Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Útboð á farmiðum í febrúar

Útboð vegna farmiðakaupa Stjórnarráðsins verður auglýst í febrúar næstkomandi, en undirbúningur vegna þess hefur staðið undanfarin misseri.

Fjármála- og efnahagráðuneytið hefur undirbúið útboðið í samstarfi við önnur ráðuneyti, Rekstrarfélag stjórnarráðsins, Fjársýslu ríkisins og Ríkiskaup. Forsenda allrar vinnunnar er að útboð á farmiðakaupum nái markmiðum um hagkvæmustu innkaup, en hafður er að leiðarljósi kostnaður sem fellur til vegna þátta á borð við flug, gistingu, uppihald á ferðalögum og tímasetningar tengiflugs vegna ferða starfsmanna á vegum ríkisins.

Í þessu skyni var m.a. unnin ítarleg greining á ferðatilhögun starfsmanna Stjórnarráðsins til þess að meta hvaða þarfir útboð á farmiðakaupum þarf að uppfylla. Meðal annars voru kannaðir helstu áfangastaðir, framhaldsflug, lengd ferða og tímasetningar. Auk þess var fundað með fulltrúum stærstu seljenda.

Í framhaldi var ákveðið að endurskipuleggja innkaup á flugmiðum hjá Stjórnarráðinu. Ákveðið var að öll farmiðakaup ráðuneyta fari fram miðlægt hjá Rekstrarfélagi stjórnarráðsins. Er það gert til að auka hagræðið við innkaupin. Samhliða hefur verið unnið að endurskoðun á verklagi við farmiðakaup og verkferlar aðlagaðir. Þeirri vinnu er að ljúka og verður útboð Stjórnarráðsins á farmiðakaupum auglýst í febrúar.

Ráðuneytið áformar að þegar búið er að bjóða út flugfarmiðakaup fyrir Stjórnarráðið vinni nýskipuð verkefnisstjórn um nýjar áherslur í opinberum innkaupum að sambærilegri útfærslu fyrir stofnanir ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum