Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2008 Utanríkisráðuneytið

Aukaframlag til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið aukaframlag til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) sem nemur um hálfri milljón Bandaríkjadala, eða um 37 milljónum ísl. kr. í kjölfar neyðarkalls stofnunarinnar. Á Matvælaátætlun SÞ í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna gífurlegra hækkana sem orðið hafa á matvæla- og eldsneytisverði að undanförnu.

Hlutverk stofnunarinnar er að seðja hungur þeirra sem minnst mega sín í heiminum og bregðast við neyðarástandi sem skapast í kjölfar flóða, þurrka, styrjalda eða annarra hörmunga. Sem stendur sinnir Matvælaáætlunin neyðaraðstoð í yfir 80 ríkjum og fæðir um 70 milljónir manna, þar af um 3 milljónir í Darfur-héraði í Súdan. Stofnunin hefur gripið til aðgerða til að mæta hækkandi matar- og eldsneytisverði og kaupir nú matvæli í auknum mæli nærri hamfarasvæðum til að spara flutningskostnað og styðja bændur á svæðinu. Engu að síður hefur hallareksturinn aukist og útgjöld vegna matvælakaupa stofnunarinnar hafa hækkað um 55% frá júní 2007 til febrúar 2008.

Samkvæmt verkefnaskrá utanríkisráðuneytisins árið 2008 var gert ráð fyrir 300.000 Bandaríkjadölum í neyðaraðstoð á vegum Matvælaáætlunar SÞ, sem hugsað er til að bregðast við þeim fjölda beiðna sem berast árlega. Er aukaframlagið til viðbótar þeirri aðstoð. Þá bendir flest til þess að vandi tengdur hækkandi matarverði haldi áfram, og mun ráðuneytið því gera ráð fyrir auknum framlögum til stofnunarinnar á næsta ári.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum