Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sigrún Sjöfn hefur umsjón með sérstökum íþrótta- og tómstundarstyrkjum

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir - mynd

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur verið ráðin sem verktaki tímabundið til sjö mánaða í stöðu verkefnastjóra til þess að hafa umsjón með sérstökum íþrótta- og tómstundarstyrkjum, sem börn af efnaminni heimilum eiga rétt á, en verkefnið er hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda til þess að bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á fjölskyldur og heimili landsins. Hluti af verkefninu er að taka saman reynsluna og árangurinn af íþrótta- og tómstundastyrkjunum, en þetta er í fyrsta skipti sem ráðuneytið ræðst í slíkar aðgerðir á erfiðum tímum, og er lagt upp með að reynslan og þekkingin sem safnast saman geti orðið grunnur að raunverulegum kerfisbreytingum í þessum málum. Jafnframt er gert ráð fyrir að verkefnastjóri hitti sveitarfélög, forsvarsmenn íþróttafélaga og aðra sem hafa beina aðkomu að verkefninu og mun Sigrún Sjöfn taka saman þau gögn sem verða notuð í frekari vinnu. 

Samhliða þessu hefur verið stofnaður stýrihópur með fulltrúum frá félagsmálaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, íþróttasambandi fatlaðra, UMFÍ og ÍSÍ og er Sigrún Sjöfn starfsmaður stýrihópsins.

Sigrún Sjöfn er með fjölbreytta reynslu og menntun á sviði íþrótta og fræðslumála ungmenna. Hún hefur starfað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár en hún útskrifaðist sem lögreglumaður frá Háskólanum á Akureyri árið 2020. Sigrún er með MLM gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst og B.Ed. í grunnskólakennslu frá Háskóla Íslands. Sigrún Sjöfn situr einnig í sveitarstjórn Borgarbyggðar á yfirstandandi kjörtímabili. Sigrún hefur lengi verið ein fremsta körfuknattleikskona landsins og hefur mikla reynslu af þjálfun yngri flokka hjá nokkrum félagsliðum. Hún er fyrirliði körfuboltaliðs Skallagríms í Borgarnesi ásamt því að spila fyrir A-landslið Íslands. Þá lék Sigrún Sjöfn sem atvinnumaður í Frakklandi og í Svíþjóð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum