Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Þörf á 200 þúsund nýjum flugmönnum til 2018

Á innan við áratug er þörf á um 200 þúsund flugmönnum og rúmlega 400 þúsund flugvirkjum og öðrum tæknimönnum til að sinna viðhaldi flugflota heimsins. Þetta er niðurstaða könnunar á vegum Alþjóða flugmálastofnunarinnar, ICAO, sem greint er frá í nýlegu tímariti hennar.

Frá Keflavíkurflugvelli
Frá Keflavíkurflugvelli

Alþjóðasamband áætlunarflugfélaga, IATA, hefur allt frá árinu 2007 metið þörfina fyrir  framtíðarstarfsfólk flugfélaga. Forráðamenn samtakanna sáu þá fyrir sér allt að 15% aukningu á ári í ýmsum löndum Asíu, til dæmis á Indlandi. Í framhaldi af þessum athugunum var komið á skipulegu samstarfi IATA og ICAO til að rýna í þörf flugheimsins fyrir framtíðarstörf og liggja niðurstöður nú fyrir. Þær verða kynntar frekar á ráðstefnu í næsta mánuði í höfuðstöðvum ICAO í Montreal. Kannanir sem þessar eru gerðar af og til og flugvélaframleiðendur reyna líka að spá fyrir um þörf markaðarins fyrir nýjar vélar og aukningu einn til tvo áratugi fram í tímann.

Meðal þess sem spáin greinir er að flugfloti Kínverja muni þrefaldast til ársins 2028 og verða þá um 4.600 flugvélar og að í Asíu- og Kyrrahafslöndum muni árlegur vöxtur í flugi næstu 20 ár nema 6,5%. Ekki er gert ráð fyrir svo örum vexti í öðrum heimshlutum.

Áfram sveiflur

Íslenskir flugrekendur hafa heldur dregið saman seglin undanfarin misseri og segir Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, erfitt að meta atvinnuhorfurnar hérlendis:

„Við höfum séð mikinn samdrátt í fjölda félagsmanna FÍA á allra síðustu árum og árstíðasveiflan er mikil hjá okkar stærsta vinnuveitanda, Icelandair. Í kreppunni er samkeppni líka enn harðari í öllu leiguflugi, en þar hefur flugfélag eins og Atlanta náð góðum árangri. Það eina sem sagan kennir okkur er að þetta verður áfram mjög sveiflukennd atvinnugrein.“ 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira