Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 23. - 29. nóvember 2002

Fréttapistill vikunnar
23. - 29. nóvember 2002


Samkomulag um úrskurðarnefnd sem fjallar um ágreiningsmál tannlækna og viðskiptavina þeirra

Neytendasamtökin og Tannlæknafélag Íslands hafa undirritað samkomulag um stofnun úrskurðarnefndar sem tekur til meðferðar ágreiningsmál milli tannlækna og viðskiptavina þeirra. Þrír fulltrúar sitja í nefndinni, einn frá hvorum aðila, auk oddamanns sem landlæknir tilnefnir. Þetta er sjöunda úrskurðarnefndin sem Neytendasamtökin standa að í samvinnu við samtök seljenda. Tilgangurinn er einfaldur, að tryggja neytendum skjóta og ódýra leið utan dómstóla til að sækja rétt sinn gagnvart seljendum. Þess vegna þjóna úrskurðarnefnirnar mikilvægu verkefni til að tryggja neytendum aukna vernd. Neytendur eru hvattir til að nýta sér þessa leið telji þeir þess þörf.
NÁNAR...

Ný reglugerð um greiðsluþátttöku TR vegna læknismeðferðar psoriasis- og exemsjúklinga á meðferðarstofnunum
Sett hefur verið reglugerð um það hvernig Tryggingastofnun ríkisins kemur til móts við psoriasis- og exemsjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita sér læknishjálpar á meðferðastofnunum og eiga rétt á endurgreiðslum frá TR. Reglugerðin kemur í stað reglna sem tryggingaráð setti og hefur hún þegar tekið gildi.
REGLUGERÐIN...

Fjölgun skurðaðgerða á Landspítala - háskólasjúkrahúsi
Skurðaðgerðum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hefur fjölgað um 10,4% frá síðasta ári samkvæmt stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir janúar til október 2002, en stefnt hafði verið að a.m.k. 10% fjölgun aðgerða á árinu. Skurðaðgerðum hefur fjölgað í öllum sérgreinum utan brjóstholsskurðlækninga en biðlisti eftir þeim aðgerðum er mjög stuttur. Jafnvægi er á biðlistum eftir skurðaðgerðum í öllum sérgreinum sjúkrahússins nema í almennum skurðlækningum, augnlækningum og bæklunarlækningum. Í þeim greinum þarf enn að auka afköst svo ná megi þeim biðlistum í viðunandi horf. Í greinargerð Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga er einnig fjallað um sameiningu sérgreina á LSH sem staðið hefur yfir frá byrjun síðasta árs og reiknað er með að ljúki að mestu um mitt næsta ár. Fram kemur að fjárhagslegt hagræði hafi náðst með sameiningu sérgreina, svo sem með lægri stjórnunarkostnaði og lægri kostnaði vegna yfirvinnu. Anna Lilja segir árangurinn sjást best á því að þrátt fyrir aukinn kostnað við endurnýjun deilda hafi heildarkostnaður við rekstur spítalans á föstu verðlagi lækkað um 0,6% frá árinu 1999 - 2000 og um 1,2% frá 2000 - 2001. Aftur á móti er útlit fyrir hækkun heildarkostnaðar á þessu ári. Ástæður þess eru í fyrsta lagi veruleg hækkun launatengdra gjalda vegna aukinnar þátttöku starfsmanna sjúkrahússins í séreignarsjóðum. Í öðru lagi vegna kostnaðar sjúkrahússins af stofnanasamningum og samræmingu launakjara við sameiningu sérgreina og í þriðja lagi vegna fjölgunar skurðaðgerða. Loks er talin aukin starfsemi vegna sjúklinga sem lokið hafa meðferð en ekki er unnt að útskrifa vegna skorts á úrræðum utan sjúkrahússins.
NÁNAR...

Breytt fyrirkomulag við ákvörðun um rétt til lífeyrisgreiðslna og fjárhæð þeirra
Alþingi hefur breytt lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð.  Samkvæmt breytingunni ber nú að áætla tekjur ársins framundan og greiða lífeyri samkvæmt þeirri áætlun, en gera greiðslurnar upp þegar endanlegar upplýsingar um tekjur viðkomandi árs liggja fyrir.  Markmiðið með þessu er að fækka þeim tilvikum þar sem þarf að leiðrétta greiðslur og því mun þetta verða til hagsbóta og þæginda, ekki síst fyrir lífeyrisþega. Frá þessu er sagt á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur sent bréf til allra lífeyrisþega þar sem nánar er skýrt frá ofangreindum breytingum.
NÁNAR...

Samstarf LSH og FSA um að stytta bið sjúklinga eftir sjúkrahúsþjónustu
Landspítali - háskólasjúkrahús (LSH) og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) undirrituðu í vikunni víðtækan samstarfssamning sem miðar að því að styrkja uppbyggingu beggja sjúkrahúsanna í heilbrigðisþjónustu, kennslu og rannsóknum. Meðal þess sem sjúkrahúsin ætla að hafa samvinnu um eru aðgerðir til að stytta bið sjúklinga eftir þjónustu. Liður í því eru áform um að hafa upplýsingar á vefsíðum beggja sjúkrahúsa þar sem fram komi hve margir bíði tiltekinnar meðferðar. Upplýsingar um biðlista verði þannig öllum aðgengilegar og sjúklingar geti leitað eftir þjónustu þar sem biðtími er styttri.
NÁNAR UM SAMSTARFSSAMNING SJÚKRAHÚSANNA...

Auknum endurgreiðslum tannlækniskostnaðar til sjúklinga flýtt

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka gildandi gjaldskrá vegna endurgreiðslu tannlækniskostnaðar um 20% frá og með 1. desember n.k. og flýta með því boðaðri aukningu endurgreiðslna til sjúklinga. Samskiptasamningur Tryggingastofnunar ríkisins og Tannlæknafélags Íslands tekur gildi sama dag, en samninganefndir tannlækna og heilbrigðismálaráðherra náðu samkomulagi um nýjan samning aðila fyrir skemmstu. Ný og gjörbreytt gjaldskrá sem var hluti af fyrrgreindum samskiptasamningi kemur svo í stað gildandi gjaldskrár um áramótin. Þegar sú gjaldskrá verður tekin upp hafa endurgreiðslur vegna tannlæknakostnaðar hækkað um 22% frá því sem var fyrir gerð samskiptasamningsins. Þann 1. desember tekur einnig gildi ný reglugerð um tannlækningar sem eykur umtalsvert réttindi sjúklinga til tannlæknisþjónustu. Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru að nú er gefin heimild til greiðslu implanta, eða ígræði, til lífeyrisþega, þegar um gómasmíði er að ræða, svo og til greiðslu fyrir plantagóma, sem á implantana koma. Þá verður samþykkt að endurgreiða 80% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá ráðherra af alvarlegum tannskemmdum, sem leiða af skertri munnvatnsframleiðslu af völdum geislameðferðar, Sjögrenssjúkdóms eða lyfja. Enn fremur verða endurgreiðslur hækkaðar í 95% af gjaldskrá ráðherra þegar um er að ræða skarð í vör eða gómi sem leiðir til tannskekkju.
NÁNAR...

Frumvörp að lagabreytingum í framhaldi af tillögum samstarfshóps um málefni eldri borgara

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 117/1993 og frumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Frumvörpin eru samin í framhaldi af tillögum samstarfshóps um málefni aldraðra sem falið var að koma með hugmyndir að leiðum til að bæta aðstæður og lífskjör aldraðra á næstu tveimur til þremur árum. Frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar fjallar um hækkun tekjutryggingar og tekjutryggingarauka frá Tryggingastofnun ríkisins um fram árlega hækkun þessara bóta. Jafnframt verður dregið úr skerðingu tekjutryggingarauka vegna annarra tekna. Frumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra fjallar um eflingu Framkvæmdasjóð aldraðra.
NÁNAR...

Ráðstefna um heilsueflingu í skólum verður haldin 6. desember
Ráðuneyti heilbrigðis- og menntamála auk landlæknisembættisins standa fyrir ráðstefnu um heilsueflingu í skólum föstudaginn 6. desember. Á ráðstefnunni verður kynnt þróunarverkefnið Heilsuefling í skólum sem unnið hefur verið að undanfarin þrjú ár. Þróunarverkefnið er liður í í viðamiklu samstarfsverkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, Evrópuráðsins og Evrópusambandsins; European Network of Health Promoting Schools sem yfir fjörutíu þjóðir eru þátttakendur í. Markmiðið er að virkja skóla, foreldra og aðra í samfélaginu til að efla góð mannleg tengsl, stuðla að bættri heilsu, aukinni sjálfsvirðingu og heilbrigðari lífsháttum alla ævi. Eitt af meginmarkmiðum með ráðstefnunni er að sýna fram á hve samstarf foreldra og skóla, auk þátttöku nemendanna sjálfra er mikilvægt til að efla heilsu og vellíðan barnanna jafnt í skólanum sem utan hans. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna, dagskrá o.fl. er að finna á heimasíðu landlæknisembættisins.
NÁNAR...

Hjálparsími Rauða krossins - sími 1717
Hjálparsími Rauða krossins tók til starfa í vikunni, með númerið 1717. Fulltrúar Rauða kross Íslands, Landlæknisembættisins, Neyðarlínunnar og geðsviðs Landspítala háskólasjúkrahúss skrifuðu undir samkomulag um aðkomu þessara aðila að rekstri Hjálparsímans. Síminn verður opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda vegna depurðar, kvíða, þunglyndis eða sjálfsvígshugsana. Hjálparsímanum er ætlað að vera haldreipi fólks í bráðu eða miklu sálarstríði, að sögn Sigurðar Guðmundssonar landlæknis, úrræði sem er til þess hugsað að "bæta líðan, efla lífslöngun og vonandi geta bjargað lífi."
NÁNAR...

Skortur á blóði hjá Blóðbankanum - óskað eftir nýjum blóðgjöfum
Óvenjumikil þörf hefur verið fyrir blóð hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi að undanförnu og var blóðnotkun í síðustu viku tvöfalt meiri en venjulega. Miklar og flóknar aðgerðir sköpuðu fyrirvaralítið þörf fyrir rauðkorn, blóðvökva og blóðflögur. Um síðustu helgi fóru varabirgðir Blóðbankans niður fyrir 400 einingar af rauðkornum en leitast er við að eiga um 600 einingar af þeim varabirgðum. Blóðbankinn hefur auglýst eftir blóðgjöfum að undanförnu og hefur almenningur brugðist vel við og streymt inn til að gefa blóð. Áhersla hefur verið lögð á að fá núverandi blóðgjafa til að gefa blóð til að bregðast við neyðarástandi. Blóðbankinn biður hins vegar nýja blóðgjafa um að koma eftir helgina en taka þarf blóðsýni til blóðflokkunar og veiruskimunar við fyrstu komu.
BLÓÐBANKINN...




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
29. nóvember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum