Hoppa yfir valmynd
6. júní 2017 Utanríkisráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Samkomulag um loftferðir undirritað við Rússland

Stefán Lárus Stefánsson og Sergei Seskutov Anatolyevich takast í hendur eftir undirritunina. - mynd
Samkomulag um loftferðir milli íslenskra og rússneskra stjórnvalda var undirritað í Moskvu 1. júní sl. Með því eykst hámarkstíðni flugferða milli ríkjanna úr þremur flugum í sjö flug á viku. Þá var þremur nýjum áfangastöðum var bætt við í Rússlandi fyrir íslensk flugfélög; Sochi, Vladivostok og Kaliningrad. Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra og aðalsamningamaður Íslands vegna loftferðasamninga, undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd og Sergei Seskutov Anatolyevich, aðstoðarforstöðumaður hjá rússneska samgönguráðuneytinu undirritaði samkomulagið fyrir Rússlands hönd.

Samkomulagið var undirritað að loknum samráðs- og samningafundi ríkjanna um gildandi loftferðasamning ríkjanna. Auk þess sem áður er talið, voru heimildir til samnýtingar flugnúmera (code-share) útvíkkaðar. Nú hafa flugfélög hvors samningsríkisins fyrir sig heimildir til samstarfs með flugfélögum frá hvaða ríki sem hefur heimild til flugs til Rússlands eða Íslands. Samkvæmt fyrra samkomulagi takmörkuðust heimildir flugfélaga við samstarf við flugfélög hins ríkisins.

Jafnframt áttu sér stað uppbyggilegar viðræður um heimildir til yfirflugs yfir Rússlandi. Samninganefndirnar ákváðu að taka það mál upp á næsta samráðsfundi sem haldinn verður í september.

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins, samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins og Samgöngustofu sátu fundinn fyrir Íslands hönd ásamt sex fulltrúum frá Air Atlanta, Icelandair og Wow air.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum