Hoppa yfir valmynd
15. mars 2023

Mál nr. 4/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 4/2023

Miðvikudaginn 15. mars 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2022, um lækkun á ellilífeyrisgreiðslum vegna tekna frá Svíþjóð og fyrirhugaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2022, var kæranda tilkynnt um að í kjölfar úrskurðar frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð hafi bótaréttur ársins verið endurreiknaður. Í bréfinu var kærandi upplýstur um kröfu að fjárhæð 336.984 kr. sem yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri vegna bóta ársins sem áætlað væri að færi fram haustið 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. janúar 2023. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. janúar 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. febrúar 2023. Gögn bárust frá kæranda 10. febrúar 2023 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar frá 5. október 2022 varðandi skilgreiningu á eftirlaunum frá Svíþjóð.

Málsatvik séu þau að þegar kærandi hafi fengið staðfestingu á að hann fengi ellilífeyri á Íslandi hafi hann útbúið tekjuáætlun með þeim upplýsingum sem Tryggingastofnun hafi fengið frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð.

Á þeirri tekjuáætlun komi fram að kærandi fái grunnlífeyri (allmän pension) í Svíþjóð og almennan lífeyri sem séu greiðslur frá lífeyrissjóðum á Íslandi, Lífeyrissjóði verslunarmanna í Svíþjóð, AMF, KPA og Alecta.

Kærandi hafi gert nýjar tekjuáætlanir þegar breytingar hafi orðið á greiðslum til hans í Svíþjóð og þá hafi hann notað nákvæmlega sama „ramma“ og Tryggingstofnun hafi gert í fyrstu tekjuáætluninni. Þann 5. október 2022 hafi kærandi fengið bréf frá Tryggingastofnun um að lífeyrir hans í Svíþjóð hafi ekki verið metinn sem grunnlífeyrir á Íslandi því að samkvæmt íslenskum reglum sé „allmän pension“ talin vera greiðsla frá lífeyrissjóði og þar með flokkuð sem almennur lífeyrir á Íslandi. Samkvæmt bréfinu séu þeir „grunnir“ sem „allmän pension“ byggi á „inkomstpension“, „tilläggspension“ og „premiepension“ ekki grunnlífeyrir. Aftur á móti sé „garantiepension“ talinn grunnlífeyrir. Í kæru vísar kærandi til sænskra vefsíðna.

Tryggingastofnun hafi breytt tekjuáætlun kæranda þannig að nú fái hann ekki sænska ellilífeyrinn samþykktan sem erlendan grunnlífeyri heldur sem greiðslur úr lífeyrissjóðum og þar með hafi lífeyrisgreiðslur hans lækkað um nokkra tugi þúsunda íslenskra króna. Tryggingastofnun hafi sent honum kröfu vegna ofgreiddra bóta.

Bréfið sem kærandi hafi vísað í og Tryggingastofnun byggi sína breytingu á, sé þess efnis að stofnunin hafi fengið þær upplýsingar frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð að kærandi fái engan ellilífeyri þaðan. Það sem hafi breyst varðandi hans lífeyri hafi verið að frá 1. ágúst [2022] hafi hann átt rétt á „garantipension“. Þessi viðbót á lífeyri geti þeir fengið sem hafi lága „allmän pension“ og falli undir 40 ára búseturegluna í Svíþjóð. Einnig hafi Svíþjóð hækkað lægstu launamörkin þannig að kærandi nái þeim ekki með sínum lífeyri og þess vegna fái hann þessa viðbót. Kærandi hafi verið skráður í Svíþjóð frá […] 1987.

Kærandi hafi frá 5. október 2022 verið í sambandi við Tryggingastofnun til þess að fá skýringu á þessu og þegar hann hafi síðan breytt tekjuáætluninni og sett inn sænska lífeyrinn sem erlendan grunnlífeyri hafi Tryggingastofnun breytt henni aftur.

Krafa kæranda sé í fyrsta lagi sú að Tryggingastofnun viðurkenni sænska „allmän pension“, þ.e. „inkomstpension“, „tilläggspension“ og „premiepension“ ásamt „garantiepension“ sem erlendan grunnlífeyri og afturkalli kröfu um endurgreiðslu.

Í öðru lagi sé þess krafist, hafi Tryggingarstofnun rétt til að reikna sænskan ellilífeyri sem lífeyrissjóðsgreiðslu, að stofnunin felli niður þá kröfu. Sú krafa sé byggð á því að Tryggingastofnun hafi samþykkt umsókn hans í gegnum Pensionsmyndigheten í Svíþjóð með bréfi, dags. 6. október 2021, og hafi gert fyrstu tekjuáætlunina fyrir kæranda. Þar komi skýrt fram að hann fái grunnlífeyri frá Svíþjóð en í tillögu að tekjuáætlun 2023 hafi allur lífeyrir verið fluttur í flokk 2. Þær breytingar sem kærandi hafi gert séu að breyta þeim upphæðum sem hafi orðið síðan fyrsta tekjuáætlunin hafi verið gerð. Kærandi hafi ekki breytt tegund lífeyris sem Tryggingastofnun hafi sett inn í upphafi sem erlendan grunnlífeyri. Þetta hafi Tryggingastofnun gert upp á eigin spýtur þann 5. október 2022 þegar stofnunin hafi tekið burt erlendan grunnlífeyri og sett allan hans lífeyri undir „erlendur lífeyrir“. Þá hafi orðið til skuld. Kærandi vilji að Tryggingastofnun taki á sig þá skuld þar sem stofnunin hafi afgreitt umsókn hans á röngum forsendum samkvæmt bréfi, dags. 5. október 2022. Það hafi verið Tryggingastofnun sem hafi gert þessi mistök en ekki kærandi.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra greiðslna árið 2022.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir:

„Lífeyristryggingar taka til ellilífeyris, örorkulífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar, tekjutryggingar, örorkustyrks og barnalífeyris.

Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr.90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:“  

Svohljóðandi er 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar:

„Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum  tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár er almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 39. og 40. gr. Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 39. og 40. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem bótaréttur stofnaðist.“

Í 7.  og 8. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir:

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.   Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr.“

Í 39. gr. laga um almannatryggingar segir um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega:

„Umsækjanda eða greiðsluþega er rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, m.a. með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá er skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.“

Í 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt segir:

„Skattskyldar tekjur teljast með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru, svo sem:

A. 1. Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljast til dæmis hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki.“

Í 3. gr. reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags segir:

„Umsækjanda og bótaþega er skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu skriflegu samþykki umsækjanda, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum, greiðslur til umsækjanda og bótaþega hjá lífeyrissjóðum, hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og hjá sambærilegum stofnunum erlendis þegar það á við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Við meðferð persónuupplýsinga sem aflað er á þennan hátt skal þess gætt að uppfyllt séu skilyrði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Telji umsækjandi eða bótaþegi upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar. Umsækjanda og bótaþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sem verða á yfirstandandi tekjuári.“

Í máli þessu sé kærður endurútreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum greiðslum fyrir árið 2022, sbr. bréf, dags. 5. október 2022, varðandi breytta greiðsluáætlun 2022. Í fyrrgreindu bréfi hafi kæranda verið greint frá því að stofnuninni hafi borist nýr úrskurður frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð. Á grundvelli þess úrskurðar hafi bótaréttur kæranda vegna ársins 2022 verið endurreiknaður og að fyrir liggi ofgreiðsla að fjárhæð 336.984 kr. Samkvæmt úrskurðinum frá Pensionsmyndigheten fái kærandi ekki greiddan erlendan gunnlífeyri. „Garantipension“ frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð sé skilgreindur sem grunnlífeyrir hjá Tryggingastofnun. Fram komi í úrskurðinum að kærandi fái aðeins greiddan „tilläggspenion“, „inkomstpesnon“ og „premiepension“. Þær greiðslur séu skilgreindar sem erlendur lífeyrir og hafi áhrif á lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Kæranda hafi einnig verið tilkynnt um að þessi ofgreiðsla yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins 2022 sem áætlað sé að fari fram haustið 2023.

Kæranda hafi jafnframt verið boðið upp á að greiða inn á kröfuna eða greiða hana upp með því að leggja inn á uppgefinn reikning Tryggingastofnunar jafnframt sem upplýst hafi verið um fleiri greiðsluúrræði.

Kærandi hafi verið á ellilífeyrisgreiðslum hjá Tryggingastofnun síðan 1. október 2021 en hafi verið á lífeyrisgreiðslum frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð síðan 2014. Samkvæmt lögum um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að framkvæma uppgjör á hverju ári og endurreikna fjárhæðir lífeyris á grundvelli tekna, auk þess sem stofnunin hafi eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda. 

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um útreikning tekjutengdra bóta og í 2. mgr. 16. gr. sé tekið fram að til tekna skuli teljast tekjur samkvæmt II. kafla um tekjuskatt. Með skattskyldum tekjum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sé tekið skýrt fram að eftirlaun og lífeyrir og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur falli undir skattskyldar tekjur. Ekki sé því hægt að fallast á það með kæranda að greiðslur sem hann fái frá Svíþjóð falli ekki undir II. kafla laga um tekjuskatt. Í úrskurði frá Pensionsmyndigheten, sbr. vottorð P8000 í X, EESSI rafrænu gagnaflutningskerfi, komi eftirfarandi fram:

„The public pension A was granted from oktober 2014 consisted of incomepension (inkomstpension), supplementary pension (tilläggspension) andpremium pension (premiepension). All three parts are based on work and are included in the Swedish public pension.“

Í kjölfar upplýsinga frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð hafi tekjuáætlun hjá Tryggingastofnun verið uppfærð með tilliti til þeirra upplýsinga sem þar komi fram um að þeir greiðsluflokkar sem kærandi væri með frá Svíþjóð væru grundvallaðir á atvinnuþátttöku, sambærilegum þeim greiðslum sem íslenskir lífeyrissjóðir greiði út hér á landi.

Þegar misræmi hafi átt sér stað frá upphaflegri tekjuáætlun frá kæranda og þeirri sem síðar hafi verið gerð hafi myndast mismunur sem Tryggingastofnun beri að innheimta lögum samkvæmt, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Mismunur á þessum tekjuáætlunum sé sá að Tryggingastofnun hafi fengið upplýsingar frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð um að þær greiðslur sem kærandi fengi væru allar byggðar á atvinnuþátttöku.

Tryggingastofnun beri að flokka og greina þær greiðslur sem sérhver lífeyrisþegi fær.

Samkvæmt upplýsingum, sem komi bæði fram í bréfi frá Pensionsmyndigheten og á eyðublaði P8000, komi fram upplýsingar um að greiðslur þær sem kærandi fái í Svíþjóð er heiti „inkomstpension“, „tilläggspension“ og „premiepension“ séu greiðslur sem byggðar séu á atvinnuþátttöku. Þar sem fyrri tekjuáætlanir frá kæranda hafi tekið mið af því að greiðslur til hans væri erlendur grunnlífeyrir en ekki lífeyrir sem byggður væri á atvinnuþátttöku hafi myndast mismunur í endurreikningi fyrir árið 2022. Tryggingastofnun bjóði viðskiptavinum sínum upp á mörg greiðsluúrræði varðandi endurgreiðslur á ofgreiðslukröfum stofnunarinnar og hafi slíkt úrræði þegar verið framkvæmt hjá kæranda í máli hans.

Eins og áður hafi komið fram þá greiði Tryggingastofnun lífeyri á grundvelli tekjuáætlunar viðkomandi árs, sbr. 5 mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ábyrgð á tekjuáætlun sé hins vegar í höndum bótaþega sem beri að upplýsa Tryggingastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta. Hægt sé að breyta tekjuáætlun hvenær sem er á árinu til að koma í veg fyrir ofgreiðslur bóta eins og komi fram á heimasíðu stofnunarinnar.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna og að auki hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda.

Í máli þessu liggi fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar um niðurstöðu endurreiknings, tekjuáætlun 2022, P8000 og úrskurður frá Pensionsmyndigheten og að auki bréf frá Tryggingastofnun vegna tekjuáætlunar 2022.

Samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að framkvæma endurútreikning með tilliti til endanlegra tekna sem kærandi hafi fengið á árinu 2022. Ef um misræmi sé að ræða á milli tekjuáætlunar og raunverulegra tekna geti myndast mismunur sem kærandi þurfi síðan að standa skil á. Niðurstaða vegna nýrra upplýsinga frá Pensionsmyndigheten, sbr. bréf, dags. 5. október 2022, hafi leitt til þess að endurreikningur á greiðslum til kæranda hafi farið fram. Sá endurreikningur hafi tekið mið af úrskurði frá Pensionsmyndigheten er hafi gefið til kynna að sá lífeyrir sem kærandi fái frá Svíþjóð sé ekki grunnlífeyrir heldur lífeyrir sem byggður sé á atvinnuþátttöku kæranda.

Við endurreikning tekjutengdra greiðslna á árinu 2022 hafi komið í ljós skuld hjá kæranda upp á 336.984 kr., sbr. bréf, dags. 5. október 2022. Við endurreikninginn hafi verið notaðar aðrar breytur við útreikning á tekjugrunni hjá kæranda. Lífeyrir, sem kærandi fái frá Svíþjóð, sé tekjutengdur og hafi áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun en ekki sé um grunnlífeyri að ræða eins og fyrri útreikningar hafi borið með sér. Jafnframt komi fram að ofgreiðsla vegna ársins 2022 verði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins 2022 sem áætlað sé að fari fram haustið 2023.

Við uppgjör sé stuðst við raunverulegar tekjur kæranda eins og þær birtist á skattframtali en ekki við áætlaðar tekjur eins og þær séu settar fram á tekjuáætlun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. október 2022, um lækkun ellilífeyrisgreiðslna til kæranda vegna lífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð og fyrirhugaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna.

Í 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar segir að ellilífeyrir skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður. Ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 2.400.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.  Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr.,  tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert ellilífeyri. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki ellilífeyri. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Svíþjóð er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Svíþjóð, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki ellilífeyri.

Samkvæmt bréfi frá Pensionsmyndigheten vegna ársins 2022 fær kærandi greiddan „allmän ålderspension“ frá stofnuninni sem samanstendur af „inkomstpension“, „premiepension“  og „tilläggspension“. Þá kemur fram í vottorði stofnunarinnar P8000 í X að greiðslurnar séu byggðar á atvinnu kæranda. Kærandi fer fram á að Tryggingastofnun meðhöndli framangreindar greiðslur með sama hætti og erlendan grunnlífeyri. Í máli þessu kemur því til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að líta á framangreindar greiðslur kæranda frá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð sem lífeyrissjóðstekjur við ákvörðun á ellilífeyrisgreiðslum til kæranda. Nánar tiltekið þarf að meta hvort framangreindar greiðslur kæranda falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum.

Um „inkomstpension“, „premiepension“ og „tilläggspension“ er fjallað í 58. kafla socialförsäkringsbalk (2010:110). Við mat á því hvort framangreindar greiðslur séu sambærilegar við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt ákvæðum 2-5 í kafla 58 ráðast fjárhæðir „inkomstpension“, „premiepension“ og „tilläggspension“ af fyrri tekjum bótaþega. Þá eru greiðslurnar meðal annars fjármagnaðar með iðgjaldagreiðslum, sbr. lag (1994:1744) om allmän pensionsavgift og socialavgiftslag (2000:980). Þá liggja fyrir upplýsingar frá Pensionsmyndigheten um að framangreindar greiðslur til kæranda byggist á atvinnu hans. Ellilífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar tekur aftur á móti ekki mið af fyrri tekjum greiðsluþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, og öðrum tekjum. Þá er ellilífeyrir ekki fjármagnaður með iðgjöldum.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Með hliðsjón af framangreindu eðli greiðslna kæranda frá Svíðþjóð telur úrskurðarnefndin að þær hafi meiri líkindi við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum heldur en ellilífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar. Við það mat lítur úrskurðarnefndin jafnframt til þess að meginreglan er sú að allar skattskyldar tekjur skerða bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefndin telur því að „inkomstpension“, „premiepension“ og „tilläggspension“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða ellilífeyri kæranda með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Við framangreinda túlkun lítur úrskurðarnefndin jafnframt til a-liðar 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Þar segir:

„ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“

Þrátt fyrir að „inkomstpension“, „premiepension“ „tilläggspension“ og ellilífeyrir séu ellilífeyrisgreiðslur telur úrskurðarnefnd þær ekki jafngildar bótum í skilningi framangreinds ákvæðis þar sem greiðslurnar eru ólíkar, eins og áður hefur verið greint frá.

Kærandi gerir varakröfu um að Tryggingastofnun felli niður kröfuna á hendur honum með vísan til þess að stofnunin hafi gert fyrstu tekjuáætlunina fyrir hann og kærandi hafi einungis breytt fjárhæð lífeyris en ekki þeirri tegund lífeyris sem stofnunin hafi sett inn í upphafi. Því beri Tryggingastofnun ábyrgð á skuldinni.

Í hinni kærðu ákvörðun var kæranda greint frá að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 336.984 kr. Greiðslan yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri vegna bóta ársins sem áætlað væri að færi fram haustið 2023. Ljóst er að um er að ræða bráðabirgðaútreikning miðað við þáverandi tekjuforsendur. Lögum samkvæmt endurreiknar stofnunin bótarétt bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda vegna þess árs liggur fyrir, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þannig getur stofnunin ekki tekið endanlega ákvörðun um endurkröfu og innheimtu ofgreiddra bóta í tilviki kæranda fyrr en eftir að álagning skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 hefur farið fram.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi úrskurð á mál, rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta samkvæmt lögunum. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna. Í 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um málsmeðferð fyrir nefndinni. Í 5. mgr. ákvæðisins er vísað til þess að um málsmeðferð hjá nefndinni að öðru leyti fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá  hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.“

Samkvæmt framangreindu eru tilteknar stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála en þær verða þó ekki kærðar fyrr en mál hefur verið til lykta leitt, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilkynning Tryggingastofnunar um áætlaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta vegna ársins 2022 sé ekki endanleg stjórnvaldsákvörðun af hálfu stofnunarinnar.

Að framangreindu virtu getur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tekið áætlaða endurkröfu Tryggingastofnunar til endurskoðunar og þeim hluta kæru er því vísað frá. Úrskurðarnefnd telur hins vegar rétt að benda kæranda á að þegar endanlegur endurreikningur vegna bótagreiðsluársins 2022 liggur fyrir er heimilt að kæra þá niðurstöðu til nefndarinnar, verði kærandi ekki sáttur við þá ákvörðun.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að lækka ellilífeyrisgreiðslur til kæranda vegna lífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð staðfest. Þeim hluta kæru er varðar áætlaða endurkröfu Tryggingastofnunar er vísað frá.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun á ellilífeyrisgreiðslum til A er staðfest. Þeim hluta kæru er varðar áætlaða endurkröfu Tryggingastofnunar er vísað frá.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_______________________________________

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum