Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2023 Innviðaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

95 milljónir í styrki til rannsókna og nýsköpunar á sviði mannvirkjagerðar

Fulltrúar 39 nýsköpunar- og rannsóknaverkefna sem hlutu styrki í dag úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. - mynd

39 nýsköpunar- eða rannsóknarverkefni fengu í dag styrki samtals að fjárhæð 95 m.kr. úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhentu styrkina við athöfn í húsakynnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Styrkirnir eru veittir til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar.

Askur – mannvirkjarannsóknasjóður var stofnaður árið 2021 og er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum HMS. Að þessu sinni bárust 62 umsóknir, sem samtals nema 472 m.kr. Sérstakt fagráð var skipað til að meta umsóknir og gerðu tillögu að úthlutun til innviðaráðherra sem veitir styrkina samkvæmt reglum sjóðsins.

„Askur – mannvirkjasjóður hefur fest sig í sessi og ánægjulegt er að umsóknum og styrkþegum hefur fjölgað. Sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki við að styðja við íslenskt hugvit og efla rannsóknir og nýsköpun á sviði mannvirkjamála. Rannsóknir sem eru til þess fallnar að auka enn frekar framfarir í mannvirkjagerð, draga úr kolefnislosun og bæta þannig samfélag okkar og lífsgæði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

„Áskoranir í loftslagsmálum eru allt um kring og krefjast framþróunar, nýsköpunar og nýtingu nýrra eða betri lausna, sérstaklega á sviði iðnaðar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Við þurfum að virkja hugvit og nýsköpun í þágu loftslagsmála. Innleiða hugmyndir um sjálfbærni í allan iðnað og iðnnám. vistvæn mannvirkjagerð skiptir miklu máli þegar kemur að byggingariðnaðinum og það er því frábært að sjá að verkefnin sem fá úthlutun í dag eiga það nánast öll sameiginlegt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum á einn eða annan hátt.“

„Það eru gríðarlega spennandi styrkumsóknir sem berast til Asks – mannvirkjarannsóknar-sjóðs. Styrkþegar eru verðmæt uppspretta framfara, nýrra lausna og rannsókna í byggingariðnaði. Innlegg þeirra í uppfærslu á RB blöðunum og aðgerðaáætlun Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð er ómetanlegt. Fjöldi umsókna staðfestir mikla þörf fyrir aukinn stuðning við byggingarrannsóknir,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS

Samfélagslegar áskoranir og loftslagsmál

Styrkir eru veittir í fimm flokkum en áherslur sjóðsins snúa einkum að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, s.s. rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til að lækka kolefnisspor. Við hverja úthlutun er horft til þarfa, eðlis og áskorana á sviði mannvirkjagerðar, áherslu á nýsköpun og markmiða um sjálfbærni.

Loftslagsmál eru alltumlykjandi í öllum flokkum úthlutunar og eiga flest verkefnin það sammerkt að hafa ávinning sem snýr að umhverfismálum á einn eða annan hátt. Mörg verkefni sem hljóta styrk að þessu sinni leggja sitt að mörkum til að ná markmiðum verkefnisins Byggjum grænni framtíð sem er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð, en það á meðal annars rætur sínar að rekja til aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Áætlað er að byggingariðnaðurinn beri ábyrgð á um 40% af allri losun á heimsvísu og því ljóst að þar liggja miklar framtíðaráskoranir tengdar loftslagsmálum.

Áherslur í hverjum flokki

  • Byggingarefni: Rannsóknir og þróun á byggingarefnum, á endingu þeirra og eiginleikum ásamt efnisvali og notkun í samræmi við lög um byggingarvörur. Einnig verkefni sem stuðla að minna kolefnisspori byggingarefna og draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna t.d. með hönnun og eflingu hringrásarhagkerfisins.
  • Gæði: Rannsóknir á gæðum, endingu, hagkvæmni og hönnun íbúðahúsnæðis. Greiningar á hvers konar form íbúðarhúsnæðis þurfi að byggja, m.a. með tilliti til þróunar á félagslegum, menningarlegum, tæknilegum og sjálfbærum þáttum.
  • Orkunýting og losun: Verkefni sem varða orkunýtingu og/eða losun gróðurhúsalofttegunda vegna mannvirkjagerðar.
  • Byggingargallar, raki og mygla: Greiningar á umfangi, orsökum og afleiðingum byggingargalla á Íslandi. Verkefni sem stuðla sérstaklega að aukinni þekkingu á raka- og mygluskemmdum í íslenskum mannvirkjum, samanburður og þróun aðferða við mælingar og mat á umfangi slíkra skemmda. Jafnframt hvernig unnt sé að fyrirbyggja þær og bregðast við þeim með árangursríkum hætti.
  • Tækninýjungar: Þróun tæknilegra lausna sem hafa einkum það markmið að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum mannvirkja og auka verðmætasköpun, hagræðingu, framleiðni og/eða samræmingu meðal hagaðila í byggingariðnaði.

Um fagráðið

Ráðherraskipað fagráð sá um að meta umsóknir í samræmi við áherslur á sviði nýsköpunar og atvinnulífs, veitti umsögn um styrkumsóknir og gerði tillögur til ráðherra um úthlutun styrkja. Í fagráðinu sátu eftirtaldir:

  • Olga Árnadóttir, fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, formaður ráðsins. Þórunn Sigurðardóttir, varafulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, leysti hana af að hluta.
  • Björn Karlsson, fulltrúi innviðaráðuneytisins
  • Guðríður Friðriksdóttir, fulltrúi háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins
  • Ólafur Pétur Pálsson, fulltrúi samstarfsnefndar háskólastigsins
  • Ingibjörg Birna Kjartansdóttir, fulltrúi Samtaka iðnaðarins 

Styrkþegar - yfirlit

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum byggingarefni:

Umsækjandi

Heiti verkefnis

Styrkfjárhæð

Kristján Friðrik Alexandersson /
Gerosion ehf.

AlSiment umhverfisvænt sementslaust steinlím

4.000.000

Háskólinn í Reykjavík

Umhverfisrannsókn á krosslímdum timbureiningum

1.500.000

Háskólinn í Reykjavík

Bætt vistvæni steinsteypu með minna sementi

4.000.000

Eyþór Rafn Þórhallsson / Háskólinn í Reykjavík

Bláþráður – umhverfisvæn styrking í steinsteypu

4.000.000

Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir /
Rockpore ehf.

Tugþúsunda tonna framleiðsla á umhverfisvænu byggingarefni í Jarðefnagarðinum

4.500.000

Neuza Isabel Da Silva Valadas / Háskóli Íslands

Climate-sustainable cities: Construction using carbon negative materials and regenerative methods

2.500.000

Gerosion ehf.

Nýir íslenskir sementsíaukar

4.000.000

Guðni Jónsson / EFLA

Samantekt leiðbeininga við verklag ytra eftirlits með steypustöðvum

1.500.000

Gústaf Adolf Hermannsson

Krosslímdar timbureiningar – áhættuþættir -meðhöndlun/leiðbeiningablað

2.000.000

Ólafur Haralds Wallevik / Háskólinn í Reykjavík

Hámörkun steinefna til að lækka kolefnisspor venjulegar og vistvænni steypu

4.000.000

Anna Kristín Karlsdóttir / Biobuilding ehf.

Fyrsta hampsteypuhúsið á Íslandi og framtíð iðnaðarhamps í mannvirkjagerð

3.000.000

Björt Ólafsdóttir / Iða ehf.

Hringrás auðlinda og lækkað kolefnisspor íslenskra bygginga

1.000.000

Alexandra Kjeld / Efla ehf.

Líftími byggingarefna á Íslandi

1.000.000

Rósa Dögg Þorsteinsdóttir

Vistbók - gagnabanki vistvænna byggingarefna á Íslandi

1.000.000

Samtals

 

38.000.000

 

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum gæði:

Umsækjandi

Heiti verkefnis

Styrkfjárhæð

Jónas Þór Snæbjörnsson

/ Háskólinn í Reykjavík

Vindálagsforsendur fyrir mannvirkjahönnun

 

5.000.000

Johanna Raudsepp / Háskóli Íslands

Where do all the happy people live?

2.000.000

Anna María Bogadóttir / Úrbanistan ehf.

Híbýlaauður

3.000.000

Anna Sigríður Jóhannsdóttir

Dagsbirtugæði í íbúðum og í íbúðabyggð við íslenskar aðstæður.

2.000.000

Auður Hreiðarsdóttir / Esja Architecture

Landsfjórðungahús

2.000.000

Hannes Frímann Sigurðsson /
Háskólinn í Reykjavík

Orsakir og úrlausnarefni vegna lágrar framleiðni íslensk byggingariðnaðar

2.000.000

Karl Kvaran

Hlutverk grænna svæða/rýma í íbúðabyggð, allt frá skipulagi til mannvirkjahönnunar

1.000.000

Samtals

 

17.000.000

 

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum orkunýting og losun:

Umsækjandi

Heiti verkefnis

Styrkfjárhæð

Jónas Þór Snæbjörnsson / Háskólinn í Reykjavík

Orkunotkun bygginga: Hönnuð nýtni og raunmælingar

4.000.000

Eiríkur Ástvald Magnússon / Ventum ehf.

Uppsetning á loftskiptakerfi á köldu svæði og áhrif á orkunotkun

2.000.000

Hallgrímur Örn Arngrímsson / Verkís

Sjálfbær stýring jarðefnaflutninga á höfuðborgarsvæðinu

3.500.000

Áróra Árnadóttir /
Grænni byggð

Kolefnishlutlaus bygging við íslenskar aðstæður skilgreind

2.000.000

Ásgeir Valur Einarsson / Iðan fræðslusetur

Loftþéttleikapróf bygginga

2.500.000

Matthías Ásgeirsson /
VSÓ ráðgjöf

Ávinningur af bættri orkunýtingu eldri bygginga

1.000.000

Valdimar Jónsson / Bjarkarlækur ehf.

Hringrásarhús - leiðarvísir til framtíðar

1.000.000

Samtals

 

16.000.000

 

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum byggingargallar, raki og mygla:

Umsækjandi

Heiti verkefnis

Styrkfjárhæð

Veðurvaktin ehf.

Rakaskemmdir og slagregn á höfuðborgarsvæðinu

5.000.000

Dóróthea Höeg Sigurðardóttir /
Háskóli Íslands

Þekking á rakaskemmdum í byggingum á norðurslóðum — samantekt / Moisture damage in buildings in cold climates: A literature review

2.500.000

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir / Efla hf.

Rakaástand bygginga, úttektir og mat á óhollustu, myglu og efnagjöf

3.000.000

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir /
SDS ráðgjöf

Loftskipti og loftræsting í grunnskólum

1.000.000

Ármann Halldórsson / Mannvirkjastofa ehf.

Skimun á örverum í ryki í innilofti

1.500.000

Samtals

 

13.000.000

 

Eftirfarandi verkefni hlutu styrki í flokknum tækninýjungar:

Umsækjandi

Heiti verkefnis

Styrkfjárhæð

Ásta Ósk Hlöðversdóttir / VSB Verkfræðistofa

Leiðbeiningar um hönnun blágrænna ofanvatnslausna

3.500.000

Ásta Ósk Hlöðversdóttir / VSB Verkfræðistofa

Hönnun og virkni regnvatnsgryfja

2.000.000

Vala Smáradóttir / Lauf

Græn skref í byggingariðnaði

2.500.000

Jóhannes Loftsson / Breather Ventilation

Þróun og prófun loftræstikerfis

1.000.000

Gautur Þorsteinsson / Cubit Building Company

Cubit Building Company. Ný byggingaraðferð.

1.000.000

Auður Ástráðsdóttir

How Lean BIM cal lean to green BIM in Iceland

1.000.000

Samtals

 

11.000.000

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra - mynd
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum