Hoppa yfir valmynd
1. júní 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Fyrsta samnorræna lyfjaútboðið í augsýn

Norrænt samstarf - myndVelferðarráðuneytið

Undirbúningur að sameiginlegu útboði Danmerkur, Noregs og Íslands vegna kaupa á völdum lyfjum til notkunar á sjúkrahúsum er á lokastigi og stefnt að útboði í haust. Vonir eru bundnar við að með stærri markaði skapist samlegðaráhrif sem leiði til aukinnar hagkvæmni og lægra lyfjaverðs og tryggi betur fullnægjandi framboð lyfja hjá hlutaðeigandi þjóðum.

„Stórmerkilegur og mikilvægur áfangi”

Svandís Svavarsdóttir á ársfundi Landspítala 2018Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir áformað lyfjaútboð í haust fela í sér stórmerkilegan og mikilvægan áfanga: „Möguleikar á sameiginlegum lyfjainnkaupum Norðurlandaþjóða hafa verið til umræðu árum saman í norrænu samstarfi og  nú er málið komið á framkvæmdastig. Útgjöld til lyfjamála eru ört vaxandi hjá öllum þjóðum og einn stærsti útgjaldaliðurinn í rekstri vestrænna heilbrigðiskerfa. Norðurlandaríkin eru hvert um sig mjög lítill markaður fyrir lyfjaframleiðendur en saman erum við stærri og þar með sterkari. Það er til mikils að vinna og ég bind miklar vonir við árangur af þessari frumraun sameiginlegs lyfjaútboðs í haust” segir Svandís Svavarsdóttir.

Norðurlandaþjóðirnar standa frammi fyrir fjölda áskorana í lyfjamálum sem tengjast meðal annars mismunandi stærð landanna, efnahagsstöðu og skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Öll eiga löndin sammerkt að leita leiða til að ná tökum á lyfjakostnaði um leið og þau reyna að tryggja sjúklingum eins góðan aðgang að nauðsynlegum lyfjum og mögulegt er. Um þetta er meðal annars fjallað í nýlegri skýrslu sem danska greiningarfyrirtækið KORA tók saman fyrir vinnuhóp Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf þjóðanna í lyfjamálum. Þar segir meðal annars að innleiðing nýrra  og mjög kostnaðarsamra lyfja sé ein helsta áskorunin sem þjóðirnar standa frammi fyrir og þar er lyfjaverð afgerandi þáttur.

Litið er á úboðið í haust sem reynsluverkefni til að afla þekkingar á ýmsum hagnýtum þáttum slíkra útboða, hvort þau skili árangri, hvernig árangurinn skuli metinn, hvaða lyf henta til sameiginlegra útboða og hvernig verði best verði að útboðum staðið til framtíðar.

Undirbúningsvinna vegna sameiginlegs lyfjaútboðs þjóðanna þriggja hefur verið á hendi danska lyfjainnkaupasambandsins AMGROS í samvinnu við stjórnvöld og stofnanir landanna.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira