Hoppa yfir valmynd
27. júlí 1999 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 8/1999:

A
gegn
hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps.

-------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þriðjudaginn 27. júlí 1999 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Með bréfi, dags. 23. mars 1999, óskaði Ragnar Aðalsteinsson, hrl., f.h. A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu sveitarstjóra Vestur-Eyjafjallahrepps bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði eftirgreindra upplýsinga frá hreppsnefnd Vestur -Eyjafjallahrepps:
1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna.
2. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var umfram kæranda, ásamt afriti umsóknar hans.
3. Hvað réði vali á umsækjendum.
4. Fjölda og kyn starfsmanna á skrifstofu hreppsnefndar Vestur-Eyjafjallahrepps.
5. Afrits auglýsingar um starfið.
6. Starfslýsingar fyrir starfið, ef til væri.
7. Afstöðu hreppsnefndar til erindis kæranda.
8. Annars þess sem talið væri til upplýsinga fyrir málið í heild.

Eftirfarandi gögn hafa verið lögð fram í málinu:
1. Kæra dags. 23. mars 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Bréf Ingimundar Einarssonar, lögmanns kærða, dags. 3. maí 1999, ásamt fylgigögnum.
3. Umsögn lögmanns kæranda, dags. 8. júní 1999, ásamt fylgigögnum.
4. Afrit af bréfi hreppsnefndarmannanna Baldurs Björnssonar, Ragnars Lárussonar, Ólafs Baldurssonar og Björgvins Guðjónssonar til lögmanns kærða, dags. 25. júní 1999, ásamt fylgigögnum.
5. Bréf sveitarstjóra Vestur-Eyjafjallahrepps, dags. 21. júlí 1999.

Kærandi, lögmaður hennar og lögmaður kærða mættu á fund kærunefndar jafnréttismála 29. júní 1999.

I

Á fundi hreppsnefndar Vestur-Eyjafjallahrepps 25. nóvember 1998 var samþykkt með meirihluta atkvæða að bjóða D starf sveitarstjóra hreppsins. Næðist ekki samkomulag við hann, skyldi auglýsa stöðuna lausa til umsóknar. Ekki varð af ráðningu D og var staðan auglýst í Sunnlenska fréttablaðinu í lok ársins. Í auglýsingu kemur fram að í Vestur-Eyjafjallahreppi séu um 200 íbúar. Sveitarfélagið reki grunnskóla, leikskóla, jarðir, ferðaþjónustu og félagsheimili og sé aðili að samstarfi við nágrannasveitarfélög um marga málaflokka. Gerð er krafa um góða menntun og hagnýta starfsreynslu og tekið er fram að í boði sé starf fyrir áhugasaman einstakling. Umsóknarfrestur er tilgreindur til og með 17. desember 1998. Starfið skyldi veitt frá 1. janúar 1999 að telja.

Umsækjendur um starfið voru þrír, tveir karlar og ein kona. Enginn þeirra var boðaður í viðtal. Fjallað var um umsóknirnar á fundi hreppsnefndar 30. desember 1998. Í fundargerð frá fundinum kemur fram að þrír aðalmenn í hreppsnefnd hafi vikið sæti vegna vanhæfis og varamenn tekið sæti þeirra. Umsóknir hafi verið lesnar upp og þær ræddar. Að því loknu hafi verið gengið til atkvæðagreiðslu sem hafi fallið þannig að B fékk fjögur atkvæði og A eitt. B var ráðinn sveitarstjóri hreppsins. Jafnframt hefur hann verið ráðinn til kennslu við grunnskóla sveitarinnar.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og B.

Kærandi lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1973. Hún hefur sótt ýmis námskeið, einkum tölvunámskeið, bæði í ritvinnslu, tölvubókhaldi, tölvureikni og tölvufræði, og um stýrikerfi, forritun, tölvu- og hugbúnað, internet og vefsíðugerð. Á árunum 1972 til 1978 vann hún við afgreiðslu-, gjaldkera- og bókarastörf hjá Landsbanka Íslands og Sýslumanni Rangárvallasýslu. Tímabilið 1978 til 1993 var hún yfirmaður framleiðslu- og tölvudeildar Samvinnuferða-Landsýnar hf. Hún bjó í Hollandi 1980 til 1984 og rak þar verslanir og heildsölu ásamt því að vera yfirfararstjóri Samvinnuferða þar í landi. Frá árinu 1993 hefur hún verið bóndi á Moldnúpi í Vestur-Eyjafjallahreppi.
Samhliða því starfi hefur hún gegnt sérverkefnum fyrir Samvinnuferðir, verið framkvæmdastjóri Sælubúsins ehf. frá 1. nóvember 1997 til 31. desember 1998 en frá þeim tíma sinnt ýmsum sérverkefnum fyrir Sælubúið. Hún var fulltrúi í hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps 1994 til 1998 og er fyrsti varamaður kjörtímabilið 1998 til 2002. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. verið formaður foreldrafélags Seljalandsskóla 1993 til 1996 og situr í stjórn Ferðamálasamtaka Suðurlands.

B lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1972. Hann var við nám í íslensku við Háskóla Íslands veturna 1990 til 1991 og aftur 1994 til 1995. Hann hefur sótt mörg námskeið í tengslum við kennslu, einkum að því er varðar íslensku og tölvur. Hann kenndi við grunnskóla frá 1972 til 1994, þar af hefur hann starfað sem skólastjóri í 17 ár. Hann var framkvæmdastjóri Sælubúsins ehf. í tvö og hálft ár. Hann hefur gegnt margs konar sumarstörfum, m.a. starfi starfsmannastjóra hjá verktakafyrirtæki á Suðurlandi, starfað við löggæslu í Rangárþingi og skála- og landvörslu í Þórsmörk.

Á skrifstofu Vestur-Eyjafjallahrepps starfar ein kona í hlutastarfi auk sveitarstjóra. Hjá hreppnum starfa 19 manns í rúmlega 10.5 stöðugildum, þar af 13 konur. Starf sveitarstjóra og skólastjóra eru einu stjórnunarstörfin. Stöðu skólastjóra gegnir karl í veikindaleyfi konu en unnið er að starfslokasamningi við hana.

Ekki liggur fyrir starfslýsing sveitarstjóra en fram til þessa hefur oddviti gegnt starfinu. Í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 eru ákvæði um starf framkvæmdastjóra sveitarfélags eins og sveitarstjórastarfið er þar nefnt. Samkvæmt 55. gr. þeirra er verksvið framkvæmdastjóra m.a. að undirbúa fundi sveitarstjórnar og byggðaráðs og annast framkvæmd þeirra ákvarðana sem þar eru teknar. Framkvæmdastjóri er prókúruhafi sveitarsjóðs, undirritar skjöl sem fela í sér skuldbindingar eða ráðstafanir sem samþykki sveitarstjórnar þarf til og er yfirmaður annars starfsfólks sveitarfélagsins.

II

Lögmaður kæranda leggur áherslu á að kærandi sé jafnhæf eða hæfari til að taka að sér starf sveitarstjóra en B. Verslunarskólamenntun kæranda falli betur að starfinu en kennaramenntun hans. Með þeirri viðbótarmenntun sem kærandi hafi aflað sér, sé menntun hennar fjölbreyttari og þekking hennar og reynsla víðtækari en hans. Hún hafi sinnt ábyrgðarmiklum störfum, sem krefjist samskipta við marga bæði hér á landi og erlendis og kynnst vinnubrögðum á mörgum sviðum. Hún hafi m.a. rekið þrjár verslanir samtímis í Hollandi en slíkt krefjist frumkvæðis og kjarks. Hún hafi þar haft mannaforráð á eigin ábyrgð. Hið sama eigi við um starf hennar hjá Samvinnuferðum en þar hafi hún stýrt framleiðslu- og tölvudeild fyrirtækisins. Hún hafi, andstætt þeim sem ráðinn var, lagt fram meðmæli frá þeim aðilum sem hún hafi starfað hjá.

Þá er á það bent að kærandi hafi sérstaka þekkingu á sveitarstjórnarmálum en hún hafi setið í hreppsnefnd í þessum sama hreppi í fjögur ár. Því er mótmælt að rétt sé að leggja til grundvallar mati á hæfni kæranda til að gegna starfi sveitarstjóra, að hún hafi ekki verið endurkjörin í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Hún hafi fengið innan við 10 atkvæðum minna í þeim kosningum en kosningunum fyrir fjórum árum. Hún sé nú fyrsti varamaður í hreppsnefnd. Meginástæða þessarar niðurstöðu kosninganna hafi verið ágreiningur um stöðu grunnskóla sveitarinnar. Skólastjórinn, sem starfað hafi við skólann á annan áratug, hafi að mati kæranda og fleiri foreldra í sveitarfélaginu ekki getað sinnt starfi sínu sem skyldi. Hún hafi beitt sér fyrir að ráðinn yrði nýr skólastjóri en ekki hafi verið vilji til þess innan hreppsnefndar. Í litlum sveitarfélögum skipti ættartengsl miklu og mál sem þessi séu mun persónulegri og leiði oftar til sárinda. Svo hafi verið í þessu tilviki. Leggur kærandi áherslu á að samstarfið í hreppsnefndinni hafi að öðru leyti verið mjög gott.

Kærandi telur að starf hennar í hreppsnefndinni sé reynsla sem myndi nýtast henni mjög vel í starfi sveitarstjóra. Þegar hún hafi setið í hreppsnefnd hafi hreppsnefndarmenn skipt á milli sín tilteknum málaflokkum. Í hennar hlut hafi komið fræðslu-, menningar- og ferðamál, allt málaflokkar sem séu mjög mikilvægir í sveitarfélaginu.

B hafi, eins og komi fram í umsókn hans, enga reynslu af sveitarstjórnarstörfum andstætt kæranda. Hann hafi ekki setið í nefndum á sviði fræðslu og menningarmála á vegum Hvolshrepps þar sem hann hafi búið og starfað. Hann hafi ekki séð um ráðningar starfsfólks sjálfstætt sem skólastjóri en komið að ráðningum kennara í samráði við skólanefnd. Þá hafi fjármál og rekstur skólans hvílt á sveitarsjóði. Eðli kennara- og skólastjórastarfs sé einfaldlega þannig að það nýtist ekki við stjórn sveitarfélags. Þótt verulegur hluti af rekstrargjöldum hreppsins renni til fræðslumála, sé það ekki sérstök hæfni eins umsækjanda að vera kennaramenntaður. Þvert á móti sé nauðsynlegt að þar komi að aðili sem búi yfir reynslu, þekkingu og hlutlægni, sem sá einn búi yfir sem geti horft á skólakerfið utan frá. Í auglýsingu um starf sveitarstjóra sé ekki gert ráð fyrir að sveitarstjóri annist kennslu og því geti það ekki talist sérstök hæfni B.

Að öllu þessu virtu verði að telja að starfsreynsla kæranda nýtist betur við m.a. rekstur grunnskóla, leikskóla, jarða, ferðaþjónustu og félagsheimili en kennara- og skólastjórnunarreynsla B.

III

Af hálfu kærða er á því byggt að B hafi verið hæfastur umsækjenda. Hann búi yfir góðri almennri menntun og fjölþættri starfsreynslu sem telja megi langt umfram kæranda. Reynsla hans og þekking á stjórnun og mannaforráðum vegi þar þungt, en ekki síst yfirsýn hans og innsæi í fræðslu- og menningarmál, en fræðslumálin séu lang stærsti málaflokkur sveitarfélagsins. Vestur-Eyjafjallahreppur sé lítið sveitarfélag og starf sveitarstjóra þar kalli ekki á sérþekkingu á sviði fjármála eða viðskipta.

Lögmaður kærða bendir á að starf sveitarstjóra sé nýtt af nálinni í Vestur-Eyjafjallahreppi en oddviti hafi áður gegnt þessu starfi. Á hreppsskrifstofunni starfi, auk sveitarstjóra, einungis einn starfsmaður í hlutastarfi og það sé kona. Meirihluti hreppsnefndar hafi ákveðið að vel athuguðu máli og með hliðsjón af menntun, fyrri störfum og reynslu af umsækjendum að ráða B í starfið. Ekki hafi verið talin ástæða til að kalla umsækjendur til viðtals þar sem hreppsnefndarmenn hafi þekkt þá alla. Hið sama eigi við um meðmælendur. Í auglýsingu hafi ekki verið gerð krafa um meðmæli og hreppsnefnd hafi ekki séð ástæðu til að kalla eftir þeim hjá B þar sem störf hans voru þekkt. Þá er því alfarið mótmælt að kynferði hafi nokkru ráðið um val á umsækjendum.

Af hálfu kærða er loks lögð áhersla á að ekki verði fram hjá því horft að kærandi hafi verið hreppsnefndarmaður 1994 til 1998 en kosningar til hreppsnefndar séu óhlutbundnar. Hreppsnefndin telji, m.a. í ljósi reynslunnar, að hafa beri hliðsjón af því að kærandi hafi ekki hlotið brautargengi í kosningunum 1998. Það sé nánast einsdæmi að hreppsnefndarmaður nái ekki kjöri að nýju þar sem óhlutbundnar kosningar fara fram. Þeim hafi því borið að taka tillit til þessa sjónarmiðs. Í því hljóti að felast dómur kjósenda, sem hreppsnefnd hafi borið að taka mið af, þótt ekki verði einvörðungu á því byggt. Ágreiningur hafi komið upp á síðasta kjörtímabili milli skólastjóra og skólanefndarmanna. Mikill tími meirihluta hreppsnefndar, ekki síst oddvita, hafi þá farið í að reyna lægja öldur milli skólastjóra og skólanefndar en kærandi þar farið fremstur í flokki. Ekki verði fram hjá því horft að hreppsnefndin hafi þekkt kæranda af eigin reynslu og talið reynsluna af starfi hennar ekki bera vott um góða stjórnunarhæfileika.

Þegar litið sé til kynjahlutfalls hjá Vestur-Eyjafjallahreppi sé ekki hægt að jafna hlut kynja þar sem enginn ójöfnuður sé til staðar. Á hreppsskrifstofunni starfi ein kona og sá sem ráðinn hafi verið sveitarstjóri sé karl. Einungis sé hægt að horfa til þessa sveitarfélags en af og frá að hægt sé að líta til kynjahlutfalls sveitarstjóra á landsvísu.

IV.
Niðurstaða.

Tilgangur jafnréttislaga er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m. a. um ráðningu starfsmanna.
Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Ein af meginforsendum þess að jafnrétti náist með kynjunum á vinnumarkaði er að ákvarðanir um ráðningar, stöðubreytingar og stöðuhækkanir séu teknar á grundvelli hlutlægs og sanngjarns mats á hæfni umsækjenda eða starfsmanna. Ákvæði jafnréttislaga gefa leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar við mat á hæfni en í 8. gr. þeirra er menntun og starfsreynsla umsækjenda sérstaklega tilgreind, svo og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem er ráðinn. Séu umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir ber með vísan til 1. og 5. gr. jafnréttislaga að ráða einstakling af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Þessi forgangsregla er grundvallarskilyrði þess að þeim tilgangi laganna að jafna stöðu karla og kvenna verði náð.

Á fundi hreppsnefndar Vestur-Eyjafjallahrepps 30. desember 1998 var ráðning sveitarstjóra til umfjöllunar og afgreiðslu. Í fundargerð frá fundinum kemur fram að umsóknir hafi verið lesnar upp og þær síðan ræddar. Hvorki kemur fram í fundargerðinni hvaða þætti sveitarstjórn hafi samþykkt að leggja til grundvallar við hæfnismat né um það að skyldur atvinnurekenda samkvæmt jafnréttislögum við ráðningu starfsmanna hafi verið ræddar. Verður við það að miða að sveitarstjórn hafi haft þessa matsþætti í huga er til atkvæðagreiðslu kom um ráðninguna. Ákvæði jafnréttislaga leggja sömu skyldur á fjölskipað stjórnvald og á einstaka atvinnurekendur.

Upplýst er að stöðugildi sem að konur gegna eru 5,39 en karlar 5,12 stöðugildum. Hjá hreppnum eru einungis tvær stjórnunarstöður. Auk sveitarstjóra, staða skólastjóra sem karl gegni í leyfi konu en unnið er að starfslokasamningi við hana. Að auki má geta þess að hreppsnefnd er einungis skipuð körlum. Þegar litið er til framangreinds er ljóst að það hallar á konur í áhrifastöðum í sveitarfélaginu.

Bæði kærandi og B hafa lokið tveggja ára námi í framhaldsskóla. Kærandi er menntuð á viðskiptasviði en B er kennaramenntaður. Bæði hafa bætt við menntun sína með ýmsum námskeiðum. Menntun þeirra er á ólíkum sviðum en
sambærileg að lengd. Starfsferill þeirra er einnig ólíkur. Kærandi hefur m.a. unnið við ferðamál bæði sem fararstjóri og við skipulagningu og stjórnun, og rekið eigið fyrirtæki. Þá hefur hún starfað bæði innanlands og erlendis. Hún á að baki langa reynslu af rekstri, starfsmannahaldi, stjórnun og skipulagningu. B hefur starfað sem kennari og sem skólastjóri í Seljalandsskóla og Grunnskóla Hvolsvallar. Í því starfi felst fagleg stjórnun þó svo endanleg rekstrarábyrgð og starfsmannastjórnun sé hjá viðkomandi sveitarstjórn. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er verksvið sveitarstjóra að miklu leyti rekstur, starfsmannahald og framkvæmd þeirra ákvarðana sem sveitarstjórn tekur.

Kærandi hefur lagt fram meðmæli frá forstjóra Samvinnuferða-Landsýnar hf. og formanni stjórnar Sælubúsins ehf. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hún hafi á starfsferli sínum átt góð samskipti við yfirmenn og samstarfsfólk. Upplýst er að B lét af störfum sem skólastjóri við Grunnskólann á Hvolshreppi vegna ágreinings við skólanefnd þess sveitarfélags um viðbrögð við agabrotum nemenda. Þær deilur voru ekki útkljáðar en B valdi sjálfur að segja starfi sínu lausu. Starfsferill hans hefur samkvæmt upplýsingum lögmanns kærða verið áfallalaus.

Að öllu þessu virtu og þegar mið er tekið af menntun, starfsferli og stjórnunarreynslu kæranda og þess sem ráðinn var og þetta borið saman, verður að telja að menntun og starfsreynsla kæranda sé bæði mun víðtækari og falli almennt betur að starfi sveitarstjóra.

Af hálfu kærða er bent á að Vestur-Eyjafjallahreppur sé lítið sveitarfélag með innan við 200 íbúa. Starf sveitarstjóra krefjist því ekki viðskiptamenntunar eða reynslu af fjármálastjórnun. Rúm 59% af útgjöldum sveitarfélagsins renni til fræðslumála. Það hafi verið mat hreppsnefndar að þekking B af skólamálum nýttist vel í starfinu. Á starfsferli sínum hafi hann öðlast reynslu af stjórnun og haft mannaforráð. Kærandi hefur hins vegar mótmælt því að líta beri á menntun og starfsferil B sem sérstaka hæfni á þeirri forsendu að verulegur hluti af rekstrarútgjöldum hreppsins fari til fræðslumála. Þvert á móti sé nauðsynlegt að sveitarstjóri búi yfir þeirri hlutlægni sem sá einn hafi sem horft geti á fræðslumálin utan frá.

Í auglýsingu um starfið eru raktir helstu málaflokkar sveitarfélagsins, rekstur grunnskóla, leikskóla, jarða og félagsheimilis og ferðaþjónusta. Þótt hlutfallslega mikið af því fjármagni sem sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar renni til fræðslumála, þarf sveitarstjóri eðli málsins samkvæmt að sinna fjölmörgum öðrum viðfangsefnum. Þá liggur ennfremur fyrir að kærandi fór sérstaklega með fræðslumál sveitarfélagsins á síðasta kjörtímabili sem hreppsnefndarmaður og var auk þess formaður skólanefndar. Hún hefur því góða þekkingu á þeim málaflokki. Menntun og reynsla B verður því ekki talin sérstök hæfni, sbr. 8. gr. jafnréttislaga, sem réttlæti að gengið hafi verið fram hjá kæranda.


Efasemdir voru í hreppsnefnd um stjórnunarhæfni kæranda. Hún var hreppsnefndarmaður og formaður skólanefndar á síðasta kjörtímabili en þá kom upp ágreiningur vegna skólastjóra grunnskólans. Á kjörskrá í Vestur-Eyjafjallahreppi í síðustu kosningum voru 131 og greiddu 111 atkvæði. Kærandi hlaut 40 atkvæði í þeim kosningum og er fyrsti varamaður. Í kosningunum fjórum árum áður hlaut hún 47 eða 49 atkvæði og náði þá kjöri. Ekki er hægt að líta svo á að þessi úrslit feli í sér almennt vantraust íbúa sveitarfélagsins á störfum hennar eins og haldið er fram af hálfu kærða.

Eðlismunur er á vali fulltrúa til setu í sveitarstjórn og ráðningu starfsmanns til sveitarfélags. Í síðarnefnda tilvikinu ber sveitarstjórn að fara að jafnréttislögum. Niðurstaða greindra kosninga verður með engu móti túlkuð sem almennt vantraust á kæranda. Þvert á móti nýtur hún talsverðs fylgis. Deilur um tiltekin málefni geta verið þess eðlis að þær réttlæti ákvörðun atvinnurekanda um að hafna annars hæfum umsækjanda. Það er hins vegar mat kærunefndar, sem reist er á þeim gögnum sem hún hefur til úrvinnslu, að tilvitnuð deila réttlæti ekki að gengið var fram hjá kæranda í starf sveitarstjóra. Byggist það m.a. á því að kærandi fylgdi þar eftir þeirri skoðun sinni að breytinga væri þörf til að bæta skólastarfið. Hún var ekki ein þeirrar skoðunar en foreldrar meirihluta barna í skólanum skrifuðu hreppsnefnd bréf þar sem þeir lýstu því yfir að þeir myndu færa börn sín í annan skóla yrði ekki gripið til ráðstafana. Sérhver einstaklingur á rétt á að vinna að félagslegum málefnum án þess að eiga það á hættu síðar að vera látinn gjalda fyrir, í þessu tilviki með því að vera meinað um starf sem hún er hæf til að gegna. Standast rök kærða hvað þetta varðar því ekki almenn jafnræðissjónarmið.

Með vísan til þeirra forsendna sem hér að framan hafa verið raktar, er það álit kærunefndar jafnréttismála að hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps hafi brotið gegn ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 1. gr., 1. ml. 3. gr. og 5. gr. laganna. Kærunefnd beinir þeim tilmælum til hreppsnefndar Vestur- Eyjafjallahrepps að fundin verði viðunandi lausn á málinu.


Sigurður Tómas Magnússon

Hjördís Hákonardóttir

GunnarJónsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum