Hoppa yfir valmynd
13. desember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 7. - 13. desember 2002

Fréttapistill vikunnar
7. - 13. desember 2002


Ný heilsugæslustöð boðin út í Kópavogi

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að bjóða út rekstur nýrrar heilsugæslustöðvar í Salahverfi í Kópavogi. Gert er ráð fyrir að stöðin verði tekin í notkun síðla árs 2003. Rekstur af þessu tagi hefur ekki verið boðinn út áður. Ýmsar nýjungar eru í útboðinu. Það er helst að þeir sem taka að sér rekstur heilsugæslustöðvarinnar geta hagað stjórnun og rekstri svo sem þeir telja heppilegast á grundvelli þeirra laga sem um starfsemina gilda. Samningurinn sem gerður verður um reksturinn er við heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið, sem ber ábyrgð á eftirliti með starfsemi stöðvarinnar. Faglegt eftirlit er lögum skv. á hendi landlæknisembættisins en ráðuneytið mun sjá um fjárhagslegt eftirlit. Í útboðinu felst að ráðuneytið leggur þeim, sem tekur að sér reksturinn, tekjugrundvöll og eru tekjurnar að hluta til afkastatengdar. Útboðið verður auglýst um helgina, fyrirhugað er að halda kynningarfund með þeim sem bjóða í reksturinn í byrjun janúar, en skilafrestur er til 30. janúar n.k.
NÁNAR...

Hlutfall af þátttöku sjúklinga í meðferðarkosntaði vegna glasafrjóvgunar fer lækkandi
Sértekjur glasafrjóvgunardeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss vegna greiðsluþátttöku sjúklinga í meðferð var 60,9 % árið 2000, 59,4% árið 2001 og 57,0% árið 2002 og hefur þannig lækkað nokkuð á tímabilinu. Þetta kemur fram í skriflegu svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á Alþingi í vikunni. Þar segir einnig að sé litið til síðustu þriggja ára greiði sjúklingar að meðaltali um 60% af meðferðarkostnaði, um 30% ef lyf vegna meðferðanna eru tekin með, þ.e. svipað hlutfall og sjúklingar greiða vegna komu til sérfræðilækna. Þetta hlutfall getur verið mjög misjafnt eftir þeim sem í hlut eiga. Þar hafa áhrif þættir eins og flókin verðskrá, mismunandi lyfjanotkun þrátt fyrir að um sömu meðferð sé að ræða og sú staðreynd að einstaklingar geta verið að fara á milli meðferða.
SVAR RÁÐHERRA...

Heimilisuppbót hækkar 1. janúar
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 595/1997 um heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Samkvæmt breytingunni hækkar upphæð óskertrar heimilsuppbótar úr kr. 16.434 kr. á mánuði í 16.960 kr. á mánuði. Heimilt er að greiða einhleypingi heimilisuppbót njóti hann óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Einnig er heimilt að greiða skerta heimilisuppbót þeim sem á rétt á skertri tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar og er það gert samkvæmt ákveðnum reglum. Reglugerðin verður birt á heimasíðu ráðuneytisins samtímis því að hún birtist í Stjórnartíðindum.

Nefnd um óhefðbundnar lækningar
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og bera hana saman við stöðu þessara mála annars staðar á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og í Bandaríkjunum. Með óhefðbundnum lækningum er átt við nálastungumeðferð, smáskammtalækningar, lið- og beinskekkjulækningar, nudd o.fl. Formaður nefndarinnar er Guðmundur Sigurðsson, læknir.
NEFNDIN...

Fjölþjóðleg rannsókn á öndunarfærasýkingum og sýklalyfjaónæmi
Starfsmenn sýklafræðideildar LSH, Barnaspítala Hringsins og Landlæknisembættisins eru virkir þátttakendur í stórri fjölþjóða rannsókn sem styrkt er af Evrópusambandinu og RANNÍS. Markmið rannsóknarinnar er að draga úr öndunarfærasýkingum á leikskólum og sýklalyfjaónæmi pneumókokka í börnum á leikskólum. Rannsóknin hófst í september 2000 og lýkur í september 2003.

Félag gegn offitu
Stofnað var í gær (12. des) félag fagfólks í heilbrigðisþjónustu gegn offitu. Í tenglum við stofnun félagsins var efnt til málþings um offitu þar sem Sigurður Guðmundsson, landlæknir flutti ávarp, Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur velti fyrir sér ástæðu þess að offita eykst og eykst og Ludvig Guðmundsson ræddi um á hvaða hátt offita er vandamál sem heilbrigðisþjónustan þarf að láta sig varða.

Nýjar reglugerðir um lyfjamál
Athygli er vakin á því að tekið hefur gildi ný reglugerð nr. 850/2002 um skömmtun lyfja. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 493/1999 um skömmtun í lyfjaöskjur. Eldri leyfi, samkvæmt 4. gr. reglugerðar um skömmtun í lyfjaöskjur, halda gildi sínu. Þó skulu þeir sem fengið hafa leyfi samkvæmt eldri reglugerð og hyggjast halda starfseminni áfram aðlaga starfsemi sína að ákvæðum þessarar reglugerðar innan eins árs frá gildistöku hennar. Þá hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðfest reglugerð nr. 843/2002 um breytingu á reglugerð nr. 111/2002 um gerð lyfseðla og ávísun lyfja.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
13. desember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum