Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 22/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 27.ágúst 2019
í máli nr. 22/2019:
Orkuvirki ehf.
gegn
Landsneti hf. og
RST Neti ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 19. júlí 2019 kærir Orkuvirki ehf. útboð Landsnets hf. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Substation Hnappavellir – HNA-40 New 132 kV substation EPC“. Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að kærandi teljist „lægstbjóðandi í útboðinu og Landsneti hafi á grundvelli útboðsgagna borið að semja við“ fyrirtækið. Auk þess er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun innkaupaferlisins sem komst á með kæru í þessu máli.

Í desember 2018 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í tengivirki við Hnappavelli. Af gögnum málsins verður ráðið að upphaflegt útboðsferli hafi verið fellt niður og nýtt hafið með útgáfu breyttra útboðsgagna í febrúar 2019. Um var að ræða alútboð þar sem bjóðendur skyldu annast hönnun, innkaup og framkvæmd verksins. Í grein 1.1.1 í útboðsgögnum kom fram að um væri að ræða samningskaupaferli í samræmi við reglugerð nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu. Í grein 1.1.9 voru gerðar tilteknar kröfur til hæfis bjóðenda. Kom meðal annars fram í grein 1.1.9.3 að bjóðendur skyldu hafa skjalfest gæðastjórnunarkerfi og öryggisáætlun í samræmi við nánar tilgreinda staðla og samkvæmt d. lið greinar 1.3.2 skyldu bjóðendur skila lýsingu á þeim áætlunum. Þá kom fram sú krafa í grein 1.1.9.4 að bjóðendur skyldu hafa framkvæmt eitt sambærileg verk innan EES-svæðisins, ofar 45° breiddargráðu, á síðustu þremur árum. Með sambærilegu verki væri átt við verkefni af sambærilegri stærð, tækjabúnaði og gerð. Miðað var við að tækjabúnaður væri svonefndur GIS búnaður, eða gaseinangraður búnaður. Þá voru gerðar tilteknar lágmarkskröfur til hæfni lykilstarfsmanna í grein 1.1.9.5. Þannig skyldi tilgreindur verkefnastjóri og rafmagnsverkfræðingar hafa lokið að lágmarki einu verkefni, sem byggði á GIS búnaði og uppfyllti nánar tilgreindar kröfur, með góðum árangri á síðastliðnum fimm árum. Þá voru gerðar kröfur til reynslu verkfræðinga, þar með talið til þess að tilgreindur byggingarverkfræðingur hefði lokið að lágmarki þremur verkefnum sem uppfylltu nánar tilgreindar kröfur, með góðum árangri á síðastliðnum 10 árum. Samkvæmt grein 1.5.5 skyldi valið á milli tilboða á grundvelli verðs, sem skyldi gilda 60% af heildareinkunn bjóðenda, tæknilegra eiginleika og verkefnastjórnunar en hvor liður um sig skyldi gilda 20% af heildareinkunn bjóðenda. Við mat á tæknilegum eiginleikum, sbr. grein 1.5.7, skyldi annars vegar litið til reynslu af vinnu bjóðenda við sambærileg verk. Skyldu gefin tvö stig fyrir hvert verk sem uppfyllti tilteknar lágmarkskröfur, en mest var hægt að fá 10 stig. Hins vegar skyldi litið til aðferðafræði sem gat gefið 10 stig. Við mat á verkefnastjórnun var lykilstarfsmönnum bjóðenda gefin stig fyrir reynslu umfram þá lágmarksreynslu sem þeir skyldu hafa samkvæmt grein 1.1.9, sbr. nánar grein 1.5.8 í útboðsgögnum.

Í kjölfar þess að bjóðendur skiluðu fyrstu tilboðum hélt varnaraðili samningafundi með þeim 21. og 24. maí 2019. Hinn 7. júlí sama ár var bjóðendum gefinn kostur á að skila endurskoðuðum tilboðum. Þá liggur fyrir í gögnum málsins matsskýrsla, svokölluð Evaluation Report, sem aðilar eru sammála um að hafi verið gefin út 11. júlí 2019, þar sem varnaraðili mat þau tilboð sem höfðu borist. Af skýrslu þessari verður ráðið að átta tilboð hafi borist frá fimm bjóðendum, þar af tvö frá kæranda. Fram kemur að tilboð kæranda, merkt Orkuvirki 1, hafi verið lægst að fjárhæð, en tilboðið hafi ekki fengið nein stig við mat á reynslu af sambærilegu verki og 17,3 stig fyrir reynslu lykilstarfsmanna. Samtals hlaut þetta tilboð kæranda 87,3 stig. Eina tilboð RST Nets ehf. hlaut hins vegar 88,6 stig, og var tilboð fyrirtækisins metið hagkvæmasta tilboðið í útboðinu. Tekið var fram að varnaraðili hefði samkvæmt þessu ákveðið að ganga til samninga við RST Net ehf.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að mat kæranda á sambærilegum verkum, sbr. grein 1.5.7 í útboðsgögnum, og reynslu lykilstarfsmanna, sbr. grein 1.5.8, hafi verið rangt. Þannig hafi verk kæranda við Fitjar sem hafi lokið á árinu 2018 átt að telja til einkunnar við mat á reynslu fyrirtækisins auk þess sem starfsmenn kæranda hafi langa og víðtæka reynslu af uppsetningu tengivirkja. Mat varnaraðila á reynslu endurspegli ekki hæfni starfsmanna kæranda til að takast á við verkið. Þá sé kæranda ekki kunnugt um að RST Net ehf. hafi vottuð stjórnkerfi eða að fyrirtækið uppfylli lágmarkskröfu um sambærilegt verk samkvæmt grein 1.1.9.4 í útboðsgögnum. Jafnframt sé óheimilt að meta reynslu undirverktaka RST Nets ehf. við mat á reynslu fyrirtækisins, en með því sé bjóðendum mismunað. Í öllu falli verði að leggja fram gögn um þátttöku undirverktaka í verkinu.

Varnaraðili telur að vísa beri kærunni frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn, en verði ekki á það fallist beri að aflétta stöðvun innkaupaferlisins þar sem ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar. Rökstutt er að mat á tilboðum hafi farið fram í samræmi við forsendur útboðsgagna og að fulls jafnræðis á milli bjóðenda hafi verið gætt. Þá uppfylli RST Net ehf, sem og undirverktakar, allar kröfur útboðsgagna til hæfis.

Niðurstaða
Miða verður við að kæra í máli þessu beinist að þeirri ákvörðun varnaraðila að ganga til samninga við RST Net ehf., sem tilkynnt var um við útgáfu matsskýrslu 11. júlí 2019. Kæran barst kærunefnd útboðsmála 19. júlí 2019. Verður því ekki fallist á það með varnaraðila að vísa eigi máli þessu frá þar sem kærufrestur samkvæmt 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup sé liðinn.

Kærandi telur að stigagjöf varnaraðila fyrir reynslu af sambærilegum verkum, sbr. grein 1.5.7 í útboðsgögnum, hafi verið röng. Hann vísar einkum til þess að meta hafi átt til stiga verk við Fitjar sem lokið var á árinu 2018 og fólst meðal annars í uppsetningu á svonefndum GIS búnaði. Umrætt verk var talið sýna fram á að kærandi uppfyllti lágmarkskröfu til hæfis, sbr. grein 1.1.9.4 í útboðsgögnum. Ráðið verður af gögnum málsins að varnaraðili hafi ekki metið verk, sem sýndu að bjóðendur uppfylltu lágmarkskröfur greinar 1.1.9.4 í útboðsgögnum, til stiga við mat á reynslu af sambærilegum verkum, sbr. greinar 1.5.5 og 1.5.7 í útboðsgögnum. Burtséð frá því hvort skýrlega hafi mátt ráða þetta fyrirkomulag við stigagjöf af útboðsgögnum verður, eins og mál þetta liggur fyrir nú, ekki annað séð en að tilboð allra bjóðenda hafi verið metin með sama hætti og þessi tilhögun mats því ekki haft áhrif á röðun bjóðenda. Þá verður ekki fallist á með hliðsjón af þeim gögnum sem nú liggja fyrir um stigagjöf varnaraðila vegna reynslu lykilstarfsmanna, sbr. grein 1.5.8 í útboðsgögnum, að kærandi hafi fært haldbær fyrir því að stigagjöfin hafi verið í ósamræmi við efni útboðsgagna eða að öðru leyti andstæð lögum og reglum um opinber innkaup þannig að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn þeim. lögum um opinber innkaup.

Af gögnum málsins verður ráðið að RST Net ehf. hyggist ráða þrjá tilgreinda undirverktaka við tiltekna þætti hins útboðna verks, m.a. danska fyrirtækið Ramboll Danmark A/S, og hefur verið lagt fram afrit samninga sem staðfesta ráðningu þeirra. Varnaraðili tók tillit til hæfni þeirra og reynslu við mat á hæfni og stigagjöf í hinu kærða útboði. Með hliðsjón af 87. gr., sbr. jafnframt 3. tl. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. 90. gr. reglugerðar nr. 340/2017, verður ekki fallist á röksemdir kæranda um að með þessu hafi jafnræði bjóðenda verið raskað eða að varnaraðila hafi verið það að öðru leyti óheimilt. Af gögnum málsins verður jafnframt ekki annað ráðið en að RST Net ehf. hafi uppfyllt kröfu greinar 1.1.9.3 í útboðsgögnum um að verkið skyldi unnið í samræmi við skjalfest gæðastjórnunarkerfi og öryggisáætlun sem uppfylltu nánar tilgreinda staðla, sem og að bjóðandinn hafi uppfyllt lágmarkskröfu greinar 1.1.9.4 um sambærilegt verk að teknu tilliti til reynslu undirverktakans Ramboll Danmark A/S.

Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður því ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að verulegar líkur séu á því að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna hans. Verður því að aflétta þeirri sjálfkrafa stöðvun útboðsins sem komst á með kæru í máli þessu, sbr. 2. mgr. 107. gr. og 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Stöðvun útboðs varnaraðila, Landsnets hf., auðkennt „Substation Hnappavellir – HNA-40 New 132 kV substation EPC“, er aflétt.

Reykjavík, 27. ágúst 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Eiríkur Jónsson

Auður Finnbogadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum