Hoppa yfir valmynd
11. maí 2009 Innviðaráðuneytið

Álagning fasteignagjalds talin ólögmæt

Samgönguráðuneytið hefur kveðið upp úrskurð í máli er varðar álagningu svokallaðs B-gatnagerðargjalds á fasteign í Djúpavogshreppi. Niðurstaða ráðuneytisins er að álagningin hafi veri ólögmæt og var hún því felld úr gildi.

Álagning B-gatnagerðargjaldsins var byggð á samþykkt hreppsins frá 2005. Kærendur byggðu kröfur sínar meðal annars á því að gild samþykkt um heimild til innheimtu gjaldsins hafi ekki legið fyrir við álagninguna þar sem sú samþykkt sem Djúpavogshreppur byggði á hafi ekki verið staðfest af ráðherra.

Að mati ráðuneytisins er bráðabirgðaákvæði laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald skýrt um að lög nr. 51/1974 gilda um innheimtu og álagningu B-gatnagerðargjaldsins. Af því leiðir að sveitarfélagi, sem hyggst innheimta slíkt gjald, ber að setja sér samþykkt með þeim hætti sem kveðið er á um í 3. gr. laga nr. 51/1974, þ.e. samþykktin skal staðfest af ráðherra. Álagning Djúpavogshrepps byggðist á samþykkt frá 2005 sem ekki hafði verið staðfest af ráðherra og leit því ráðuneytið svo á að lagaskilyrði fyrir innheimtu gjaldsins væri ekki uppfyllt.

Í tilefni af úrskurðinum vill ráðuneytið vekja athygli sveitarfélaga á því að hafi þau í hyggju að nýta heimild bráðabirgðaákvæðis laga nr. 153/2006 til að leggja á B-gatnagerðargjald ber þeim að hafa í gildi samþykkt sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum