Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisstefna á Íslandi árangursrík samkvæmt evrópskri rannsókn

Embætti landlæknis
Embætti landlæknis

Ísland er í þriðja sæti þegar borinn er saman árangur af heilbrigðisstefnum 43 Evrópuríkja samkvæmt nýlegri evrópskri rannsókn. Svíþjóð og Noregur eru í fyrsta og öðru sæti.

Landlæknir segir frá niðurstöðum rannsóknarinnar á vef embættisins en fjallað er um hana í grein í European Journal of Public Health, tímariti evrópsku lýðheilsusamtakanna EUPHA. Í rannsókninni var borin saman stefna ríkjanna á tíu sviðum sem snúa að tóbaksvörnum, áfengisvörnum, næringu, frjósemi, meðgöngu og fæðingum, heilsufari barna, smitsjúkdómum, greiningu og meðferð háþrýstings, skimun fyrir krabbameinum, umferðaröryggi og loftmengun. Einnig voru rannsakaðir stjórnmálalegir, efnahagslegir og félagslegir áhrifaþættir heilbrigðisstefnu ríkjanna. Rannsóknin leiddi í ljós verulegan mun á milli Evrópuríkja og álykta höfundarnir að hægt væri að bæta heilsu fólks verulega í Evrópu ef alls staðar væri beitt þeim aðferðum sem skilað hafa bestum árangri.

Landlæknir gerir einnig að umfjöllunarefni fræðigrein veftímaritsins The Lancet sem birtist 27. mars síðastliðinn þar sem fjallað er um efnahagshrunið og áhrif þess á lýðheilsu í Evrópu. Sýnt er fram á að aðhaldsaðgerðir stjórnvalda í hinum ýmsu Evrópuríkjum hafi komið hart niður á heilbrigðiskerfum landanna, einkum á Spáni, í Portúgal og Grikklandi. Þar hefur sjálfsvígstíðni farið vaxandi og smitsjúkdómar brotist ú í síauknum mæli, auk þess sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi versnað til muna. Aftur á móti hafi á Íslandi verið brugðist við með öðrum úrræðum, félagslega öryggisnetið hafi verið styrkt, áhersla lögð á að halda fólki virku í vinnu, matarvenjur hafi breyst og þá hafi ströng áfengislöggjöf og mikill félagsauður haft sín áhrif. Er bent á að þetta eigi þátt í því að á Íslandi hafi sjálfsvígum ekki fjölgað í kjölfar kreppunnar og eins sýni könnun á heilsu og líðan Íslendinga að hrunið hafi lítil áhrif haft á hamingju þjóðarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum