Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2023 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 27/2023-Úrskurður

Leigumál: Skaða- og miskabótakrafa leigusala.

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 17. ágúst 2023

í máli nr. 27/2023

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Víðir Smári Petersen dósent og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B. Umboðsmaður varnaraðila er C lögmaður.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að greiða skaðabætur að fjárhæð 743.390 kr. vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða á leigutíma.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá. Til vara krefst varnaraðili þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Til þrautavara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu vegna málsins, samtals að fjárhæð 230.392 kr.

Með kæru, dags. 1. mars 2023, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 14. mars 2023, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 24. mars 2023, ásamt fylgiskjölum barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð og gögn varnaraðila með bréfi, dags. 24. mars 2023. Athugasemdir sóknaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 25. mars 2023, og voru þær sendar varnaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 27. mars 2023. Athugasemdir varnaraðila bárust kærunefnd með bréfi, dags. 31. mars 2023, og voru þær sendar sóknaraðila með bréfi kærunefndar, dags. 3. apríl 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Með tölvupósti 13. júní 2023 óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá sóknaraðila sem bárust sama dag. Svör sóknaraðila voru kynnt varnaraðila með tölvupósti kærunefndar 15. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

Með tölvupósti 22. júní 2023 óskaði kærunefnd eftir enn frekari upplýsingum frá sóknaraðila sem bárust með tölvupósti 24. júní 2023. Svar sóknaraðila var sent varnaraðila með tölvupósti 26. júní 2023 og bárust athugasemdir frá honum sama dag. Sama dag voru athugasemdirnar kynntar sóknaraðila sem skilaði frekari athugasemdum með tölvupóstum 27. og 28. júní 2023. Voru þær sendar varnaraðila með tölvupósti kærunefndar 30. júní 2023.

Með tölvupósti 14. ágúst 2023 óskaði nefndin eftir frekari skýringum frá varnaraðila sem bárust sama dag. Skýringarnar voru sendar sóknaraðila með tölvupósti kærunefndar 14. ágúst 2023 sem skilaði athugasemdum samdægurs og voru þær sendar varnaraðila með tölvupósti kærunefndar sama dag.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu ótímabundinn leigusamning frá 1. febrúar 2018 um leigu varnaraðila á íbúð sóknaraðila sem hún hefur útbúið í bílskúr að D. Um var að ræða endurnýjun á fyrri leigusamningi aðila sem var dagsettur 22. janúar 2017. Ágreiningur er um skaða- og miskabótakröfu sóknaraðila á hendur varnraðila á þeirri forsendu að skemmdir hafi orðið á hinu leigða á leigutíma.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili kveður að við upphaf leigutíma hafi íbúðin verið ný standsett, baðherbergi gert upp frá grunni, ný gólfefni sem og eldhúsinnrétting og allar hurðar nýjar. Þann 14. desember 2022 hafi vatnslögn farið í sundur á E sem hafi valdið því að flætt hafi inn í íbúðina. Þetta hafi leitt til þess að 10-15 cm vatn hafi flætt inn á gólf íbúðarinnar. Þegar sóknaraðili hafi komið í íbúðina vegna vatnstjónsins hafi verið augljóst að umgengni íbúa hafi verið stórlega ábótavant. Varnaraðili og maki hennar hafi síðan verið komin með nýja íbúð 22. desember 2022 og verið búin að tæma og skila lyklum 2. janúar 2023. Í framhaldi af því hafi skemmdir á fasteigninni komið enn betur í ljós. Leiga hafi verið sanngjörn og ekki hækkuð í þau fimm ár sem á leigutíma hafi staðið.

Farið hafi verið fram á að trygging varnaraðila að fjárhæð 300.000 kr. gengi upp í skemmdir. Varnaraðili hafi neitað öllum skemmdum og krafist þess að fá trygginguna endurgreidda. Eftir þetta hafi sóknaraðili orðið fyrir frekara tjóni vegna hótana og aðgerða varnaraðila til þess að neyða hana að endurgreiða trygginguna. Megi þar nefna forsíðufrétt á dagblaði þar sem farið hafi verið með ósannindi og um leið aðför að mannorði sóknaraðila. Eftir að lyklum hafði verið skilað hafi maki varnaraðili farið í íbúðina, enda ekki skilað öllum lyklum, og fest upp hurð sem hafi verið brotin og tekið myndir. Einnig hafi hann leitað eftir framleiðslunúmeri eldavélar. Slík gagnasöfnun sé tæpast lögleg. Í ljósi framangreinds sem og hótana frá lögfræðingi varnaraðila og einnig maka hennar og innbrots hans hafi sóknaraðili á endanum endurgreitt tryggingarféð til að losna undan stöðugu áreiti og mögulega frekari fjölmiðlaumfjöllun.

Við lok leigutíma hafi hurð á eldavél verið brotin og eldavélin almennt í slæmu standi. Eldhúsinnrétting hafi verið illa farin, öll gulnuð og hurðir á efri skápum illa farnar, virðast soðnar, bólgnar og hoggið upp úr þeim, einnig aðrar skemmdir. Vegna neðri skápa þá hafi verið búið að brjóta upp úr skápum öðrum megin og brjóta hurð af skúffuskáp. Ekki sé hægt að skipta um hluta innréttingar þar sem IKEA hafi breytt stærðum á innréttingum síðan, enda bæði innri skápar sem og „frontar“ skemmdir. Búið hafi verið að berja í vask með beittu áhaldi og óvíst að hann haldi vatni. Mygla sé í borðplötu. Barið hafi verið í vegg í íbúðinni. Ísskápur hafi verið dældaður. Skemmd hafi verið á hurð. Hurðar á sturtuklefa séu lausar (brotnar) sem og gúmmíkantur lafandi, vatnslás hafi verið fjarlægður. Salerniskassi leki. Mygla sé í gluggum, Umgengi hafi almennt verið slæm, bæði innan íbúðar og utan. Þá hafi verið slæm lykt í íbúðinni.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili kveður að um hafi verið að ræða innréttaðan bílskúr sem hafi verið breytt í íbúð. Þann 14. desember hafi varnaraðili og maki hennar vaknað upp við að vatn hafi flætt inn í íbúðina. Í ljós hafi komið að orsök þess hafi verið sú að vatnslögn á vegum bæjarfélagsins hafi farið í sundur með þeim afleiðingum að íbúðin hafi verið gjörsamlega á floti. Eftir lekann hafi íbúðin verið óíbúðarhæf.

Sóknaraðili hafi með ólömætum hætti rift leigusamningi aðila eftir að ljóst hafi orðið að íbúðin væri óíbúðarhæf. Sóknaraðili hafi neitað að endurgreiða tryggingarféð þrátt fyrir að íbúðin hafi verið þrifin. Sóknaraðili hafi sent kröfu um greiðslu á meintu tjóni 4. janúar 2023 sem varnaraðili hafi hafnað 9. sama mánaðar. Hún hafi endurgreitt tryggingarféð 13. febrúar 2023.

Varnaraðili telur að vísa beri málinu frá með vísan til 5. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Frestur til að bera málið undir kærunefnd hafi verið liðinn þegar kæra hafi verið móttekin af nefndinni.

Einnig telur varnaraðli að vísa beri málinu frá þar sem úttekt hafi hvorki verið gerð við upphaf né lok leigutíma. Sóknaraðili sé nú búin að rífa allt út úr íbúðinni samkvæmt gögnum málsins og því ekki hægt að fá óháðan aðila til að taka út ástand íbúðarinnar. Sé því ljóst að sönnunarvandkvæði sóknaraðila séu slík að vísa beri málinu frá. Þá beri að vísa kröfu um greiðslu miskabóta frá ex officio þar sem slík krafa falli utan valdsviðs nefndarinnar.

Vegna varakröfu varnaraðila þá hafi engin úttekt farið fram við upphaf leigutíma og því sé algjörlega ósannað að íbúðin hafi verið nýuppgerð og sé því hafnað sem röngu. Þá hafi engin úttekt farið fram af hlutlausum aðila við lok leigutíma heldur byggi sóknaraðili kröfur sínar á eigin samantekt og myndum sem hún kveðst hafa tekið eftir að varnaraðili hafi skilað íbúðinni. Varnaraðili hafi ekki fengið að gæta hagsmuna sinna þegar sóknaraðili hafi farið yfir íbúðina og því sé meint tjón algjörlega ósannað.

Myndir sem sóknaraðili kveði hafa verið teknar af íbúðinni fyrir leigutíma séu óskýrar, ódagsettar yfirlitsmyndir sem sýni ekkert. Fráleitt sé að þær votti fyrir ástandi íbúðarinnar við upphaf leigutíma. Þá séu margar af myndum sóknaraðila frá því þegar vatnstjónið hafi komið upp og varnaraðili enn búið í íbúðinni. Þess utan sé sóknaraðili búin að rífa allt út úr íbúðinni eftir að varnaraðili skilaði henni og því ómögulegt að fá hlutlaust mat á meintu tjóni fyrir aðila málsins.

Skemmdir af völdum vatnslekans hafi verið gríðarlegar. Flest allt sem hafi verið í íbúðinni hafi skemmst af völdum þess eða eyðilagst. Til að mynda allt innbú varnaraðila. Bæjarfélagið sé bótaskylt vegna tjónsins.

Skemmdir sem sóknaraðili vísi til á efri skápahurðum séu vegna gufu sem hafi komið frá eldavélinni við eldun og viftu fyrir ofan eldavélina. Varnaraðili beri ekki ábyrgð á gæðum hurðanna sem augljóslega séu lítil og hafi ekki þolað eðlilega notkun. Þá hafi mynd af neðri skápahurðum verið tekin þegar vatnstjónið hafi komið upp en við skil íbúðarinnar hafi varnaraðili verið búinn að setja hurðina aftur á. Innréttingin hafi ekki verið ný við upphaf leigutíma og eðlilegt að það sjái á innréttingu, sem sé léleg að gæðum, eftir tæplega sex ára notkun. Þess utan sé um að ræða staðlaða IKEA innréttingu sem sé sérstaklega hönnuð til að hægt sé með auðveldum hætti að skipta um hurðir á henni án mikils tilkostnaðar. Það sé því fráleitt að halda því fram að skipta þurfi um alla innréttingu á kostnað varnaraðila.

Varnaraðili hafi ekki valdið skemmdum á vegg og hurð. Þegar lekinn hafi komið upp hafi fjöldi manns, menn frá tryggingafélögum og slökkviliðsmenn, að beiðni sóknaraðila komið í íbúðina með alls kyns tæki til að þurrka vatnið sem hafði flætt í íbúðina. Þeir hafi meðal annars tekið hurðina af hjörunum til að athafna sig og lagt á gólfið. Því sé með öllu hafnað að varnaraðili hafi valdið meintu tjóni en það sé að rekja til þeirra sem hafi staðið að björgunaraðgerðum í kjölfar flóðsins. Þá falli tjónið undir hefðbundna húseigendatryggingu og sé tjón sem leigusali beri, sbr. 4. mgr. 19. gr. húsaleigulaga.

Fyrir liggi óljósar myndir af sturtuklefa og að því er virðist meintum rakaskemmdum/myglu á baðherbergi. Varnaraðili hafi ekki valdið skemmdum á sturtuklefa og hún beri ekki ábyrgð á meintri myglu á baðherbergi enda algjörlega ósannað að um myglu sé að ræða en ástæða hennar sé sú að ónóg loftræsting sé á baðherbergi en engin vifta sé þar. Varnaraðili beri ekki ábyrgð á afleiðingum þess. Þá sé augljóst að viðhaldi sóknaraðila á flestum gluggum í íbúðinni sé verulega ábótavant og ástand þeirra eftir því en á leigutíma hafi þeir aldrei verið lakkaðir, hvorki að innan né utan. Varnaraðili beri alfarið ábyrgð á viðhaldi leiguhúsnæðisins, sbr. 19. gr. húsaleigulaga.

Varnaraðili hafi ekki valdið meintum skemmdum á eldhúsvaski og ástand hans sé ekki umfram það sem gera megi ráð fyrir eftir tæplega sex ára notkun. Þá hafi vaskurinn ekki verið nýr og ónotaður við upphaf leigutíma. Þá sé það beinlínis rangt að hann haldi ekki vatni.

Það eina sem varnaraðili gangist við að bera ábyrgð á sé gler sem hafi brotnað í eldavél við óhapp. Aftur á móti sé verðmæti eldavélarinnar í yfirliti sóknaraðila fráleitt. Það sé rangt að eldavélin hafi verið ný við upphaf leigutíma. Með einföldum hætti sé hægt að fletta framleiðslunúmerinu upp og sjá að hún sé frá árinu 2011. Eldavélin sé ekki ónýt heldur hafi ytra gler hurðarinnar brotnað. Slíkt tjón falli undir hefðbundna húseigendatryggingu og beri sóknaraðili það tjón, sbr. 4. mgr. 19. gr. húsaleigulaga. Þess utan hafi sóknaraðili sett frysti í eigu varnaraðila fyrir utan íbúðina þegar vatnstjónið hafi komið upp með þeim afleiðingum að hann hafi eyðilagst. Sóknaraðili hafi gengist við því að hafa sett hann fyrir utan íbúðina. Verðmæti hans sé til jafns við eldavélina.

Varnaraðili beri ekki ábyrgð á meintum sóðaskap fyrir utan íbúðina. Krafa um kostnað vegna hreinsunar á íbúðinni sé fráleitur. Engar kvittanir liggi honum til grundvallar auk þess sem þrífa hafi þurft íbúðina eftir vatnstjónið, niðurrifið og framkvæmdirnar í kjölfarið sem varnaraðili beri ekki ábyrgð á. Þá beri hún ekki ábyrgð á að salernið leki sem hafi væntanlega skemmst í vatnstjóninu.

Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé á því byggð að henni hafi verið nauðsynlegt að leita til lögmanns vegna framkomu sóknaraðila í hennar garð. Hún hafi rift leigusamningum með ólögmætum hætti, neitað að gefa afslátt af leiguverði fyrir desember og neitað að endurgreiða trygginguna. Sóknaraðili hafi endurgreitt kröfuna 14. febrúar að undanskildum kostnaði hennar við að leita til lögmanns. Þá hafi hún lagt inn kæru í máli þessu gegn ráðleggingum lögfræðings síns, þrátt fyrir að frestur til að bera málið undir nefndina sé liðinn.

IV. Athugasemdir sóknaraðila

Í athugasemdum sóknaraðila segir að það sé ekki rétt að fjöldi manns hafi komið í íbúðina að beiðni hennar heldur hafi verið um að ræða eðlilega aðgerð þegar vatnslögn hafi rofnað. Þeir hafi markvisst verið að lágmarka skaðann og hafi ekki valdið tjóni. Tryggingafélagið og bæjarfélagið hafi neitað að borga tjónið.

Gluggar hafi verið málaðir í um tvö skipti á leigutíma. Myndir sóknaraðila sýni eingöngu það tjón sem varnaraðili og maki hennar hafi valdið en ekki vatnstjónið. Vatnið hafi ekki haft áhrif á innréttinguna, nema sökkla. Mikill óþefur sé enn í íbúðinni, þrátt fyrir þrif með sveppaeyðandi efnum og sápum. Sóknaraðili hafi sjálf þurft að verja mun meiri tíma en gefinn sé upp í kröfu hennar við þrif og sveppahreinsun og sé henni heimilt að reikna sér laun fyrir það.

Varnaraðila hafi þegar verið boðið að fá hlutlausan aðila til mats á íbúðinni, en hún hafi ekki viljað það. Það að nauðsynlegt hafi verið að taka allt úr íbúðinni vegna skemmda rúmum mánuði eftir að varnaraðili hafi flutt út segi meira en mörg orð um það ástand sem íbúðinni hafi verið skilað í. Það rífi enginn allt úr leiguíbúð nema brýna nauðsyn beri til.

Fráleitt sé að halda því fram að varnaraðili hafi ekki fengið að gæta hagsmuna sinna þegar sóknaraðili hafi farið yfir íbúðina. Það komi fram í tölvupósti þegar varnaraðili hafi þakkað  fyrir fund deginum áður. Fund þar sem sóknaraðili hafi farið yfir skemmdir og upplýst að sanngjarnt væri að halda eftir 300.000 kr. vegna skemmdanna.

Myndir varnaraðila séu margar teknar eftir að íbúðinni hafi verið skilað en maki hennar hafi tekið myndir eftir að þau höfðu skilað íbúðinni. Myndir sem teknar hafi verið upp við loft í eldhúsi, þar sem kítti í kverk hafi gefið sig, orsakist af því að þau hafi fyllt loft yfir íbúðinni af miklu dóti og þunginn valdið því að loftið hafi sigið. Þar að auki hafi þau ekki loftað húsnæðið og raki valdið hreyfingu á timbrinu. Ástandið í kverkinni hafi ekki verið svona við upphaf leigutíma heldur sé um að ræða skemmdir sem sóknaraðili hafi sleppt að nefna, en listi yfir skemmdir hafi ekki verið tæmandi.

Húseigendatrygging greiði ekki tjón vegna vatns sem komi að utan og tryggingafélög greiði ekki skemmdir sem leigjendur valdi. Sóknaraðili fái eingöngu greitt frá tryggingarfélagi það sem beint megi rekja til vatnstjónsins.

Það hafi verið val varnaraðila að ráða sér lögfræðing í máli sem hefði verið hægt að semja um og ræða. Varnaraðili hafi valið að ráða lögfræðing fremur en að fá hlutlausan matsmann eins og gert sé ráð fyrir í lögunum. Óskað sé eftir að málskostnaðarkröfu varnaraðila verði vísað frá.

V. Athugasemdir varnaraðila

Í athugasemdum varnaraðila segir meðal annars að viðhald húsnæðisins sé ekki á ábyrgð varnaraðila en augljóst sé af myndum að viðhaldi á flestum gluggum hafi verið ábótavant. Óþefinn í íbúðinni sé að rekja til vatnstjónsins en gríðarlegt vatn hafi flætt um alla íbúðina, meðal annars upp úr salerni og sturtu.

Varnaraðili hafi ekki fengið að gæta hagsmuna sinna við úttekt á húsnæðinu. Sá fundur sem sóknaraðili vísi til hafi verið þegar aðilar hafi hist í íbúðinni til að fara yfir hvað þau ættu að þrífa og hvað ekki vegna flóðsins.

VI. Niðurstaða            

Deilt er um skaðabótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna skemmda sem hún kveður hafa orðið á eldhúsinnréttingu, vegg, hurð, sturtuklefa, salerniskassa, ísskáp og eldavél á leigutíma og séu óháðar vatnstjóni sem varð í íbúðinni á leigutíma. Einnig krefst hún bóta vegna myglu sem hún kveður varnaraðila ábyrga fyrir.

Sóknaraðili hefur þegar endurgreitt varnaraðila það tryggingarfé sem hún lagði fram við upphaf leigutíma og koma ákvæði 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, því ekki til skoðunar í málinu. Verður því ekki fallist á kröfu varnaraðila um frávísun á þeirri forsendu að málið hafi borist nefndinni utan frests, sbr. 5. mgr. þeirrar lagagreinar. Á hinn bóginn er fallist á frávísunarkröfu varnaraðila á miskabótakröfu sóknaraðila enda fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að taka afstöðu til hennar. Að öðru leyti telur nefndin að málið sé tækt til úrlausnar á grundvelli gagna málsins.

Samkvæmt 63. gr. húsaleigulaga skal leigjandi að leigutíma loknum skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt teljist ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafi af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi. Samkvæmt 1. mgr. 64. gr. sömu laga verður leigusali að lýsa bótakröfu sinni á hendur leigjanda skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðis. Þá segir í 1. mgr. 69. gr. húsaleigulaga að leigjandi og leigusali eða umboðsmenn þeirra skuli gera úttekt á ástandi hins leigða húsnæðis áður en afhending fari fram og við lok leigutíma. Óháður úttektaraðili skuli annast úttektina óski annar aðilinn þess og skiptist kostnaðurinn við úttektina þá að jöfnu milli þeirra.

Óumdeilt er að vegna vatnstjóns varð íbúðin óíbúðarhæf 14. desember 2022. Samkvæmt fyrirliggjandi samskiptum aðila skilaði varnaraðili lyklum 2. janúar 2023 en hugðist þó sækja muni af lóðinni tveimur dögum síðar. Með tölvupósti 3. janúar sagðist sóknaraðili ætla að skoða íbúðina og næsta dag gerði hún kröfu í tryggingu varnaraðila vegna fyrrnefndra skemmda og myglu. Var krafan þannig gerð innan tímamarka, sbr. 1. mgr. 64. gr. húsaleigulaga. Varnaraðili hafnaði kröfunni 9. janúar.

Til stuðnings kröfum sínum leggur sóknaraðili fram myndir sem hún kveður hafa verið teknar 14. janúar 2017 en aðilar hafi fyrst undirritað leigusamning 17. sama mánaðar. Þar sem framangreind ákvæði laganna gera ráð fyrir sameiginlegri úttekt við upphaf leigutíma til að tryggja réttindi beggja aðila telur kærunefnd ekki unnt að leggja þessar myndir, sem var einhliða aflað af sóknaraðila og ekki í úttektarskyni, til grundvallar við úrlausn málsins án þess að fleira komi til.

Samkvæmt fyrirliggjandi samskiptum aðila upplýsti sóknaraðili að hún hygðist skoða íbúðina 3. janúar 2023 og gerði hún kröfu vegna téðra skemmda næsta dag og nefndi þá að varnaraðila væri heimilt að fá hlutlausan úttektaraðila til að meta skemmdirnar. Varnaraðili hafnaði því aftur á móti að hafa valdið skemmdum.

Þannig liggur fyrir að sameiginleg úttekt var heldur ekki gerð við lok leigutíma en báðir aðilar leggja hvor í sínu lagi fram myndir til að sýna ástand hins leigða. Varnaraðili hefur með öllu hafnað kröfum sóknaraðila og kveður að um sé að ræða hefðbundin slit á hinu leigða, þó að því undanskildu að glerhurð á ofni eldavélar hafi brotnað og það hafi verið á hennar ábyrgð. Kærunefnd telur gögn málsins ekki geta staðfest að skemmdir hafi orðið á hinu leigða eða að sóknaraðili hafi orðið fyrir fjártjóni vegna skila varnaraðila á hinu leigða enda úttekta ekki aflað í samræmi við ákvæði XIV. kafla húsaleigulaga. Óumdeilt er þó að varnaraðili beri ábyrgð á tjóni vegna glerhurðar á ofni eldavélar. Á hinn bóginn heldur varnaraðili því fram annars vegar að um sé að ræða tjón sem sóknaraðili hefði getað fengið bætt úr húseigendatryggingunni sinni. Sóknaraðili hefur lagt fram skilmála vátryggingar sinnar þar sem fram kemur að hún bæti ekki tjón á gleri í heimilistækjum. Verður því að hafna þessum sjónarmiðum varnaraðila. Hins vegar heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili sé ábyrg fyrir skemmdum á frysti í eigu varnaraðila sem eigi að koma til skuldajafnaðar kröfu sóknaraðila vegna glertjónsins. Fyrir liggur að varnaraðili hefur fengið umrætt tjón bætt og kemur það því ekki til frekari skoðunar í málinu.

Krafa sóknaraðila vegna eldavélar nemur 59.995 kr. en hún telur þörf á að kaupa nýja vegna tjónsins. Gögn málsins styðja aftur á móti ekki að eldavélin sé ónothæf heldur eingöngu að þörf sé á nýju gleri. Bætur verða því ákveðnar að álitum 30.000 kr.

Málskostnaðarkröfu varnaraðila er hafnað enda er krafa sóknaraðila ekki bersýnilega tilefnislaus, sbr. 8. mgr. 85. gr. húsaleigulaga.

Í 7. mgr. 85. gr. húsaleigulaga er kveðið á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 9. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að greiða sóknaraðila 30.000 kr. í skaðabætur.

Miskabótakröfu sóknaraðila er vísað frá.

Málskostnaðarkröfu varnaraðila er hafnað.

 

 

Reykjavík, 17. ágúst 2023

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Víðir Smári Petersen                                     Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum