Nr. 758/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 13. desember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 758/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23110023
Endurteknar umsóknir […]
og barns hennar
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 587/2023, dags. 19. október 2023, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2023, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), og barni hennar sem hún kveður heita […], vera fæddan […] og vera ríkisborgara Sómalíu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Endurtekin umsókn kæranda barst kærunefnd útlendingamála 3. nóvember 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum sama dag. Viðbótarupplýsingar og gögn bárust 29. nóvember 2023 og 6. desember 2023.
II. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til viðtals við hana hjá Útlendingastofnun. Þar hafi hún greint frá því að vera fædd og uppalin í Mógadisjú. Kærandi hafi flúið ásamt barni sínu frá Sómalíu 3. október 2022 og komið til Íslands fjórum dögum síðar þar sem hún hafi sótt um alþjóðlega vernd fyrir sig og barn sitt. Kærandi tilheyri kvenréttindasamtökum í Sómalíu sem berjist m.a. gegn kynfæralimlestingum þar í landi. Vegna starfa sinna innan samtakanna hafi kærandi sætt miklu áreiti frá samfélaginu og hafi meðlimir Al-Shabaab ráðist á hana, hótað að beita hana kynferðisofbeldi og myrða hana og barn hennar. Kæranda hafi tekist að fá afhent skjal frá samtökunum sem hún hafi starfað hjá, en þar komi fram að líf kæranda sé í hættu fari hún aftur til Sómalíu. Þá eigi kærandi von á skjali sem staðfesti að fjölskylda hennar hafi yfirgefið Sómalíu. Með vísan til framangreinds óskar kærandi eftir því að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni og barni hennar verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Beiðni um endurtekna umsókn á grundvelli 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga skal endurtekinni umsókn vísað frá. Þó skal taka endurtekna umsókn til meðferðar að nýju ef umsækjandi er staddur hér á landi og nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á því fallist verði á fyrri umsókn hans samkvæmt 24. gr. laganna.
Með úrskurði nr. 587/2023, dags. 19. október 2023, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga, og að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni eða barni hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd taldi, með vísan til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar um aðstæður í heimaríki kæranda, að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði ekki í vegi fyrir endursendingu hennar og barns hennar þangað. Kærunefnd staðfesti þá jafnframt ákvörðun um að brottvísa kæranda og ákvarða henni endurkomubann til landsins í tvö ár yfirgæfi hún ekki landið innan uppgefins frests.
Í framangreindum úrskurði var það niðurstaða kærunefndar að ekki væri ósanngjarnt að gera þá kröfu til kæranda að hún legði fram gögn sem sýndu fram á störf hennar innan samtakanna […]. Jafnframt horfði kærunefnd til þess að kærandi hefði ekki lagt fram gögn, þrátt fyrir beiðni kærunefndar, sem styddu frásögn hennar um að fjölskylda hennar hefði yfirgefið Sómalíu.
Kærandi byggir endurtekna umsókn sína á því að ný gögn liggi fyrir sem sýni fram á að líf hennar sé í hættu sökum starfa hennar hjá […] verði henni gert að fara aftur til Sómalíu. Því til stuðnings lagði kærandi fram afrit af skjali þar sem fram kemur að kærandi hafi starfað hjá samtökunum […] og að starf hennar hafi falist í því að vekja athygli samfélagsins á þeim hættum sem fylgi kynfæralimlestingum kvenna, barnahjónaböndum og barnahernaði. Kemur jafnframt fram að kærandi hafi flúið Sómalíu vegna þrýstings frá samfélaginu og líflátshótana frá Al-Shabaab. Þá kom fram í greinargerð kæranda, dags. 3. nóvember 2023, að hún ætti von á skjali sem sýndi fram á að fjölskylda hennar hefði yfirgefið Sómalíu og að skjalið yrði lagt fram við fyrsta tækifæri. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 27. nóvember 2023, var óskað eftir því að kærandi legði skjalið fram. Með tölvubréfi, dags. 28. nóvember 2023, óskaði kærandi eftir 7 daga viðbótarfresti til að leggja fram skjalið vegna erfiðleika við að afla gagna frá Sómalíu. Með tölvubréfi, dags. 29. nóvember 2023, lagði kærandi fram afrit af skjali, einnig dagsett 29. nóvember 2023, sem hún kveður hafa verið útgefið af hverfisyfirvöldum hennar í Sómalíu og sýni fram á að fjölskylda hennar hafi yfirgefið Sómalíu.
Við mat sitt horfir kærunefnd til þess að kærandi lagði fram afrit af skjali sem hún kveður vera útgefið af samtökunum og er ekki hægt að sannreyna gildi þess. Einnig horfir kærunefnd til skýrslna sem gefa til kynna að trúverðugleiki skjala frá Sómalíu sé almennt lítill. Verða því önnur gögn að liggja fyrir sem sýna fram á störf kæranda. Eins og rakið er í úrskurði kærunefndar nr. 587/2023 sendi kærunefnd þrjú tölvubréf á netfang forsvarskonu samtakanna sem kærandi gaf upp við kærunefnd og á almenn netföng samtakanna og óskaði eftir upplýsingum um hver staða kæranda hefði verið innan samtakanna. Tvö tölvubréfanna voru endursend þar sem ekki var hægt að koma þeim til skila og bárust kærunefnd ekki svör við þriðja tölvupóstinum. Hinn 5. desember 2023 sendi kærunefnd aftur tölvubréf á tvö netföng, annars vegar á netfang forsvarskonu samtakanna og hins vegar á almennt netfang samtakanna sem uppgefin voru í bréfi því sem kærandi lagði fram til stuðnings endurtekinni umsókn sinni. Kærunefnd hafa ekki borist svör. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að kærandi hafi ekki lagt fram ný gögn eða upplýsingar hvað þetta varðar sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á fyrri umsókn hennar samkvæmt 24. gr. laga um útlendinga.
Hvað varðar framlagningu skjalsins sem kærandi kveður sýna fram á að fjölskylda hennar hafi yfirgefið Sómalíu horfir kærunefnd m.a. til almenns trúverðugleika skjala frá Sómalíu sem og þeirra upplýsinga sem kærandi kveður liggja að baki skjalinu. Með tölvubréfi, dags. 5. desember 2023, óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum frá kæranda um það hvernig hún hafi fengið skjalið um brottflutning fjölskyldu sinnar útgefið og hvaða upplýsingar lægju að baki útgáfu þess. Í svari kæranda sem barst kærunefnd 6. desember 2023 kom fram að hún hafi fengið skjalið sent frá vini sínum, sem sé búsettur á heimasvæði hennar í Sómalíu, í gegnum samfélagsmiðilinn WhatsApp. Kvað kærandi vin sinn hafa farið til bæjaryfirvalda sem hefðu óskað eftir vitnisburði nágranna fjölskyldumeðlima kæranda, þar sem ekki sé haldið utan um skráningu á búsetu fólks í Sómalíu. Vinur kæranda hafi mætt með vitni til bæjaryfirvalda og hafi það greint frá því að fjölskylda kæranda hefði flutt af svæðinu. Í kjölfarið hafi umdæmisstjórinn skrifað bréf þess efnis að fjölskylda kæranda væri ekki lengur búsett á svæðinu og að hún hefði flust á óþekktan stað. Kærunefnd telur þær upplýsingar sem kærandi kveður liggja að baki útgáfu skjalsins ótraustvekjandi. Þá bendir kærunefnd á að með tölvubréfi nefndarinnar til kæranda, dags. 11. september 2023, óskaði nefndin eftir því að kærandi legði fram dagsettar ljósmyndir eða önnur skjöl sem staðsettu fjölskyldumeðlimi hennar utan heimaríkis enda benti frásögn hennar til þess að hún væri í einhverjum samskiptum við þau. Ljóst er að framlagt skjal staðsetur fjölskyldu kæranda ekki utan Sómalíu og er því ekki um að ræða ný gögn eða upplýsingar sem leiða til þess að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á fyrri umsókn hennar.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að framangreindar upplýsingar í máli kæranda leiði ekki til þess að sýnilega auknar líkur séu á því að fallist verði á fyrri umsókn hennar samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a laga um útlendinga og telur kærunefnd því skilyrði ákvæðis 35. gr. a laga um útlendinga ekki vera uppfyllt.
Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurtekna umsókn vísað frá.
Úrskurðarorð:
Endurtekinni umsókn kæranda er vísað frá.
The appellant’s subsequent application is dismissed.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Þorsteinn Gunnarsson, formaður