Hoppa yfir valmynd
18. júní 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Þjóð gegn þunglyndi - 2003

Ávarp Jóns Kristjánssonar
Þjóð gegn þunglyndi – Vetrargarðurinn í Smáralind
16. júní 2003

--------------


Góðir landsmenn.

Við hrökkvum öll við þegar við heyrum að á sjötta tug manna grípur til þess ráðs að taka líf sitt á Íslandi á ári hverju.

Það er mikill tollur og mikill harmur sem felst í þessum tölum.

Fyrir okkur sem eftir lifum er það sérstaklega þungbært að þurfa að horfast í augu við að stór hópur ungra karla tekur líf sitt.

Níu af 43 körlum hafði ekki náð tvítugsaldri þegar þeir gripu til þessa örþrifaráðs.

Þeir sem best þekkja til komast að því að

  • sjálfsvígum fjölgar marktækt á Íslandi, og,
  • sjálfsvígum karla fjölgar mest og meðalaldur fórnarlambanna lækkar

Og niðurstaða sérfræðinganna er líka sú, að helstu áhættuhópar séu
  • fíklar
  • geðsjúkir
  • ungir samkynhneigðir
  • fangar
  • fráskildir einmana og atvinnulausir karlmenn,
  • ungir karlar, og
  • eldra fólk

Þegar ég fór að velta þessum staðreyndum fyrir mér þá hrökk ég jafn mikið við og þegar ég heyrði um heildarfjöldann sem fellur fyrir eigin hendi.

Og ég spurði mig þessarar klassísku spurningar hvort það sé eitthvað hjá einstaklingnum, eða samfélaginu sem veldur hér mestu um eða samspil þessara tveggja flóknu þátta?

Hvaða einkennir þá hópa sem sérfræðingarnir draga fram sem áhættuhópana og ég nefndi hér? Er eitthvað sameiginlegt þessum hópum?
Eru þetta ekki svokallaðir jaðarhópar? Eru þetta ekki samfélagshópar sem flestir liggja utan hins viðtekna, hópar sem hinn breiði fjöldi skilgreinir, sem sérstaka, eða öðru vísi?

Það er nærtækt að líta þannig á málið, og að svo miklu leyti, ég undirstrika, að svo miklu leyti sem orsakanna er að leita í stöðu þessara hópa þá hlýtur að vakna sú spurning, hvort eða hvað það er, sem er svona erfitt á Íslandi, ef menn tilheyra ekki hinum breiða fjölda sem á þess kost að lifa hinu svokallaða hefðbundnu lífi. Eða ef menn kjósa að lifa einhvern veginn öðru vísi en gengur gerist.

Mér finnst full ástæða til þess að við beinum sjónum okkar líka að þessum þáttum sjálfsvíganna.

Umburðarlyndið, samvinnan og samhjálpin eru þættirnir sem við þyrftum vafalaust að halda meir og betur á lofti sem samfélag.

Við þurfum í þessu litla samfélagi að skilgreina okkur sem eitt samfélag þar sem allir eru jafn mikilvægir í stað þess að skipta okkur upp í óteljandi samfélagskima sem koma hverjir öðrum lítið eða kannske ekkert við.

Fyrir utan þetta verkefni sem aldrei tekur enda verðum við að gera það sem í okkar valdi stendur til að draga úr tíðni sjálfsvíga.

Forvarnir gegn þunglyndi – Þjóð gegn þunglyndi – er í þessu sambandi afar brýnt verkefni.

Með samstilltu átaki í heilbrigðisþjónustunni er hægt að greina fyrr og koma þeim til aðstoðar sem eru hjálpar þurfi og fækka með því þeim sem falla fyrir eigin hendi.

Með markvissri samvinnu heilsugæslunnar, félagsþjónustunnar, skóla, presta og lögreglu er með þessu átaki reynt að gera hið samfélagslega öryggisnet eins þéttriðið og unnt er.

Þessir aðilar eru til kallaðir vegna þess að heilbrigðisstarfsfólk er í lykilaðstöðu til að meta þætti eins og þunglyndi, starfsmenn félagsþjónustunnar verða áþreifanlega varir við þann samfélagshóp sem þarf brýna aðstoð og sama er að segja um presta, starfsmenn skóla og lögregluna.

Með því að upplýsa þessa starfsmenn sérstaklega og hvetja til þess að þeir hafi augun hjá sér og fylgist með einkennum þunglyndis erum við bregðast við og viðurkenna að hér er brýnt verk að vinna.

Hér á eftir gera menn nánari grein fyrir því verkefni sem nú verður hleypt af stokkunum, en ég vil sem heilbrigðisráðherra þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum við undirbúning verkefnisins.

Hér sameinast opinberar stofnanir, fyrirtæki og sveitarfélög og leggja hvert um sig lóð á vogarskálina til þess að draga úr hættunni á þunglyndi og sjálfsvígum. Samvinna af þessu tagi er til fyrirmyndar.

Í samvinnu af þessu tagi felst viljinn til samhjálpar og það umburðarlyndi sem við verðum öll að tileinka okkur og halda fram til að gera tilveruna ennþá betri en hún er.

Þjóð gegn þunglyndi á að skila okkur betra samfélagi.

Þakka ykkur fyrir.


---------------
Talað orð gildir




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum