Hoppa yfir valmynd
6. desember 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mikilvægt að bregðast strax við með aðgerðum

Alþingi hefur að tillögu samgönguráðherra samþykkt sérstaka fjárveitingu á fjáraukalögum til umferðaröryggisaðgerða á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Af því tilefni var fundur haldinn í samgönguráðuneytinu í dag um umferðaröryggismál og framkvæmdir við endurbætur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi og voru málin rædd frá ýmsum hliðum.

Fundinn sátu fulltrúar samgönguráðuneytisins undir stjórn Ragnhildar Hjaltadóttur ráðuneytisstjóra og ýmsir sérfræðingar sem starfa á sviði umferðaröryggismála og vegagerðar, þau Ólafur Guðmundsson, verkefnisstjóri EURORAP vegamatskerfisins og varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs hjá Umferðarstofu, og Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður hjá Vegagerðinni. Rætt var um ýmsa kosti í framtíðarvegagerð og útfærslur þeirra.

Þar sem umferðaröryggisaðgerðir á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi þola enga bið er mikilvægast að bregðast við með aðgerðum sem nú þegar gefa aukið öryggi á hættulegustu vegarköflunum. Vonir standa til þess að þegar í stað verði hægt að aðskilja akstursstefnur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi þar sem aðstæður leyfa og breikka vegina þar sem brýnast er. Með þessu verður hrundið í framkvæmd árangursríkum aðgerðum í þágu aukins umferðaröryggis.

Markmið og stefna samgönguráðherra er að Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur verði tvöfaldaðir og að verkefnið verði sett í samgönguáætlun sem kemur til meðferðar Alþingis í byrjun næsta árs. Ljóst er að svo umfangsmiklar framkvæmdir og flóknar og krefjast margháttaðs undirbúnings svo sem hönnunar og umhverfismats.

Samgönguráðherra hefur þegar falið Vegagerðinni að hefja undirbúning að tvöföldun veganna á sviði skipulagsmála og umhverfismats.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira