Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Evrópuár jafnra tækifæra sett hér á landi

Árið 2007 er Evrópuár jafnra tækifæra
Árið 2007 er Evrópuár jafnra tækifæra

Ísland tekur fullan þátt í Evrópuári jafnra tækifæra 2007.

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra setti árið hér á landi á ráðstefnu sem félagsmálaráðuneytið efndi til af þessu tilefni í Iðnó í dag. Jafnframt opnaði hann heimasíðu árs jafnra tækifæra undir sérvefjum á heimasíðu ráðuneytisins.

„Heildarfjárhæðir til verkefna frá íslenskum stjórnvöldum og Evrópusambandinu í tengslum við Evrópuár jafnra tækifæra nema um 23 milljónum króna“, sagði Magnús Stefánsson í setningarávarpi sínu. „Það er mín ósk að loknu Evrópuári jafnra tækifæra að fólk í íslensku samfélagi verði betur upplýst um mikilvægi fjölbreytileika, en í fjölbreytileikanum búa nánast ótakmörkuð tækifæri.“

Áhersla er lögð á að vekja almenning til vitundar um rétt allra til jafnra tækifæra í samfélaginu. Fordómar og misrétti hafi afdrifarík áhrif á þolendur og dragi jafnframt úr þeim frumkrafti samfélaga sem fylgir fjölbreytileika.

Þrátt fyrir að ákvæði í stjórnarskrám og löggjöf kveði á um að óheimilt sé að mismuna einstaklingum vegna kynhneigðar, trúar, kynþáttar, aldurs, kyns eða fötlunar sýna nýlegar rannsóknir að 64% Evrópubúa telja að einstaklingum sé mismunað vegna kynþáttar. Þegar spurt var hvort það væri ókostur að vera fatlaður töldu 79% svarenda að svo væri. Svipaða sögu er að segja um aðra hópa, hvort sem spurt var um trúarskoðun, aldur eða kynhneigð. Það er því mjög jákvætt að Evrópuárið 2007 sé helgað jöfnum tækifærum fyrir alla.

Félagasamtök og háskólar munu í samstarfi við íslensk stjórnvöld taka þátt í verkefnum ársins. Ýmsir atburðir verða skipulagðir til að vekja athygli á kostum fjölbreytileika samfélagsins og mannfólksins og hvar þörf sé á úrbótum svo allir njóti sömu tækifæra.

„Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki tímabundið verkefni sem stendur í eitt ár, árið 2007, heldur framtíðarverkefni sem við verðum öll að vinna að.“

Á ráðstefnunni í Iðnó var fjallað um áhrif mismununar og kosti jafnra tækifæra, Beate Gangås, umboðsmaður jafnræðis og mismununar í Noregi, flutti fróðlegan fyrirlestur um hlutverk embættisins og ýmis verkefni tengd árinu voru kynnt.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum