefnd telur að það geti verið heimilt ef slík ákvörðun er ekki almennt séð öðru kyninu óhagstæð og feli þannig í sér kynbundna mismunun. Nefndin telur að ekki liggi nægjanlega ljóst fyrir að slíkar tilfærslur starfsmanna án launaskerðingar séu fremur viðhafðar þegar karlar eiga í hlut en konur og telur ekki rétt að leggja sönnunarbyrði á Sameinaða lífeyrissjóðinn hvað þetta atriði varðar.

Í öðru lagi er til skoðunar hvort Sameinaði lífeyrissjóðurinn hafi brotið gegn jafnréttislögum með því að gefa kæranda ekki, eins og B, kost á að halda fyrri launum sínum. Kærandi var sem fyrr segir framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna þegar ákvörðun var tekin um sameiningu sjóðsins og Sameinaða lífeyrissjóðsins. Þessi sameining var m.a. framkvæmd með þeim hætti að frá 1. janúar 1995 tóku bókagerðarmenn að greiða iðgjöld til Sameinaða Lífeyrissjóðsins. Frá sama tíma tók sérstök Bók-deild í Sameinaða lífeyrissjóðnum við öllum eignum og skuldbindingum Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna sem þá var lagður niður. Við sameininguna var því Lífeyrissjóður bókagerðarmanna formlega lagður niður og eina starfsmanni sjóðsins, kæranda, sagt upp störfum. Í samræmi við forsendur sameiningarinnar var kæranda hins vegar boðið lægra sett starf í innheimtudeild Sameinaða lífeyrissjóðsins á lakari launakjörum en áður.

Í kjölfar sameiningarinnar áttu sér stað skipulagsbreytingar hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum sem m.a. leiddu til þess að B var fluttur til í lægra setta og ábyrgðarminni stöðu en boðið að halda óbreyttum launakjörum. Sameining sjóða þeirra sem kærandi og B störfuðu hjá hafði því í för með sér að bæði fengu lægra setta stöðu en fyrir sameininguna. Þrátt fyrir það að störf þeirra eru sambærileg og jafn verðmæt nýtur B óbreyttra launakjara en launakjör kæranda eru lægri en þó sambærileg kjörum annarra ófaglærðra starfsmanna sjóðsins sem eru konur.

Kærunefnd telur að ekki verði framhjá því litið að staðið var að sameiningunni með þeim hætti að Lífeyrissjóður bókagerðarmanna var lagður niður, sem óhjákvæmilega leiddi til starfsloka kæranda, en Sameinaði lífeyrissjóðurinn hins vegar efldur. Staða Sameinaða lífeyrissjóðsins gagnvart B, starfsmanni sjóðsins, og kæranda var því ekki sambærileg. Þótt nefndin telji að sanngirnisrök hafi mælt með því að bjóða kæranda sömu launakjör og B hafði, er það álit nefndarinnar að forsendur fyrir ákvörðunum um laun þeirra hafi verið svo ólíkar að ekki hafi hvílt á sjóðnum skylda til að jafna launakjör þeirra.

Í málinu hefur komið fram að þegar kærandi réði sig til Sameinaða lífeyrissjóðsins, hafi hún ekki verið upplýst um að laun hennar yrðu lægri en B. Kærunefnd telur að Sameinaði lífeyrissjóðurinn hefði átt að veita henni upplýsingar þar um og leggur áherslu á að launaleynd geti ekki réttlætt skort á upplýsingum við kringumstæður sem þessar. Kærunefnd telur ennfremur að í fyrirtækjum þar sem launaleynd ríkir og launakerfið er algerlega ógagnsætt leggi jafnréttislög atvinnurekendum þá skyldu á herðar að taka laun starfsmanna reglulega til endurskoðunar með hliðsjón af jafnrétti kynja. Má í þessu sambandi benda á ákvæði 5. gr. jafnréttislaga sem leggur atvinnurekanda þá skyldu á herðar að vinna að jafnri stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns.

Með hliðsjón að framansögðu telur kærunefnd jafnréttismála ekki vera nægt tilefni til að líta svo á að synjun Sameinaða lífeyrissjóðsins á að greiða kæranda sömu laun og samstarfsmanni hennar, B, hafi brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga.

  

  

Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

Helga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira