Hoppa yfir valmynd
20. mars 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fitch: Ísland losar fjármagnshöft samhliða batnandi ytri stöðu

Afnám fjármagnshafta á heimili og fyrirtæki á Íslandi endurspeglar aukinn viðnámsþrótt og sterka vörn í formi gjaldeyrisforða sem minnkar hættu á þrýstingi á greiðslujöfnuð og gengi gjaldmiðilsins samkvæmt lánshæfismatsfyrirtækinu Fitch Ratings. Mat fyrirtækisins tekur enn tillit til áhættu er varðar þjóðhagslegt ójafnvægi.

Á þriðjudag losuðu stjórnvöld á Íslandi nánast öll fjármagnshöft af innlendum heimilum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum þótt takmarkanir á sumum afleiðusamningum, gjaldeyrisviðskiptum og lánveitingum til erlendra aðila séu enn í gildi. Stjórnvöld höfðu losað höft verulega á síðasta hálfa ári án þess að til kæmi mikið útflæði eða þrýstingur á gengi krónunnar. Einnig er líklegt að afnám hafta minnki þrýsting til hækkunar á verði innlendra eigna.

Samkvæmt samkomulagi stjórnvalda við hluta eigenda þeirra aflandskrónueigna sem enn eru læstar á bak við höftin munu hinir síðarnefndu selja um 90 ma.kr. á genginu 137,5 kr. pr evru (sem er lægra en núverandi álandsgengi en hærra en gengið í aflandskrónuútboði Seðlabankans sl. júní). Með því minnkar snjóhengja aflandskróna í um 100 ma.kr., eða 4% af VLF. Aflandskrónueigendum sem ekki voru aðilar að ofangreindu samkomulagi býðst þátttaka á sama gengi.

Aðgerðir þessar eru í takt við áfangaskipta afnámsáætlun stjórnvalda sem kynnt var í júní 2015. Gjaldeyrisforði Seðlabankans hefur stækkað verulega vegna afgangs á viðskiptajöfnuði (8% af VLF á árinu 2016 samkvæmt bráðabirgðaáætlun bankans) auk gjaldeyrisinnflæðis. Forðinn stóð í um 811 ma.kr., eða þriðjungi af VLF, í lok febrúar sl. Hann veitir verulegt viðnám gegn áhættu á að uppsöfnuð þörf fyrir erlendum eignum leiði til mikils útflæðis með tilheyrandi gengislækkun og veikingu greiðslujafnaðar. Að okkar mati er þessari hættu haldið í skefjum að svo stöddu. Hún hefur ekki raungerst í kjölfar aðgerða í vikunni. Þótt krónan hafi veikst um 2,5% fljótlega við tilkynninguna er hún enn 14% sterkari gagnvart Bandaríkjadal en fyrir ári síðan.

Samhliða batnandi ytri stöðu er hagvöxtur öflugur og staða opinberra fjármála traustari en áður. Afgangur af rekstri ríkisins án áhrifa stöðugleikaframlaga var 1,3% á árinu 2016. Hagvöxtur á árinu mældist 7,2% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands, að stórum hluta vegna gríðarlegs vaxtar í ferðaþjónustu sem hefur einnig haldið uppi útflutningi og viðskiptajöfnuði.

Innlendur kostnaðarþrýstingur og miklar launahækkanir hafa ekki leitt til mikillar verðbólgu (sem var óbreytt, 1,9%, í febrúar) þar sem sterk króna vegur á móti og raunvextir eru mun hærri en í öðrum þróuðum löndum. Sérstök bindingarskylda sem innleidd var í fyrra hefur hægt á innflæði í tengslum við vaxtamunarviðskipti.

Hins vegar getur öflugur hagvöxtur og hækkandi raungengi leitt til ofvaxtar innlendrar eftirspurnar og stefnt þjóðhagslegu jafnvægi í hættu. Hætta á þjóðhagslegu ójafnvægi er alltaf til staðar í litlu, opnu og tiltölulega fjármálalega samþættu hagkerfi.

Ákvörðun okkar um að breyta horfum á lánshæfiseinkunn Íslands (BBB+) í jákvæðar byggist aðallega á því að dregið hefur úr ytri veikleikum, opinberar skuldir hafa lækkað, hagvexti er öflugur og á þeim árangri sem náðst hefur í losun fjármagnshafta.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum