Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ná þarf áfram niður slysatíðni í alþjóðaflugi

Slysatíðni í alþjóðlegu atvinnuflugi hefur lækkað jafnt og þétt síðustu áratugina, í stökkum frá sjöunda áratugnum en síðustu þrjú til fjögur ár hefur hún staðið í stað. Verkefni okkar er að halda áfram þróun í átt til lækkunar. Þetta er meðal þess sem kom fram á alþjóðlegri flugöryggisráðstefnu sem nú er að ljúka í Mílanó á Ítalíu.

Frá ráðstefnu um flugöryggi í Mílanó í nóvember 2010
Frá ráðstefnu um flugöryggi í Mílanó í nóvember 2010

Jim Burin, tæknilegur verkefnastjóri hjá Flight Safetey Foundation, einum skipuleggjenda ráðstefnunnar, fór yfir árið til þessa og tilgreindi tölur um slys og atvik í alþjóðlegu flugi. Alls hafa orðið 17 alvarleg flugslys í alþjóðlegu þotuflugi á árinu, jafnmörg og allt síðasta ár. Af þeim urðu 14 í aðflugi og lendingu sem er kringum 80% en síðustu árin hefur hlutfall slíkra slysa verið á bilinu 50 til 60%. Jim Burin sagði að vonandi myndi ný útgáfa af þjálfunar- og kennsluefni um aðflug og lendingar verða til þess að draga á ný úr þessari slysategund. Flight Safety Foundation gaf fyrir nokkrum árum út í samvinnu við fleiri aðila fyrrgreint þjálfunarefni og hefur síðan staðið fyrir námskeiðum víða um heim til að hvetja flugrekendur til að leggja aukna áherslu á viðbótarþjálfun. Fjögur slík námskeið verða haldin á árinu.

Slysatíðini í alþjóðlegu þotuflugi hefur lækkað jafnt og þétt allt frá því það var almennt í byrjun sjöunda áratugsins. Þá var tíðnin 6,21 slys á hverja milljón flugtaka, á áttunda áratugnum hafði hún lækkað í 2,42 og var komin niður í 0,57 síðasta áratuginn (sjá súluritið). Þannig hefur slysatíðnin lækkað um þriðjung á hverjum áratug en Jim Burin sagði að síðustu árin hefði verið eins konar stöðnun. Þrátt fyrir þennan góðan árangur væri ástæða til að halda áfram að ná niður slysum, það væri markmið allra þeirra sem störfuðu að flugöryggismálum að draga úr áhættu og lækka slysatíðni.

Frá ráðstefnu um flugöryggi í Mílanó í nóvember 2010

Kringum 30 fyrirlestrar voru fluttir um hin ýmsu svið flugrekstrar, svo sem um þjálfunarmál, skipulag og notkun á flugöryggiskerfum og um ýmis vandamál sem koma upp svo sem vegna flugbanns vegna eldgosa.

Debbie Hersman, formaður bandarísku slysarannsóknanefndarinnar, NTSB, sem rannsakar slys í öllum samgöngugreinum, lýsti reynslu nefndarinnar af því að sinna sérstaklega fjölskyldum og öðrum nákomnum þegar slys eru annars vegar. Upplýsti hún að nefndin undirbýr nú alþjóðlega ráðstefnu í mars á næsta ári þar sem fjallað verður sérstaklega um þennan þátt. Hún segir brýnt að strax og slys hefur orðið sé ættingjum veitt aðstoð og þeim sinnt af þeim sem stjórna rannsókn slyss. Rannsóknarsérfræðingar þurfi að geta einbeitt sér að því að grafast fyrir um orsakir slyss og þess vegna þurfi aðrir sérfræðingar og starfsmenn að taka að sér ættingja sem séu í uppnámi. Aðstoð og áfallahjálp sem þessi þurfi að vera í skipulögðum farvegi og því ættu rannsóknarnefndir flugslysa að taka upp slík vinnubrögð.

Frá ráðstefnu um flugöryggi í Mílanó í nóvember 2010

Hesman kvaðst sjálf hafa verið við rannsókn á 20 alvarlegum slysum og sagði það reynslu sína að það skipti sköpum að hafa á eða við slysstað áfallateymi til aðstoðar fjölskyldum. Sagði hún þetta einnig vera reynslu hjá öðrum þjóðum og ítrekaði hún nauðsyn þessa. NTSB hefur sérstaka deild sem sinnir þessu verkefni og hefur á sinni könnu lækna, sálfræðinga og rannsakendur sem sjá til þess að fjölskyldur séu upplýstar um slys, afdrif fólks og að safna og skila persónulegum munum. Hún sagði 13 ára reynslu bandarísku rannsóknarnefndarinnar á þessu sviði margoft hafa sannað sig.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira