Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2009

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA

   

í málinu nr. 2/2009

 

Kostnaðarþátttaka: Viðhaldsframkvæmdir. Ákvörðunartaka: Lögmæti, gjalddagar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 27. janúar 2009, beindi Húseigendafélagið, f.h. A og B, hér eftir nefnd álitsbeiðendur, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við stjórn húsfélagsins X nr. 45–47, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Með tölvupósti gagnaðila, dags. 6. febrúar 2009, var óskað eftir fresti til 20. febrúar til þess að koma á framfæri greinargerð svo unnt væri að halda húsfund meðal annars um ágreiningsefnið. Í ljós kom að álitsbeiðendur yrðu fjarverandi þegar fyrirhugaður fundur skyldi haldinn og fór því gagnaðili fram á enn frekari frest sem var veittur til 27. febrúar.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 27. febrúar 2008, og athugasemdir Húseigendafélagsins, f.h. álitsbeiðenda, dags. 6. mars 2009, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar föstudaginn 17. apríl 2009.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 45–47, alls 19 eignarhluta. Ágreiningur er um kostnaðarhlutdeild vegna framkvæmda og ákvarðanatöku.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að álitsbeiðendum sé óskylt að taka þátt í kostnaði vegna viðhaldsframkvæmda.
  2. Að viðurkennt sé að verði síðar tekin lögmæt ákvörðun af hálfu gagnaðila vegna viðhaldsframkvæmdanna muni gjalddagar miðast við það tímamark og allur áfallinn kostnaður fram til þess tímamarks, hverju nafni sem hann nefnist, falla niður.

 

Í álitsbeiðni er greint frá því að í september 2008 hafi verið boðað til fundar í húsfélagsdeildinni X nr. 45. Þar hafi verið lagt fyrir fundarmenn að fara út í umfangsmiklar framkvæmdir á ytra byrði hússins að X nr. 45–47. Málið hafi verið lagt upp með þeim hætti að búið væri að samþykkja framkvæmdirnar af húsfélagsdeild að X nr. 47 og íbúar að X nr. 45 ættu bara eftir að samþykkja. Þannig hafi fólki verið stillt upp við vegg án þess að fá ráðrúm til að átta sig á málum að mati álitsbeiðenda. Samþykkt hafi verið á fundi húsfélagsdeildar X nr. 45 þann 25. september 2008 að húsfélagsdeildin samþykkti fyrir sitt leyti að gagnaðili, þ.e. heildarhúsfélagið, tæki tilboði lægstbjóðanda. Annar álitsbeiðenda, sem var viðstaddur fundinn, hafi verið þessu mótfallinn og skrifaði því ekki undir tillögu í fundargerð, sem hafi enda verið bókað sérstaklega. Stuttu eftir hafi reiðarslag í fjármál bankanna dunið yfir og íbúar, þ. á m. álitsbeiðendur, hafi beðið um fund í sínu húsfélagi í október til að heyra í íbúum hvað varði fjármögnunarerfiðleika. Hvorug húsfélagsdeildin hafi orðið við þeirri kröfu. Á þeim tíma hafi ekki enn verið búið forma endanlega samninga, þ.e. verksamning við verktaka, og íbúar farnir að átta sig á stöðunni hvað varðar framangreint. Að lokum hafi einn íbúi að X nr. 45 gengið milli íbúa og safnað undirskriftum þar sem skorað var á stjórnir húsfélagsdeildanna að sjá til þess að boðað yrði til fundar með öllum íbúum vegna breyttra aðstæðna, þ.e. í heildarhúsfélaginu. Beðið var um að farið yrði yfir stöðuna í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu. Mun það hafa verið í nóvember 2008 að gagnaðili hafi látið segjast og boðað til fundar. Við þessu hafi þó ekki verið brugðist fyrr en í byrjun desember.

Í álitsbeiðni kemur fram að framkvæmdirnar hafi aldrei verið bornar undir atkvæðagreiðslu fundar í heildarhúsfélaginu. Innheimt sé nú vegna framkvæmdanna í nafni heildarhúsfélagsins sem ekki hafi tekið ákvörðun í málinu og byggist sú innheimta á ólögmætum ákvörðunum húsfélagsdeildanna. Einungis hafi verið haldinn fundur á vegum gagnaðila, þann 3. desember 2008, þar sem farið var yfir framgang framkvæmda og almenn atriði auk þess sem fundarmönnum hafi verið tilkynnt að gengið yrði að eignum þeirra ef stæði á efndum. Tilefni þeirrar yfirlýsingar hafi verið sú að innheimta sem þegar var hafin gengi ekki sem skyldi og nokkur fjöldi íbúa hafi ekki staðið undir framkvæmdunum. Það hafi verið í fyrsta sinn sem gagnaðili tók málið til meðferðar, en eins og fram hafi komið hafi ákvörðun um framkvæmdir einungis verið tekin í tvennu lagi innan húsfélagsdeilda. Vísast jafnframt til fundarboðs þar sem boðað var til fundar vegna stöðu framkvæmda og fjármögnunar. Jafnframt sé á það bent að engum hafi gefist kostur á að sjá verksamning við verktaka og gengið hafi erfiðlega að útvega afrit af honum hingað til. Jafnframt skal athugast að á framangreindum fundi kom fram í máli fulltrúa verktaka að húsið hefði verið í mun betra ásigkomulagi en ætlað hafi verið og að ekki hefði verið þörf á svo viðamiklum framkvæmdum, þ.e. upp á um það bil 30 milljónir króna. Álitsbeiðendur hafi kvatt sér hljóðs á fundinum og gert sérstaka athugasemd við það að ákvörðun hefði ekki verið tekin á fundi allra íbúa og sé efni þeirra mótmæla stuttlega getið í fundargerð fundarins. Einnig hafi þeir gagnrýnt umfang framkvæmdanna. Öll umræða hvað þetta varði hafi verið kveðin í kút af hálfu fundarhaldara. Ljóst hafi verið að þorri fundarmanna teldi sig ekki geta haft þarna áhrif þar sem stjórn og forgöngumenn málsins hafi fullyrt að þeir sem skrifað hefðu undir á fundi húsfélagsdeildar væru búnir að skuldbinda sig með þeim hætti að ekki yrði aftur snúið og að innheimtu yrði ekki breytt. Sá háttur mála væri fullkomlega lögmætur og sú skuldbinding næði þar að auki einnig til álitsbeiðenda. Vísast nánar um þetta til fundargerðar gagnaðila.

Um sé að ræða framkvæmd sem varði eingöngu viðhald á ytri byrði hússins, þ.e. múr- og sprunguviðgerðir, auk viðhalds á ytra byrði glugga, sem gagnaðili sé einn bær til að taka ákvörðun um á löglega boðuðum húsfundi. Húsfélagið X nr. 45 sé húsfélagsdeild, sbr. 76. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sem einungis hafi heimild til að taka bindandi ákvarðanir um sameign sumra, þ.e. stigahús, ganga, hjólageymslu o.þ.h. Sama gildi um húsfélagsdeildina X nr. 47 að breyttu breytanda. Hvor húsfélagsdeild um sig geti ekki skuldbundið íbúa umfram valdsvið sitt. Farið hafi verið af stað án þess að huga nægjanlega að fjármögnun verksins og ekki hafi verið brugðist við breyttum forsendum íbúa. Fundað hafi verið í tvennu lagi, þ.e. innan húsfélagsdeildanna tveggja, og hafi meðal annars komið í ljós íbúa á milli að þeir hefðu mögulega kosið að fresta framkvæmdum eða endurskoða þær að einhverju leyti, í ljósi ástandsins, vitandi af stöðu annarra í húsinu þar sem fleiri en álitsbeiðendur hafi átt erfitt með fjármögnun. Yfirgnæfandi líkur standi til þess að almenn umræða á sameiginlegum fundi allra eigenda á réttu tímamarki hefði getað leitt til annarrar niðurstöðu, jafnvel þótt ákveðið hefði verið að fara í einhverjar framkvæmdir. Af framangreindu sé ljóst að álitsbeiðendur séu ekki greiðsluskyldir gagnvart gagnaðila þar sem ákvörðun um framkvæmdirnar hafi ekki verið tekin með lögformlegum hætti á löglega boðuðum húsfundi í réttu húsfélagi, sbr. 39., 40., 57. og 76. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Verði tekin lögmæt ákvörðun um framkvæmdirnar síðar sé að sama skapi ljóst að gjalddagar reikninga muni miðast við það tímamark, enda þá fyrst sem greiðsluskyldan hafi stofnast. Allur áfallinn kostnaður sem falli til fram að því tímamarki, sama hverju nafni hann nefnist, muni einnig falla niður.

 

Í greinargerð gagnaðila krefst hann þess að álitsbeiðendur greiði sinn hluta af kostnaði við viðhaldsframkvæmdir á X nr. 45–47 samkvæmt fyrirliggjandi tilboði verktakans Z ehf.

Gagnaðili telur lýsingu á málavöxtum álitsbeiðenda vera ónákvæma og ranga á köflum og telur gagnaðili því nauðsynlegt að fjalla ítarlegar um málavexti.

Gagnaðili greinir frá því að sú hefð hafi ríkt við ákvarðanatöku um sameiginleg verkefni heildarhúsfélagsins að X nr. 45–47 að mál hafi verið afgreidd hjá húsfélagsdeildum hvors stigagangs um sig. Þetta hafi ekki sætt ágreiningi af hálfu íbúa eða álitsbeiðanda. Hafi framkvæmdir verið samþykktar með þeim hætti að hvor húsfélagsdeildin fyrir sig hafi samþykkt framkvæmdirnar, eins og til dæmis sumarið 2006 þegar gerður var samningur við garðyrkjufræðing um umsjón lóðarinnar við húsið.

Því fari víðs fjarri að umræður um viðhaldsframkvæmdir hafi fyrst komið við sögu á fundi húsfélagsdeildanna 24. og 25. september 2008, eins og haldið sé fram í álitsbeiðni. Um árabil hafi öllum íbúum hússins verið ljóst að húsið þarfnaðist mikils viðhalds. Leka hafi orðið vart haustið 2007, svo að annar álitsbeiðandi hafi farið þess á leit við stjórn húsfélagsdeildarinnar X nr. 45 að gert yrði við sprungur í steypu sem hafi valdið því að mikill leki var í íbúð hans á jarðhæð. Brugðist hafi verið við beiðni álitsbeiðanda og í leiðinni gert við nokkrar sprungur sem hafi valdið leka annars staðar í stigagangi, svo sem á efstu hæð sem kvartanir höfðu borist um. Ljóst hafi verið að þær sprunguviðgerðir væru aðeins til bráðabirgða og að ráðast þyrfti fljótlega í meiri háttar viðgerðir á ytra byrði hússins.

Á húsfundi í húsfélagsdeildinni X nr. 45 þann 26. mars 2008 hafi málið verið rætt og eftirfarandi tillaga samþykkt samhljóða: „Félagið samþykkir að fela Y ehf. að gera ástandsúttekt á sameigninni X nr. 45 og 47 svo og kostnaðaráætlun og valkosti á viðgerð hússins. Áætlaður kostnaður Y er kr. 400-450 þús. kr. sem skiptist á íbúðir skv. eignarhluta.“ Annar álitsbeiðanda hafi setið fundinn en ekki gert athugasemd við niðurstöðu hans. Á aðalfundi félagsins 29. maí 2008 sem annar álitsbeiðanda hafi setið var félagsmönnum gerð rækileg grein fyrir úttekt þeirri sem Y hafði gert á ástandi hússins og áætluðum kostnaði við hana. Hinn 16. júlí 2008 hafi svo öllum eigendum íbúða í heildarhúsfélaginu X nr. 45 verið sent ítarlegt bréf þar sem tilhögun við fyrirhugaðar framkvæmdir hafi verið kynnt. Af bréfi þessu sé ljóst að öllum íbúðareigendum í húsfélagsdeildinni hafi verið fullljóst hvað stæði fyrir dyrum.

Á aðalfundi húsfélagsdeildarinnar 29. maí 2009 hafi verið kosin þriggja manna stjórn til tveggja ára, þar á meðal hafi annar álitsbeiðandi verið kosinn sem meðstjórnandi. Á næsta fundi 25. september hafi verið kynnt fjögur tilboð sem borist höfðu í framkvæmdir við húsið og ákveðið að taka lægsta tilboði sem var frá Z hf. Framkvæmdir við verkið hófust strax í kjölfarið.

Álitsbeiðandi hafi haldið því fram að hann hefði í október eða nóvember eftir bankahrunið beðið um húsfund til að ræða áhrif þess á framkvæmdirnar við húsið. Muni þar átt við lauslegt og óformlegt samtal við formann húsfélagsdeildarinnar X nr. 45 í anddyri hússins. Álitsbeiðanda hafi verið svarað því til að sameiginlegar framkvæmdir við húsið heyrðu nú undir heildarhúsfélagið X nr. 45–47 og að beiðni um húsfund ætti því að bera upp við formann sameiginlega félagsins og þyrfti fjórðungur félagsmanna að biðja skriflega um slíkan fund. Þegar slík beiðni hafi borist í ódagsettu bréfi í nóvember hafi þegar í stað verið orðið við þeirri ósk og boðað til fundar 3. desember með lögmætum fyrirvara. Á þeim fundi hafi verið dreift til allra viðstaddra umræddum verksamningi við Z hf., einnig hafi meginatriði samningsins verið kynnt og lýst gangi verksins.

Á fyrsta aðalfundi heildarhúsfélagsins X nr. 45–47 hafi meðal annars verið fjallað um umrædda kæru álitsbeiðenda. Að loknum umræðum hafi svofelld tillaga sem kynnt hafði verið í fundarboði verið borin undir atkvæði og hún samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu. Einn sat hjá: „Aðalfundur húsfélagsins X nr. 45-47, haldinn 25. febrúar 2009, staðfestir fyrri samþykktir húsfélaganna X nr. 47 frá 24. september 2008 og X nr. 45 frá 25. september 2008 um framkvæmdir við endurbætur á húseigninni utanhúss og samþykkir að ljúka þeim samkvæmt gildandi samningi við Z hf. Aðalfundurinn lýsir fullum stuðningi við gerðir fráfarandi stjórnar varðandi framkvæmdirnar.“

Þá bendir gagnaðili á það að hann mótmæli því ekki að ákvarðanir varðandi sameign allra eigenda verði að taka á vettvangi heildarhúsfélagsins, þ.e. á sameiginlegum húsfundi allra eigenda. Því fari hins vegar fjarri að álitsbeiðendur séu ekki greiðsluskyldir vegna þeirra framkvæmda sem nú þegar hafi verið ráðist í, þrátt fyrir að ákvörðunin hafi upphaflega verið tekin á fundi hvorrar húsfélagsdeildar um sig. Vísar gagnaðili til 5. mgr. 40. gr., sbr. 63. gr., laga nr. 26/1994 því til stuðnings. Þar sé kveðið á um að óverulegur galli á húsfundi veiti eiganda ekki rétt til að neita að taka þátt í sameiginlegum kostnaði ef um brýna framkvæmd sé að ræða, til dæmis viðhald, eða ef augljóst sé að vera eigandans á fundi, málflutningur og atkvæðagreiðsla gegn framkvæmdinni hefði engu breytt um niðurstöðuna.

Á húsfundi húsfélagsdeildar X nr. 45 þann 25. september 2008 hafi verið samþykkt af öllum íbúum, að álitsbeiðanda undanskildum, að sameiginleg stjórn heildarhúsfélagsins tæki tilboði lægstbjóðanda, Z ehf., í nauðsynlegar viðgerðir og viðhald hússins utanhúss. Deginum áður hafði húsfélagsdeildin X nr. 47 gert slíkt hið sama og hafi allir íbúar verið samþykkir verkframkvæmdunum. Þessi ákvarðanataka hafi var í samræmi við þá hefð sem hafði ríkt um sameiginleg verkefni heildarhúsfélagsins X nr. 45–47 og greint var frá hér að framan.

Fyrrnefndar fundagerðir sýni einnig fram á að staðið hafi verið réttilega og faglega að undirbúningi, kynningu og ákvarðanatöku af hálfu stjórnar húsfélagsdeildarinnar áður en ákvörðun hafi verið tekin um að taka lægsta tilboðinu í viðhald og viðgerðir hússins. Enn fremur sé ljóst að íbúar hússins hafi tekið upplýsta ákvörðun um verkframkvæmdirnar.

Þá liggi fyrir að haldinn var sameiginlegur húsfundur heildarhúsfélagsins 25. febrúar 2009 þar sem verkframkvæmdirnar hafi verið samþykktar. Þar hafi verið samþykkt af öllum íbúunum fyrir utan álitsbeiðanda og einn íbúa sem sat hjá, að ljúka hinum umdeildu verkframkvæmdum samkvæmt gildandi samningi við Z hf., auk þess sem lýst hafi verið var fullum stuðningi við gerðir fráfarandi stjórnar um framkvæmdirnar.

Af framangreindu virtu telur gagnaðili augljóst að um „óverulegan“ galla hafi verið ræða á húsfundi húsfélagsins X nr. 45–47. Þar sem yfirgnæfandi meirihluti eigenda hafi samþykkt nauðsynlegt viðhald á húsinu telur gagnaðili augljóst að það hafi ekki haft nein áhrif að verkframkvæmdirnar hafi ekki verið samþykktar á sameiginlegum húsfundi allra eigenda. Niðurstaðan sé því sú að um lögmæta ákvörðun hafi verið að ræða sem álitsbeiðanda sé skylt að fara eftir, sbr. 1. tölul. 13. gr. fjöleignarhúsalaga.

Þessi niðurstaða styðjist einnig við markmið löggjafans með 5. mgr. 40. gr. laga nr. 26/1994 sem komi fram með skýrum hætti í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna þar sem segi: „Hefur [10. gr. þágildandi fjöleignarhúsalaga nr. 59/1976] oft leitt til óeðlilegrar og ósanngjarnrar niðurstöðu þegar eigandi hefur vegna smávægilegra ágalla á ákvarðanatöku skýlt sér á bak við hana og neitað að greiða hlutdeild í sameiginlegum kostnaði. Á það einkum við þegar um nauðsynlegar framkvæmdir, viðhald og viðgerðir hefur verið að ræða, sem yfirgnæfandi meirihluti er fyrir. Á það raunar einnig við um aðrar framkvæmdir sem auka verðmæti sameignar og þar af leiðandi allra eigna í húsinu, líka þess sem neitar að greiða hlutdeild sína. Það er óeðlilegt og ósanngjarnt að eigandi geti þannig almennt auðgast á kostnað annarra, slík auðgun er ekki réttmæt og samrýmist ekki réttarvitund fólks.“

Að lokum bendir gagnaðili á það að annar álitsbeiðendanna hafi verið viðstaddur húsfund húsfélagsdeildar sem stjórnarmaður þegar ákveðið hafi verið að taka tilboði lægstbjóðanda í viðhald og viðgerðir hússins X nr. 45–47. Álitsbeiðandi hafi ekki séð ástæðu til að gera fyrirvara um lögmæti fundarins. Af þeirri ástæðu einni geti álitsbeiðandi ekki hafnað greiðsluskyldu á þeim grundvelli að ákvörðun um framkvæmdirnar hafi ekki verið tekin með lögformlegum hætti á löglega boðuðum húsfundi í réttu húsfélagi.

 

Í athugasemdum sínum árétta álitsbeiðendur að komist kærunefnd fjöleignarhúsamála að þeirri niðurstöðu að lögmæt ákvörðun liggi nú fyrir í kjölfar samþykktar aðalfundar þann 25. febrúar 2009 geti gjalddagar innheimtu húsfélagsins vegna framkvæmdanna ekki miðast við fyrra tímamark en 25. febrúar s.á. Allur áfallinn kostnaður fyrir það tímamark, vegna meintra vanskila, hverju nafni sem nefnist, falli þannig niður.

 

III. Forsendur

Ágreiningslaust er að fjöleignarhúsið X nr. 45–47 telst eitt hús í skilningi laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Samkvæmt því er allt ytra byrði hússins, útveggir, þak, gaflar og útidyr, þó ekki svaladyr, svo og útitröppur og útistigar í sameign sem og ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign, sbr. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna.

Þá er einnig ágreiningslaust að samkvæmt lögum um fjöleignarhús, beri að taka sameiginlegar ákvarðanir á fundi í húsfélagi, sbr. 4. mgr. 39. gr. laganna.

Sé ákvörðun tekin án samráðs við alla eigendur eða án þess að öllum sé gefinn kostur á að vera með í ákvarðanatöku, getur sá aðili, sem ekki var með í ákvarðanatökunni, krafist þess að framkvæmd verði stöðvuð, sbr. 2. mgr. 40. gr. laganna.

Fyrir liggur að húsið þarfnaðist mikils viðhalds og að leka hafði orðið vart haustið 2007. Var samþykkt á fundum húsfélagsdeildanna að Y ehf. kannaði ástand og áætlaði kostnað við viðkomandi viðgerðir. Y ehf. mat kostnaðinn 440–450 þúsund krónur og var íbúum gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu á fundi í húsfélagsdeildinni X nr. 45 þann 29. mars 2008 eftir því sem gagnaðili heldur fram. Þá var öllum íbúum húsfélags­deildarinnar kynnt bréflega 16. júlí 2008 um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki betur séð en vandað hafi verið til verka við undirbúning framkvæmdanna. Í málinu er hins vegar óumdeilt að ákvörðun um viðhalds­framkvæmdir X nr. 45–47 var tekin á fundum í hvorri húsfélagsdeild fyrir sig. Var slík ákvörðun meðal annars tekin á húsfundi X nr. 45 þann
25. september 2008 af öllum eigendum nema álitsbeiðendum. Slíka ákvörðun bar hins vegar að taka á sameiginlegum húsfundi í heildarhúsfélaginu X nr. 45–47 til að hún hlyti formlegt gildi. Af því leiðir að ákvörðunin var ekki tekin með lögmætum hætti og hefði álitsbeiðendum verið heimilt að neita að greiða kostnað vegna hennar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 26/1994.

Í 4. mgr. 40. gr. laga nr. 26/1994 segir að sé annmarki á ákvarðanatöku er húsfélagi rétt að bæta úr eða staðfesta ákvörðunina á öðrum fundi, sem skal haldinn svo fljótt sem kostur er. Sé það gert verður ákvörðunin bindandi fyrir eigendur.

Eftir að álitsbeiðni barst kærunefnd og óskað var greinargerðar gagnaðila var boðað til aðalfundar í heildarhúsfélaginu 25. febrúar 2009. Dagskrá fylgdi tillaga sem borin var upp á fundinum. Tillagan var þess efnis að aðalfundurinn staðfesti fyrri samþykktir húsfélaganna frá 24. og 25. september 2008 um framkvæmdir við endurbætur á ytra byrði og samþykkir að ljúka þeim samkvæmt gildandi samningi við Z hf. Allir fundarmenn samþykktu tillöguna utan álitsbeiðenda og einn sat hjá. Þar sem löglegt samþykki liggur fyrir um umrædda framkvæmd ber að hafna kröfu álitsbeiðenda þess efnis að þeim sé óskylt að taka þátt í kostnaði vegna þeirra.

Sú krafa álitsbeiðenda að gjalddagar miðist við það tímamark að lögmæt ákvörðun hafi verið tekin og að allur kostnaður fram til þess, hverju nafni sem hann nefnist, falli niður, á sér ekki stoð í lögum nr. 26/1994 og verður henni því hafnað.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðendum sé skylt að taka þátt í kostnaði vegna viðhaldsframkvæmda við húsið.

 

Reykjavík, 17. apríl 2009

 

Valtýr Sigurðsson

Benedikt Bogason

Pálmi R. Pálmason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum