Hoppa yfir valmynd
30. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mannréttindi rædd á morgunverðarfundi

Anna Sigrún Baldursdóttir
Anna Sigrún Baldursdóttir

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður velferðarráðherra flutti ávarp fyrir hans hönd á morgunverðarfundi sem innanríkisráðuneytið stóð fyrir um mannréttindamál og aðgang útlendinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins að Íslandi, 30. maí 2012.


Góðir gestir.

Mannréttindi eru hornsteinn lýðræðisríkja og samfélaga sem vilja standa undir nafni. Samfélag sem viðurkennir ekki fjölbreytni, sem viðurkennir ekki réttindi minnihlutahópa eða ber hagsmuni þeirra fyrir borð stendur ekki undir nafni. Það liggur í orðanna hljóðan, því samfélag vísar til heildar og þá hljótum við að eiga við eitt samfélag fyrir alla.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka innanríkisráðuneytinu fyrir fundinn hér í dag sem er sá síðasti í fundaröð ráðuneytisins um mannréttindamál, í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Ég tek heilshugar undir ríka nauðsyn þess að stefnumótun í svo viðamiklum og mikilvægum málaflokki fari fram í samstarfi og beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélagið og almenning.

Ísland hefur lengst af dregið dám af þeirri staðreynd að vera „lítil eyja, langt norður í Atlantshafi“ úr alfaraleið, einangruð og ekki áberandi á heimskortinu. Innflytjendur voru lengst af fáir og helst norrænir nágrannar okkar sem settust hér að. Það var fyrst upp úr 1990 sem fólki frá öðrum löndum fór að fjölga hér að ráði. Árið 1955 fullgilti Ísland Flóttamannasamninginn, þ.e. þann alþjóðasamning sem gegnir lykilhlutverki í tengslum við meðferð hælisumsókna. Ári síðar, 1956, var í fyrsta skipti tekið á móti flóttafólki hér á landi en alls hefur verið tekið á móti átján hópum flóttafólks á árabilinu 1956–2010 og nú er verið að undirbúa móttöku á næsta hópi sem kemur frá Afganistan.

Það má því segja að reynsla okkar af fjölmenningarlegu samfélagi sé lítil, við höfum þurft að læra margt í þeim efnum á skömmum tíma og án efa eigum við enn margt ólært. Á þenslutímanum held ég að mörgum hafi verið tamt að líta fyrst og fremst á útlendinga sem komu hingað sem vinnuafl og umræðan markaðist nokkuð af því. Vissulega kom hér fjöldi fólks fyrst og fremst vegna þess að hér var vinnu að hafa og ætlaði sér ekki annað en að starfa hér tímabundið og hverfa svo aftur heim. En við erum líka svo gæfusöm að margir þeirra hafa ílengst og sest að á Íslandi, stofnað fjölskyldu og auðgað samfélag okkar á margan hátt.

Samfélag okkar nýtur góðs af fjölbreytninni en okkar hlutverk er ekki einungis að þiggja, við berum ábyrgð gagnvart þeim sem koma hingað. Samfélagið þarf að leggja sitt af mörkum gagnvart þeim sem hingað koma og vilja að setjast hér að. Það er ekkert áhlaupaverk að koma inn í nýtt samfélag, læra nýtt tungumál, kynnast menningu sem er jafnvel mjög frábrugðin því sem fólk hefur alist upp við, læra á stjórnkerfi og skipulag samfélagsins, reglur þess, réttindi og skyldur og svo mætti áfram telja.

Opinber stefna í málefnum innflytjenda var fyrst sett hér á landi árið 2007. Markmið þeirrar stefnu er að tryggja sem best að allir íbúar landsins njóti jafnra tækifæra og verði virkir þátttakendur í samfélaginu. Ári síðar var samþykkt metnaðarfull framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem hefur það markmið að betur sé tekið á móti erlendu fólki, því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og að rækta menningu sína. Fjölmenningarsetur hafði tekið til starfa fyrir þann tíma, stofnað árið 2001 með aðsetur á Ísafirði en það þjónar innflytjendum á landinu öllu.

Fjölmenningarsetri er ætlað að veita innflytjendum upplýsingar um réttindi og skyldur og sinna samfélagsfræðslu. Einnig er hlutverk þess að vera sveitarfélögum til ráðgjafar við móttöku innflytjenda sem flytjast í viðkomandi sveitarfélag ef þess er óskað. Hér er þó rétt að hafa í huga að hlutverk sveitarfélaga er að sinna öllum íbúum sínum óháð uppruna og því er verkaskipting í þjónustu ríkis og sveitarfélaga við innflytjendur sú sama og í þjónustu við aðra borgara samfélagsins.

Í frumvarpi um málefni innflytjenda sem liggur nú fyrir Alþingi er lögð áherslu á að festa í sessi þá starfshætti sem þegar hafa þróast. Þar er meðal annars kveðið á um að Fjölmenningarsetrið fái stöðu stofnunar og ákvæði um hlutverk innflytjendaráðs sem ráðgefandi við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og sem samráðsvettvang þeirra sem að þessum málum koma. Einnig er kveðið á um skyldu ráðherra til að leggja fram þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda á fjögurra ára fresti og skýrslu til Alþingis um stöðu og þróun þessara mála.

Góðir gestir.

Ég fagna því frumkvæði sem innanríkisráðuneytið sýnir með fundaröð um mannréttindamál og þeirri stefnumótunarvinnu sem nú er hafin vegna vinnu við gerð landsáætlunar á sviði mannréttindamála. Vinna starfshóps um málefni útlendinga utan Evrópska efnahagssvæðisins er einnig mikilvæg og tímabær, en verkefni hópsins er að móta stefnu um þá útlendinga sem leita hælis eða óska eftir dvöl á Íslandi. Áhersla er lögð á að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum þessa fólks og í því sambandi horft til málsmeðferðar, veitingu dvalarleyfa og atvinnuleyfa og annarra lagafyrirmæla sem varða þennan hóp, óháð því hvar viðkomandi verkefni er vistað í stjórnsýslunni.

Það skiptir miklu máli hvernig staðið er að þessum málum og íslensk stjórnvöld eiga að leggja metnað sinn í að gera þetta vel. Velferð fólks og fjölskyldna er í húfi, ábyrgð okkar er mikil og til mikils er að vinna. Við höfum skyldum að gegna og við eigum líka að gæta að orðspori okkar með því að virða alþjóðlega samninga í hvívetna og framfylgja þeim þannig að sómi sé af.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum