Hoppa yfir valmynd
31. október 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 386/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 386/2023

Þriðjudaginn 31. október 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2023, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun hluta ársins 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. janúar 2023, var óskað eftir skattframtali kæranda fyrir tekjuskattsárið 2021 vegna fjármagnstekna það ár. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í júní og júlí 2021 vegna fjármagnstekna, samtals að fjárhæð 424.608 kr., að meðtöldu 15% álagi, auk upplýsinga um með hvaða hætti hinar ofgreiddu bætur yrðu innheimtar. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. júní 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 15. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst úrskurðarnefndinni 29. september 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. október 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. október 2023 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að ágreiningur hans við Vinnumálastofnunar snúist um fjármagnstekjur skattárið 2021, frá sjónarhóli kæranda nánar tiltekið um eðli þeirra og tilurð þó svo innlausnar téðra fjármagnstekna hafi átt sér stað skattárið 2021. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að ákveðnar upplýsingar á vefslóð Vinnumálastofnunar stæðust skoðun, þ.e. að arfur, hvort sem hann væri fyrirframgreiddur eða að arfláta látnum, væri undanskilinn skerðingu atvinnuleysisbóta. Með þá vitneskju í farteskinu og án þess að hafa á nokkurn hátt ætlað að hlunnfara stofnunina, hafi fjármagnstekjur kæranda af fjárfestingu eigin fjármagns í Play Air, 71.058 kr., rúmast innan frítekjumarka atvinnuleysistrygginga, sem árið 2021 hafi verið fjárhæð 73.827 kr.

Eftirfarandi gjörningar séu hér undir. Í fyrsta lagi sala sumarbústaðalands í B, sem kæranda og tveimur hans systkinum hafi verið ánafnað í jöfnum hlutum sem fyrirframgreiddur arfur í júlímánuði árið 1999. Þau systkinin hafi þá tekið yfir þá skatta og þær skyldur sem eigninni fylgdu og kærandi hafi greitt fasteignagjöld til B árabilið 1999 til 2021.

Í öðru lagi sala hlutabréfa í Íslandsbanka í kjölfar almenns hlutafjárútboðs bankans í júnímánuði 2021. Kærandi hafi samviskusamlega fullyrt við Vinnumálastofnun að viðlögðum drengskap sínum að kaup bréfanna hafi verið að undirlagi móður þeirra systkinanna, sem hafi ánafnað hverju þeirra 500.000 kr. sem fyrirframgreiddan arf, eyrnamerktan téðum hlutafjárkaupum. Að því sögðu og með vísan til framangreinds hefði auðvitað beinast legið fyrir Vinnumálastofnun, svo sem það nú liggi fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, að setja sig beint í samband við móður þeirra systkina eða hin tvö systkini kæranda til staðfestingar þeirri vitneskju, sem hér sé veitt eftir bestu samvisku kæranda. Móðir kæranda og bæði systkini hafi boðist til að votta að hvorttveggja, téð sumarbústaðaland í B og fjárfesting í Íslandsbanka, hafi verið fyrirframgreiddur arfur sem þau hafi öll notið til jafns.

Í þriðja lagi sé um að ræða sölu hlutabréfa kæranda í Play Air þar sem kærandi sjálfur hafi fest kaup á þeim bréfum með eigin fjármagni, sem aftur hafi verið afrakstur meðal annars sumarbústaðalandssölunnar. Að mati og bestu vitund kæranda ættu einungis fjármagnstekjur af þessari sölu að koma til skerðingar atvinnuleysisbóta með hliðsjón af eigin fjármögnun kæranda í útboðskaupum hlutabréfa í Play Air. Gögn þau sem fyrir liggi í framangreindu skerðingarmáli séu annars vegar skilaboð Vinnumálastofnunar til kæranda á svonefndum „mínum síðum” stofnunarinnar og hins vegar eiginleg bréfaskifti kæranda og Vinnumálastofnunar. Þar sem tímaröð téðra samskipta málsaðila séu til þess fallin að varpa nokkru ljósi á tilurð og framgang málsins séu í kæru rakin í tímalínu skilaboð Vinnumálastofnunar til kæranda og andsvör hans, sem hafi borist stofnuninni sem viðhengi á Word-formi, send hvoru tveggja Greiðslustofu Vinnumálastofnunar og höfuðstöðvum stofnunarinnar í Reykjavík, auk þess sem afrit framangreindra samskipta hafi einatt verið sent á netfang þess ráðgjafa sem kæranda hafi sérstaklega verið úthlutaður af hendi Vinnumálastofnunar.

Kærandi taki fram að á vefsvæði Vinnumálastofnunar sé að finna upptalningu þeirra ástæðna/aðstæðna eða forsendna sem undanskilji einstaklinga skerðingu atvinnuleysisbóta. Þar sé meðal annars getið umönnunarbóta barna, styrkja úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki séu ætlaðir til framfærslu hins tryggða, sbr. styrki til líkamsræktar, námskeiða og svo framvegis, séreignasparnaðar, barnalífeyris, félagslegra styrkja frá sveitarfélögum og arfs. Aðeins komi fyrir orðið arfur og þá hljóti eðli máls samkvæmt að gilda einu hvort um sé að ræða fyrirframgreiddan arf eða arf fenginn eftir andlát arfláta, enda skattar og skyldur hvoru tveggja tengdir. Því til staðfestingar hafi kærandi greitt af fjármagnstekjum sínum skattárið 2021 370.662 kr. í fjármagnstekjuskatt til Ríkisskattstjóra og embættið hafi ekki gert neinar athugasemdir við þau skattskil.

Í öllum rökstuðningi Vinnumálastofnunar við erindisrekstri og málefnalegum skýringum kæranda komi stofnunin hvergi nærri kjarna máls, þ.e. að tveir þeirra fjármagnsgjörninga sem hér séu undir séu sem fenginn arfur undanþegnir skerðingu atvinnuleysisbóta kæranda. Stofnunin kjósi aðeins að hamra á því að ef samanlagðar tekjur af fjármagnstekjum og atvinnuleysisbótum séu hærri en sem nemi óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram séu. Vinnumálastofnun láti ekki einu sinni í það skína að kærandi gæti hafa verið í góðri trú að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem birtar séu á heimsvæði stofnunarinnar. Vinnumálastofnun haldi sig í einu og öllu við einstrengingslegan skilning sinn um að fjármagnstekjur kæranda megi að öllu leyti rekja til eigin fjárfestinga hans, þar með talið í sumarbústaðalandi í B skattárið 1999. Lóðar sem hafi verið í eigu foreldra hans allt frá árinu 1971 eða 1972 að telja og kærandi hafi aldrei greitt neitt fyrir. Með öðrum orðum, Vinnumálastofnun virðist ekki með nokkru móti geta tekið orð kæranda trúanleg og bregðist á engan hátt við málefnalegum röksemdum kæranda þar að lútandi, víki ekki að þeim svo mikið sem einu orði. Hafni því að taka nokkurt tilliti til þess hvernig nákvæmlega fjármagn það, sem svo vilji til að kærandi hafi innleyst árið 2021 og styr standi um, sé tilkomið, hver nákvæmlega sé eigandi þess. Því sannanlega sé sumarbústaðalóð í eigu kæranda og samsvarandi birting nafns hans á afsali lóðarinnar ekki tilkomin fyrir eigin fjárfestingu heldur þeginn fyrirframgreiddan arf. Ætla megi að sem beinast hefði legið fyrir Vinnumálastofnun að setja sig í samband við móður kæranda eða systkini orðum hans til staðfestingar eins hafi verið boðið.

Kærandi geri einnig alvarlegar athugasemdir við að Vinnumálastofnun segist í rökstuðningi sínum dreifa vaxtatekjum kæranda af innstæðum á bankareikningum á 12 mánuði en kjósi upp á sitt einsdæmi að jafna fjármagnstekjum kæranda af þeim gjörningum sem hér séu undir á mánaðargrundvöll með þeirri afleiðingu að frítekjumark hvers mánaðar fullnýtist í einu vetfangi, ekki á samsvarandi ársgrundvöll þar sem 73.837 kr. frítekjumarkið myndi ótvírætt dreifa fjármagnstekjunum á fleiri mánuði og jafna þeim þannig út á árið. Það sé því aðeins tveir mánuðir, júní og júlí, sem taki skellinn af fjármagnstekjum kæranda. Með slíkri mismunum fjármagnstekna taki Vinnumálastofnun sér það bessaleyfi að hámarka skerðingu í stað þess að dreifa henni að teknu tilliti til frítekjumarksins, 73.827 kr., á alla þá mánuði ársins sem kærandi hafi þegið bætur árið 2021. Samkvæmt gögnum stofnunarinnar hafi kærandi þegið atvinnuleysisbætur í um það bil átta mánuði ársins 2021. Því samkvæmt megi segja sem svo að kærandi hafi orðið af (8-2=6) x 73.827 kr. = 442.962 kr. í frítekjumarki á því tímabili ársins 2021 sem hann hafi þegið bætur. Ekki verði betur séð en að það frítekjumark dekki ákvarðaða refsingu kæranda af hendi Vinnumálastofnunar upp á 424.608 kr. En af þeirri einu ástæðu að Vinnumálastofnun kjósi að dreifa vaxtatekjum kæranda á innstæðum af bankareikningum á 12 mánuði og fjármagnstekjum hans á hvorn innleystan mánuð segi sig sjálft að halli á kæranda og að um klára mismunun sé að ræða af hálfu Vinnumálastofnunar á milli uppruna og tilurðar fjármagnstekna. Taki úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilliti til þeirrar staðreyndar þurfi ef til vill aðkomu umboðsmanns Alþingis eða dómstóla til þess að skera þar úr um, enda komi kærandi að öðrum kosti til með að vísa málinu í þann farveg. Kærandi spyrji hvar í lögum eða reglugerðum sé til staðar heimild fyrir Vinnumálastofnun að ákvarða upp á sitt sjálfdæmi að tilteknum fjármagnstekjum, skilgreindum af stofnuninni, skuli jafnað á ársgrundvöll, aðrar færðar á einn tiltekinn innlausnarmánuð, í óhag þess er þiggi atvinnuleysisbætur. Kærandi spyrji hvort stofnunin sé kannski að gefa í skyn að einstaklingum almennt eða kæranda haldist ekki betur á fjármagni en svo að hann hljóti að eyða því um leið, það bara gufi upp á punktinum í fullkominni samtímaneyslu, hverfi bara á stundinni og sé því ekki hægt að dreifa yfir tíma.

Kærandi vilji koma því á framfæri að undarlegt og ámælisvert sé af hálfu Vinnumálastofnunar að taka í engu tillit til eða leitast við að svara röklega þeim forsendum og rökum sem kærandi hafi hingað til komið á framfæri við stofnunina og lagt til grundvallar afstöðu sinni til kjarna ágreiningsins. Að í tveimur tilvikum af þremur, sem hér hafi verið tíunduð yfir fengnar fjármagnstekjur kæranda skattárið 2021, þ.e. um þá eigind að um fyrirframgreiddan arf hafi verið að ræða (rótin, forsendan, tilurðin) sem auðvitað beri að flokkast í eðli sínu sem fenginn arfur, án tillits til þess hvenær fjármagnstekjur þess arfs séu eða hafi verið innleystar. Svo hafi háttað til þegar kærandi hafi verið án atvinnu og þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun, en hafi ekki átt og eigi á engan hátt að skerða atvinnuleysisbætur hans.

Til ítrekunar hafi kærandi hvergi í lögum og reglugerðum fundið fót fyrir því að gerður sé greinarmunur á tilurð fengins arfs, þ.e. hvort hann sé fyrirframgreiddur eða fenginn að arfláta látnum, hvað þá að innlausn slíks fengins arfs, þ.e. umbreyting fjármuna í fjármagn eigi sér stað og þá fyllilega óháð því hver nákvæmlega staða einstaklings sé á vinnumarkaði þá þegar slíkur arfur sé innleystur. Með öðrum orðum, tilkoma eða tilurð arfs (fyrirframgreidds eða að arfláta látnum) og svo aftur innlausn hans þurfi síður en svo að falla saman í tíma þótt þau geri það í rúmi. Með öðrum orðum, atvinnutengdar- og fjárhagslegar aðstæður einstaklinga breytist yfir tíma og árið 2021 hafi svo verið komið að kærandi hafi bæði þurft og fýsti að selja lóðina þar sem not þeirra systkina af henni hafi ekki verið nein og engar áætlanir uppi um not af henni, hvað þá byggingu sumarhúss, hvorki meðal þeirra þriggja né næstu kynslóðar. Landið hafi enda verið eins og það hafi komið fyrir frá örófi, við því hafi vart verið hróflað á annan hátt en þann að í gegnum það hafi fjölskyldan í sameiningu og öndverðu lagt stíg að áætluðu sumarbústaðasvæði, sem svo hafi aldrei verið byggt á. Við sölu lóðarinnar hafi sem sagt enginn sumarbústaður verið á lóðinni og þar sem ekkert þeirra þriggja systkina né afkomenda hafi haft hug á að nýta og byggja upp lóð sem hafi verið í eigu fjölskyldunnar um rúmlega 50 ára skeið, hafi einfaldlega legið fyrir að selja lóðina til einhvers sem vildi og gæti nýtt hana. Þá hafi aftur háttað svo til að kærandi hafi verið atvinnulaus og innleyst fjármagnstekjur af löngu fengnum fyrirframgreiddum arfi í formi lóðarafsals. Kærandi hafi staðið skil á öllum sköttum og skyldum svo sem skattframtal og álagning gefi skýrt til kynna. Af þeirri upptalningu forsendna, sem kærandi hafi vísað fyrr til á vefsíðu Vinnumálastofnunar, megi ótvírætt ráða að slíkum fyrirframgreiddum arfi sé ekki ætlað að koma í staðinn fyrir framfærsluskyldu af hálfu stofnunarinnar, með öðrum orðum að hafa á sínum tíma í fortíðinni hlotið tiltekinn fjármun í arf og miklu síðar innleyst þann fjármun sem fjármagn, geti ekki á nokkurn hátt orðið staðkvæmd þeirrar lagalegu ábyrgðar Vinnumálastofnunar að greiða réttþegum atvinnuleysisbætur þegar svo standi á að viðkomandi séu án atvinnu, en sannarlega í virkri atvinnuleit, svo sem kærandi telji sjálfan sig geta fært fullkomnar, en þó sársaukafullar sönnur á.

Með öðrum orðum sé kjarni málsins sá að Vinnumálastofnun tiltaki og lýsi yfir að fenginn arfur sé undanþeginn skerðingu atvinnuleysisbóta og fái því aldrei talist staðkvæmd við skyldu stofnunarinnar til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar svo hátti og hafi háttað til að kærandi hafi fyllilega staðist kröfur stofnunarinnar til þágu slíkra bóta og hafi rækt við hana allar skyldur, þar með talið að vera í virkri atvinnuleit eins og meðfylgjandi listi yfir sótt störf sýni sem og að sækja þau námskeið sem stofnunin hafi skyldað hann til.

Kærandi krefjist þess að Vinnumálastofnun falli frá skerðingu atvinnuleysisbóta hans (sem nú eftir að hann hafi komist út á vinnumarkað felist í skuld hans við stofnunina), þ.e. þann hluta skerðingarinnar sem taki til fjármagnstekna annars vegar af sölu sumarbústaðalóðarinnar og hins vegar hlutabréfanna í Íslandsbanka, sem sannanlega séu tilkomnar fyrir tilverknað fyrirframgreidds arfs. Að stofnunin miði þess í stað skerðingu við fjármagnstekjur einvörðungu af sölu hlutafjár í Play Air, 71.058 kr. Einnig krefjist kærandi þess að Vinnumálastofnun endurgreiði honum þær 63.885 kr. (25% af nettóútgreiðslu atvinnuleysisbóta,) sem hafi verið dregnar af honum við útgreiðslu bóta síðastliðinn maímánuð) eða skuldajafni á móti fjármagnstekjum af sölu hlutafjár í Play Air.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að það sé mat kæranda að svonefnd afstaða stofnunar varpi ekki að neinu leyti nýju ljósi á ágreining málsaðila. Þau lagarök, sem stofnunin kjósi að bera fyrir sig í nokkuð löngu máli, séu góðra gjalda verð svo langt sem þau nái, en snerti ekki nema að afar takmörkuðu leyti kjarna ágreiningsmáls aðila eins og það horfi við kæranda.

Fyrst vilji kærandi halda því til haga að ekki sé rétt sem Vinnumálastofnun láti í skína að hann hafi tregðast við að veita stofnuninni umbeðnar upplýsingar í formi skattframtals ársins 2021. Kæranda hafi ekki, hvorki í tölvupósti né á „mínu svæði” á vef stofnunarinnar, fyrir þriðjudaginn 21. mars 2023 borist nein boð um að afhenda skattframtal fyrir tekjuárið 2021. Það sé því beinlínis rangt að um einhverja ítrekun af hálfu stofnunarinnar hafi verið að ræða. Samkvæmt gögnum kæranda hafi beiðni þar að lútandi fyrst borist þann 21. mars 2023 (reyndar þannig ranglega orðuð að áður hefði verið um það beðið af hálfu stofnunarinnar, sem aftur hafi ekki verið) og ekki hafi staðið á kæranda að afhenda umbeðið framtal föstudaginn 24. mars 2023. Sem áður segi, í talsvert löngu máli, reki Vinnumálastofnun þau lagarök sem hnígi að þeirri niðurstöðu hennar að fjármagnstekjur kæranda skattárið 2021 komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hans. Því sjónarmiði sé kærandi einfaldlega ósammála þar sem stofnunin kjósi að líta fram hjá eðli, uppruna og/eða tilurð hluta fjármagnsteknanna, þ.e. sölu sumarbústaðalóðarinnar og hlutabréfa í Íslandsbanka. Þannig sé stofnunin í blóra eða mótsögn við upplýsingar sem hún sjálf veiti á vefsvæði sínu þar sem skýrt komi fram að viðtaka arfs, fyrirframgreidds eða ekki (ekkert þar um á vefsvæðinu), skerði ekki atvinnuleysisbætur. Eðli, uppruni og/eða tilurð þeirra í áður tilteknum tilvikum undirritaðs liggi sannarlega í fyrirframgreiddum arfi, enda hafi sumarbústaðalóðin og hlutabréfin í Íslandsbanka komist í eigu kæranda undir því formerki að um slíkan fyrirframgreiddan arf af hendi foreldra hans væri að ræða. Upp á æru og trú hafi undirritaður í hvorugu tilviki nýtt eigið fjármagn til kaupanna, svo mikið sé víst og eitt hafi gengið yfir öll þrjú systkinin í því tilliti.

Sem fyrr segi standi á vefsvæði Vinnumálastofnunar fullum stöfum og svart á hvítu að atvinnuleysisbætur skerðist ekki vegna arfs. Enga nánari útlistun sé þar að finna, ekki sé einu orði að því vikið að innlausn/sala arfseignar sé einhverju tilteknu eðli eða tímabilum háð, aðeins að réttur bótaþega skerðist ekki við viðtöku hans. Arfur sé arfur, hvort sem hann sé fyrirframgreiddur eða komi til eftir fráfall arfláta og á vefsvæði Vinnumálastofnunar sé enginn greinarmunur gerður þar á milli.

Ef kæranda hefði hlotnast umtalsverður arfur, fyrirframgreiddur eða ekki, í formi reiðufjár skattárið 2021 fái hann ekki betur séð en að Vinnumálastofnun hefði frá sjónarmiði stofnunarinnar verið nauðugur einn kostur að láta kyrrt liggja að teknu tilliti til áðurnefndra upplýsinga á vefsvæði stofnunarinnar. Aftur á móti rísi stofnunin upp á afturfæturna þegar, sér í lagi í tilviki sumarbústaðalóðarinnar, löngu fenginni fyrirframgreiddri arfseign sé umbreytt úr fjármun í fjármagn. Kærandi spyrji hver kunni að vera skilgreindur munur á viðtöku slíkrar arfseignar í reiðufé skattárið sjálft sem viðkomandi þiggi atvinnuleysisbætur eða innlausn löngu fenginnar arfseignar á sama tíma, enda bótaþegi sannarlega jafn atvinnulaus í báðum tilvikum.

Óumdeilt ætti að vera að kærandi hafi lagt sig allan fram um að sækja um störf og komast í vinnu. Aftur á móti hafi kæranda þótt og þyki enn skorta verulega á viðleitni og eftirfylgni Vinnumálastofnunar. Í því tilliti hafi ekki verið um neitt frumkvæði stofnunarinnar að ræða, ein og ein tilkynning á stangli um útsenda ferilskrá. Þar sem viðleitni kæranda til þess að verða sér úti um starf hafi reynst árangurslaus hafi hann lagt nokkuð traust á að Vinnumálastofnun gæti haft þar hönd í bagga og ef til vill þrýst á um að vel menntaður einstaklingur hlyti einhverja náð fyrir einhverjum atvinnurekanda, enda sé kærandi ekki kresinn. Svo hafi ekki reynst vera.

Víst sé að enginn verði feitur af atvinnuleysisbótum, síst af öllu leigjendur. Kærandi spyrji hvað hann hefði átt að taka til bragðs ef svo hefði háttað til í júnímánuði árið 2021 að hann hefði nauðsynlega þurft á fjármagni að halda umfram þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi þá þegið frá Vinnumálastofnun. Slíkar brýnar aðstæður hefðu í raun getað skapast vegna nánast hvers sem er, óvæntra veikinda kæranda eða aðstandanda, tannlæknakostnaðar og þar fram eftir götunum. Sjónarmið Vinnumálastofnunar sé að viðkomandi hefði að óbreyttu ekki verið heimilt að selja fyrirframgreidda arfseign án þess að skerða atvinnuleysisbætur sínar, umbreyta eigninni þannig í peninga í því skyni að standa straum af tilfallandi kostnaði. Kærandi hljóti að spyrja sig hvað Vinnumálastofnun hefði þá lagt til. Fresta kannski lífsnauðsynlegum viðbrögðum, setja þau á ís, taka fokdýrt bankalán eða þiggja kannski nauðsynlega þjónustu upp á krít og horfa upp á gjaldþrot. Hefði kæranda aftur áskotnast umtalsverður arfur í reiðufé hefði Vinnumálastofnun samkvæmt skilgreiningu og upplýsingum á eigin vefsvæði verið nauðugur einn kostur að láta kyrrt liggja. Kærandi spyrji hvar samkvæmnin og gagnsæið sé í framagreindu.

Kærandi ítreki að ekki verði með neinu móti séð að upplýsingar á vefsvæði Vinnumálastofnunar gefi til kynna að innlausn, þ.e. sala eignar sem sannanlega sé (fyrirframgreiddur) arfur sé fortakslaust bundinn þeirri kvöð að teljist til fjármagnstekna. Þar sé einfaldlega um geðþóttaákvörðun stofnunarinnar að ræða. Horfa verði til þess hvernig þær hafi stofnast, með öðrum orðum séu til komnar. Sannanlega séu þær tilkomnar fyrir fyrirframgreiddan arf svo sem kærandi hafi boðist til að kalla meðlimi fjölskyldu sinnar til vitnis um, án þess að vilja blanda þeim um of í málið. Ekki sé rétt sem Vinnumálastofnun fullyrði að „[k]ærandi hefur að mati Vinnumálastofnunar ekki fært fram rök fyrir því að fella skuli niður 15% álag á skuld hans”. Þvert á móti hafi fram komið í málflutningi kæranda að álagið sé ómaklegt þar sem hann hafi verið í góðri trú þess að upplýsingar þær sem stofnunin sjálf veiti á vefsvæði sínu séu réttar og sannverðugar, enda birtar á opinberum vettvangi “par excellence”, ef svo megi að orði komast.

Framangreindu til staðfestingar vísi kærandi til símtals við ráðgjafa Vinnumálastofnunar 25. janúar 2023 sem hafi tjáð furðu sína á því að kæranda hafi verið gert 15% álag þar sem slíkt álag væri almennt ekki viðhaft hefði fólk verið í góðri trú og ekki farið fram gegn stofnuninni af einbeittum ásetningi. Samkvæmt framangreindu og eðli máls hafni kærandi þeim rökum sem séu fram færð í svonefndri afstöðu Vinnumálastofnunar, dagsettri þann 26. september 2023.

Sem áður fari kærandi fram á að einungis fjármagnstekjur þær sem rekja megi til viðskipta með hlutabréf í flugfélaginu Play Air verði metin til fjármagnstekna gagnvart atvinnuleysisbótum Vinnumálastofnunar, enda ekki komnar til fyrir tilverknað fyrirframgreidds arfs eins og í hinum tilvikunum tveimur og áður hafi verið gerð grein fyrir. Kröfum þeim um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, sem Vinnumálastofnun heimfæri á fjármagnstekjur af sölu sumarbústaðalóðarinnar og hlutabréfa í Íslandsbanka, sé alfarið hafnað. Eindregið sé mótmælt 15% álagi því sem Vinnumálastofnun virðist af geðþótta sínum leggja á kæranda, sem hafi verið í góðri trú að teknu tilliti til upplýsinga sem stofnunin sjálf veiti á vefsvæði sínu. Að öðrum kosti og að teknu tilliti til áður tilvitnaðs símtals þann 25. janúar 2023 við ráðgjafa stofnunarinnar sé það Vinnumálastofnunar að sýna fram á að ásetningur kæranda hafi staðið til þess að upplýsa hana ekki um fjármagnstekjur sínar skattárið 2021.

Kærandi fari fram á að lyktir máls verði þær að þegar afdregnum atvinnuleysisbótum hans verði skuldajafnað á móti fjármagnstekjum af söluhagnaði hlutabréfanna í Play Air.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 3. ágúst 2020. Með erindi, dags. 14. október 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til starfsloka væri bótaréttur hans hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 22. janúar 2021 hafi kærandi verið afskráður í kerfum stofnunarinnar þar sem hafi hafið störf. Kærandi hafi sótt aftur um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 14. maí 2021. Með erindi, dags. 8. júní  2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Kærandi hafi verið afskráður 1. júní 2023. 

Í kjölfar reglulegs eftirlits innan Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að kærandi hefði fengið greiddar fjármagnstekjur, samtals að fjárhæð 1.887.556 kr., vegna ársins 2021. Með erindi, dags. 24. janúar 2023, hafi þess verið óskað að kærandi afhenti stofnuninni skattframtal vegna tekjuskattsársins 2021 ásamt fylgigögnum. Þann 25. janúar 2023 hafi kærandi verið í samskiptum við Vinnumálastofnun og óskað nánari skýringa á framangreindu erindi stofnunarinnar. Ráðgjafi hafi í kjölfarið veitt kæranda leiðbeiningar og meðal annars áréttað að stofnuninni þyrftu að berast umbeðin gögn.

Þann 30. janúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá kæranda. Í því erindi hafi kærandi veitt stofnuninni nánari skýringar á fjármagnstekjum sínum. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði verið þeirrar trúar að fjármagnstekjur hans vegnar ársins 2021 væru ekki að slíku umfangi að þær kynnu að hafa áhrif á greiðslur atvinnuleysisbóta til hans. Fjármagnstekjurnar væru að mestu tilkomnar vegna fyrirframgreidds arfs af hendi foreldra kæranda. Kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun nánari útlistun á fjármagnstekjum sínum og hvernig þær hafi verið tilkomnar. Kærandi hafi sagst hafa selt sumarbústaðalóð í B sem honum hafi, ásamt systkinum sínum, áskotnast sem fyrirframgreiddur arfur. Stofn til útreiknings fjármagnstekjuskatts vegna sölu umræddrar lóðar hafi verið 1.648.946 kr. Hann hafi ekki tilkynnt stofnuninni um sölu á sumarbústaðalóðinni þar sem hann hafi talið að atvinnuleysisbætur myndu ekki skerðast vegna arfs og í því sambandi hafi kærandi vísað til texta á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Þann 21. mars 2023 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur og honum tjáð að stofnunin hefði móttekið skýringar hans. Þá hafi fyrri beiðni stofnunarinnar, þess efnis að kærandi afhenti stofnuninni skattframtal vegna tekjuskattsársins 2021, verið ítrekuð. Skattframtal kæranda hafi borist stofnuninni þann 24. mars 2023. Þann 5. maí 2023 hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem hann hafi verið inntur eftir frekari upplýsingum er vörðuðu dagsetningar sölu hlutabréfa í Íslandsbanka og sölu lóðar í B. Slíkar upplýsingar væru stofnuninni nauðsynlegar svo hægt væri að meta hvort fjármagnstekjur kæranda hefðu áhrif á greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

Með erindi, dags. 22. maí 2023, hafi kæranda verið greint frá því að þar sem hann hefði verið með fjármagnstekjur árið 2021 bæri honum að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 369.224 kr., auk 15% álags samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið upplýstur um að heildarskuld hans við stofnunina væri 424.608 kr. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar samdægurs, eða þann 22. maí 2023, og rökstuðningur hafi verið veittur þann 7. júní 2023.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Kærð sé sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 424.608 kr., að meðtöldu 15% álagi, samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, sökum þess að hann hafi verið með fjármagnstekjur árið 2021.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um frádrátt vegna tekna. Ákvæðið 1. mgr. 36. gr. sé svohljóðandi:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Af framangreindu ákvæði sé ljóst að fjármagnstekjur séu á meðal þeirra tekna sem komi til frádráttar atvinnuleysisbótum. Fyrir liggi að kærandi hafi aflað fjármagnstekna á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Tekjur kæranda komi því til frádráttar atvinnuleysisbótum hans í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1296/2020, settri með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi frítekjumark verið 73.827 kr. á mánuði vegna ársins 2021. Í júní og júlí árið 2021 hafi tekjur kæranda numið hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi ekki tilkynnt inn á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar um neinar fjármagnstekjur, hvorki söluhagnað í þeim þremur tilvikum sem um ræði, né vaxtatekjur. Því hafi kærandi myndað skuld við Vinnumálastofnun.

Í 2. mgr. 39. gr. sé kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í framangreindu ákvæði sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sér sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé þannig fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Kærandi hafi einkum gert þær kröfur að Vinnumálastofnun falli frá skerðingu atvinnuleysisbóta sem tilkomin sé vegna fjármagnstekna hans af sölu sumarbústaðalóðar og hlutabréfa í Íslandsbanka. Kærandi telji að sannarlega megi rekja umræddar fjármagnstekjur til fyrirframgreidds arfs. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að fjármagnstekjur kæranda séu tilkomnar vegna söluhagnaðar sem síðar hafi myndað stofn til fjármagnstekna í tilgreindum mánuðum þegar sala hafi átt sér stað. Ekki skipti máli þó að sumarbústaðalóðinni og umræddum hlutabréfum hafi upphaflega verið aflað með fyrirframgreiddum arfi. Með vísan til framangreinds þyki ljóst að mati Vinnumálastofnunar að þær fjármagnstekjur sem kærandi hafi aflað í júní og júlí 2021, á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta, skuli koma til skerðingar í samræmi við ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Skuld kæranda vegna þeirra fjármagnstekna sem hann hafi verið með árið 2021 og sú skuld er hin kærða ákvörðun varði, sé samtals að fjárhæð 424.608 kr., að meðtöldu 15% álagi, samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi hafi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður 15% álag á skuld hans. Hluta síðar tilkominna greiðslna hafi verið skuldajafnað samkvæmt 3. mgr. 39. gr., samtals 63.885 kr., og eftirstöðvar séu að því virtu 360.722 kr., að meðtöldu álagi. 

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 424.608 kr. samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Heildarskuld kæranda við Vinnumálastofnun standi nú í 360.722 kr.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2023, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir júní og júlí 2021 vegna fjármagnstekna þá mánuði.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt skattframtali 2022 námu fjármagnstekjur kæranda 1.887.556 kr. á árinu 2021. Var þar um að ræða vaxtatekjur að fjárhæð 5.211 kr., hagnað af sölu hlutabréfa að fjárhæð 233.399 kr. og hagnað vegna sölu sumarbústaðalands að fjárhæð 1.648.946 kr. Ágreiningur málsins lýtur að söluhagnaðinum en kærandi hefur vísað til þess að hann hafi fengið hvort tveggja, þ.e. hlutabréfin og sumarbústaðalandið í fyrirframgreiddan arf. Því eigi fjármagnstekjurnar ekki að skerða atvinnuleysisbætur hans. 

Samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt að fengnar fjármagnstekjur skerða atvinnuleysisbætur, komi þær til á þeim tíma er viðkomandi fær greiddar atvinnuleysisbætur. Fyrir liggur að kærandi seldi sumarbústaðalandið í júní 2021 og hlutabréf í Íslandsbanka hf. í júlí 2021 en þá mánuði fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Enga heimild er að finna í lögum nr. 54/2006 fyrir Vinnumálastofnun að undanskilja fjármagnstekjur vegna eigna sem eru tilkomnar vegna arftöku. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda vegna fjármagnstekna sé í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem tekjuáætlun kæranda gerði ekki ráð fyrir neinum fjármagnstekjum fékk hann greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á í júní og júlí 2021. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kærandi telur að fella skuli niður álag sem lagt var á skuld hans þar sem hann hafi verið í góðri trú að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem Vinnumálastofnun gefi upp á heimasíðu sinni þess efnis að arfur væri undanþeginn skerðingu atvinnuleysisbóta. Þegar Vinnumálastofnun samþykkti umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var honum meðal annars greint frá því að tilkynna þyrfti stofnuninni um tekjur á „Mínum síðum“. Einnig að ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá var kærandi hvattur til að hafa samband við stofnunina ef eitthvað væri óljóst. Á heimasíðu Vinnumálastofnun kemur skýrt fram að fjármagnstekjur skerði atvinnuleysisbætur. Með hliðsjón af þeim upplýsingum og leiðbeiningum sem kærandi fékk er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að hann hefði mátt vita að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun um þær fjármagnstekjur sem deilt er um í málinu. Með vísan til þess er því ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna ársins 2021 er staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2023, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta A, vegna ársins 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum