Hoppa yfir valmynd
16. mars 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greinargerð um starfsemi Lindarhvols

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sent Alþingi greinargerð með upplýsingum starfsemi Lindarhvols ehf. og framvindu vinnu við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

Í greinargerð þessari, sem rituð er með vísan til 6. málsl. 4. mgr. ákvæðis III til bráðabirgða við lög nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, er gerð grein fyrir framvindu við úrvinnslu stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og hafa verið til umsýslu hjá Lindarhvoli ehf. Að auki eru veittar upplýsingar um ráðstöfun stöðugleikaframlags ásamt áætlun um framvindu verkefnisins. Í nóvember sl. sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið Alþingi upplýsingar um framvindu við úrvinnslu eignanna fram til 4. nóvember s.l. Skýrsla þessi gerir því grein fyrir stöðu, framgangi og áætlunum um úrvinnslu eignanna frá þeim tíma og fram til 3. febrúar.

I. Flokkun og virði stöðugleikaeigna í upphafi

Eins og fram kom í fyrri skýrslum ráðuneytisins voru stöðugleikaeignir sem Seðlabanki Íslands veitti viðtöku á grundvelli almennra stöðugleikaskilyrða flokkaðar með eftirfarandi hætti:·

  • laust fé
  • framseldar eignir
  • skilyrtar fjársópseignir
  • framlög vegna viðskiptabanka (þ.á.m. eignarhlutir)

Mat á virði stöðugleikaeigna sem gert var við framsal þeirra í janúar 2016, og byggði að mestu leyti á bókfærðu virði eignanna hjá slitabúunum sjálfum, nam alls 384,3 ma.kr. Þar af var laust fé metið á 17,2 ma.kr., framseldar eignir á 60,4 ma.kr., skilyrtar fjársópseignir á 18,4 ma.kr. og framlög vegna viðskiptabanka á 288,3 ma.kr. Bókfært virði stöðugleikaeigna í beinni umsýslu Lindarhvols ehf. við upphaf starfsemi félagsins þann 29. apríl sl. nam samtals kr. 58.591.639.359, sbr. eftirfarandi töflu:

 

II. Varðveisla og sala stöðugleikaeigna í umsýslu Lindarhvols ehf. frá 4. nóvember 2016 til og með 3. febrúar 2017

i.Laust fé

Öllu lausu fé sem borist hefur á tímabilinu hefur verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt, sjá nánar umfjöllun um greiðsluflæði hér síðar í skýrslu þessari.

ii.Framseldar eignir

Öll skráð hlutabréf í umsýslu Lindarhvols ehf. hafa verið seld í opnu söluferli í samræmi við reglur félagsins um sölu stöðugleikaeigna með vísan til samnings þess við fjármála- og efnahagsráðuneytið, sjá nánar í fyrri skýrslum ráðuneytisins.

Í samræmi við reglur Lindarhvols ehf. var allt hlutafé í Lyfju hf., sem fellur undir flokkinn óskráð hlutabréf í ofangreindri greiningu, selt Högum hf. sem áttu hæsta kauptilboðið í opnu söluferli. Kaupsamningur var undirritaður með fyrirvara um áreiðanleika­könnun og samþykki Samkeppniseftirlitisins. Eins og kom fram í síðustu skýrslu þá er stefnt að því að ljúka sölunni með greiðslu kaupverðs á árinu 2017 að uppfylltum fyrrgreindum fyrirvörum.

Hluti af öðrum óskráðum hlutabréfum í umsýslu Lindarhvols ehf., þ.e. rekstrarfélagið Vörukaup ehf., hefur verið selt í opnu söluferli og við söluna var í samræmi við fyrrgreindar reglur lögð áhersla á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni. Greiðslur vegna þeirrar sölu bárust inn á stöðugleikareikninginn í janúar 2017. Með sölunni hafa rekstrarfélög í fullri eigu ríkissjóðs í umsýslu Lindarhvols ehf. verið seld.

Með vísan til fyrri skýrslna hefur langstærstur hluti skráðra skuldabréfa í umsýslu félagsins verið seldur í opnu söluferli og hefur öllum fjármunum vegna þeirra verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt. Töluvert hefur verið um uppgreiðslur á óskráðum skuldabréfum og lánaeignum í umsýslu Lindarhvols ehf. á tímabilinu eins og upplýst hefur verið um í fyrri skýrslum.

Umtalsverðar greiðslur hafa verið af eignum sem falla undir aðrar eignir í flokknum framseldar eignir, sem getið er hér að ofan og jafnframt voru nauðasamningskröfur á félög sem voru í slitameðferð seldar í opnu söluferli sbr. nánar fyrri skýrslur. Hafa greiðslur vegna þeirrar sölu þegar borist og verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs.

iii.Skilyrtar fjársópseignir

Upphaflega var ekki gert ráð fyrir miklum endurgreiðslum á árinu 2016 vegna skilyrtra fjársópseigna sökum umtalsverðs flækjustigs ásamt því að hluti þeirra er vegna kostnaðar slitabúanna við rekstur þeirra á næstu árum. Hins vegar hefur gengið betur en áætlanir gerðu ráð fyrir að endurheimta bæði varasjóði og aðrar eignir í góðri samvinnu og samstarfi við slitabúin. Þegar hafa komið til greiðslur af hluta varasjóða ásamt því að tekist hefur að leysa úr ágreiningsmálum varðandi aðrar eignir sem skilað hafa töluverðum fjármunum inn á stöðugleikareikninginn.

iv.Framlag vegna viðskiptabanka

Eignir sem falla undir flokkinn framlag vegna viðskiptabanka eru háðar frekari ákvörðunum annars vegar Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhlutinn í Íslandsbanka hf. og hins vegar Kaupþings ehf. vegna greiðslu á skuldabréfinu og á grundvelli afkomuskiptasamningsins. Í fjárlögum ársins 2017 er gert ráð fyrir því að Arionbanki verði seldur á yfirstandandi ári og að full greiðsla berist vegna skuldabréfs Kaupþings og andvirðinu ráðstafað til niðurgreiðslu skulda.

III. Greiðsluflæði

Greiðsluflæði stöðugleikaeigna frá því að Lindarhvoll ehf. tók við umsýslu þeirra 29. apríl 2016 til og með 3. febrúar 2017 nam samtals kr. 48.699.950.939. Ofangreindir fjármunir voru lagðir jafnóðum inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt.

Aðrar greiðslur sem fallið hafa til vegna stöðugleikaeignanna á fyrrgreindu tímabili í starfsemi Lindarhvols ehf. og eru enn á reikningum dótturfélaga í umsýslu Lindarhvols ehf. nema samtals um 700 mkr. og verður ráðstafað inn á stöðugleikareikninginn á næstu misserum við slit umræddra félaga í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Því hafa greiðslur vegna stöðugleikaeignanna frá stofnun Lindarhvols ehf. til 3. febrúar 2017 numið samtals kr. 49.399.950.939. Samandregið frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað í upphafi árs 2016 og til og með 3. febrúar 2017 hafa greiðslur inn á stöðugleikareikninginn ásamt greiðslum inn á reikninga dótturfélaga numið samtals kr. 86.841.311.580.

IV. Staða núverandi stöðugleikaeigna í umsýslu Lindarhvols ehf.

Með vísan til framangreinds liggur fyrir að Lindarhvoll ehf. hefur komið langstærstum hluta þeirra stöðugleikaeigna sem félaginu var falin umsýsla á í laust fé og hefur greiðsluflæði vegna þeirra eigna verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands lögum samkvæmt. Til viðbótar við það greiðsluflæði hefur félagið lokið við sölu nokkurra eigna þar sem greiðslur munu berast á árinu 2017. Jafnframt verður afdreginn fjármagnstekjuskattur endurgreiddur á árinu 2017 vegna greiðslna á árinu 2016. Greiðslur vegna ofangreindra eigna sem þegar hafa verið seldar og þegar verið samið um af hálfu Lindarhvols ehf. á árinu 2016 ásamt skattgreiðslum nema samtals um 14 milljörðum króna og gerir félagið ráð fyrir að þær munu allar berast til ríkissjóðs á árinu 2017.

Samtals hefur því stöðugleikaeignum sem nema ríflega 100 milljörðum króna verið komið í verð sem er hærri fjárhæð en samtala bókfærðs virðis stöðugleikaeigna í umsýslu félagsins þ.e.a.s. fyrir utan eignarhlut í Íslandsbanka hf. og skuldabréf og afkomuskiptasamning Kaupþings ehf. vegna sölu á Arion banka hf. en bókfært virði annarra eigna en þeirra nam í upphafi ríflega 95 milljörðum króna. Framseldar stöðugleikaeignir sem eru enn í umsýslu félagsins og hefur ekki verið ráðstafað eða um þær þegar samið nú þegar og beðið er lokagreiðslu á árinu 2017, eru að stærstum hluta lánaeignir. Bókfært virði þeirra eigna sem ekki hefur nú þegar verið komið í verð nemur að mati Lindarhvols um 23 milljörðum.

V. Næstu skref og áætlun Lindarhvols ehf. við umsýslu og sölu stöðugleikaeigna

Áætlun Lindarhvols ehf. gerir ráð fyrir að laust fé sem lagt verður inn á reikning ríkissjóðs muni nema allt að 14 milljörðum króna á næstu mánuðum vegna greiðslna sem munu berast vegna þegar seldra eigna og á grundvelli samninga sem félagið hefur þegar gert á undanförnum mánuðum.

Þær eignir sem enn eru í umsýslu félagsins og falla undir flokkinn framseldar eignir í ofangreindri flokkun eru að mestu lánaeignir, óskráð hlutabréf og aðrar eignir, eins og áður var getið. Stór hluti lánaeigna er á gjalddaga á árinu 2017 og í byrjun árs 2018. Áfram verður unnið að endurheimtum og sölu þeirra eigna.

Skilyrtar fjársópseignir eru því marki brenndar að ekki er hægt að setja þær í sölu af hálfu Lindarhvols ehf. og því verður að bíða eftir að slitabúin ljúki þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að skilyrðum verði aflétt.

VI. Niðurstöður og samantekt

Greiðslur fjármuna inn á stöðugleikareikning Ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Íslands hafa verið umtalsverðar frá því að framsal stöðugleikaeignanna átti sér stað á grundvelli stöðugleikasamninga við slitabú fallinna fjármálafyrirtækja í upphafi árs 2016 og hafa verið töluvert umfram upphaflegar væntingar. Samtals hafa greiðslur vegna stöðugleikaeignanna frá framsali þeirra í upphafi árs 2016 til og með 3. febrúar 2017 numið samtals kr. 86.841.311.580 (bæði greiðslur inn á stöðugleikareikninginn og innstæður á reikningum dótturfélaga) en upphaflegar áætlanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins gerðu ráð fyrir að greiðslur vegna þeirra myndu nema samtals kr. 68.000.000.000 á árinu 2016. Ríkissjóður Íslands hefur samtals ráðstafað kr. 79.500.000.000 af stöðugleikareikningnum á ofangreindu tímabili, 17 milljarðar komu á móti töpuðum bankaskatti og 61,5 ma.kr. var ráðstafað til niðurgreiðslu skulda. Innstæða á stöðugleikareikningi ríkissjóðs ásamt innstæðu í dótturfélögum sem hluti af stöðugleikaeignum nam samtals kr. 7.341.311.580 þann 3. febrúar 2017. Til viðbótar við fyrirliggjandi greiðsluflæði liggur fyrir að félagið hefur nú þegar á árinu 2016 lokið við sölu annarra eigna, gert samkomulag vegna fjársópseigna ásamt skattgreiðslum þar sem greiðsla vegna þessa munu berast á árinu 2017. Að mati félagsins geta fyrrgreindar greiðslur numið samtals um 14 milljörðum króna sem koma til greiðslu til ríkissjóðs á árinu 2017.

Upphafleg áætlun um slit Lindarhvols ehf. var í samræmi við bráðabirgðaákvæði III í lögum um Seðlabanka Íslands, þar sem segir að félaginu skulu slitið þegar það hefur lokið störfum sínum, en eigi síðar en 31. desember 2018. Félagið setti sér þau markmið að ljúka við helstu verkefni félagsins eins fljótt og auðið væri en það var að mati stjórnar félagsins í samræmi við skýr ákvæði samnings félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra þar sem segir að félagið skuli flýta sölu eigna og endurheimtum krafna eins og kostur er. Útlit er fyrir að félagið ljúki við verkefni sín á yfirstandandi ári. Þegar félagið hefur lokið starfsemi er rétt að slíta félaginu formlega í kjölfarið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum