Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2025 Félags- og húsnæðismálaráðuneytið

Rætt um bætta þjónustu við eldra fólk á vordegi Gott að eldast

Vordagur Gott að eldast var haldinn á Nauthóli í Reykjavík á miðvikudag. Þátttakendur voru starfsfólk frá öllum sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum sem taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu. Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög vítt og breitt um landið taka þátt í verkefnunum. Á vordeginum var einnig samankomið fólk úr verkefnisstjórn Gott að eldast, auk þess sem Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, ávarpaði samkomuna.

„Ég veit að fullorðna fólkið okkar er í góðum höndum hjá ykkur. Og ég get lofað ykkur því að það er í góðum höndum hjá fallega hópnum sem er að vinna í mínu ráðuneyti – og það er líka í góðum höndum hjá mér,“ sagði ráðherra meðal annars en hún hefur lagt mikla áherslu á málefni eldra fólks. 

Ein meginaðgerðin í aðgerðaáætluninni Gott að eldast er að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Öll þjónusta er þá á hendi eins aðila.

Góðar og gagnlegar umræður

Fundarstjóri á vordeginum var Margrét Guðnadóttir, forstöðumaður nýrrar Miðstöðvar í öldrunarfræðum. Fyrir hádegi var fjallað um það hvernig móttöku- og matsteymi virka þegar heimaþjónustan er samþætt. Fulltrúar frá Dalvíkurbyggð og Húnaþingi vestra sögðu frá og fulltrúar frá Árborg fluttu leikþátt. Þá fór fram hópavinna um það hvaða stuðning þurfi til að mæta helstu áskorunum við samþættinguna.

Eftir hádegi var meðal annars fjallað um stafvæðingu í þjónustu við eldra fólk og þá skráningu í heimaþjónustu sem þurfi að lágmarki að fara fram. Pallborð fór fram með tengiráðgjöfum og rætt var um það hver væri „Helena“ þátttakenda – það er hverjar þarfir skjólstæðinga þeirra væru. 

„Umræðurnar voru mjög góðar og greinilegt að afar gagnlegt er fyrir fólk að hittast og skiptast á reynslu sinni og hugmyndum. Við prófuðum þetta í fyrsta sinn með Haustdegi Gott að eldast í september og það lukkaðist svo vel að við ákváðum að endurtaka leikinn,“ Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, sérfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og starfsmaður Gott að eldast. „Það er einfaldlega frábært að sitja með fullum sal af fólki sem allt brennur fyrir því að bæta þjónustu við eldra fólk á Íslandi.“

 

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra flytur ávarp.

Fólk héðan og þaðan af landinu var samankomið á vordeginum til að skiptast á reynslu sinni og bæta þjónustu við eldra fólk.

 

Herdís Björnsdóttir, sérfræðingur í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og starfsmaður Gott að eldast, skipulagði og hélt utan um vordaginn.

 

Tengiráðgjafar ræða málin við Finn Pálma Magnússon.

Ólafur Þór Gunnarsson, formaður verkefnastjórnar Gott að eldast, setur vordaginn.

 

Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir, starfsmaður Gott að eldast, flytur framtíðarblús.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta