Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Umræður á villigötum vegna rangra útreikninga

Heilbrigðisráðuneytið gerir athugasemdir við úttekt sem gerð hefur verið á svonefndri Kragaskýrslu ráðuneytisins um sjúkrahúsþjónustu og vísað hefur verið til í fjölmiðlum. Niðurstöður úttektarinnar eru í meginatriðum rangar þar sem í henni eru aðferðafræðilegar villur og hugtök rangt notuð. 

Ráðuneytið metur mikils vilja fólks til að taka þátt í gagnrýninni umræðu um skipulag heilbrigðismála og er reiðubúið að taka öll sjónarmið til skoðunar ef byggt er á faglegum forsendum.

Framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hefur skrifað opið bréf til heilbrigðisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu 10. nóvember. Þar er meðal annars vísað í niðurstöður fyrrgreindrar úttektar sem Guðrún Bryndís Karlsdóttir, verkfræðingur, gerði á skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu, s.k. Kragaskýrslu, að beiðni landshlutasamtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi. Í bréfinu segir að úttektin sýni að sambærileg þjónusta sé allt að tíu sinnum dýrari á Landspítalanum en á smærri sjúkrahúsum.

Landshlutasamtökin hafa einnig sent ráðuneytinu bréf þar sem vísað er til sömu úttektar og sagt að niðurstöður hennar bendi til þess að hagkvæmara væri að færa verkefni frá Landspítalanum til Kragasjúkrahúsanna en ekki frá þeim.

Misskilningur hugtaka og aðferðafræðilegar villur

Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umrædda úttekt og leiðir sú skoðun í ljós að niðurstöðurnar eru í meginatriðum rangar. Höfundurinn gefur sér ýmsar forsendur sem ekki fá staðist og umfjöllun og niðurstöður byggjast að miklu leyti á misskilningi á hugtökum og aðferðafræðilegum villum. Þar vegur þyngst rangur samanburður kostnaðareininga eins og rakið er hér á eftir.

Í Kragaskýrslunni byggjast útreikningar annars vegar á kostnaði við svokallaðar „framleiddar einingar“ og hins vegar kostnaði við legudag. Framleiddar einingar eru útreiknaðar einingar sem byggjast á samsetningu þjónustu hvers sjúkrahúss fyrir sig og samsvara hlutfalli eða margfeldi af legudegi. Á Landspítala hefur kostnaður verið greindur með fjölþjóðlegu flokkunarkerfi, DRG (Diagnosis Related Groups) um nokkurt skeið. Kerfið er notað til að flokka og kostnaðargreina alla þjónustu við sjúklinga en þar sem slík flokkun var ekki fyrir hendi á Kragasjúkrahúsunum þurfti að útbúa sérstakar samanburðarhæfar framleiðslueiningar fyrir hvert sjúkrahús um sig. Þar af leiðandi er kostnaður við framleiðslueiningu Landspítala misjafn eftir því við hvaða Kragasjúkrahús er miðað, enda samsetning þjónustu á sjúkrahúsunum ólík.

Segir sjöfaldan mun á kostnaði sem er hinn sami ef rétt er reiknað

Í úttekt sinni leggur Guðrún Bryndís framleiðslueiningar Kragasjúkrahúsanna og DRG-einingar Landspítala að jöfnu í stað þess að notast við útreiknaðar framleiðslueiningar Landspítala til samanburðar. Þannig kemst hún meðal annars að þeirri niðurstöðu að keisaraskurðir og skurðaðgerðir á Kragasjúkrahúsunum séu allt að fimmfalt ódýrari þar en á Landspítala. Þessi niðurstaða er þvert á niðurstöður Kragaskýrslunnar og stafar af því að Guðrún Bryndís notar hugtök sem hún byggir á ranglega. Þessi misskilningur leiðir einnig til þeirrar ályktunar að allt að sjöfaldur munur sé á kostnaði eftir því hvort reiknað er með kostnaði á framleidda einingu eða kostnaði á legudag. Þar sem framleidd eining er hlutfall eða margfeldi af legudegi er kostnaðurinn hinn sami ef hugtökunum er beitt rétt.

Heilbrigðisráðuneytið hefur sent hlutaðeigandi aðilum bréf þar sem gerð er nánari grein fyrir röngum niðurstöðum úttektarinnar sem unnin var fyrir fyrrnefnd landshlutasamtök sveitarfélaga.

Guðbjartur HannessonHeilbrigðisráðherra, Guðbjartur Hannesson, segir að ráðuneytið meti mikils vilja fólks til að taka þátt í gagnrýninni umræðu um skipulag heilbrigðismála og sé reiðubúið að taka öll sjónarmið til skoðunar ef byggt er á faglegum forsendum. „Það er óhjákvæmilegt að hagræða í heilbrigðiskerfinu eins og á öðrum sviðum samfélagsins. Ráðuneytinu ber skylda til þess að leita hagkvæmustu leiða til að veita góða heilbrigðisþjónustu og öll hagræðing þarf að fara fram með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi. Umfjöllun um þessi mál er flókin og því miður skortir nokkuð á samræmdar tölfræðilegar upplýsingar sem grunn að ákvörðunum. Við verðum hins vegar að byggja á þeim gögnum og  upplýsingum sem við höfum haldbærar. Miklu skiptir að þeir sem taka þátt í faglegum umræðum um þessi efni vandi sig í hvívetna og fari rétt með staðreyndir og fræðileg hugtök, enda mikið í húfi.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum