Hoppa yfir valmynd
8. desember 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 8/2021- Úrskurður

 

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Vegagerðinni

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun V um að ráða karl í starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði hjá stofnuninni. Að mati nefndarinnar hafði ekki verið sýnt fram á að A hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Var því ekki fallist á að V hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 8. desember 2021 er tekið fyrir mál nr. 8/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 30. mars 2021, kærði A ákvörðun Vegagerðarinnar um að ráða karl í starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Vegagerðin brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 10. maí 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 16. júní 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 28. júní s.á. Í framhaldinu bárust athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 19. júlí 2021, sem kynntar voru kærða með bréfi kærunefndar, dags. 27. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 10. ágúst 2021. Hinn 25. ágúst s.á. barst tölvupóstur frá kæranda með viðbótarupplýsingum sem sendar voru kærða 30. s.m., en hans athugasemdir bárust nefndinni með tölvupósti 6. september 2021.

   

  MÁLAVEXTIR

 4. Kærði auglýsti starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði stofnunarinnar 19. desember 2020. Auglýsingin var endurbirt 6. janúar 2021 og umsóknarfrestur framlengdur til 18. s.m. Í auglýsingunni kom fram að leitað væri að metnaðarfullum einstaklingi í nýtt starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði kærða. Tekið var fram að áhersla væri lögð á að forstöðumaður hefði þekkingu á hlutverki og starfsemi Vegagerðarinnar, byggi m.a. yfir þekkingu og reynslu á sviði mannvirkjagerðar og stjórnunar og góðri færni í mannlegum samskiptum. Um væri að ræða nýja deild á mannvirkjasviði sem annaðist rannsóknir á jarðefnum, efnisleit, námurannsóknir, jarðvegskannanir, jarðvegslýsingar og rekstur rannsóknarstofu. Auk þess hefði hún umsjón með gerð reglna og leiðbeininga um efnisgæði og framkvæmdir og gerð útboðs- og verklýsinga. Einnig væru þar rekin tæki til gagnaöflunar og mælinga ásamt framkvæmd og úrvinnslu mælinga. Um væri að ræða fullt starf. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirtaldar menntunar- og hæfniskröfur: Háskólapróf í verk-, tækni- eða jarðfræði en meistarapróf var talið æskilegt. Reynsla af stjórnun var talin kostur en krafa gerð um reynslu af gerð reglna og leiðbeininga auk þekkingar og reynslu á sviði mannvirkjagerðar. Gerð var krafa um frumkvæði, skipulagshæfni og faglegan metnað og hæfni til að vinna sjálfstætt sem og í teymisvinnu. Þá var gerð krafa um góða íslensku- og enskukunnáttu í rituðu og töluðu máli auk hæfni til að fylgja málum eftir og til að finna bestu lausnir hverju sinni.
 5. Alls bárust fimmtán umsóknir um starfið og voru fimm þeirra sem sóttu um boðuð í viðtöl, ein kona og fjórir karlar. Að loknum viðtölum var ákveðið að bjóða einum karlinum starfið sem hann þáði.
 6. Kærandi óskaði 22. febrúar 2021 eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og var hann veittur 19. mars 2021.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 7. Kærandi telur að við ráðningu í starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði kærða hafi 19. gr. laga nr. 150/2020 verið brotin og kynferði verið látið ráða við ákvörðunartökuna fremur en hæfni til starfans. Verði sú niðurstaða staðfest af hálfu kærunefndar óskar kærandi eftir því að fyrirmælum um úrbætur verði beint til kærða og að kærða verði gert að greiða kæranda málskostnað, sbr. 1. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála.
 8. Kærandi telur að ráðningarferlið hafi ekki staðist grunnkröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði meðal umsækjenda. Ekki sé tekið mið af menntun aðila í heild sinni, auk þess sem mikilvægir þættir í mati á starfsreynslu, starfslengd og þekkingu hafi verið utan matsins. Matsviðmið hafi verið óljós og matið sjálft ógagnsætt. Huglægir þættir eins og vangaveltur um vanhæfni í mannlegum samskiptum hafi verið dregnir inn í matið og kærandi gerður tortryggilegur að ófyrirsynju.
 9. Kærandi bendir á að hún hafi bæði mun meiri menntun og mun lengri starfsaldur sem verkfræðingur en sá sem var ráðinn. Telur kærandi að hún hafi uppfyllt allar hæfniskröfur sem gerðar voru og að það mat sem lagt var til grundvallar við ráðninguna fái ekki staðist. Hafi hlutlægum mælikvörðum verið vikið til hliðar í ráðningarferlinu og þar með gengið fram hjá hæfasta umsækjandanum. Bendir kærandi á að þar sem starfsmenn á því sviði innan kærða sem lýtur að mannvirkjasviði séu aðallega karlmenn hefði verið kjörið tækifæri fyrir yfirstjórn kærða til að ráða í umrætt starf vel menntaða konu sem gerþekkir verkefnin á sviðinu og þannig hefði kærði getað státað af framlagi sínu til jafnréttis kvenna og karla hér á landi.
 10. Bendir kærandi á að hún hafi lokið doktorsprófi auk þess að hafa lokið meistaraprófi frá erlendum háskóla. Sá sem var ráðinn hafi aftur á móti aðeins lokið meistaraprófi og tekið eina önn í skiptinámi við erlendan háskóla. Þá sé starfsaldur hennar fimm árum lengri en þess sem var ráðinn, þrátt fyrir að þau séu jafn gömul. Þá hafi sá sem var ráðinn ekki haft eiginleg mannaforráð í starfi en hún hafi aftur á móti leitt sextán manna teymi árin 2018–2020 sem fagstjóri vega- og hafnasviðs hjá EFLU verkfræðistofu auk þess að hafa lokið tveimur námskeiðum í stjórnun á vegum Opna háskólans.
 11. Kærandi bendir á að mat kærða á reynslu kæranda af gerð reglna og leiðbeininga fáist ekki staðist. Hún hafi verið aðalhöfundur og ábyrgðarmaður að leiðbeiningum um festun burðarlags vega sem gefnar voru út af EFLU verkfræðistofu og kærða. Hún hafi sent ábendingar vegna leiðbeininga kærða í starfi sínu hjá EFLU og kærða auk þess sem hún vinni að endurskoðun leiðbeininga um burðarþolshönnun vega. Þá hafi hún komið að gerð útboðsgagna og borið ábyrgð á þeim.
 12. Kærandi telur að fyrir matsþáttinn þekking og reynsla á sviði mannvirkjagerðar hafi hún átt að fá fullt hús stiga eins og sá sem var ráðinn. Telur hún að huglægt mat hafi ráðið þessari niðurstöðu en hún hafi ekki unnið við annað en mannvirkjagerð allt frá árinu 2002 þegar hún starfaði sem verkamaður á byggingarstað. Þá hafi hún verið verkefna- og hönnunarstjóri í stórum verkefnum. Hafi hún starfað fimm árum lengur sem verkfræðingur og tveimur árum lengur sem B.Sc. í verkfræði auk þess að hafa starfað erlendis í eitt ár.
 13. Kærandi telur að huglægt mat hafi ráðið því að hún hlaut ekki jafn mörg stig og sá sem var ráðinn fyrir matsþáttinn áætlanagerð og verkefnastjórnun. Fram hafi komið í viðtali og umsögnum að hún hafi sinnt verkefnastjórn og verið hönnunarstjóri í stórum verkefnum og haft umsjón með sérhæfðum búnaði Vegagerðarinnar.
 14. Kærandi bendir á að hún hafi frá árinu 2016 verið aðjúnkt við Háskóla Íslands við umhverfis- og byggingarverkfræðideild og stundakennari í námskeiðinu vegagerð frá árinu 2014 og í námskeiðinu jarðtækni og grundun á árunum 2015–2018. Hún hafi verið andmælandi við doktorsvörn í Noregi á árinu 2020. Þá hafi hún verið prófdómari í tveimur meistaraverkefnum við Háskóla Íslands. Að auki hafi hún ritað fjölda fræðigreina sem fyrsti höfundur og í samvinnu við aðra, eins og fram hafi komið í umsókn. Sá sem fékk starfið hafi verið prófdómari í einu námskeiði og leiðbeinandi í einu lokaverkefni við háskóla auk þess að hafa ritað tvær greinar.
 15. Bendir kærandi á að hún hafi fengið færri stig heldur en sá sem var ráðinn fyrir frumkvæði og metnað, hins vegar sýni umsagnir umsagnaraðila að hún búi yfir þessum eiginleikum auk sem hún hafi lokið doktorsprófi.
 16. Kærandi bendir á að hefði hún fengið fullt hús stiga fyrir frammistöðu í viðtali eins og sá sem var ráðinn hefði hún skorað hærra í heildarstigagjöfinni. Um sé að ræða huglægt mat og gerir kærandi í því sambandi athugasemdir við spurningar í viðtalinu og telur að rangar ályktanir hafi verið dregnar af svörum hennar. Þá bendir kærandi á að ekki hafi verið litið til persónubundinna þátta, s.s. aukinnar menntunar, kennslu, ritunar ritrýndra greina og mannaforráða, þegar mjög mjótt var á munum á milli kæranda og þess sem fékk starfið.
 17. Kærandi vekur athygli á því að sá sem var ráðinn segist í ferilskrá hafa starfað við byggingarstjórn en nafn hans sé ekki að finna á lista yfir byggingarstjóra hjá Mannvirkjastofnun. Þá hafi hann ekki verið orðinn verkfræðingur þegar hann starfaði á tilteknum verkfræðistofum en starfsheitið sé lögverndað.
 18. Telur kærandi sig hafa leitt sterkar líkur að því að kærði hafi við ráðningu í starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði Vegagerðarinnar mismunað henni á grundvelli kyns, sbr. 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 19. Kærði hafnar því að umrædd ráðning hafi falið í sér mismunun milli umsækjenda á grundvelli kyns eða nokkurra annarra ástæðna sem tilgreindar eru í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Telur kærði að ráðningarferlið hafi uppfyllt að öllu leyti reglur stjórnsýslulaga um undirbúning og töku ákvörðunar. Mat á umsækjendum hafi byggst á sömu aðferðafræði og forsendum og að fullu hafi verið gætt jafnræðis á milli þeirra á öllum stigum ráðningarferlisins í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.
 20. Kærði tekur fram að þrír fulltrúar kærða ásamt utanaðkomandi ráðgjafa hafi mótað matsramma fyrir frummat umsókna. Hann hafi verið byggður á sex viðmiðum sem leiddu af auglýsingu um starfið sem hægt væri að meta á grundvelli skriflegra gagna umsækjenda. Þessi viðmið voru: 1) Háskólapróf í verk-, tækni- eða jarðfræði, meistarapróf æskilegt. 2) Reynsla af stjórnun kostur. 3) Reynsla af gerð reglna og leiðbeininga. 4) Þekking og reynsla á sviði mannvirkjagerðar. 5) Góð íslenskukunnátta í rituðu og töluðu máli. 6) Góð enskukunnátta í rituðu og töluðu máli. Hafi umsóknirnar verið yfirfarnar af fyrrnefndum aðilum sem mátu hvern og einn umsækjanda og var samróma niðurstaða um stigagjöf fyrir hvern umsækjanda fyrir sig. Að lokinni þessari fyrstu umfjöllun um hæfni einstakra umsækjenda var ákveðið að gefa þeim fimm umsækjendum sem fengu flest heildarstig, fjórum körlum og einni konu, kost á að halda áfram í ráðningarferlinu og bjóða þeim til viðtals.
 21. Kærði tekur fram að annað mat á umsækjendum hafi falist í ítarlegum viðtölum sem hafi verið tekin af sömu aðilum og mátu umsóknirnar. Allir fimm umsækjendurnir hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru til starfsins samkvæmt starfslýsingu og auglýs­ingu. Viðtölin hafi verið sérsniðin með tilliti til starfsins en markmiðið var að fá fram hvernig umsækjendur mátu reynslu, þekkingu og hæfni sína til að sinna starfinu, sem og viðhorf þeirra, metnað og væntingar til þess. Við matið á þessum þætti var litið til svara við einstökum spurningum og til viðbótarupplýsinga sem umsækjendur veittu sjálfir. Notast var við staðlað viðtalsform með fyrirfram ákveðnum spurningum. Það var samhljóða niðurstaða að tveir umsækjendur hefðu sérstöðu í hópnum, sá karl sem var ráðinn og kærandi. Var því ákveðið að leita til umsagnaraðila þeirra. Að loknu mati á umsögnum umsagnaraðila og að teknu tilliti til heildarmats á því hvernig hæfni og starfsreynsla félli að kröfum auglýsingar og verkefna starfsins, auk framkomu og upplýsinga úr viðtali og huglægu mati á því hversu vel samspil menntunar, reynslu og annarra persónueinkenna féll að verkefnum starfsins, var ákveðið að bjóða karlinum starfið.
 22. Kærði tekur fram að afar litlu hafa munað á kæranda og þeim sem var ráðinn eftir viðtölin og því ljóst að bæði uppfylltu þær hæfniskröfur sem voru gerðar, bæði að því er varðar hlutlæga og huglæga efnisþætti. Fyrra mat sem var unnið upp úr skriflegum gögnum laut að því að sigta út þá umsækjendur sem myndu halda áfram í ráðningarferlinu. Í seinna matinu höfðu viðbótarupplýsingar og frammistaða í viðtali áhrif og því gat stigagjöf fyrir einstaka þætti breyst milli fyrra og seinna mats.
 23. Kærði bendir á að ekki hafi verið krafist framhaldsnáms í auglýsingu og fengu umsækjendurnir því bæði fjögur stig fyrir þann matsþátt. Ekki var heldur gerð krafa um starfsaldur en að mati stofnunarinnar telst starfsaldur, sem er talinn í árum, ekki hæfniþáttur sem er sérstaklega metinn. Litið var til reynslu og til fyrri starfa en ekki voru gefin stig sérstaklega fyrir starfsaldur. Reynsla af stjórnun var talin kostur en fyrir þann þátt fékk kærandi þrjú stig en sá sem var ráðinn tvö stig. Við mat á þættinum reynsla af gerð reglna og leiðbeininga fengu kærandi og sá sem var ráðinn jafn mörg stig en kærandi hafði í fyrra matinu fengið færri stig en sá sem var ráðinn. Þegar kom að matsþættinum þekking og reynsla á sviði mannvirkjagerðar fékk sá sem var ráðinn fjögur stig en kærandi þrjú stig. Kærði bendir á að ekki hafi verið gerð krafa um sérstakan starfsaldur eða tímalengd menntunar varðandi þennan matsþátt. Frammistaða í viðtali og viðbótarupplýsingar hafi leitt til þess að sá sem var ráðinn hafi fengið fleiri stig en kærandi fyrir þennan þátt. Báðir umsækjendur fengu fjögur stig fyrir kunnáttu í íslensku og ensku. Ekki var gerð krafa um reynslu af kennslu eða ritstörfum þótt slíkt yrði almennt virt umsækjendum til góða.
 24. Kærði tekur fram að umsækjendum sé í sjálfsvald sett hverja þeir nefna sem umsagnaraðila og ekki sé skilyrði að um yfirmenn sé að ræða enda eigi umsagnir fyrst og fremst að gegna því hlutverki að varpa ljósi á persónubundna eiginleika þess sem um ræðir.
 25. Kærði áréttar að ráðningar hjá honum miði að því að ráða hæfasta umsækjandann en ekki að því að geta státað af framlagi sínu til jafnréttis karla og kvenna. Bendir kærði sem dæmi á að hlutfall kvenna hafi aukist á síðustu árum í hópi nýráðinna stjórnenda.
 26. Kærði hafnar því að huglægir þættir varðandi hæfni kæranda í mannlegum samskiptum hafi að ófyrirsynju verið dregnir inn í matsferlið. Engar vangaveltur voru hjá kærða um vanhæfni kæranda í mannlegum samskiptum og einungis var í samantekt eftir viðtöl stuðst við orðalag kæranda sjálfs. Umræða um þennan hæfniþátt hafi ekki haft nein neikvæð áhrif á einkunnagjöf eða viðhorf til kæranda. Þvert á móti hafi kærandi þótt veita framúrskarandi svar og hlaut hún jákvæða umsögn fyrir þennan matsþátt.
 27. Kærði áréttar að fram hafi farið heildstæður samanburður á öllum umsækjendum þar sem litið var til allra þátta sem taldir voru skipta máli við val á hæfasta umsækjandanum. Lögð var áhersla á vandað grunnmat og ítarleg viðtöl við umsækjendur. Þá fór fram heildstætt mat á umsækjendum en menntun, reynsla og þekking samkvæmt kröfum auglýsingar um starfið varð til þess að sá sem var ráðinn þótti falla best að hinu auglýsta starfi og því metinn hæfastur umsækjenda.
 28. Kærði tekur fram að í ljósi þeirra þátta sem tilgreindir eru í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er það mat kærða að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn og að ekki sé hægt að líta svo á að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið einhverju um ráðninguna.

   

  NIÐURSTAÐA

 29. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu karls í starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði hjá kærða.
 30. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
 31. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
 32. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
 33. Í auglýsingunni um starfið kom fram að áhersla væri lögð á að forstöðumaður hefði þekkingu á hlutverki og starfsemi Vegagerðarinnar, byggi m.a. yfir þekkingu og reynslu á sviði mannvirkjagerðar og stjórnunar og góðri færni í mannlegum samskiptum. Tekið var fram að stoðdeild væri ný deild á mannvirkjasviði sem annaðist rannsóknir á jarðefnum, efnisleit, námurannsóknir, jarðvegskannanir, jarðvegslýsingar og rekstur rannsóknarstofu. Þá hefði deildin umsjón með gerð reglna og leiðbeininga um efnisgæði og framkvæmdir og gerð útboðs- og verklýsinga. Einnig væru þar rekin tæki til gagnaöflunar og mælinga ásamt framkvæmd og úrvinnslu mælinga.
 34. Gerð var krafa um háskólapróf í verk-, tækni- eða jarðfræði en meistarapróf væri æskilegt. Jafnframt var reynsla af stjórnun tiltekin sem kostur. Þá var krafist reynslu af gerð reglna og leiðbeininga og þekkingar og reynslu á sviði mannvirkjagerðar. Að auki var gerð krafa um frumkvæði, skipulagshæfni og faglegan metnað, hæfni til að vinna sjálfstætt sem og í teymisvinnu, góða íslensku- og enskukunnáttu í rituðu og töluðu máli og hæfni til að fylgja málum eftir og til að finna bestu lausnir hverju sinni.
 35. Að mati kærða uppfylltu allir fimm umsækjendurnir sem komu í viðtal þær kröfur sem gerðar voru til starfsins, bæði er varðaði menntun og starfsreynslu. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar. Í því sambandi bendir kærunefndin á að í auglýsingu var ekki áskilið að umsækjandi hefði tiltekna framhaldsmenntun eins og doktorspróf þótt meistarapróf hafi verið talið æskilegt eða að hann hefði stundað kennslu og rannsóknir. Er því ekkert sem bendir til þess að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið því að umsækjendur sem ekki voru með slíka menntun eða reynslu hafi verið taldir uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til starfsins.
 36. Kærði hefur lýst því að stigagjöf úr fyrra mati á grunnhæfni sem metin var á grundvelli fyrirliggjandi gagna hafi ekki haft bein áhrif á stigagjöf í seinna mati sem fór fram í viðtali. Þá hafi viðbótarupplýsingar og frammistaða í viðtali haft megináhrif á niðurstöðuna í seinna mati. Hafi því stigagjöf fyrir einstaka þætti í fyrra og seinna mati, sem voru þeir sömu, mögulega verið mismunandi. Að sama skapi hefur kærði lýst því að afar lítill munur hafi verið á þeim tveimur umsækjendum sem helst komu til greina í starfið eftir viðtölin, þ.e. á kæranda og þeim sem var ráðinn, og ljóst að þessir tveir umsækjendur hafi uppfyllt þær hæfniskröfur sem voru gerðar bæði varðandi hlutlæga og huglæga þætti. Það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið heildarmat á öllum þáttum sem komu fram í auglýsingu um starfið, þ.e. menntun, reynslu og mati á færni og öðrum eiginleikum sem tilgreindir voru, auk frammistöðu í viðtölum og umsagna frá umsagnaraðilum.
 37. Af matsblöðum sem liggja fyrir í málinu má ráða að kærandi og sá sem var ráðinn hafi fengið jafn mörg stig varðandi menntun og ýmist sömu eða mismunandi stig varðandi matsþætti sem tengdust starfsreynslu umsækjenda. Verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak starfsreynslu kæranda og þess sem var ráðinn í starfið. Að mati kærunefndar verður heldur ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvaða menntun og starfsreynsla félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf vegna starfsreynslu er það einungis hluti af margþ­ættu og heild­stæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
 38. Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni þessara tveggja umsækjenda hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum, þ.m.t. frammistaða í við­tali. Á matsblaði sem liggur fyrir í málinu kemur fram að sá sem fékk starfið hafi staðið kæranda framar í síðastgreinda matsþættinum. Byggði kærði mat sitt einkum á framkomu og viðmóti umsækjenda í viðtali, faglegri þekkingu og frammistöðu að öðru leyti. Að auki var lagt mat á umsagnir þeirra sem umsækjendur höfðu tilnefnt sem meðmælendur.
 39. Fyrir liggur að við mat á frammistöðu í viðtölum voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur. Þau sjónarmið sem komu fram í viðtölum, og lutu einkum að reynslu af stjórnun, reynslu af gerð reglna og leiðbeininga, þekkingu og reynslu á sviði mannvirkjagerðar, reynslu af áætlanagerð og verkefnastjórnun, eftirfylgni, vinnubrögðum og skipulagi, reynslu af teymisvinnu og sjálfstæði í starfi, samskiptahæfni, frumkvæði og metnaði og frammistöðu í viðtali, fengu þannig vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að frammistaða umsækjenda í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram. Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum á menntun, starfsreynslu og öðrum atriðum, eins og samskiptahæfni, frumkvæði og metnaði, og þá m.a. með hliðsjón af því hvað kom fram í umsögnum og hvernig umsækjendur komu út í viðtölum og þar með hæfni þeirra og afstöðu í víðara samhengi, sem gátu haft þýðingu fyrir störf forstöðumanns stoðdeildar. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem fékk starfið hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði hafði lagt áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í viðtali telst ekki þess eðlis að hann hafi áhrif á þessa niðurstöðu.
 40. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í starf forstöðumanns stoðdeildar hjá stofnuninni hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020.
 41. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf forstöðumanns stoðdeildar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Vegagerðin, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við ráðningu í starf forstöðumanns stoðdeildar á mannvirkjasviði stofnunarinnar.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira