Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um kaup á hlut Kaupskila í Arion banka

Þann 24. mars síðastliðinn sendi Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra bréf til Fjármálaeftirlitsins með ellefu spurningum sem tengdust nýjum eigendum að Arion banka. Í dag barst svar frá Fjármálaeftirlitinu dags. 31. mars síðastliðinn. Svar Fjármálaeftirlitsins er að finna í pdf skjali hér á eftir, en bréf fjármálaráðherra var svohljóðandi:

„Sunnudagskvöldið 18. mars síðastliðinn bárust af því fregnir að nokkrir aðilar hefðu keypt samtals 29,2% hlut í Arion banka. Samkvæmt tilkynningum um kaupin eru þau í samræmi við samkomulag sem stjórnvöld gerðu við Kaupþing og dótturfélag þess Kaupskil í upphafi árs 2016. Hinn 11. janúar 2010 veitti Fjármálaeftirlitið Kaupskilum ehf. leyfi til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka. Leyfið var veitt í kjölfar samnings á milli Kaupþings hf. og fjármálaráðuneytisins frá 3. september 2009 þess efnis að Kaupþing hf. gæti eignast 87% hlut í Arion banka hf.

Arion banki er einn af þremur stærstu bönkum Íslands og því afar mikilvægt að ekki sé óþörf óvissa um framtíð bankans og eignarhald á honum.

Eftir fjármálahrunið hefur áhersla aukist mjög á gagnsæi á mörkuðum. Það er stefna núverandi stjórnvalda að auka traust á fjármálakerfinu þannig að ekki vakni spurningar um hverjir séu endanlegur eigendur fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þetta gildir auðvitað sérstaklega um mikilvæg og leiðandi fyrirtæki á markaði eins og Arion banka. Öll óvissa um eignarhald á bankanum og áform eigenda geta valdið bankanum sjálfum skaða og orðsporsáhættu fyrir hann og fjármálakerfið allt.

Því legg ég mikla áherslu á að eftirfarandi spurningum verði svarað með fullnægjandi hætti, en ég hyggst birta svörin opinberlega:

  1. Hvers eðlis eru þau fyrirtæki eða sjóðir sem keypt hafa hlut í Arion banka núna?
  2. Voru þessi fyrirtæki eða sjóðir öll kröfuhafar í þrotabú Kaupþings?
  3. Hvaða samninga hafa fyrirtækin gert um frekari kaup á hlutabréfum í Arion banka?
  4. Var gætt að armslengdarsjónarmiðum við samninga þessara aðila við þrotabúið?
  5. Eru uppi áform um að skrá hlutabréf í Arion banka á markaði? Ef svo er, hvenær og hvar? Hafa þessi fyrirtæki sem nú hafa keypt hlutabréf í Arion banka komið að þeim undirbúningi?
  6. Voru stofnuð sérstök fyrirtæki eða sjóðir til þess að halda utan um kaupin á hlutabréfunum í Arion banka? Ef svo er, hvaða skýringar eru á því?
  7. Hafa einhver þessara fyrirtækja eða sjóða kynnt Fjármálaeftirlitinu áform um frekari fjárfestingar í Arion banka? Ef svo er þá hver og hvenær?
  8. Hafa þessi fyrirtæki eða sjóðir haft með sér formlegt samstarf við kaupin? Ef svo er, er þá ekki ástæða til þess að skoða þau formlega sem eiganda virks eignarhlutar?
  9. Séu fyrirtækin eða sjóðirnir einnig kröfuhafar í þrotabú Kaupþings er ljóst að beint og óbeint eignarhald a.m.k. tveggja fyrirtækja er komið yfir 10%. Hefur Fjármálaeftirlitið litið til þessa við mat á fyrirtækjunum sem eigendum virkra eignarhluta?
  10. Hafa fyrirtækin eða sjóðirnir látið Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar um stærstu hluthafa eða eigendur í sjóðunum?
  11. Er orðspor einhvers eða einhverra þessara kaupenda með einhverjum hætti líklegt til þess að skaða orðspor Arion banka?

Í þessu sambandi vitna ég í skýrslu um forgangsmál fjármálaráðherra Þýskalands í tilefni af því að landið er í forystu G20-ríkjanna: „We need to ensure that beneficial owners are identified and that access to information on beneficial owners and international exchange of this information can be further improved.“

Þar sem þetta mál er nú í brennidepli óska ég eftir svörum Fjármálaeftirlitsins við þessu bréfi svo fljótt sem verða má.

Með góðri kveðju

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum