Hoppa yfir valmynd
21. mars 2003 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 6/2002:

 

A

gegn

Þjóðleikhúsinu

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 21. mars 2003 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með kæru, dags. 11. september 2002, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning deildarstjóra leikmunadeildar Þjóðleikhússins bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Þjóðleikhúsinu með bréfi dags. 25. október 2002. Var þar með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir ljósriti af auglýsingu um starfi, upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, upplýsingum um hvaða kröfur voru gerðar til umsækjanda varðandi menntun og starfsreynslu, starfslýsingu deildarstjóra leikmunadeildar, kyn og fjölda í stjórnunarstöðum hjá leikhúsinu, hæfnisröð umsækjenda hafi þeim verið raðað í hæfnisröð, menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans, afrit af umsókn hans og fylgigögnum. Þá var óskað eftir upplýsingum um það hvað hafi ráðið valinu. 

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2002, veitti Þjóðleikhúsið upplýsingar um framangreind atriði og kom auk þess á framfæri sjónarmiðum sínum vegna erindis kæranda. 

Með bréfi, dags. 22. nóvember 2002, var kæranda kynnt umsögn Þjóðleikhússins og óskað eftir frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi dags. 4. desember 2002. 

Með bréfi, dags. 16. desember 2002, var Þjóðleikhúsinu gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kæranda, ásamt því að fyrirspurn var gerð um hvenær starfslýsing deildarstjóra leikmunadeildar hafi orðið til. Einnig var Þjóðleikhúsinu bent á ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um sönnunarbyrði.

Með bréfi, dags. 7. janúar 2003 gerði Þjóðleikhúsið grein fyrir afstöðu sinni vegna athugasemda kæranda.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála.

 

II

Málavextir

Starf deildarstjóra leikmunadeildar Þjóðleikhússins var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 8. ágúst 2001. Umsóknarfrestur var til 20. ágúst 2001. Í auglýsingu kom fram að umsækjendur þyrftu að hafa menntun sem tengdist leikhúsi og/eða reynslu úr starfi í leikhúsi.

Umsækjendur um starfið voru sjö; fjórar konur og þrír karlar. Allir umsækjendur voru kallaðir í viðtal hjá leikhúsinu. Annar umsækjandi en kærandi var ráðinn í starfið. 

Kærandi óskaði eftir því við stéttarfélag sitt, Starfsmannafélag ríkisstofnana (SFR), að leitað yrði eftir skýringum á því hvers vegna gengið hafi verið framhjá honum við stöðuveitinguna. Með bréfi dagsettu 13. september 2001 óskaði framkvæmdastjóri SFR eftir skýringum Þjóðleikshússins. Þjóðleikhússtjóri svaraði framangreindri fyrirspurn SFR með bréfi dags. 22. september 2001. Kærandi skaut máli þessu til kærunefndar jafnréttismála með kæru 11. september 2002. Taldi kærandi að ákvæði 1. mgr. 22. gr. sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi verið brotin. Kærunni fylgdu upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Þjóðleikhúsið hafi brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða konu sem deildarstjóra leikmunadeildar Þjóðleikhússins.

Kærandi telur að gengið hafi verið framhjá sér við ráðningu í starfið. Hann hafi meiri menntun, stjórnunar- og starfsreynslu en sú sem starfið fékk. Hann hafi háskólapróf í menningarstjórnun (högskolekandidat i kulturarbeid/kultur administrasjon) og 16 ára starfsreynslu innan tæknisviða leikhúsa, þar af frá árinu 1993 í Þjóðleikhúsinu. Hann kveðst hafa unnið sem sviðsmaður, ljósamaður og leikmunavörður og einnig sem leikari og músíkant í Thesbiteateret í Tönsberg í Noregi. Einnig kveðst hann hafa nokkra stjórnunarlega starfsreynslu; bæði sem verkefnastjóri í menningarmiðstöð og sem ráðgjafi hjá atvinnumiðlun. 

Kærandi kveðst hafa verið starfsmaður leikmunadeildar Þjóðleikhússins í níu ár. Verkefni leikmunadeildar fyrir hverja sýningu séu unnin í samráði við leikstjóra og leikmyndahönnuði. Þá kveðst kærandi hafa verið trúnaðarmaður stéttarfélags síns síðastliðin sex ár og sem slíkur hafi hann beitt sér fyrir aukinni starfsmenntun innan leikhússins. Þá hafi hann beitt sér fyrir því að gerð yrði starfslýsing fyrir deildarstjóra leikmunadeildar.

Kærandi telur Þjóðleikhúsið vera helstu leiklistarstofnun Íslands og að sú reynsla sem þar fáist eigi að vega mikið þegar mat sé lagt á starfsreynslu vegna umsókna. Hann kvaðst hafa lengstan starfsaldur þeirra tæknimanna sem vinna í leikmunadeildinni og af þeirri ástæðu hafi hann oft hlaupið í skarðið í forföllum deildarstjóra.

Með umsókn kæranda dags. 14. ágúst 2001 um starfið fylgdi yfirlit um menntun og starfsreynslu hans.

 

IV

Sjónarmið kærða

Fram kemur í bréfi Þjóðleikhússins, dags. 17. nóvember 2002, að starf yfirmanns leikmunadeildar sé fjölþætt. Hann sé stjórnandi deildarinnar og hafi mannaforráð yfir þremur til fjórum undirmönnum. Viðkomandi þurfi að vera góður að skipuleggja og hagræða, vera útsjónarsamur varðandi útvegun leikmuna, eiga auðvelt með öll mannleg samskipti og hafa til að bera sveigjanleika og jákvæðni bæði gagnvart samstarfsfólki og þeim aðilum utan leikhússins sem tengjast starfinu.

Í greinargerðinni er á því byggt að kærandi hafi ekki verið sá einstaklingur sem leitað var eftir. Þjóðleikhússtjóri og framkvæmdastjóri leikhússins hafi þekkt til starfa hans og hafi oftsinnis rekið sig á neikvæða afstöðu hans til starfsins og skipulagsatriða í öðrum deildum auk almennrar óánægju með vinnustaðinn í heild. Því hafi þótt ljóst að maður með slíkt hugarfar og afstöðu væri ekki rétti einstaklingurinn í viðkomandi starf.

Yfirmenn leikhússins kváðu það einnig ljóst eftir viðtal við kæranda, þar sem farið var yfir atriði varðandi endurskipulagningu og hagræðingu sem gera þyrfti innan deildarinnar, að hann hafi ekki verið sá aðili sem leikhúsið hafi verið að leita eftir til þess að axla þá ábyrgð sem yfirmenn leikhússins vildu fela nýjum yfirmanni deildarinnar. Að sögn Þjóðleikshússins hafi kærandi ekki talið nauðsynlegt að endurskipuleggja deildina og hafi hann í aðalatriðum verið ánægður með deildina eins og hún var rekin en sú afstaða gekk þvert á afstöðu yfirmanna Þjóðleikhússins.

Með umsögn Þjóðleikhússins fylgdu ítarlegar upplýsingar um menntun og starfsreynslu þess umsækjanda sem ráðinn var. Þjóðleikhúsið taldi menntun og reynslu þeirrar, sem ráðin var í starfið, bæði fjölþætta og áhugaverða þar sem hún hafði unnið við skipulagningu leiksýninga auk annarrar leikhúsvinnu af ýmsu tagi, en ekki síst vegna þess að hún hafði annast verkefnastjórn smærri og stærri viðfangsefna bæði í leikhúsum og á öðrum vettvangi. Stjórnunarreynsla hennar var talin veruleg. 

Þjóðleikhúsið greindi frá því að ekki hafi verið gerðar kröfur um að viðkomandi hefði endilega reynslu úr starfi í leikmunadeild, enda væri um að ræða stjórnunarstarf að miklum hluta. Yfirstjórn leikhússins hafi á þessum tíma óskað eftir starfsmanni með góða stjórnunarhæfileika, þar sem ætlunin var að breyta starfsháttum deildarinnar frá því sem verið hafði, þ.e. hagræða og endurskipuleggja starfsemi deildarinnar.

Í athugasemdum Þjóðleikhússins er ítrekað að forsvarsmenn þess hafi þekkt til starfa kæranda þar sem hann hafði starfað hjá leikhúsinu um árabil. Það hafi verið sameiginlegt mat þeirra sem að ráðningunni stóðu að kærandi hafi „hvorki [búið] yfir forsendum né vilja til þess að takast á við þær uppstokkanir og betrumbætur á viðkomandi deild sem að var stefnt.“ Þetta mat þeirra hafi styrkst í ráðningarviðtalinu. Fram kom hjá þjóðleikhússtjóra að kynferði umsækjanda hafi ekki haft þýðingu þegar ákvörðun var tekin um ráðninguna.

Að mati Þjóðleikhússins hafi því ekki verið brotið gegn lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf deildarstjóra leikmunadeildar.

 

V

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Einnig er kveðið á um að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kynferði.

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis.

Við mat á því hvort um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða við framangreindar aðstæður, hefur verið litið til þeirra kosta sem umsækjendur hafa og er þá einkum litið til menntunar umsækjenda og starfsreynslu, svo og annarra sérstakra kosta eftir því sem við á í hverju tilviki. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laganna skal vinnuveitandi, ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis, sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Í máli þessu liggja fyrir ítarleg gögn um menntun kæranda og þess sem ráðinn var, auk þess sem ítarleg gögn liggja fyrir um starfsreynslu sömu aðila. Svo sem rakið var hér að ofan kunna atvik að vera með þeim hætti að sérstakar ástæður hafi einnig áhrif á mat atvinnurekanda, bæði þannig að sérstakir kostir eru teknir fram yfir heildstætt mat á menntun og reynslu og jafnframt ef talið er að sérstakir ókostir séu því samfara að ráða tiltekinn umsækjanda til starfs. Kemur það í hlut kærunefndar jafnréttismála að leggja mat á það hvort slíkar sérstakar ástæður hafi á málefnalegan hátt haft áhrif á þá ákvörðun atvinnurekanda sem vísað er til í 24. gr. jafnréttislaga.

Í máli þessu hefur verið á því byggt af hálfu Þjóðleikhússins að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu. Í bréfi þjóðleikhússtjóra, dags. 17. nóvember 2002 segir orðrétt:

„Við ákvörðun varðandi ráðningu í umrædda stöðu, auðveldaði það okkur valið verulega, að umsækjandi sá, er nú hefur lagt fram kæruna, hafði starfað við Þjóðleikhúsið í nokkur ár og við þekktum því vel til bæði hans persónulega og starfa hans við leikhúsið. Þar eð hann hafði starfað í viðkomandi deild og þekkti vel til deildarinnar, var eðlilegt að hann kæmi til greina í umrædda stöðu. Í viðtali við þennan umrædda starfsmann og umsækjenda var farið rækilega yfir starfshætti deildarinnar og þær breytingar, sem yfirstjórn leikhússins vildi að gerðar yrðu á starfsfyrirkomulagi og skipulagi deildarinnar. Nauðsynlegt er að geta þess, að umrædd deild var að mati okkar, undirritaðs og framkvæmdastjóra leikhússins, ekki eins vel rekin og æskilegt hefði verið af ýmsum ástæðum. Rekstur og skipulag var losaralegt, lítill vinnuagi og kostnaður við deildina og starfsmannahald mun hærri en eðlilegt gat talist. Það var því ásetningur okkar við ráðningu nýs yfirmanns, að ráða góðan stjórnanda, sem ætti auðvelt með mannaforráð og bæði gæti og vildi endurskipuleggja deildina og hagræða eins og hægt væri.

Í viðtali við umræddan umsækjanda, A, kom fram að hann var ósammála þessum sjónarmiðum, taldi ekki nauðsynlegt að endurskipuleggja deildina, og þótt hann myndi einhverju breyta, kvaðst hann í aðalatriðum ánægður með deildina eins og hún hefði verið rekin og okkur varð ljóst, að hann væri ekki sá aðili, sem við vorum að leita að til þess að axla þá ábyrgð, sem við vildum fela nýjum yfirmanni deildarinnar. Fleira mætti nefna varðandi umræddan einstakling, sem réði því að við álitum hann engan veginn rétta manninn í starfið – því að við þekktum hann og störf hans sem fyrr sagði - og höfðum oftsinnis rekið okkur á mjög svo neikvæða afstöðu hans til starfsins, ýmissa skipulagsatriða í öðrum deildum og almennrar óánægju með vinnustaðinn í heild. Það mátti því vera ljóst, að maður með slíkt hugarfar og afstöðu væri ekki rétti einstaklingurinn í viðkomandi starf. ...“

Á sambærilegum sjónarmiðum er byggt í bréfi þjóðleikhússtjóra til kærunefndar jafnréttismála, dags. 7. janúar 2003. Þar kemur m.a. fram að telji kærandi sig hafa verið beittan misrétti af einhverju tagi við umrædda ráðningu, hafi það a.m.k. ekki verið vegna kynferðis.

Fyrir liggur að kærandi hefur starfað um níu ára skeið hjá Þjóðleikhúsinu og verið starfsmaður leikmunadeildar. Jafnframt liggur fyrir að kærandi hefur verið trúnaðarmaður SFR á vinnustaðnum undanfarin sex ár. Hann hefur sem slíkur gætt hagsmuna félagsmanna SFR í samskiptum við stjórnendur Þjóðleikhússins.

Af framangreindum ummælum þjóðleikhússtjóra verður ráðið að verulega virðist hafa skort á að kærandi hafi á þeim tíma þegar ráðningin átti sér stað notið trausts yfirmanna Þjóðleikhússins til að takast á við það stjórnunarstarf sem um var að ræða. Er beinlínis á því byggt af hálfu Þjóðleikhússins að af fenginni reynslu af störfum kæranda og af starfsviðtali í tilefni af umsókn hans um starfið, hafi mátt ráða að kærandi hafi verið ósammála þeim sjónarmiðum sem þjóðleikhússtjóri taldi máli skipta varðandi nauðsynlega endurskipulagningu og hagræðingu á þeirri deild sem um var að tefla. Þá er því jafnframt haldið fram af hálfu þjóðleikhússtjóra, að yfirmenn Þjóðleikhússins hafi oftsinnis rekið sig á neikvæða afstöðu kæranda til starfsins.

Af hálfu Þjóðleikhússins er ekki á því byggt að kærandi hafi ekki haft menntun og starfsreynslu til að gegna umræddu starfi. Það er álit kærunefndar jafnréttismála að að því leytinu til hafi kærandi og sá sem ráðinn var, báðir haft menntun og starfsreynslu sem fullnægjandi taldist til að gegna umræddu starfi.

Það er hins vegar álit kærunefndar jafnréttismála að óhjákvæmilegt sé að taka afstöðu til þeirra atriða sem sérstaklega er á byggt að hálfu Þjóðleikhússins, þ.e. hvort þau geti talist til annarra ástæðna í skilningi lokamálsliðar 3. mgr. 24. gr. laga 96/2000.

Það er mat nefndarinnar að framangreind atriði hafi almennt ekki verulega þýðingu nema ætla megi að atvinnurekandi hafi sýnt fram á að slíkar fullyrðingar hafi haft raunveruleg áhrif á ákvarðanatöku hans. Að því er þetta varðar hlýtur það að skipta máli hvort að fullyrðingar af þessum toga byggja á eigin reynslu atvinnurekenda eða ekki. Með vísan til þess að kærandi hafði starfað í níu ár við Þjóðleikhúsið verður að telja hafið yfir vafa að framangreindar ástæður hafi í reynd ráðið þeirri ákvörðun atvinnurekanda að ráða annan umsækjanda en kæranda, enda verður ekki framhjá því litið að ef ekki hefðu verið til staðar sérstakar ástæður hefði kærandi að líkindum notið þess við mat á umsóknum að hann hefði starfað um langt árabil hjá Þjóðleikhúsinu.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það mat kærunefndar jafnréttismála að aðrar ástæður en kynferði hafi hér ráðið ákvörðun atvinnurekanda í skilningi 24. gr. laga 96/2000. Samkvæmt 4. gr. laganna er það hlutverk kærunefndar jafnréttismála að taka til meðferðar og gefa skriflegt rökstutt álit á því hvort ákvæði laganna hafi verið brotin. Það kemur því ekki í hlut kærunefndar jafnréttismála að taka afstöðu til þess hvort kæranda kunni að hafa verið mismunað á öðrum grundvelli þegar ráðið var í starf deildarstjóra leikmunadeildar við Þjóðleikhúsið.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telst Þjóðleikhúsið ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar kærandi, A, hlaut ekki stöðu deildarstjóra leikmunadeildar hjá leikhúsinu.

  

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum