Hoppa yfir valmynd
6. mars 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um upplýsinga- og fjarskiptatækni fyrir skynvædd samgöngukerfi til umsagnar

Í ráðuneytinu liggja nú fyrir drög að reglugerð um þróun upplýsinga- og fjarskiptatækni til notkunar fyrir skynvædd samgöngukerfi (ITS) en þau innleiða tilskipun 2010/40/ESB frá 7. júlí 2010 um ramma um útbreiðslu skynvæddra flutningakerfa á sviði flutninga á vegum og um tengingu þeirra við aðra flutningsmáta. Unnt er að senda ráðuneytinu umsögn um drögin til og með 20. mars næstkomandi á netfangið [email protected].

Tilskipunin sem reglugerðardrögin byggjast á er sett í þeim tilgangi að takast á við vaxandi álag (tafir) í vegaumferð og þar með vaxandi orkunotkun án þess að stöðugt verði byggt við vegakerfið. Með nýsköpun á sviði ITS yrði umhverfið bætt, afköst aukin í kerfinu, orkunýting bætt, umferðaröryggi aukið, öryggi flutninga og almennings aukið og hreyfanleiki fólks og vöru aukið. Enn fremur er stefnt að bættri tengingu flutninga á vegum og annarra flutningagreina. Evrópusambandið hefur um alllangt skeið leitað leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum vegaumferðar án þess að leggja í stöðugt meiri kostnað við ný vegamannvirki og án þess að minnka afkastagetu vegakerfanna og draga úr hreyfanleika fólks. Hefur lengi verið litið til ITS (snjallkerfa í samgöngum) í því sambandi. 

Tilskipun 2010/40/ESB fjallar fyrst og fremst um að Framkvæmdastjórninni er falið að láta útbúa reglur og staðla sem tryggja eiga samhæfni og samvirkni ITS kerfa í aðildarlöndunum í þeim forgangsaðgerðum sem skilgreindar eru í gr. 3 í tilskipuninni. Aðildarríkin eru ekki skyldug til að nýta sér ITS tæknina en ef þau gera það þá eiga þau að fara eftir tilskipuninni og þeim stöðlum sem Framkvæmdastjórnin kann að láta útbúa vegna samhæfðs rekstrar ITS kerfanna í aðildarlöndunum.

Beinar skyldur eru lagðar á aðildarríkin í 5. gr. um útbreiðslu kerfisins, 10. gr. um meðferð persónuupplýsinga, 11. gr. um skaðsemisábyrgð og 17. gr. um skýrslugjöf. Við gerð reglugerðardragana var fyrst og fremst tekið mið af þessum skyldum. 

Reglugerðin hefur stoð í 45. gr. vegalaga nr. 80/2007 og er miðað við að hún öðlist þegar gildi.

Ekki er sjáanlegur kostnaður af reglugerðinni fyrir hið opinbera eða atvinnulífið.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira