Hoppa yfir valmynd
23. maí 2003 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 7/2002:

 

A

gegn

Seltjarnarneskaupstað

 

--------------------------------------------------------------

           

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 23. maí 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með bréfi dags. 19. september 2002, sem barst kærunefnd jafnréttismála 26. september sama ár, óskaði B hrl., f.h. kæranda, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort mismunandi launagreiðslur til kæranda sem skólastjóra E-skóla og skólastjóra F-skóla, bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæruefnið lýtur að tímabilinu frá 1998 til og með 2001.

Kæran var kynnt kærða með bréfi, dags. 28. október 2002. Var með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem starfa sem skólastjórar við grunnskóla Seltjarnarneskaupstaðar, hvaða viðmið sveitarfélagið hafi til hliðsjónar við röðun skólastjóra í launaflokka svo og annað það sem bærinn teldi til upplýsinga fyrir málið í heild.

Sjónarmið kæranda voru reifuð frekar með bréfum lögmanns kæranda, B, hrl., dags. 6. janúar 2003, 18. febrúar 2003 og 4. apríl 2003.

Seltjarnarneskaupstað var gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið. Komu athugasemdir kaupstaðarins í bréfi bæjarstjóra Seltjarnarneskaupstaðar dags. 3. desember 2002 og síðan í bréfum D hdl. f.h. Seltjarnarneskaupstaðar, dags. 28. janúar 2003, 12. mars 2003 og 30. apríl 2003.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II

Málavextir

Kærandi hóf störf í september 1995 sem skólastjóri E-skóla á Seltjarnarnesi. Á Seltjarnarnesi eru tveir grunnskólar starfandi, E-skóli og F-skóli. Kærandi gerði kröfur um að laun hennar og laun skólastjórans við F-skóla, karlmanns, yrðu borin saman frá árinu 1998 til og með ársins 2001. Telur kærandi sig eiga rétt á leiðréttingu launa á framangreindu tímabili þar sem hún hafi haft lægri laun en karlkyns skólastjóri F-skóla.

Nýr kjarasamningur Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga tók gildi 31. ágúst 2001. Þá voru fastar viðbótargreiðslur skólastjóra teknar inn í þeirra grunnlaun. Grunnlaun skólastjóra miðast við starfsaldur og stærð skóla. Í E-skóla eru u.þ.b. 450 nemendur og u.þ.b. 300 í F-skóla. Fyrir liggur að sjöundi bekkur var fluttur frá E-skóla til F-skóla árið 2000, en fyrir þann tíma voru u.þ.b. 200 nemendur í F-skóla og u.þ.b. 500 í E-skóla. 

Þann 16. maí 2002 tóku forsvarsmenn Seltjarnarneskaupstaðar þá ákvörðun að bjóða kæranda X krónur og þar með gera upp þann mun sem verið hefði á launakjörum skólastjóra bæjarins skólaárið þar á undan. Lögmaður kæranda sendi Seltjarnarneskaupstað bréf, dags. 27. maí 2002, þar sem fram kom að kærandi teldi sig á engan hátt sátta við einhliða uppgjör Seltjarnarneskaupstaðar. Jafnframt liggur fyrir að bréf þetta var síðar afturkallað af lögmanni kæranda, eða hinn 31. maí 2002. Samkvæmt gögnum málsins undirritaði kærandi yfirlýsingu, dags. 3. júní 2002, þar sem fram kemur að hún hafi móttekið X krónur frá bæjarsjóði Seltjarnarness og lýsti því jafnframt yfir að „um frekari málarekstur vegna jafnréttis og yfirvinnu yrði ekki að ræða“.

Með bréfi lögmanns kæranda dags. 9. júlí 2002 kom fram að kærandi hefði ákveðið að taka við ofangreindri greiðslu, þrátt fyrir að kærandi teldi sig ekki sátta við þá útreikninga sem greiðsla Seltjarnarneskaupstaðar byggðist á. Í bréfinu var jafnframt tilkynnt að kærandi hygðist láta reyna á rétt sinn til launaleiðréttinga vegna fyrri ára. Með bréfi Seltjarnarneskaupstaðar dags. 12. september 2002 var kröfu kæranda hafnað og því lýst yfir að yfirlýsing kæranda teldist í fullu gildi.

 

III

Sjónarmið kæranda

Í bréfi kæranda, dags. 18. september 2002, kemur fram að kærandi telji sig sem skólastjóra E-skóla á Seltjarnarnesi hafa haft lægri laun en karlkyns skólastjóri F-skóla í sama sveitarfélagi. Í bréfi lögmanns kæranda dags. 6. janúar 2003, er fallið frá athugasemdum og kæru vegna launamunar áranna 1996-1997, þannig að málið snýst eingöngu um launamun skólastjóra F-skóla og E-skóla árin 1998 til og með árinu 2001.

Kærandi greinir frá því að hún hafi starfað sem skólastjóri E-skóla frá árinu 1995. Í sama bréfi greinir hún frá því að í E-skóla sé nemendafjöldi 460 í 1.-6. bekk og þegar mest hafi verið hafi þeir verið 560. Í F-skóla hafi nemendur verið 310 í 7.-10. bekk. Kennarar og annað starfsfólk í E-skóla hafi verið 75, en í F-skóla hafi verið 42 kennarar og annað starfsfólk.

Kærandi kveðst fá laun samkvæmt kjarasamningi Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Nýr kjarasamningur hafi tekið gildi 31. ágúst 2001. Fram að þeim tíma hafi skólastjórar fengið ýmsar aukagreiðslur til viðbótar föstum launum. Launin miðist við starfsaldur og stærð skóla. Við gildistöku framangreinds kjarasamnings frá 1. janúar 2001 hafi fastar viðbótargreiðslurnar reiknast inn í grunnlaun. Kærandi kveðst fá laun samkvæmt launaflokki Y og að hluti af hennar launum sé vegna heilsdagsskóla og vegna forfallakennslu. Skólastjóri F-skóla inni hvorki af hendi vinnu vegna heilsdagsskóla né hafi hann verið með forfallakennslu. Kærandi mótmælir því sem fram kemur hjá Seltjarnarneskaupstað að henni sé raðað tveimur launaflokkum hærra en hún eigi rétt á.

Í bréfi, dags. 6. janúar 2003 frá lögmanni kæranda kom fram að grunnlaun kæranda séu hærri en skólastjóra F-skóla þar sem þau miðist við aldur og nemendafjölda. Kæran lúti ekki að grunnlaunum heldur þeim yfirvinnugreiðslum sem sveitarfélagið hafi samið um við skólastjóra. Þannig hafi mismunur í launagreiðslum falist í því að skólastjóri F-skóla hafi fengið Z klst. á mánuði í yfirvinnu en kæranda hafi verið boðnar V klst. á mánuði í yfirvinnu.

Greint er frá því að bæjarstjórn Seltjarnarneskaupstaðar hafi tekið þá ákvörðun að segja upp fastri mánaðarlegri yfirvinnu þann 27. apríl 2001. Þann 30. nóvember 2001 kveðst kærandi hafa beint erindi til jafnréttisnefndar Seltjarnarness. Því hafi ekki verið svarað efnislega, en henni hafi verið bent á kæruleið skv. 4. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærandi skýrir frá því að forsvarsmenn Seltjarnarneskaupstaðar hafi á fundi hinn 16. maí 2002 tekið ákvörðun um að greiða henni X krónur með það í huga að gera upp launamun sem hefði verið á launum skólastjóra bæjarins síðastliðið skólaár. Með bréfi frá lögmanni kæranda dags. 9. júlí 2002 hafi fyrirvarar verið gerðir við greiðsluna um að hún væri einhliða ákvörðuð af sveitarfélaginu og að útreikningur launa væri ekki í samræmi við kjarasamning. Áskilinn hafi verið réttur til að sækja rétt kæranda aftur til ársins 1996. Samhliða var óskað eftir upplýsingum um launakjör skólastjóra F-skóla, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi Seltjarnarneskaupstaðar dags. 12. september 2002.

Kærandi telur að stöður skólastjóra E-skóla og F-skóla hafi verið sambærilegar og staða sín hafi síst verið ábyrgðarminni en staða skólastjóra F-skóla. Sú staðreynd að henni hafi verið greidd lægri laun en skólastjóra F-skóla helgist af kynjamun. Þetta hafi gerst þrátt fyrir að E-skóli sé stærri skóli hvað varðar nemendafjölda, starfslið og fjárheimildir. 

Kærandi telur sveitarfélagið á vissan hátt hafa viðurkennt skyldu sína með því að greiða mismun á launum hennar og skólastjóra F-skóla fyrir skólaárið, þ.e. 2001-2002. Í bréfi lögmanns kæranda dags. 6. janúar 2003, kom fram að sveitarfélagið hafi neitað að greiða kæranda launamun fyrir skólaárið 2001-2002 sem sannanlega hafi verið á launum hennar og skólastjóra F-skóla, nema að hún afsalaði sér frekari rétti sínum. Kærandi heldur því fram að hún hafi undirritað umrædda yfirlýsingu á röngum forsendum og að hún telji sig á engan hátt bundna við þau skilyrði sem þar voru sett voru fram af hálfu sveitarfélagsins með yfirlýsingu bæjarins dags. 3. júní 2002. 

Kærandi telur því á sér brotið skv. 4. gr. laga nr. 28/1991, sbr. nú 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000 og 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 69. gr. samnings aðildarríkja hans.

  

IV

Sjónarmið kærða

Seltjarnarneskaupstaður byggir á því að kærandi hafi með undirritun yfirlýsingar dags., 3. júní 2002 sem gerð var eftir viðræður Seltjarnarneskaupstaðar og hennar samþykkt að með viðtöku greiðslu að upphæð X krónur væri lokið uppgjöri vegna munar, sem var á launum hennar og launum skólastjóra F-skóla. Einnig hafi hún, eins og fram kemur í yfirlýsingunni, samþykkt að um frekari málarekstur yrði ekki að ræða af hennar hálfu eftir að laun hennar hafi verið leiðrétt að fullu með framangreindri greiðslu. Þannig liggi fyrir fullnaðaruppgjör og samkvæmt því verði ekki séð í hverju hlutverk kærunefndar jafnréttismála sé fólgið eða hvaða þýðingu úrlausn nefndarinnar kunni að hafa, a.m.k. á meðan kærandi hafi ekki leitað úrlausnar dómstóla varðandi ávirðingar þær sem hún ber á Seltjarnarneskaupstað og eftir atvikum ógildingu fullnaðaruppgjörs.

Í bréfi dags. 28. janúar 2003 greinir Seltjarnarneskaupstaður frá því að mismunandi yfirvinnugreiðslur skólastjóranna hafi einungis náð til haustannar 2001 og vorannar 2002. Í kjölfar gildistöku kjarasamnings sem undirritaður var 9. janúar 2001 hafi yfirvinnugreiðslum verið sagt upp og kom sú uppsögn til framkvæmda þann 1. júní 2002. 

Sveitarfélagið mótmælir því harðlega að það hafi á vissan hátt viðurkennt skyldu sína með því að gera upp við hana mismun á launum hennar og skólastjóra F-skóla fyrir skólaárið 2001-2002. Greint er frá því í bréfi sveitarfélagsins, dags. 3. desember 2002 að forsenda uppgjörsins hafi verið sú að báðum skólastjórunum hafi verið sagt upp aukagreiðslum í kjölfar gildistöku kjarasamnings Skólastjórafélags Íslands og launanefndar sveitarfélagsins og þeim boðinn nýr samningur sem hafi falið í sér hækkun á launum beggja. Kærandi hafi hafnað tilboðinu en skólastjóri F-skóla hafi tekið því. Í framhaldi af því hafi þáverandi bæjarstjóri átt viðræður við kæranda og síðar lögmann hennar og hafi orðið samkomulag um uppgjör vegna liðins tíma sem hafi falið í sér greiðslu samkvæmt framangreindu. 

Seltjarnarneskaupstaður kveður munnlegt samkomulag við kæranda hafa verið handsalað, en síðan hafi borist bréf frá lögmanni kæranda dags. 27. maí 2002, þar sem uppgjörinu hafi verið mótmælt. Bréf lögmannsins hafi síðan verið afturkallað með skriflegum hætti hinn 31. maí 2002. Ætla verði að það hafi verið gert í samráði við kæranda. Hafi kærandi síðan staðfest samkomulagið með undirritun sinni á yfirlýsingu dags. 3. júní 2002 og með móttöku greiðslunnar. 

Telur Seltjarnarneskaupstaður að vegna ofangreinds samkomulag aðila, sem ekki hafi verið hnekkt, falli mál þetta utan verkahrings kærunefndar jafnréttismála.

Seltjarnarneskaupstaður byggir jafnframt á því að meta verði heildstætt forsendur launagreiðslna en taka verði sérstakt tillit til þess að um ólíka skóla hafi verið að ræða og áherslur mismunandi. Sveitarfélagið hafi um það ákvörðunarvald á hvern hátt einstakir þættir að þessu leyti séu metnir til launa.

 

V

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála fjalli um og taki afstöðu til þess hvort mismunandi launagreiðslur til hennar og skólastjóra F-skóla á tímabilinu 1998 til og með 2001, brjóti gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, en rétt er að taka fram að undir rekstri málsins hjá kærunefnd lýsti kærandi því yfir að kæra sín tæki ekki til meints launamunar á tímabilinu frá 1995 til 1997.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd sömu laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum, sbr. 3. mgr. 14. gr., er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismunun.

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að mismunun skal atvinnurekandi sýna fram á að hún skýrist af öðrum þáttum en kynferði.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 96/2000 er það verkefni kærunefndar jafnréttismála að taka til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Telji kærunefnd jafnréttismála að slíku broti sé til að dreifa, „og skal hún þá beina rökstuddum tilmælum um úrbætur til hlutaðeigandi aðila“, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna.

Fyrir liggur í máli þessu, að í kjölfar viðræðna aðila vegna kröfu kæranda um leiðréttingu launa, bauð Seltjarnarneskaupstaður kæranda greiðslu sem að mati kaupstaðarins fól í sér að ekki yrði um „frekari málarekstur vegna jafnréttis og yfirvinnu“ að ræða, sbr. áritaða yfirlýsingu, dags. 3. júní 2002. Af gögnum málsins má ráða að nokkur ágreiningur kann að vera um tildrög og forsendur ofangreinds samkomulags. Þannig liggur fyrir að með bréfi lögmanns kæranda, dags. 27. maí 2002, var því lýst yfir að kærandi teldi sig á engan hátt sátta við það einhliða uppgjör sem boðið hafi verið á fundi málsaðila hinn 16. maí 2002 og að kærandi hefði haft ýmislegt við það að athuga. Ómótmælt er að ofangreint bréf, dags. 27. maí 2002, hafi verið afturkallað með skriflegri áritun hinn 31. maí sama ár. Var tilvísuð yfirlýsing, dags. 3. júní 2002 undirrituð af hálfu kæranda í beinu framhaldi af framangreindri afturköllun og umrædd greiðsla móttekin án sérstaks fyrirvara. 

Af hálfu Seltjarnarneskaupstaðar er litið svo á að með umræddri yfirlýsingu, dags. 3. júní 2002, hafi náðst fullt samkomulag milli málsaðila varðandi meinta launamismunun og jafnframt að kærandi hafi þar með lýst því yfir að ekki væri um að ræða frekari ágreining milli aðila að því er varðar meint jafnréttisbrot. Á þetta sjónarmið er ekki fallist af hálfu kæranda. 

Kærunefnd jafnréttismála lítur svo á, í samræmi við framangreinda umfjöllun um hlutverk nefndarinnar, að rannsókn nefndarinnar skuli beinast að því að upplýsa hvort um brot á jafnréttislögum hafi verið að ræða í tilteknum tilvikum og í kjölfar þess að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi um úrbætur, ef við á. 

Ef fyrir liggur samkomulag, sem gert er í kjölfar ágreinings milli aðila um meint brot á jafnréttislögum, verður að telja að nefndinni sé ekki fært að beina rökstuddum tilmælum til hlutaðeigandi aðila um aðrar úrbætur en þar er kveðið á um, nema að efnisatriði samkomulagsins og skuldbindingargildi þess séu samhliða tekin til skoðunar, en telja verður að slík umfjöllun falli utan verksviðs nefndarinnar. 

Óhjákvæmilegt er að líta svo á að meginágreiningur aðila sé um gildi framangreinds samkomulags. Úrlausn þess heyrir samkvæmt framansögðu ekki undir kærunefnd jafnréttismála og ber því að vísa málinu frá.

Málinu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

 

Andri Árnason

Erla S. Árnadóttir

Stefán Ólafsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira