Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2003 Utanríkisráðuneytið

Hagsmunir Íslands í alþjóðasamstarfi um nýtingu lifandi sjávarauðlinda

Hótel Sögu, 4. apríl 2003

Hagsmunir Íslands í alþjóðasamstarfi um nýtingu lifandi sjávarauðlinda

Ávarp Gunnars Pálssonar, sendiherra, á Fiskiþingi

Hagsmunir okkar Íslendinga í alþjóðasamstarfi um málefni sjávar eru í aðalatriðum tvíþættir; að tryggja þjóðinni full yfirráð yfir auðlindunum í kringum landið og skapa aðstæður fyrir íbúana til að nýta þessar auðlindir á sjálfbæran hátt.

Við höfum litið svo á að hið fyrra þessara markmiða væri að mestu leyti í höfn, en hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna, sem tók gildi árið 1994, mælir fyrir um óskoraðan rétt strandríkisins til að nýta auðlindirnar innan efnahagslögsögu sinnar.

Hafréttarsamningurinn er á vissan hátt einnig grunnur að síðarnefnda markmiðinu, að skapa, til lengri tíma litið, aðstæður fyrir ríki heims til að nýta auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt. Hann er hins vegar fyrst og fremst þjóðréttarlegur rammi. Það beið Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1992 að málefni hafanna fengju viðeigandi sess í alþjóðasamstarfi um umhverfismál. Í framkvæmdaáætlun ráðstefnunnar, svokallaðri Starfskrá 21, fjallar sérstakur og ítarlegur kafli um þau efni. Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1995 á t.a.m. rætur að rekja til Ríó.

Markmið þessara gjörninga, hafréttarsamningsins annars vegar og Starfskrár 21 hins vegar, fara að sjálfsögðu saman. Að framfylgja fullveldisréttinum og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eru ekki sjálfstæðir valkostir. Hafréttarsamningurinn tryggir okkur fullveldisréttindi að því er varðar rannsóknir og hagnýtingu, verndun og stjórnun lifandi náttúruauðlinda. Hann leggur okkur jafnframt margvíslegar skyldur á herðar, t.d. að því er varðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir, draga úr eða hafa eftirlit með mengun hafsins eða um þátttöku í alþjóðasamstarfi um hafrannsóknir. Starfskrá 21 felur í sér aukna áherslu á fjölþjóðlegt samstarf til lausnar vanda strandríkisins, en byggir jafnframt á lagalegum grunni samningsins, þ.á m. um fullveldisréttinn.


Engu að síður er það alls ekkert náttúrulögmál að þessar megináherslur, haldist í jafnvægi. Í hafréttarsamningnum hvílir ábyrgðin einkum á aðilum samningsins, og litið er til svæðisbundinna og alþjóðlegra samtaka um stuðning við markmið strandríkisins. Á grundvelli Starfskrár 21 hefur í vaxandi mæli verið litið svo á að höfin væru sameiginleg auðlind mannkyns, að viðfangsefnin væru af hnattrænum toga og því bæri að leysa þau með samstilltu átaki ríkja heims. Því er ekki að leyna að stundum hefur okkur Íslendingum þótt gengið um of á fullveldisréttinn í skjóli alþjóðasamstarfs og er hvalamálið nærtækt dæmi.

Í sem stystu máli - og með því að einfalda hlutina ofurlítið - mætti e.t.v. segja sem svo að nýting hafi haldist í hendur með rétti strandríkisins, en að aukinnar tilhneigingar hafi gætt til að fella vernd undir hnattræna stjórnun. Þetta tvennt er hins vegar nátengt, eins og sést best af því að þegar einstök ríki gerast sek um mistök við auðlindastjórnun og stofnar hrynja, heyrast fljótlega raddir um að fjölþjóðlegar stofnanir hlutist til um stjórnunina.

Hvers vegna er svo komið? Hver er ástæðan fyrir því að hagnýting lifandi sjávarauðlinda er vaxandi íhlutunarefni hins alþjóðlega samfélags? Öll vitum við að viðhorf til hafsins hafa gerbreyst frá þeim tíma þegar litið var á þau sem annars vegar óþjótandi forðabúr mannkyns og hins vegar ruslagám sem tæki endalaust við. Fiskur er helsta uppspretta eggjahvítu fyrir meira en milljarð manna í þróunarheiminum. Á sama tíma og ásókn í auðlindir hafsins hefur aukist, áttum við okkur á að álag af völdum margvíslegrar efnahagsstarfsemi getur ógnað lífríki þess. Á síðustu fimm áratugum hefur veiddur sjávarafli meira en fjórfaldast. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að milli 15 - 18 % allra fiskistofna í heiminum séu ofnýttir, en milli 47 og 50 % fullnýttir. Mengun af völdum hættulegra úrgangsefna hefur safnast upp í höfunum í stórum stíl. Almennt er nú viðurkennt að lífríki hafsins verði ekki með góðu móti aðskilið starfsemi á landi, en um 80% allrar mengunar í höfunum á rætur að rekja til landstöðva.

Þessi atburðarrás er að sjálfsögðu einnig okkur Íslendingum tilefni til að huga nánar að stöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi um málefni sjávar og skýrir e.t.v. að hluta hvers vegna fulltrúum utanríkisráðuneytis, sem ekki hafa verið tíðir gestir á Fiskiþingi, er boðið hér í dag. Það kann því að vera við hæfi að líta yfir það helsta sem utanríkisráðuneytið, í samstarfi við bæði sjávarútvegs- og umhverfisyfirvöld, hefur á oddinum í þeim efnum um þessar mundir.

* * *

Sá alþjóðavettvangur sem hefur hvað víðtækast umboð til að fjalla um málefni hafsins er allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, þar sem bornar eru fram ályktanir ár hvert um hafið og hafréttarmál. Innan Sameinuðu þjóðanna hefur annað veifið örlað á tilhneigingu til hnattrænnar stjórnunar auðlindanýtingar, sem virðist einkum til komin fyrir þrýsting frjálsra félagasamtaka. Ísland hefur hamlað gegn slíkri öfugþróun, sem við teljum að standist ekki ákvæði hafréttarsamningsins, og hefur ekki viljað ljá máls á nýjum alþjóðlegum stofnunum um málefni hafsins. Við gerðum þess vegna fyrirvara við stofnun svokallaðs óformlegs vettvangs allsherjarþingsins fyrir þremur árum, en vettvangurinn hefur það hlutverk að undirbúa og efla umfjöllun þingsins um öll málefni hafsins.

Á síðasta allsherjarþingi var ákveðið að framlengja þennan nýja vettvang til þriggja ára, en á allsherjarþinginu eru ákvarðanir ekki háðar samþykki allra aðildarríkja. Þar sem vettvangurinn nýtur nú víðtæks stuðnings, höfum við reynt eftir megni að færa okkur hann í nyt og sveigja störf hans að íslenskum áherslum. Þannig áttum við t.d. þátt í því að framan af var fjallað um mengun sjávar frá landi og um sjálfbæra þróun fiskveiða, en síðar meir m.a. um hafrannsóknir.

Líkt og á við hjá öðrum samtökum, eru það fundir þjóðarleiðtoga sem gefa tóninn innan Sameinuðu þjóðanna. Leiðtogafundurinn í Jóhannesarborg í fyrra, var tilefni til að meta árangur sjálfbærrar þróunar frá því í Ríó tíu árum áður og leggja á ráðin um það sem framundan er. Málefni hafsins voru meðal þess sem var í brennidepli.

Í aðgerðaáætlun fundarins er áhersla lögð á störf Matvæla- og landbúnaðarstofnunarinnar, sem vikið verður að síðar, og m.a. ákveðið að koma böndum á afkastagetu fiskiskipaflota í heiminum fyrir árið 2005 og stuðla að uppbyggingu fiskistofna svo þeir gefi hámarks sjálfbæra nýtingu ekki síðar en árið 2015. Ljóst er að Ísland getur margt lagt af mörkum til þeirrar vinnu. Á fundinum skýrðu íslensk stjórnvöld frá ákvörðun sinni um að hefja skráningu líffræðilegs fjölbreytileika sem fyrsta skrefi í átt til sjálfbærrar auðlindanýtingar, en með þessu frumkvæði er brugðist við skuldbindingu sem ríki heims gengust undir í Ríó. Verkefnið, sem sjávarútvegsráðuneytið stýrir, felst í því að gera allar þær fjölbreyttu upplýsingar sem til eru um hafið í kringum Ísland aðgengilegar með nútíma upplýsingatækni á veraldarvefnum.



Í Jóhannesarborg var samþykkt að koma á fót sérstöku ferli til að skrá og meta áhrif mengunar í hafinu, þ.m.t. samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, en umhverfisráðuneytið hefur beitt sér ötullega á þessu sviði. Ófullnægjandi upplýsingar hafa víða hamlað baráttu stjórnvalda gegn mengun hafsins frá landi og oft skortir heillega mynd af ástandinu. Frumkvæðinu er ætlað að bæta upp þennan skort og stuðla að skilvirkari tengslum stjórnvalda, vísindamanna og almennings sem auðveldi stjórnvöldum síðan að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Á síðasta allsherjarþingi var síðan samþykkt að fela framkvæmdastjóra að kanna sérstaklega hvernig frumkvæðið skyldi framkvæmt og skýra næsta allsherjarþingi frá niðurstöðunni. Tillögugerðin sýnir vel hvers smærri þjóðir eins og Ísland eru megnugar, ef þær beita sér á markvissan hátt.

* * *

Hér er ekki tækifæri til að fjalla um allar þær alþjóðastofnanir sem fjalla um málefni hafsins, þ.á m. Alþjóðasiglingamálastofnunina (IMO), Alþjóðahafrannsóknarráðið (IOC), fiskimálanefnd OECD og Alþjóðlegu hafsbotnsstofnunina (ISBA). Tvær stofnanir, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO) hafa þó nokkra sérstöðu.

UNEP hefur verið leiðandi afl í umhverfismálum síðan ákveðið var að koma stofnuninni á fót á Stokkhólmsráðstefnunni um vernd umhverfisins árið 1972. Hún ber m.a. ábyrgð á umhverfi hafsins og styðst einkum við samtengdar svæðisbundnar framkvæmdaáætlanir. Mikið hefur áunnist á síðastliðnum árum, þ.á m. Washington-áætlunin um vernd hafsins gegn mengun frá landi frá árinu 1996, en Ísland átti ríkan þátt í undirbúningi hennar. Á vegum UNEP er einnig fylgst með og hamlað gegn mengun af völdum kvikasilfurs, m.a. í sjávarfangi. Þetta er vaxandi vandi á norðurslóðum sem á rætur að rekja utan svæðisins að langmestu leyti.

Starfsemi fiskimáladeildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm er íslenskum hagsmunum afar mikilvæg, en FAO er eini alheimsvettvangurinn á sviði fiskimála. Hlutverk deildarinnar hin síðari ár hefur einkum verið að aðstoða þróunarríkin við uppbyggingu og skipulag fiskveiðistjórnunar, þróun vistvænnar veiðitækni og almenna þekkingaröflun í fiskimálum.

Á vettvangi fiskimálanefndar, sem stýrir áherslum og vinnu deildarinnar, hefur m.a. verið rætt um umhverfismerkingar sjávarafurða (eco-labelling) og hvort fela eigi FAO að gera staðla fyrir slíkar merkingar. Reynt hefur verið að fá FAO til að gera úttekt og greiningu á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi, en slík vinna myndi nýtast m.a. aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) við samningaborðið. Á vettvangi WTO hefur Íslendingum einmitt tekist, í góðra vina hópi, að koma ríkisstyrkjum í sjávarútvegi á dagskrá. Innan FAO hefur einnig verið fjallað um ólöglegar fiskveiðar og tók Ísland þátt í gerð sérstakrar alþjóðaáætlunar um aðgerðir gegn slíkum veiðum.

Allt þetta skiptir Ísland máli. Það sem meira er, sýnum við áfram frumkvæði í fiskimálum á alþjóðavettvangi, gæti FAO komið okkur enn frekar að gagni. Reykjavíkurráðstefnan árið 2001, sem haldin var í samstarfi við FAO, um vistfræðilega nálgun við fiskveiðistjórnun er gott dæmi um slíkt frumkvæði, en Reykjavíkuryfirlýsingin varð stofnuninni lyftistöng, sem hjálpaði henni að flytja boðskapinn til Jóhannesarborgar og beina kastljósinu að jákvæðri þróun á sviði fiskimála. Í kjölfarið hafa Íslendingar meðbyr á vettvangi FAO sem þeir gætu nýtt frekar til að koma eigin stefnumálum í höfn. Slíkt kostar auðvitað að Ísland taki virkan þátt í störfum stofnunarinnar, en falli ekki í þá gryfju að bregðast aðeins við málflutningi annarra ríkja.

* * *

Ástæða er til að víkja að samningnum um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu (CITES), en þessi samningur, frá árinu 1973, er meginverkfæri ríkja heims til að stjórna slíkum viðskiptum. Samningurinn fjallar ekki sérstaklega um fiskitegundir eða stjórnun þeirra. Margir hafa hins vegar gert sér vonir um að starfssvið samningsins yrði útvíkkað með það fyrir augum að viðskiptum með efnahagslega verðmætar dýra- og plöntutegundir yrði einnig stjórnað, en það myndi vísa veginn fyrir CITES til að hafa aukin afskipti t.a.m. af viðskiptum með sjávarfang.

Þessum tilburðum hafa íslensk stjórnvöld veitt viðnám. Á aðildarríkjafundi samningsins í Chile í fyrra lögðumst við t.d. gegn því að sett væru fordæmi fyrir því að CITES hlutaðist til um nytjastofna sjávar sem til umfjöllunar eru hjá réttbærum svæðasamtökum. Hefði t.d. verið samþykkt að CITES færi inn á verksvið nefndar um nýtingu lifandi sjávarauðlinda Suðurskautssvæðisins, eins og lagt var til, hefði getað reynst erfitt að verjast tangarsókn samtaka verndarsinna gagnvart t.a.m. NEAFC, NAFO eða ICCAT. Í samræmi við okkar málstað, var Ísland í fararbroddi ríkja á síðasta fundi fiskimálanefndar FAO sem lögðu til að FAO yrði falið að meta með reglubundnum hætti hugmyndir sem fram koma um listun fiskitegunda hjá CITES. Tillagan var samþykkt.

* * *

Málefni hafsins eru á döfinni innan Norðurskautsráðsins, þar sem Ísland gegnir formennsku til haustsins 2004. Unnið er að verndun hafsins gegn mengun, en ráðið átti t.d. ríkan þátt í því að baráttan gegn kvikasilfurmengun er nú hluti af starfsáætlun UNEP. Á vegum ráðsins fer einnig fram vöktun og mat á ástandi lífríkis norðurslóða.

Norðurskautsráðið hefur ákveðið að ráðast í samantekt langtíma allsherjaráætlunar um málefni hafsins undir forystu Íslands og Kanada. Áætlunin er m.a. liður í viðleitni aðildarríkjanna til að bregðast við skuldbindingum leiðtogafundarins í Jóhannesarborg um samræmda nálgun ólíkra svæða. Ráðið fjallar á hinn bóginn ekki um auðlindir sjávar eða nýtingu, en málefni af því tagi hafa verið umdeild frá stofnun ráðsins fyrir sjö árum. Nýting er hins vegar hluti af vistkerfi hafsins á norðurslóðum, auk þess sem mjög stór hluti íbúa svæðisins byggir lífsviðurværi sitt á auðlindum sjávar.

Umfangsmikil athugun á áhrifum loftslagsbreytingar á norðurslóðum stendur nú yfir og stendur til að ljúka henni á íslenska formennskutímabilinu. Hækkandi hitastig í sjó, sem spáð er á þessari öld mun hafa áhrif á dreifingu og stærð ýmissa fiskistofna. Menn spyrja sig eðlilega hvaða afleiðingar þessi hlýnun gæti haft. Munu botnfiskstofnar stækka verulega og hvaða áhrif myndi það hafa t.d. á loðnustofninn? Þetta eru spurningar af því tagi sem telja má víst að fulltrúi okkar í samantekt vísindalegs hluta loftslagsskýrslunnar, Hjálmar Vilhjálmsson, fiskifræðingur, velti fyrir sér um þessar mundir.

* * *

Eins og sést af þessu yfirliti, sem ekki er á nokkurn hátt tæmandi, er þátttaka Íslands í alþjóðasamstarfi um lifandi auðlindir hafsins fjölþætt og margbreytileg. Hún útheimtir m.a. að stjórnvöld takist á hendur ákveðið samhæfingarhlutverk, en vinna sem fer fram á einum vettvangi felur oft í sér tilvísun til, kanna að hafa afleiðingar fyrir eða nýtist í starfi á öðrum vettvangi. Þetta er hlutverk sem utanríkisráðherra og hans ráðuneyti hafa og ber að hafa forystu um.

Það er ekki síst vegna þess hve nýting sjávarafurða kemur víða við sögu í alþjóðasamstarfi að beina þarf athyglinni að fáeinum lykilsjónarmiðum sem við viljum hafa að leiðarljósi í samstarfinu.
Nefna mætti þrennt í því samhengi:

Í fyrsta lagi, með því að stuðla að alþjóðlegu umhverfi, vinsamlegu sjálfbærri nýtingu, hjálpum við okkur sjálfum til að hagnýta og markaðssetja íslenskar sjávarauðlindir til lengri tíma litið. Það gerir Ísland m.a. með því að blanda sér í alþjóðlega stefnumótun á fyrstu stigum og reyna að hafa áhrif á farveg málatilbúnaðar frá upphafi. Vistfræðileg nálgun við fiskveiðistjórnun, ferli til að skrá og meta mengun sjávar á hnattræna vísu, umhverfismerkingar og ríkisstyrkir í sjávarútvegi eru allt dæmi um hvernig það hefur verið gert og stuðlar að því að Ísland, að minnsta kosti, afli sér viðurkenningar fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu. Þessu striki þurfum við að halda.

Í öðru lagi, þarf að vinna að því að nokkrar höfuðreglur sjálfbærrar þróunar verði hafðar í öndvegi alþjóðasamstarfs um auðlindanýtingu. Ein slík regla er að þjóðir eða þjóðfélagshópar sem byggja afkomu sína á auðlindinni stjórni eða hafi mest áhrif á stjórnun hennar. Önnur regla er að áætlanir um nýtingu stofna byggist ætíð á bestu vísindalegu upplýsingum um ástand þeirra. Þriðja regla viðurkennd í hafréttarsamningnum, er að réttbærar svæðastofnanir skuli fjalla um nýtingu, hvar sem þær eru fyrir hendi. Slíkar reglur kynnu að koma einhverjum fyrir sjónir sem sjálfsagður hlutur. Í raun krefjast þær þrotlausrar vöktunar, eins og fram hefur komið á fundum CITES.

Í þriðja lagi, þarf að afla brautargengis því sjónarmiði sem fram kemur í Reykjavíkuryfirlýsingunni, að fiskveiðiþjóðir taki mið af vistkerfinu í heild við fiskveiðistjórnun.

Nytu slík meginsjónarmið óskipts stuðnings alþjóðasamfélagsins, er ekki að efa að það myndi auðvelda Íslendingum að útfæra auðlindastjórnun til lengri tíma litið sem væri þeim sjálfum að skapi. Erfitt yrði að rökstyðja hvers vegna sjálfbær nýting t.a.m. sjávarspendýra, sem enginn getur neitað að er mikilvægur hluti af vistkerfinu, ætti að vera undanþegin slíkum meginsjónarmiðum. Á hinn bóginn er e.t.v. lítil von til þess að áhersla Íslands á sjálfbæra nýtingu sjávarspendýra út af fyrir sig ryðji braut fyrir aukinni fylgispekt ríkja heims við slík almenn menginsjónarmið. Þvert á móti, er nú svo komið að þegar Íslendingar kveðja sér hljóðs um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda á erlendum vettvangi, telja margir sér trú um að í raun vaki ekki annað fyrir þeim en hvalveiðar. Þetta er ákveðin þversögn. Það sem okkur gengur til með hvalveiðum er að sjálfsögðu sjálfbær nýting. En meðan við tölum opinskátt um hvalveiðar er ólíklegt að stór hluti alþjóðsamfélagsins sé tilbúinn til að veita málflutningi Íslands um sjálfbæra þróun áheyrn.

Á tímum alþjóðavæðingar og vaxandi fólksfjölgunar blasir við að álag á auðlindir sjávar í heiminum mun halda áfram að aukast. Þetta felur í sér hvort tveggja áhættu og tækifæri fyrir Ísland; áhættu vegna aukinnar tilhneigingar til hnattrænnar stjórnunar og tækifæri vegna betri möguleika á útflutningi íslenskrar reynslu og sérþekkingar í fiskveiðistjórnun. Svo tryggt sé að Íslendingar nýti þau færi til fullnustu, kanna að vera tímabært að huga að þætti fiskimála í íslenskri þróunarsamvinnu, ekki síst hlutverki þróunarsamvinnunnar í alþjóðlegu samstarfi um nýtingu sjávarauðlinda, en 95 af hundraði þeirra sem byggja afkomu sína á fiskveiðum búa í þróunarríkjum. Þetta er ekki síst mikilvægt, ef tekst að afla fylgis við þau sjónarmið sem lýst var að framan.

Búast má við að öll þessi atriði verði vegin og metin í tengslum við samantekt nýrrar skýrslu, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í, undir forystu þriggja ráðuneyta, um málefni hafanna á næstu mánuðum. Markmið skýrslunnar verður að meta stöðu verndar og nýtingar lifandi auðlinda hafsins í kringum Ísland og móta heildstæða stefnu í hinu alþjóðlega umhverfi.

Skýrsla af þessu tagi kæmi t.d. til með að nýtast í tengslum við stefnumörkun innan Norðurskautsráðsins um málefni hafsins og á vettvangi Alþjóðabankans, þar sem Ísland tekur við stöðu framkvæmdastjóra fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin í haust. Ísland gagnrýndi bankann lengi vel fyrir að vanrækja fiskimál, enda hefur hann á síðustu áratugum nánast dregið sig út úr málaflokknum. Þessu hafa einstök ríki ekki viljað una og hafa t.d. Japanir komið á fót sérstökum styrktarsjóð innan bankans til að hafa áhrif á stefnu hans í fiskimálum, um hverjum hann lánar og til hvaða verkefna. Við verðum að velta því fyrir okkur að taka afstöðu til hvort það sé æskileg þróun að einstök ríki hafi svo mótandi áhrif á stefnu bankans, því það hlýtur að skipta einnig Íslendinga máli hvernig til tekst um lánveitingar til þróunarríkja.

Að lokum er vert að árétta það sem dregið var fram í upphafi. Við viljum standa vörð um ótvíræðan rétt okkar til að nýta auðlindirnar í okkar lögsögu og til að veiða úr stofnum sem við deilum með öðrum ríkjum. Til að framfylgja því markmiði kann einhliða áhersla á fullveldisréttinn að duga okkur skammt eins og nú er háttað. Mengun virðir ekki landamæri. Úrgangur sem losaður er í hafið víðs fjarri Íslandsströndum getur fyrr eða síðar borist til landsins með hafstraumum. Vilji Íslendingar tryggja að íslenskar sjávarafurðir standist samkeppni á erlendum mörkuðum, er því óhjákvæmilegt að þeir leggi sitt af mörkum til að koma böndum á hættulega mengun og spilliefni í hafinu með alþjóðlegum samningum. Á sama hátt má færa rök fyrir því að ein árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að fjarlægir aðilar, hvort sem það eru ríki, félagasamtök eða stofnanir, hlutist í auknum mæli til um að stjórnun okkar lifandi sjávarauðlinda, sé að liðsinna öðrum, ekki síst í þróunarheiminum, til að efla sjálfbæran sjávarútveg.

Í harðnandi heimi er íslensk hagsmunagæsla í málefnum sjávar í vaxandi mæli samtvinnuð íslenskum utanríkismálum. Að þessu leyti á máltækið við sem endranær, að hver vegur að heiman er vegurinn heim.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum