Hoppa yfir valmynd
1. mars 2013 Dómsmálaráðuneytið

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna alþingiskosninganna 27. apríl 2013

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna alþingiskosninganna 27. apríl getur hafist 2. mars innan lands og utan, samkvæmt 57. gr. laga um kosningar til Alþingis. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sýslumönnum um land allt á aðalskrifstofum eða útibúum þeirra. Utanríkisráðuneytið sér um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar erlendis og kynnir hvar og hvenær hægt er að greiða atkvæði.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hér á landi fer fram hjá kjörstjórum á eftirfarandi stöðum:

Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofu svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans. Sýslumenn auglýsa hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.
Hjá sýslumanninum í Reykjavík hefst utankjörfundaratkvæðagreiðsla laugardaginn 2. mars og fer í fyrstu fram á skrifstofu embættisins að Skógarhlíð 6. Opið
alla virka daga milli kl. 8.30-15.00 og um helgar frá kl. 12-14. Frá og með 15. apríl nk. fer atkvæðagreiðslan fram í Laugardalshöll og þá verður opið alla daga frá kl. 10-22.

Sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og fangelsum. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni eða dvalarheimili aldraðra. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, laugardaginn 6. apríl 2013.

Heimahúsi. Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, laugardaginn 6. apríl 2013, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þriðjudaginn 23. apríl 2013 kl. 16.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar erlendis fer fram hjá kjörstjórum á eftirfarandi stöðum:

Erlendis í skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnun, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis.

Um borð í íslensku skipi

Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri.

Skipstjórar, sem eru kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, skulu gæta þess að til séu í skipinu fyrir kosningar nægar birgðir kjörgagna til utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Það er skylda skipstjóra á íslenskum skipum, þá er fyrirskipaðar eru kosningar, að láta skipshöfnina vita um kjördaginn jafnskjótt og þeir vita um kosninguna.

Sýslumenn annast afgreiðslu kjörgagna til skipstjóra. Skipstjóri, sem veitir viðtöku utankjörfundargögnum, skal undirrita og afhenda hlutaðeigandi sýslumanni drengskaparyfirlýsingu um að kosning í skipi hans muni fara fram samkvæmt fyrirmælum laga um kosningar til Alþingis. Kjörgögnin skal varðveita á öruggum stað.

Sjá nánari upplýsingar á kosningavef innanríkisráðuneytisins, www.kosning.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum