Hoppa yfir valmynd
27. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja heiðursgestur á skandínavísku sólstöðuhátíðinni í Kanada

„Ég er heilluð af samfélaginu hér og það er einstakt að upplifa hversu fólk er meðvitað um uppruna sinn og er stolt af honum. Hér kemur fólk saman til að fagna norrænni arfleið sinni og halda menningu okkar og sögu á lofti,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, en hún var heiðursgestur á skandínavísku sólstöðuhátíðinni og ávarpaði hátíðina. Ríflega 1100 gestir voru viðstaddir hátíðina sem allir hafa norræna tengingu á einn eða annan hátt en talið er að um 1 milljón Kanadabúa séu af Skandinavískum uppruna.

Ásamt ráðherra sóttu Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada hátíðina ásamt núverandi og fyrrverandi konsúlum Íslands í Bresku-Kólumbíu (BC), Glenn Sigurdsson og Heather Ireland. Ráðherra flutti ávarp og heimsótti bása allra Norðurlandanna. Á milli 15.000 og 20.000 Íslendingar fluttust búferlum og hófu nýtt líf í Vesturheimi á nítjándu öld og ávarpi sínu lagði ráðherra meðal annars áherslu á mikilvægi þess að rækta tengsl milli þjóðanna og vera stolt af uppruna sínum, arfleið og menningu.

Viðburðurinn er haldin árlega af Skandinavíska félaginu í Bresku-Kólumbíu, sem telur um 3000 meðlimi, til að rækta norræn tengsl, hefðir og menningu. Icelandic Canadian Club of BC er hluti af félaginu en í honum eru Íslendingar sem stunda nám eða starfa í Bresku- Kólumbíu og afkomendur Vestur-Íslendinga, sem fluttu frá Íslandi til Kanada.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum