Hoppa yfir valmynd
12. október 2021 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 9/2021 Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

dómsmálaráðuneytinu

 

Skipun í opinbera nefnd. Tilnefning. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði skipun aðalmanns í kærunefnd útlendingamála að tilnefningu Mannréttindaskrifstofu Íslands. Var talið að Mannréttindaskrifstofu hefði borið að tilnefna bæði karl og konu, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, til setu í kærunefndinni enda gátu hlutlægar ástæður, sbr. 2. málsl. sama ákvæðis, ekki leitt til þess að Mannréttindaskrifstofu væri ómögulegt að tilnefna bæði kynin. Í ljósi hlutfalls kynjanna við skipun í kærunefndina var ákvörðun kærða um að skipa karlinn í samræmi við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008. Var því ekki fallist á að D hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við skipunina.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 12. október 2021 er tekið fyrir mál nr. 9/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 3. júní 2021, kærði A ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 30. nóvember 2020 um að skipa karl í kærunefnd útlendingamála samkvæmt tilnefningu Mannréttindaskrifstofu Íslands en kærandi var annar tveggja tilnefndra af Mannréttindaskrifstofu Íslands í nefndina. Kærandi telur að með skipuninni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 28. júní 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 15. júlí 2021, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 27. júlí 2021. Með tölvupósti kæranda 10. ágúst 2021 voru fyrri kröfur hennar áréttaðar.
 4. Þess ber að geta að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla voru felld úr gildi með nýjum lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem tóku gildi 6. janúar 2021 ásamt lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 151/2020 féll niður umboð skipaðra nefndarmanna í kærunefnd jafnréttismála og skipaði ráðherra nýja nefndarmenn í nefndina samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þar sem atvik í máli þessu áttu sér stað í tíð eldri laga gilda lög nr. 10/2008 um efnislegan ágreining fyrir nefndinni en um málsmeðferðina fer samkvæmt lögum nr. 151/2020.

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærði fór þess á leit við Mannréttindaskrifstofu Íslands að hún tilnefndi nýjan aðalmann í kærunefnd útlendingamála í samræmi við 4. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga í kjölfar þess að aðalmanni, sem er karl og tilnefndur var af skrifstofunni, var veitt lausn frá 1. október 2020. Mannréttindaskrifstofa brást við með því að tilefna kæranda, sem er kona, með bréfi til kærða, dags. 16. október 2020. Í bréfinu var tekið fram að aðeins væri einn aðili tilnefndur þar sem ekki hefði reynst unnt að tilnefna karl með viðlíka reynslu og kæranda. Væri því ekki mögulegt að tilnefna tvo jafnhæfa aðila í nefndina, þ.e. karl og konu, en ekki yrði séð að það hallaði verulega á karla í nefndinni.
 6. Kærði gerði athugasemdir við fyrrnefnda ákvörðun Mannréttindaskrifstofu og fór þess á leit við skrifstofuna í tölvupósti 28. október 2020 að hún tilnefndi bæði karl og konu, með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 og þess að fimm af sjö nefndarmönnum væru konur. Með þessu móti yrði hlutfall kvenna í nefndinni 70% en hlutfall karla 30% en það væri andstætt 1. mgr. 15. gr. laganna þar sem mælt væri fyrir um að hlutfall kynjanna væri sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa væri að ræða.
 7. Viðbrögð Mannréttindaskrifstofu voru að standa við tilnefninguna, sbr. tölvupóst frá 5. nóvember 2020, með vísan til þess að kærandi væri hæfust og að enginn karl hefði þá þekkingu og reynslu sem nýttist í störfum nefndarinnar. Kærði féllst ekki á skýringar Mannréttindaskrifstofu og áréttaði beiðni sína í bréfi, dags. 25. nóvember 2020. Að endingu féllst Mannréttindaskrifstofa á að tilnefna karl og konu. Var karlinn skipaður aðalmaður í kærunefndina 30. nóvember 2020. Var kærandi upplýst um það í tölvupósti frá Mannréttindaskrifstofu 11. desember 2020.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 8. Kærandi telur að við skipun í kærunefnd útlendingamála hafi kærði brotið gegn 24. gr. laga nr. 10/2008 með því að neita að taka til greina tilnefningu kæranda á grundvelli kyns hennar og án þess að líta til hlutlægra þátta á borð við hæfni og sérþekkingu. Hafi kærði jafnframt brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki viðhaft góða stjórnsýsluhætti.
 9. Kærandi bendir á að sérstaklega sé tekið fram í 1. gr. laga nr. 10/2008 að markmiði laganna um að koma á og viðhalda jafnrétti kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins skuli m.a. náð með því að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka mögu­leika þeirra í samfélaginu. Við gildistöku laganna var tilnefningaraðila gert skylt að tilnefna einn karl og eina konu og að við skipun í nefnd yrði síðan gætt að kynjaskiptingu í nefndinni innan þeirra marka sem lögin kvæðu á um. Óumdeilt sé því að slík skylda sé lögð á tilnefningaraðila í lögunum, sbr. 15. gr. þeirra.
 10. Kærandi tekur fram að sérstök jafnræðisregla sem mæli fyrir um forgangsreglu sé í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008. Með forgangsreglu sé átt við að ef tveir eða fleiri umsækjend­ur um starf teljist jafnhæfir skuli líta til kynjahlutfalla. Forgangsregla getur einungis átt við ef valið stendur á milli jafnhæfra einstaklinga.
 11. Bendir kærandi á að samkvæmt innlendri dómaframkvæmd og fyrirliggjandi álitum umboðsmanns Alþingis sé ekki heimilt að líta framhjá hæfi umsækjenda við ákvörðun um veitingu starfs eða embættis hjá hinu opinbera en velja beri þann umsækjanda sem er talinn hæfastur að loknu mati á umsækjendum um opinbert starf, sbr. álit hans í máli nr. 6395/2011. Jafnframt bendir kærandi á skyldu stjórnvalds til að rannsaka mál samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3882/2003 og í máli nr. 6560/2011.
 12. Þá bendir kærandi á að við samningu frumvarps til laga nr. 10/2008 hafi m.a. verið vikið að skyldum íslenskra stjórnvalda samkvæmt EES-samningnum þar sem tilteknar tilskipanir Evrópusambandsins hafi verið felldar undir EES-samninginn og innleiddar í íslenskan rétt. Sé því mikilvægt að líta til dómaframkvæmdar EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins við beitingu laganna en báðir þessir dómstólar hafi úrskurðað að ákvæði á borð við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 undanskilji stjórnvöld ekki frá því að meta umsækjendur einstaklingsbundið og á hlutlægum grundvelli. Vísar kærandi í þessu sambandi til dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-1/02 sem varðaði ráðningu í störf við Oslóarháskóla.
 13. Bendir kærandi á að á Íslandi hafi meginreglur jafnréttislaga verið túlkaðar svo að standi val á milli tveggja jafnhæfra einstaklinga skuli veita starfið einstaklingi af því kyni sem er í minnihluta á starfssviðinu. Þessi forgangsregla á rætur að rekja til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 339/1990 þar sem segir einnig: „þegar sýnt hafi verið fram á, að kona, sem sækir um starf, sé jafnhæf eða hæfari, eins og í þessu máli, til að gegna starfi en karl, sem veitt er staðan, að löglíkur séu fyrir því, að um mismunun eftir kynferði sé að ræða“.
 14. Tekur kærandi fram að í málinu liggi fyrir skýring Mannréttindaskrifstofu til kærða sem tilgreinir þær hlutlægu ástæður sem skrifstofan mat mikilvægari en kyn umsækjanda við tilnefningu í nefndina, þ.e. sérþekkingu kæranda, menntun hennar og reynslu. Í stað þess að sannreyna þessar fullyrðingar Mannréttindaskrifstofu með því að framkvæma hæfnismat á umsækjendunum hafi því verið borið við að ekki væri nauðsynlegt að umræddur lögfræðingur, sem yrði aðalmaður í kærunefndinni með endanlegt úrskurðarvald á stjórnsýslustigi um gríðarlega hagsmuni einstaklinga í viðkvæmri stöðu, hefði neina sérþekkingu til að bera.
 15. Bendir kærandi á að af póstsamskiptum ráðuneytisins við Mannréttindaskrifstofu megi ráða að hæfni þess aðila sem tilnefndur væri væri aukaatriði og aðaláherslan ætti að vera á kyn viðkomandi, og lægi þannig fyrir að með skipun konu yrði kynjahlutfall nefndarinnar óásættanlegt. Kærandi telur ekki unnt að fallast á það að kærði hafi verið svo bundinn af 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 að hann hafi getað skorast undan þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að kynna sér hæfni kæranda eða taka tilnefningu hennar til greina, enda hafi kærða verið aðrar leiðir færar til þess að tryggja jöfn kynjahlutföll í nefndinni.
 16. Kærandi segir skýringar Mannréttindaskrifstofu til kærða eiga stoð í undanþágu­heimild 2. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008. Hún bendir á að samkvæmt 2. og 3. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 hafi bæði tilnefningar- og skipunaraðili heimild til þess að víkja frá meginreglu 1. mgr. 15. gr. telji þeir ekki mögulegt að tilnefna eða skipa aðila af því kyni sem hallar á og nefnir í því skyni mögulegar hlutlægar ástæður sem fallið gætu undir undanþáguna samkvæmt frumvarpi til laganna, s.s. félagasamtök þar sem félagsfólk er nær eingöngu af einu kyni. Kærandi segir ljóst af orðalagi ákvæðisins að upptalningunni sé ekki ætlað að vera tæmandi og stjórnvaldi sé ófrjálst að einblína eingöngu á kyn umsækjanda, séu málefnalegar og réttmætar ástæður til annars. Meta verði aðstæður með tilliti til þess að á þeim tíma sem tilnefningu kæranda var hafnað á þeim forsendum að kynjahlutföll hefðu orðið óásættanleg var kærða þegar ljóst að hann gæti tryggt kynjahlutföll með því að skipa karl, sem varð síðar raunin.
 17. Tekur kærandi fram að henni hafi orðið ljóst að forsendur kærða fyrir höfnun hennar stæðust ekki skoðun þegar kærði skipaði karl í stöðu varaformanns kærunefndar 11. janúar 2021 en þar með voru kynjahlutföllin orðin fjórir karlar og þrjár konur. Sé ljóst af málsgögnum að úrvinnsla umsókna um embætti varaformanns hafi verið til skoðunar á sama tíma og skipun aðalmanns samkvæmt tilnefningu Mannréttindaskrifstofu. Að auki sé ljóst að drög að mati hæfnisnefndar um stöðu varaformanns kærunefndar hafi legið fyrir a.m.k. frá 19. nóvember 2020 sem hafi tilgreint fjóra einstaklinga jafnhæfa til starfsins, tvo karla og tvær konur, en samkvæmt auglýsingu hafi átt að skipa í stöðu varaformanns 1. desember 2020.
 18. Kærandi telur óhjákvæmilegt að líta til þess að kærði hafði í hendi sér önnur úrræði til þess að tryggja rétt kynjahlutfall, þar sem fjórir umsækjendur höfðu þá þegar verið metnir jafnhæfir til þess að taka sæti varaformanns. Þegar karlmaður var skipaður varaformaður nefndarinnar varð ljóst að seta kæranda í nefndinni hefði ekki leitt til þess að kynjahlutföll hefðu orðið óásættanleg. Verður að meta aðstæður með tilliti til þess að á þeim tíma sem tilnefningu kæranda var hafnað á forsendum kynjasjónarmiða hafi kærða þegar verið ljóst að það gæti tryggt kynjahlutföll með því að skipa karl, sem síðar varð raunin.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 19. Kærði tekur fram að hann leggi ríka áherslu á að framfylgja gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, þ. á m. við skipanir í nefndir. Vísar kærði í því sambandi til jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins sem ráðuneytið hefur skuldbundið sig til að fylgja þar sem kemur fram að unnið skuli markvisst að því að jafna hlut kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.
 20. Kærði bendir á að meginregla 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 sé alveg skýr hvað varðar skyldu opinberra stjórnvalda um að gæta þess við skipun í nefndir á vegum ríkis og sveitarfélaga að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri fulltrúa en þrjá er að ræða. Til viðbótar sé í 1. málsl. 2. mgr. ákvæðisins kveðið á um skyldu til að tilnefna bæði karl og konu í opinberar nefndir. Í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins er að finna undantekningu frá þeirri skyldu þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Af 3. mgr. ákvæðisins leiði að víkja megi frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við, t.d. þegar tilnefnt er úr takmörkuðum hópi félagsmanna eða starfsmanna sem eru flestir af sama kyni. Undanþáguákvæði 2. málsl. 2. mgr. og 3. mgr. 15. gr. ber eðli málsins samkvæmt að skýra þröngt enda myndi meginregla 1. mgr. annars missa marks.
 21. Að mati kærða voru aðstæður ekki með þeim hætti að rétt væri að líta svo á að Mannréttindaskrifstofu væri ekki mögulegt að tilnefna bæði karl og konu enda ekki úr þröngum hóp að velja, en samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016 er gerð sú krafa að fulltrúar í kærunefndinni skulu hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði.
 22. Bendir kærði á að sjónarmið Mannréttindaskrifstofu, um að ekki væri unnt að tilnefna karlmann í nefndina sem hefði viðlíka reynslu og þekkingu á viðfangsefnum nefndarinnar og kærandi hefur, hafi ekki getað vegið þyngra en skylda tilnefningaraðila til að tilnefna bæði karl og konu, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008, og skylda ráðuneytisins til að virða meginreglu 1. mgr. sama ákvæðis, enda hafi ekki verið sýnt fram á að sá karl sem Mannréttindaskrifstofa tilnefndi loks ásamt kæranda hafi ekki verið hæfur til að vera skipaður í kærunefndina. Hafi sá sem skipaður var fullnægt menntunarkröfum 4. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016 en þegar er til staðar nauðsynleg sérþekking á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni, sbr. 4. málsl. sama ákvæðis.
 23. Samkvæmt framansögðu er það mat kærða að Mannréttindaskrifstofu hafi borið lögum samkvæmt að tilnefna bæði karl og konu í kærunefndina. Það hafi svo verið ráðherra að ákvarða, með hliðsjón af meginreglu 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008, hvor aðilinn skyldi skipaður í nefndina.
 24. Kærði tekur fram að kærunefndin sé í dag skipuð þremur konum og fjórum körlum. Á þeim tíma sem skipun aðalmanns í nefndina var til meðferðar var hún skipuð fjórum konum og þremur körlum. Eftir að karlinn baðst lausnar fækkaði körlunum úr þremur í tvo.
 25. Bendir kærði á að 30. nóvember 2020 hafi karlinn sem tilnefndur var af Mannréttindaskrifstofu 25. nóvember 2020 verið skipaður aðalmaður í kærunefndina. Eftir skipun hans var kynjahlutfallið í nefndinni tímabundið aftur fjórar konur og þrír karlar. Þegar gengið var frá skipun varaformanns í nefndina 21. desember 2020 urðu kynjahlutföllin í nefndinni þrjár konur og fjórir karlar. Þannig hafi ekki legið fyrir þegar karlinn var skipaður að tilnefningu Mannréttindaskrifstofu hver yrði skipaður varaformaður nefndarinnar.
 26. Telur kærði því að rétt hafi verið að skipa karlinn í kærunefndina á grundvelli kynjasjónarmiða. Hefði kærandi verið skipuð hefðu kynjahlutföllin á þeim tíma verið fimm konur á móti tveimur körlum sem hefði brotið í bága við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008.

  NIÐURSTAÐA

 27. Mál þetta snýst um það hvort kærði hafi brotið gegn ákvæði 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. núgildandi 28. gr. laga nr. 150/2020, við skipun aðalmanns í kærunefnd útlendingamála að tilnefningu Mannréttindaskrifstofu Íslands. Af kæru má ráða að kærandi telji að kærða hafi borið að skipa hana þar sem hún hafi verið hæfari en karlinn sem var skipaður og að Mannréttindaskrifstofu hafi verið heimilt að tilnefna hana eina.
 28. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 er markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Þá teljast fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns einnig mismunun samkvæmt lögunum. Í 15. gr. laganna er mælt fyrir um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Um er að ræða tiltekið lögákveðið hlutfall karla og kvenna þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Mælt er fyrir um undanþágur frá þessu hlutfalli í 2. og 3. mgr. ákvæðisins þegar sérstakar hlutlægar ástæður eru fyrir hendi.
 29. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
 30. Í málinu er deilt um heimild kærða til skipunar karls sem aðalmanns í kærunefnd útlendingamála í stað kæranda sem er kona og heimild Mannréttindaskrifstofu Íslands til að tilnefna eina konu í stað karls og konu. Óskaði kærði eftir því við Mannréttindaskrifstofu að hún tilnefndi bæði karl og konu í sæti aðalmanns í kærunefndina í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016.
 31. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016 er kærunefndin skipuð sjö mönnum sem allir eru skipaðir af kærða. Af þessum sjö nefndarmönnum eru formaður og varaformaður skipaðir í fullt starf til fimm ára í senn en þeir verða við skipunina að uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Hinir fimm nefndarmennirnir skulu við skipun í nefndina hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016. Tveir af þeim eru skipaðir að fenginni tilnefningu Mannréttindaskrifstofu Íslands, einn að fenginni tilnefningu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands og tveir eru skipaðir án tilnefningar. Samkvæmt ákvæðinu ber kærða við skipun nefndarmanna að tryggja að innan nefndarinnar sé jafnan til staðar nauðsynleg sérþekking á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni. Af framangreindu er ljóst að eina hæfisskilyrðið sem gert er til þeirra nefndarmanna sem Mannréttindaskrifstofa tilnefnir í kærunefndina er tiltekin lögfræðimenntun. Þá hvílir sú skylda á kærða að tryggja að nauðsynleg sérfræðiþekking sé innan kærunefndar útlendingamála við skipun nefndarmanna.
 32. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 skal þess gætt við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Í 1. málsl. 2. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að tilnefna skuli bæði karl og konu í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Tekið er fram í 2. málsl. ákvæðisins að tilnefningaraðila sé heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess. Í athugasemdum við 15. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 10/2008 eru félagasamtök þar sem félagsmenn eru nær eingöngu af öðru kyninu tiltekin sem dæmi um slíkar hlutlægar ástæður. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. er skipunaraðila heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við. Samkvæmt því verður að túlka undantekningar frá hinu lögbundna lágmarkshlutfalli kynjanna í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 þröngt.
 33. Í ljósi framangreinds verður að telja að Mannréttindaskrifstofu Íslands hafi borið að tilnefna bæði karl og konu, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna, til setu í kærunefnd útlendingamála. Ekki verður séð að hlutlægar ástæður, sbr. 2. málsl. sama ákvæðis, hafi getað leitt til þess að Mannréttindaskrifstofu væri ómögulegt að tilnefna bæði kynin. Rétt er að árétta að eina hæfisskilyrðið sem gert er til þeirra nefndarmanna sem Mannréttindaskrifstofa tilnefnir er embættis- eða meistarapróf í lögfræði. Verður því ekki talið að Mannréttindaskrifstofa hafi getað vikið frá þeirri skyldu að tilnefna bæði karl og konu með vísan til skorts á tiltekinni sérfræðiþekkingu hjá lögfræðimenntuðum körlum. Hér ber einnig að hafa í huga að það er kærða að tryggja að jafnan sé til staðar nauðsynleg sérþekking á þeim sviðum sem fjallað er um í nefndinni, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 80/2016, en ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að svo hafi ekki verið.
 34. Í ljósi þess að nefndarmenn í kærunefnd útlendingamála eru sjö ber kærða að tryggja að hlutfall kynjanna í nefndinni sé ekki minna en 40% þegar skipað er í hana, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008. Í málinu liggur fyrir að körlum í kærunefndinni fækkaði úr þremur í tvo við brotthvarf aðalmanns sem tilnefndur var af Mannréttindaskrifstofu en fjórar konur voru fyrir í nefndinni. Við skipun karls sem nýs aðalmanns í kærunefndina hélst sama hlutfall kynjanna en hlutfall karla hefði orðið minna en 40% hefði kærði skipað kæranda. Var ákvörðun kærða um að skipa karlinn í kærunefndina því í samræmi við 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008. Skiptir í þessu sambandi máli hvernig hlutfall kynjanna var á skipunartíma í nefndina. Geta atvik sem síðar komu til eðli málsins samkvæmt ekki haft áhrif á þá niðurstöðu.
 35. Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að skipun nefndarmanns í kærunefnd útlendingamála að tilnefningu Mannréttindaskrifstofu Íslands hafi farið gegn 15. gr. eða öðrum ákvæðum laga nr. 10/2008. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 10/2008.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, dómsmálaráðuneytið, braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun nefndarmanns í kærunefnd útlendingamála 30. nóvember 2020 að fenginni tilnefningu Mannréttindaskrifstofu Íslands.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir

 

Ari Karlsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira