Hoppa yfir valmynd
11. september 2012 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Nýjar veglínur Hringvegarins við Höfn og Vík til skoðunar

Nýjar veglínur Hringvegarins gegnum bæina Höfn og Vík hafa verið til skoðunar hjá samgönguyfirvöldum og Sveitarfélaginu Hornafirði og Mýrdalshreppi undanfarin misseri. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sat í síðustu viku ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra fundi með fulltrúum sveitarfélaganna þar sem þeir kynntu ráðherra sjónarmið sín varðandi hugsanlegar breytingar og framkvæmdir.

Innanríkisráðherra heimsótti sveitarstjórnarfólk á Suðurlandi og ræddi við starfsmenn Vegagerðarinnar. Hér er hann við upplýsingaskilti við brúna yfir Múlakvísl.
Innanríkisráðherra heimsótti sveitarstjórnarfólk á Suðurlandi og ræddi við starfsmenn Vegagerðarinnar. Hér er hann við upplýsingaskilti við brúna yfir Múlakvísl.

Fund í Sveitarfélaginu Hornafirði sátu Hjalti Þór Vignsson bæjarstjóri, Ásgerður Gylfadóttir, forseti bæjarstjórnar, og Reynir Arnarson, formaður bæjarráðs auk innanríkisráðherra og fylgdarliðs og vegamálastjóra. Rætt var einkum um vega-, flug- og hafnamál og lýstu sveitarstjórnarmenn áherslum sínum í þessum málum.  

Greiðari samgöngur og styttri leið

Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri sagði að brýnt væri að hefja framkvæmdir við nýtt vegstæði á Hringveginum vestan við Höfn og með nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót enda núverandi brú komin til ára sinna. Verkefnið er tímasett á öðru og þriðja tímabili tólf ára samgönguáætlunar. Tvennt myndi vinnast með nýrri veglínu að sögn bæjarstjóra, annars vegar almenn stytting Hringvegarins um nálægt 10 km og hins vegar yrðu samgöngur innan sveitarfélagsins greiðari, sérstaklega milli þéttbýlisins á Höfn og byggðarinnar í vestri, sem hann telur nauðsynlegt að bæta vegna almennrar byggðaþróunar á svæðinu. Þá minntu bæjarfulltrúarnir á að nauðsynlegt væri að kanna kosti þess að grafa göng undir Lónsheiði sem bæta myndu umferðaröryggi til muna auk þess að stytta Hringveginn. Einnig bentu þeir á að með styttingu Hringvegarins milli Djúpavogs og Hafnar gætu íbúar á Djúpavogi einnig sótt þjónustu til Hafnar í stað þess að fara yfir fjallveg til Egilsstaða.

Fulltrúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar afhentu innanríkisráðherra minnisblað um margs konar samgöngumálefni.

Fram kom í máli bæjarfulltrúanna á fundinum að unnið væri að viðamikilli rannsókn í samvinnu við Siglingastofnun sem hefði það að markmiði að kanna mögulegar aðgerðir á grynningunum fyrir utan Hornafjarðarós til að tryggja nægilegt dýpi fyrir skipaumferð. Stærri skip gætu stundum ekki siglt þar um og það þýddi tekjutap fyrir bæinn ef til dæmis uppsjávarskip yrðu að landa afla sínum annars staðar.

Á minnisblaði sem bæjarfulltrúarnir lögðu fram er einnig bent á mikilvægi góðra flugsamgangna og er treyst á að samgönguyfirvöld og fjárveitingavald tryggi áframhaldandi flugsamgöngur. Sögðu bæjarfulltrúarnir flugið nauðsynlegt fyrir heilbrigðisþjónustu og hvers konar viðskipti og aðra atvinnustarfsemi. Sögðu þeir Flugfélagið Erni hafa veitt góða þjónustu og lagt sig fram um að taka þátt í almennri uppbyggingu á ferðaþjónustu svæðisins. 

Í því sambandi minnti innanríkisráðherra á fyrirhugaða samfélagsfræðilega könnun til að meta áhrif og þýðingu innanlandsflugs og hvatti bæjarfulltrúa til að fylgjast með undirbúningi hennar. Ráðherra sagði fundinn gagnlegan og að nauðsynlegt væri að heyra raddir heimafólks um umbætur í byggðarlagi sínu.

Ný veglína um Mýrdal

Á fundi ráðherra með sveitarstjórnarfulltrúum Mýrdalshrepps lögðu þeir fram minnispunkta um nokkur atriði sem þeir vildu leggja áherslu á. Snerust þeir um nýja veglínu Hringvegarins um Mýrdal, um sjóvarnir við byggðina í Vík, stöðu lögreglumanns í Vík og um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fundinn sátu Ásgeir Magnússon sveitarstjóri og sveitarstjórnarfulltrúarnir Elín Einarsdóttir, Elías Guðmundsson og Karl Pálmason.

Sveitarstjórnarfulltrúar í Mýrdalshreppi á fundi með innanríkisráðherra og vegamálastjóra.

Ásgeir Magnússon fór yfir áherslur varðandi vegamálin og sagði fyrstu ósk vera láglendisveg með göngum gegnum Reynisfjall. Lægi vegurinn þá sjávarmegin við þorpið sem þýddi að huga yrði að sjóvörnum í tengslum við hann. Ný veglína liggur nálægt Dyrhólahósi að vestan sem er viðkvæmt að mati umhverfisyfirvalda. Unnið er að skipulagsvinnu vegna nýrrar veglínu sem Vegagerðin telur mögulega með ákveðnum skilyrðum, meðal annars vegna sjóvarna sem yrðu unnar í samráði við Siglingastofnun.

Sveitarstjórnarmenn í Vík sýna innanríkisráðherra varnargarðinn neðan við þorpið.Reistur hefur verið varnargarður sem á að hafa þann tilgang að safna að sér sandi til að varna því að sjór geti saxað áfram á strandlengjuna. Sveitarfélagið hefur lagt 26 milljónir króna í garðinn en Siglingastofnun staðið undir megin kostnaðinum. Sveitarstjórnarmenn telja þesa lausn mun betri en að lagfæra núverandi veg yfir Reynisfjall.

Þá rifjuðu sveitarstjórnarmennirnir upp nauðsyn þess að lögreglumaður verði aftur staðsettur í Vík en sveitarstjórn og formaður almannavarnarnefndar svæðisins hafa rætt málið áður við ráðherra. Einnig var farið yfir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Ráðherra þakkaði fyrir móttöku og umræðuna og sagði ráðuneytið fylgjast áfram með umfjöllun um nýja veglínu og að kanna yrði málið út frá hagkvæmni með hliðsjón af sjóvörnum og umhverfismálum. Einnig sagði hann í athugun að koma upp stöðu lögreglumanns í Vík meðal annars með sérstöku tilliti til almannavarna.

Innanríkisráðherra og vegamálastjóri með þremur starfsmönnum Vegagerðarinnar á Höfn.

Bæði á Höfn og í Vík staldraði innanríkisráðherra við í starfsstöðvum Vegagerðarinnar og ræddi þar við starfsmenn sem halda úti margháttaðri þjónustu á sínum svæðum. Á myndinni fyrir ofan eru frá vinstri Ögmundur Jónasson, Hreinn Haraldsson, Reynir Gunnarsson, Jón S. Bjarnason og Jón Helgason. Í Vík tók Bjarni Jón Finnsson á móti ráðherranum og er hann hér lengst til hægri á myndinni að neðan ásamt þeim Ögmundi og Hreini og Sigurbergi Björnssyni, skrifstofustjóra hjá innanríkisráðuneytinu. Standa þeir hér við bita í nýja brú á Múlakvísl sem steyptir voru í sumar og bíða þess að vera reknir niður þegar framkvæmdir við brúna hefjast.

Hjá Vegagerðinni í Vík.

Innanríkisráðherra skoðar teikningar af nýjum kafla Hringvegarins norðan við byggðina á Selfossi.Þá staldraði ráðherra einnig við hjá Vegagerðinni á Selfossi þar sem skoðuð voru áform um breytingu á Hringveginum norðan við Selfoss þar sem reisa á nýja brú yfir Ölfusá. Er það verkefnið á samgönguáætlun á öðru og þriðja tímabili nýsamþykktrar 12 ára samgönguáætlunar. Með Ögmundi Jónassyni og Hreini Haraldssyni á myndinni er Erlingur Freyr Jensen deildarstjóri hjá Vegagerðinni á Selfossi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira