Hoppa yfir valmynd
7. júní 2018 Utanríkisráðuneytið

Fatimusjóðurinn gefur 5 milljónir króna til barna í neyð í Jemen

Á myndinni eru Ragný Guðjohnsen, formaður Fatímusjóðsins, Hrafn Jökulsson, Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Elísabet Jökulsdóttir. Ljósmynd: UNICEF - mynd

Í gær afhentu fulltrúar Fatimusjóðsins UNICEF á Íslandi 5 milljóna króna framlag sem rennur til stríðshrjáðra barna í Jemen. Afhendingin, sem fór fram á skrifstofu UNICEF, er hluti af söfnunarátakinu „Má ég segja þér soldið“ sem UNICEF á Íslandi stendur fyrir.

„Eftir margra ára átök ríkir gífurleg neyð í Jemen, einu fátækasta ríki heims, neyð sem hefur farið framhjá mörgum. Nú er svo komið að Jemen er einn versti staður í heimi til að vera barn og nánast hvert einasta barn í landinu þarfnast neyðaraðstoðar. Mörg þúsund börn hafa látið lífið eða verið limlest í borgarastríðinu og lífum og framtíð margfalt fleiri barna er ógnað. UNICEF er á vettvangi og hlúir að börnum og fjölskyldum þeirra og veitir nauðsynlega neyðaraðstoð,“ segir í frétt á vef UNICEF.

Fatimusjóðurinn var stofnaður árið 2005 af baráttukonunni Jóhönnu Kristjónsdóttur. Upphaflega var sjóðnum ætlað að styðja við menntun barna í Jemen en síðustu árin hefur hann beitt sér fyrir margvíslegri uppbyggingu og neyðaraðstoð í Mið-Austurlöndum. Sjóðurinn hefur verið í samstarfi við UNICEF undanfarin ár og safnað tugmilljónum króna fyrir börn í neyð, meðal annars í Sýrlandi, Jórdaníu og Jemen.

Upphæðin er afrakstur skákmaraþons Hrafns og Hróksins

Upphæðin sem fulltrúar Fatimusjóðsins afhentu UNICEF á Íslandi er afrakstur af skákmaraþoni Hrafns Jökulssonar og Hróksins sem haldið var 11. og 12. maí. Róbert Lagerman og Hrafn Jökulsson tefldu alls 250 skákir fyrir hönd Hróksins. Meðal þeirra sem gáfu áheit voru Íslandsbanki, Penninn, Dominos, Samkaup, Vörður, Vignir S. Halldórsson, Viggó Einar Hilmarsson, Set, Brim, Góa, auk nokkurra sem ekki létu nafns síns getið. Þá urðu fjölmargir til að bregðast við áskorunum Hróksliða um að leggja inn á söfnunarreikning Fatimusjóðsins. Alls söfnuðust 4,8 milljónir króna í skákmaraþoninu, án krónu í tilkostnað, og systkinin Hrafn og Elísabet lögðu saman 200 þúsund í neyðarsöfnunina til að geta afhent UNICEF sléttar 5 milljónir í þágu barnanna í Jemen í dag.

Maraþonið var teflt í minningu Jóhönnu Kristjónsdóttur, stofnanda Fatimusjóðsins, en 11. maí var eitt ár liðið frá andláti hennar. Sjálf safnaði Jóhanna framlögum fyrir börn í neyð allt þar til yfir lauk og var ötull málsvari barna á stríðshrjáðum svæðum.

„Framlag Fatimusjóðsins er ómetanlegt og við hjá UNICEF á Íslandi erum innilega þakklát fyrir stuðninginn. Hrafn Jökulsson heldur minningu móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, fallega í heiðri með því að veita börnum í Jemen mikilvægan stuðning,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Nýja stjórn Fatimusjóðsins skipa Ragný Guðjohnsen formaður, Margrét Pála Ólafsdóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Kolbrá Höskuldsdóttir og Vera Illugadóttir. Fatimusjóðurinn mun leitast við að starfa í anda stofnandans og gerir kjörorð Jóhönnu að sínum: Til lífs og til gleði.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Jemen er enn í fullum gangi. Hægt er að styðja hana með því að senda SMS-ið JEMEN í 1900 (1900 krónur) eða gefa frjálst framlag hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum