Hoppa yfir valmynd
11. maí 2007 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Evrópuráðsins í Strassborg



FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 059

Árlegur fundur utanríkisráðherra Evrópuráðsins var haldinn í Strassborg dagana 10. og 11. maí 2007. Þorsteinn Ingólfsson, sendiherra, sótti fundinn fyrir hönd Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra.

Í upphafi fundar var Svartfjallalandi veitt innganga í Evrópuráðið við hátíðlega athöfn. Svartfjallaland er 47. aðildarríki Evrópuráðsins. Sem kunnugt er var Ísland fyrsta ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði Svartfjallalands.

Meðal helstu áherslumála Íslands á fundinum voru málefni Mannréttindadómstóls Evrópu en gífurleg fjölgun hefur orðið á kærum til dómstólsins á undanförnum árum. Tillögur til breytinga á dómstólnum hafa hlotið góðar undirtektir og ákváðu ráðherrarnir á fundinum að vinnunefnd Evrópuráðsins um mannréttindi færi ítarlega yfir skýrslu um þær breytingar og geri tillögur sem megi hrinda í framkvæmd sem allra fyrst.

Í ræðu Íslands var auk umfjöllunar um Mannréttindadómstólinn, fjallað um mikilvægi herferðar Evrópuráðsins gegn ofbeldi gegn konum, þ.á m. heimilisofbeldi sem hófst í lok síðasta árs sem og aðgerðaráætlunar sem kallast „Evrópa fyrir börn". Þá var fjallað um mikilvægi samnings um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi og misbeitingu, sem nú er í burðarliðunum. En þessi samningur er mikilvæg viðbót við það regluverk sem miðar að vernd barna og ungmenna.

Á fundinum var skrifað undir samkomulag á milli Evrópuráðsins og Evrópusambandsins um aukið samstarf þessara stofnana þar sem skýrar línur eru lagðar um hlutverk þeirra í stofnanakerfi Evrópu. Með gildistöku þessa samkomulags er stefnt að því að störf þeirra verði skilvirkari og dregið verði úr tvíverknaði og kostnaði.

Á fundinum lét San Marínó, fámennasta ríki Evrópuráðsins, af formennsku og næstu 6 mánuði verður hún í höndum Serbíu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum