Hoppa yfir valmynd
20. desember 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 14. - 20. desember 2002

Fréttapistill vikunnar
14. - 20. desember 2002


Endurbyggingu húsnæðis heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga að fullu lokið

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, afhjúpaði í dag kl. 16:00 nýtt útilistaverk við Heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga þegar vígt var nýtt og endurbætt húsnæði stofnunarinnar. Verkið er "Tungukots – Móri" eftir Ólöfu Nordal myndlistarmann. Tungukots – Móri var þekktur forystusauður á Vatnsnesi á fyrri hluta síðustu aldar og er m.a. fjallað um hann í bókinni Forystufé eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp. Frá árinu 1992 hafa staðið yfir gagngerar endurbætur á eldra húsnæði Heilbrigðisstofnunarinnar á Hvammstanga með tilheyrandi viðbyggingu. Nú er þessum framkvæmdum að fullu lokið. Nýtt þjónustuhús sem er um 750 fm að gólffleti er risið, allt eldra húsnæði endurbyggt og sömuleiðis hefur verið gengið endanlega frá lóð stofnunarinnar á myndarlegan hátt. Var þessum áfanga í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á Hvammstanga fagnað vel í dag.Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar styður stofnun samstarfsmiðstöðvar á sviði mænuskaða á Íslandi
Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar hefur lýst yfir stuðningi sínum við að komið verði á fót hérlendis sérstakri samstarfsmiðstöð á sviði mænuskaða. Þetta kemur fram í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn um málið á AlÞingi nýlega. Meðal verkefna væri uppbygging gagnagrunns um mænuskaða hér á landi og hefur þegar verið sótt um fjárframlag til fjárlaganefndar Alþingis til að hefja verkefnið á næsta ári. Í júní árið 2001 var haldin alþjóðleg ráðstefna hér á landi um mænuskaða og meðhöndlun hans með þátttöku um 50 sérfræðinga víðs vegar að úr heiminum. Töldu þátttakendur mikilvægt að koma á fót gagnagrunni um mænuskaða til að styðja lækna og aðra vísindamenn í að koma á framfæri þekkingu um mænuskaða. Í framhaldi af ráðstefnunni skrifaði Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, Gro Harlem Brundtland og gerði henni grein fyrir helstu niðurstöðum ráðstefnunnar. Svarbréf frá Brundtland barst ráðherra fyrir nokkrum dögum þar sem hún lýsir yfir stuðningi sínum við að koma á fót á Íslandi sérstakri samstarfsmiðstöð til stuðnings aðgerðum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar á heimsvísu á sviði mænuskaða. Meðal verkefna miðstöðvarinnar væri uppbygging gagnagrunns um mænuskaða og að vera tengiliður um alþjóðlegar rannsóknir. Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur rætt við forsvarsmenn Landspítalans um hvernig spítalinn geti tekið þátt í þessu starfi og hefur ráðuneytið beðið spítalann að kanna forsendur fyrir því að koma á laggirnar áður nefndum alþjóðlegum gagnagrunni. Sótt hefur verið um fjárframlag til fjárlaganefndar Alþingis til þess að hefja verkefnið og því er það í höndum þingsins hvort ráðist verður í verkefnið á næsta ári. Ekki liggja fyrir loforð frá Evrópuráðinu, Alþjóða heilbrigðisstofnuninni né öðrum aðilum um að styðja verkefnið fjárhagslega.
SVAR RÁÐHERRA...

Rekstur Landspítala - háskólasjúkrahúss tæpar 900 milljónir króna umfram fjárheimildir á árinu
Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir janúar - nóvember liggur fyrir og er birt í nýjustu Stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins. Þar kemur fram að rekstraruppgjör eftir fyrstu ellefu mánuði ársins er 899 m.kr. umfram fjárheimilidir sem er 4,2% frávik frá fjárheimildum tímabilsins. Þetta er í samræmi við útkomuspá ársins. Tekið hefur verið tillit til fjáraukalaga að hluta til í milliuppgjörinu þannig að fjárheimild til greiðslu fyrir S-merkt lyf er aukin og því ekki halli á þeim lið. Einnig hefur verið tekið tillit til greiðslna á frítökurétti lækna. Uppsafnaður halli fyrri frá var einnig gerður upp. Í greinargerð Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra er rakin margvísleg þjónusta sem fram fer á sjúkrahúsinu: ,,Sem dæmi má nefna að iðjuþjálfar spítalans hafa veitt rúmlega 2.000 sjúklingum um 18.000 meðferðir á árinu, sjúkraþálfar hafa veitt rúmlega 91.000 meðferðir, sjúkrahústengd heimaþjónusta hefur farið í rúmlega 4.400 vitjanir, næringarráðgjafar hafa veitt tæplega 600 viðtöl og prestar og djáknar spítalans hafa sinnt tæplega 7.000 verkefnum s.s. sálgæslusamtölum, handleiðslu, fjölskyldufundum og helgistundum.
NÁNAR...

Viðurkenning fyrir árangur í meistaranámi í hjúkrun við Háskóla Íslands
Margrét Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, var veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur í hjúkrun við Háskóla Íslands en hún hlaut ágætiseinkunn í meistaranámi sínu. Viðurkenningin var veitt á ársfundi Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði 18. desember. Viðurkenningin er veitt úr sjóði Marjorie og John White. Marjorie White, er prófessor emerita við Florida háskóla en hún var Fullbright prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands haustið 1999. Hún óskaði eftir því að hluta af launum hennar við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands yrði varið til að veita viðurkenningu fyrir bestan námsárangur meistaranema úr þeim hún hópi sem hún kenndi. Því var stofnaður að hennar ósk "Marjorie og John White" sjóður sem veitir nú viðurkenninguna. Meistaraprófsritgerð Margrétar fjallar um mælingar á ánægju sjúklinga með heilbrigðisþjónustuna og fólst verkefni hennar í að prófa sænskt mælitæki, Mini-KUPP, við íslenskar aðstæður. Þetta kerfi hefur verið þróað og notað í átta ár í Svíþjóð. Hægt er að laga það að mismunandi tegundum heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið undirbýr nú landskönnun á ánægju sjúklinga og verður þar byggt á sænska mælitækinu.
NÁNAR...

Upplýsingar um starfsemi sjúkradeilda Landspítala - háskólasjúkrahúss um jól og áramót
Á heimasíðu Landspítala - Háskólasjúkrahúss eru birtar upplýsingar um breytta starfsemi sjúkradeilda sjúkrahússins um jól og áramót 2002/2003.
NÁNAR...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
13. desember 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum