Hoppa yfir valmynd
12. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 548/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 548/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100055

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. október 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 4. mgr. 8. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, með síðari breytingum.Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka málið til nýrrar meðferðar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 26. apríl 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 3. maí 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 7. maí 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 7. maí 2018 sendi Útlendingastofnun beiðni um upplýsingar til sænskra stjórnvalda, sbr. 34. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Svar frá sænskum stjórnvöldum ásamt fylgigögnum barst Útlendingastofnun þann 9. maí 2018. Þann 15. ágúst 2018 boðaði Útlendingastofnun kæranda í líkamsrannsókn til að ákvarða aldur hans, sbr. 113. gr. laga um útlendinga. Þann sama dag óskaði stofnunin eftir rannsókn tannlæknisfræðilegra gagna vegna aldursgreiningar hjá Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Kærandi gekkst undir umrædda rannsókn þann 22. ágúst 2018. Útlendingastofnun ákvað þann 12. október 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 16. október 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 29. október 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd 7. nóvember 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að sænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Svíþjóðar.Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að við meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hefðu sænsk stjórnvöld lagt til grundvallar að hann væri fæddur […] og því verið barn að aldri. Hefði málsmeðferð kæranda í Svíþjóð tekið mið af því. Við meðferð máls kæranda hér á landi hefði kærandi óskað eftir leiðréttingu á skráðum fæðingardegi sínum í Svíþjóð, en samkvæmt kæranda væri réttur fæðingardagur hans […]. Þar sem kærandi hefði ekki lagt fram gild skilríki til að sanna á sér deili hefði stofnunin boðað kæranda í aldursgreiningu. Aldursgreining hefði farið fram þann 22. ágúst sl. en niðurstöður hennar hefðu gefið til kynna að kærandi væri eldri en 18 ára. Þegar litið væri með heildstæðum hætti til gagna málsins væri það mat Útlendingastofnunar að kærandi væri eldri en 18 ára og tæki meðferð máls hans mið af því.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi rekur atvik málsins í greinargerð, m.a. með hliðsjón af því sem kærandi hafði áður greint frá í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Kemur m.a. fram að kærandi sé ríkisborgari […], fæddur […] og því […] ára gamall. Kærandi sé […] en hafi alist upp í samfélagi í heimaríki þar sem rík áhersla sé lögð á […]. Kærandi hafi verið þvingaður til að […]. Vegna […] kæranda sem og […] sem hái honum hafi kæranda reynst örðugt að […] og lent í útistöðum vegna þessa. Kærandi hafi síðar flúið land en fjölskylda hans sé stödd í […]. Er kærandi hafi verið […] ára gamall hafi hann komið til Svíþjóðar og sótt þar um alþjóðlega vernd. Við meðferð umsóknar kæranda hafi sænsk stjórnvöld lagt til grundvallar að hann væri barn að aldri. Kærandi hafi dvalið í Svíþjóð í um þrjú ár og fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Aðbúnaður kæranda í Svíþjóð hafi verið góður. Aðspurður um líkamlegt og andlegt heilsufar hafi kærandi m.a. sagst glíma við svefnleysi, vanlíðan, kvíða og óöryggi. Þá hafi ofbeldi í heimaríki haft áhrif á kæranda. Fyrir liggi að sænsk stjórnvöld muni senda kæranda aftur til […] en því sé hann mótfallinn.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann geri þá aðalkröfu að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að senda sig til Svíþjóðar. Kærandi vísar í fyrsta lagi til 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, í öðru lagi til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og í þriðja lagi til 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Kærandi rekur inntak 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og tekur m.a. fram að í málinu liggi fyrir ákvörðun sænskra stjórnvalda varðandi umsókn kæranda um alþjóðlega vernd þar í landi, sem hafi verið synjað. Í þeirri ákvörðun sé fæðingardagur kæranda skráður […]. Sænsk stjórnvöld hafi ekki talið þörf á að framkvæma greiningu á tönnum kæranda til að ákvarða aldur hans og farið með umsókn hans líkt og hann væri barn. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hérlendis hafi kærandi útskýrt að réttur fæðingardagur hans væri […] en ekki […] og óskað eftir leiðréttingu á því.

Kærandi tekur m.a. fram að í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem síðar varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 komi fram að helstu nýmæli þess sé áhersla á réttindi barna og umbætur þar um. Þar sé jafnframt lagt til, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og ábendingar sérfræðinga, að gengið skuli út frá því að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera barn sé álitinn barn við meðferð máls nema það þyki afar ósennilegt eða annað komi í ljós með aldursgreiningu eða öðrum hætti. Þá sé þess getið, að ef ekki hafi tekist að leiða í ljós aldur viðkomandi með nægilega tryggum hætti, þrátt fyrir aldursgreiningu, skuli viðkomandi njóta vafans og vera meðhöndlaður sem barn. Kærandi telur að þetta sé í samræmi við 113. gr. laga um útlendinga og vísar jafnframt til 40. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum.

Í skýrslu sem Evrópuráðið hafi gefið út árið 2017 (Age Assessment: Council of Europe member states´policies, procedures and practices respectful of children´s rights in the context of migration) hafi verið fjallað um aldursgreiningar og hvað felist í heildstæðu mati. Samkvæmt því sem fram komi í skýrslunni þurfi matið m.a. að vera þverfaglegt og byggjast á ólíkum aðferðum. Kærandi telji ljóst að ekki hafi farið fram heildstætt mat á aldri kæranda og rannsókn Útlendingastofnunar sé ábótavant. Þeir sérfræðingar sem framkvæmt hafi tanngreiningu á kæranda hafi ekki búið yfir sérfræðiþekkingu á þroska barna. Þá hafi hvorki barnalæknir né barnasálfræðingur rætt við kæranda. Kærandi telji að Útlendingastofnun skorti heimild til að ákvarða aldur út frá tanngreiningu án tillits til annarra þátta. Jafnframt er vakin athygli á að tanngreining á kæranda hafi farið fram fjórum mánuðum eftir komu hans til Íslands, en í mati stofnunarinnar á aldri kæranda hafi ekki verið tekið tillit til þess. Fyrir liggi að við meðferð máls kæranda í Svíþjóð hafi verið litið á hann sem barn. Kærandi hafi ekki fengið að njóta þess vafa sem sé fyrir hendi varðandi réttan aldur hans.

Kærandi gerir athugasemd við kynningu Útlendingastofnunar á niðurstöðum aldursgreiningar og ákvörðun um aldur kæranda, en þær hafi farið fram í einu og sama viðtalinu þann 17. september sl. Kæranda hafi hvorki verið gefinn kostur á að kynna sér gögn né koma að skriflegum andmælum áður en ákvörðun um aldur hafi verið tekin og brjóti það m.a. í bága við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í greinargerð kæranda er þá og fjallað um ónákvæmni röntgenrannsókna til ákvörðunar á aldri. Því til stuðnings er vísað til umfjöllunar í fyrirliggjandi greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2018. Vekur kærandi athygli á áðurnefndri skýrslu Evrópuráðsins, en í henni sé m.a. lögð áhersla á að líkamsrannsóknir skuli einungis nota sem lokaúrræði þegar verulegur vafi leiki á um aldur viðkomandi. Með vísan til skýrslu Evrópuráðsins gerir kærandi jafnframt nokkrar athugasemdir við málsmeðferð greininga um aldur á Íslandi.

Kærandi gerir athugasemd við mat Útlendingastofnunar á því hvort hann teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til 25. gr. laga um útlendinga og tekur fram að ekki hafi verið vandað nægilega til einstaklingsbundinnar greiningar á stöðu kæranda í málinu og að niðurstaða Útlendingastofnunar á því hvort hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sé röng. Í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sé að finna skilgreiningu á hugtakinu „einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu“, en þar sé m.a. getið um fylgdarlaus börn og einstaklinga sem hafi orðið fyrir alvarlegu andlegu og líkamlegu ofbeldi. Kærandi hafi verið […]. Hafi kærandi sætt ofbeldi, smánun og skilningsleysi vegna þessa. Hafi það ofbeldi er kærandi hafi sætt haft veruleg áhrif á andlega heilsu hans, en bæði í Svíþjóð og hér á landi hafi hann m.a. sótt þjónustu sálfræðings og notað lyf að læknisráði. Í ljósi framangreinds og með vísan til ungs aldurs kæranda, auk þess sem ekki sé hægt að útiloka að hann sé fylgdarlaust barn, sé kærandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Þá er í greinargerð kæranda vísað til 1. og 3. mgr. 6. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í 1. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um að aðildarríki skuli hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi í tengslum við allar málsmeðferðir sem kveðið sé á um í reglugerðinni. Kærandi tekur þá og fram að í 6. málsl. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga sé fjallað um sérviðmið er varði börn og ungmenni við mat á því hvort Útlendingastofnun sé heimilt að taka mál barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Komi þar fram að þegar barn sé fylgdarlaust beri að taka ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það sé í skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu sé Útlendingastofnun heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, samrýmist það hagsmunum þess og afstöðu. Þá vísar kærandi m.a. til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, 3. mgr. 25. gr. og 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, auk 3. og 5. mgr. 20. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2011/95/ESB.

Í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mat á því hvað sé barni fyrir bestu komi m.a. fram að viðtal við barnið sjálft, þar sem fram komi hugsanir, tilfinningar og skoðanir þess, sé lykilgagn við mat á því hvaða afleiðingar tiltekin aðgerð eða niðurstaða hafi á velferð barns. Með hliðsjón af framangreindu verði að líta svo á að sú afstaða kæranda sjálfs að vilja ekki vera endursendur til Svíþjóðar vegi þyngst við mat á því hvað sé honum fyrir bestu. Þá gerir kærandi jafnframt grein fyrir umsókn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá febrúar 2015, um tillögu að breytingu á 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, auk þess að fjalla um ýmsar hættur sem geti verið fólgnar í flutningi barna milli landa, svo sem misnotkun og mansal. Kærandi telji að ekki sé unnt að komast að þeirri niðurstöðu að það gangi gegn hagsmunum sínum að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði afgreidd hér á landi.

Í málinu liggi fyrir umsögn sænsks kennara um kæranda, þar sem m.a. komi fram að kærandi sé […]. Auk þess sé í framlögðum komunótum frá Göngudeild sóttvarna tekið fram að kærandi sé […]. Kærandi verði […]. Samkvæmt ráðleggingum […] hafi kæranda verið […]. Jafnframt hafi kærandi […]. Kærandi hafi sótt sálfræðimeðferð hér á landi og í komunótum sé þess getið að kærandi hafi greint frá streitu í tengslum við meðferð umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi geti ekki hugsað jákvætt og þyki lífið erfitt.

Fallist kærunefnd ekki á þau sjónarmið að slíkur vafi leiki á aldri kæranda að fara skuli með mál hans líkt og hann sé yngri en 18 ára telur kærandi að mál hans skuli tekið til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum, auk þess að fjalla um hvað átt sé við með einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi, sem sé í öllu falli afar ungur að árum og hafi þurft að þola ofbeldi í heimaríki sem haft hafi veruleg áhrif á hann, sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, og því skuli mál hans tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi. Þá telur kærandi að reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, sem varði framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, skorti lagastoð og gangi lengra en ákvæði laganna. Til stuðnings framangreindum sjónarmiðum kæranda er vísað til fyrri úrskurða kærunefndar útlendingamála, þ.e. nr. 582/2017, nr. 20/2018, nr. 550/2017, nr. 446/2016, nr. 139/2017 og nr. 142/2017.

Til viðbótar við framangreint tekur kærandi fram að ótækt sé að senda sig frá Íslandi til Svíþjóðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hann njóti m.a. verndar 42. gr. laga um útlendinga og sambærilegrar grundvallarreglu þjóðaréttar sem leggi bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu (e. direct refoulement) og jafnframt endursendingu til ríkis ef fyrirsjáanlegt er að það muni senda hann áfram í slíka hættu (e. indirect refoulement). Þá gerir kærandi þá varakröfu að ógilda beri hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi rekur inntak 10. gr. stjórnsýslulaga og bendir á að rannsókn Útlendingastofnunar hvað varði aldur kæranda hafi verið haldin ýmsum vanköntum, sem áður hafi verið greint frá. Ekki verði byggt á niðurstöðum aldursgreininga sem haldnar sé slíkum annmörkum. Því beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Svíþjóðar á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Af greinargerð kæranda verður ráðið að hann telji að ekki sé heimilt að synja umsókn sinni um efnismeðferð þar sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en ákvæðið kveður á um sérreglu um ábyrgð ríkja á umsóknum fylgdarlausra barna um alþjóðlega vernd. Af því tilefni tekur nefndin fram að kærandi hefur þegar lagt fram umsókn um slíka vernd og fengið hana tekna til efnismeðferðar í Svíþjóð, sbr. fyrirliggjandi ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar frá 2. júní 2016 og viðtökusamþykki þess ríkis sem eins og fyrr segir byggist á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd tekur fram að meginmarkmið Dyflinnarreglugerðarinnar, sem m.a. má ráða af 4. og 5. tölulið aðfararorða hennar sem og 1. mgr. 3. gr., er einkum að koma á fót fyrirkomulagi sem tryggir að umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd sé tekin til meðferðar í einu þeirra ríkja sem taka þátt í Dyflinnarsamstarfinu. Í því ljósi og með vísan til viðtökusamþykkis Svíþjóðar telur kærunefnd að í 4. mgr. 8. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar felist ekki ótvíræð ábyrgð íslenska ríkisins á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Til hliðsjónar tekur nefndin fram að sams konar sjónarmið má leiða af dómi Evrópudómstólsins í máli C-648/11 frá 5. júní 2013, þó að sá tiltekni dómur hafi takmarkað gildi að íslenskum rétti, þ.e. einkum vegna tilvísunar dómsins til 25. gr. tilskipunar nr. 2005/85/ESB sem nú hefur verið felld úr gildi með tilskipun nr. 2013/32/ESB sem íslenska ríkið hefur ekki með þjóðréttarlegum samningi skuldbundið sig til að fylgja eftir.

Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja sænsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Mat á aldri, sbr. 113. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef vaknar grunur um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur er, aldursgreining skv. 113. gr. Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef grunur leiki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd eða umsækjandi um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar villi á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur við meðferð máls geti viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Í 1. mgr. 40. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, sbr. 3. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, kemur fram að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar af ævi hans en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Leiki grunur á að umsækjandi segi rangt til um aldur skuli framkvæma líkamsrannsókn til greiningar.

Í greinargerð kæranda er m.a. á því byggt að fara skuli með mál hans líkt og hann sé ólögráða einstaklingur. Við komu kæranda til landsins þann 26. apríl 2018 gaf hann upp fæðingardaginn […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun í apríl 2018 gaf kærandi upp fæðingardaginn […]. Aðspurður um þetta misræmi kvað kærandi að það stafaði af því hvernig sænsk stjórnvöld hafi reiknað út fæðingardag hans. Samkvæmt kæranda sé þó réttur fæðingardagur hans […]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. september sl. ítrekaði kærandi ósk sína um leiðréttingu á skráðum fæðingardegi.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun aflaði stofnunin upplýsinga frá sænskum stjórnvöldum. Í viðtökusamþykki sænskra stjórnvalda, dags. 7. maí 2018, kemur fram að skráður fæðingardagur kæranda þar í landi sé […]. Þá kemur fram í bréfi sænskra stjórnvalda til Útlendingastofnunar, dags. 9. maí sl., að á þeim tíma er kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hafi hann verið […] ára að aldri og því ólögráða. Sænsk stjórnvöld hafi ekki framkvæmt líkamsrannsókn á kæranda í þeim tilgangi að greina aldur hans. Við meðferð máls kæranda í Svíþjóð hafi hann á öllum stigum notið stöðu sem ólögráða einstaklingur. Er framangreint í samræmi við það sem kemur fram í ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar í máli kæranda, dags. […], um að stjórnvöld þar í landi hafi lagt til grundvallar að kærandi væri einstaklingur undir lögaldri.

Af hinni kærðu ákvörðun er ljóst að við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun taldi stofnunin vafa leika á um aldur kæranda þar sem hann hafi ekki lagt fram skilríki til að sanna á sér deili fyrir utan sænskt skírteini um alþjóðlega vernd. Boðaði stofnunin kæranda því í líkamsrannsókn sem hann samþykkti og undirgekkst þann 22. ágúst sl. að viðstöddum talsmanni sínum og fulltrúum frá Útlendingastofnun og barnavernd. Líkamsrannsóknin fólst í rannsókn tannfræðilegra gagna og í aldursgreiningarskýrslu, dags. 22. ágúst sl., kemur fram að það sé mat þeirra tannlækna sem hana skrifa að kærandi sé eldri en 18 ára. Tekið er fram að niðurstaðan af aldursgreiningu sé byggð á sameiginlegu mati á sjúkrasögu, klínískri skoðun, aldursútreikningum og mati á röntgenmyndum.

Samkvæmt framansögðu þá hefur kærandi í viðtölum hjá Útlendingastofnun haldið því fram að hann sé undir lögaldri og hefur framburður kæranda hvað þetta varðar verið stöðugur. Kærandi óskaði þó eftir leiðréttingu á skráðum fæðingardegi sínum hjá Útlendingastofnun, þ.e. að miða ætti við […] í stað […] sama árs. Kærandi hefur að mati kærunefndar gefið trúverðugar skýringar á þessu ósamræmi og þá tekur nefndin fram að umbeðin leiðrétting kæranda á skráðum aldri sínum leiði til þess að aldur hans telst hærri en ef miðað væri við þann dag er sænsk stjórnvöld skráðu. Telur nefndin því augljóst að umbeðin leiðrétting kæranda sé t.d. ekki einvörðungu gerð í þeim tilgangi að lækka skráðan aldur hans.

Þá liggja fyrir í málinu gögn frá sænskum stjórnvöldum þar sem kemur fram að skráður fæðingardagur kæranda sé […] og að farið hafi verið með mál kæranda þar í landi líkt og hann væri ólögráða einstaklingur. Þau gögn málsins gefa enn fremur til kynna að kærandi hafi notið margvíslegrar þjónustu í Svíþjóð sem veitt sé ólögráða umsækjendum um alþjóðlega vernd. Sé aldur kæranda lagður til grundvallar líkt og hann er skráður af sænskum stjórnvöldum er ljóst að kærandi er ekki orðinn 18 ára. Á hinn bóginn liggur fyrir niðurstaða fyrrnefndrar líkamsrannsóknar um að kærandi sé eldri en 18 ára. Samkvæmt gögnum málsins fór sú greining fram tæpum fjórum mánuðum eftir komu kæranda til landsins.

Þegar litið er með heildstæðum hætti til gagna málsins, þ.m.t. líkamsrannsóknar á tönnum kæranda, sem fór samkvæmt framansögðu ekki fram fyrr en tæpum fjórum mánuðum eftir komu kæranda til landsins, og áðurnefndum gögnum frá sænskum stjórnvöldum sem eru í samræmi við stöðugan framburð kæranda, er það mat kærunefndar að fyrir hendi sé vafi um að kærandi sé fullorðinn einstaklingur, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga. Skýra skal slíkan vafa kæranda í hag. Telur nefndin því að fara skuli með úrlausn þessa máls eins og kærandi sé barn að aldri. Fyrir liggur að foreldrar kæranda eru ekki hér á landi og enginn ber ábyrgð á honum að lögum hér á landi. Telst kærandi því fylgdarlaust barn, sbr. 11. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Sjónarmið varðandi stöðu og málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Eins að framan greinir er kærandi fylgdarlaust barn og er því í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti kærandi því m.a. að honum hafi […]. Kærandi hafi dvalið á […] þar í landi, verið […] og lent í áflogum við jafnaldra sína. […]. Í öðru viðtali hjá Útlendingastofnun, sem fram fór dagana 17. og 24. september sl., kvað kærandi að […]. Kærandi sé […] en hafi verið […]. Þá hafi hann […]. Kvaðst kærandi hafa þegið þjónustu í Svíþjóð vegna andlegrar líðanar sinnar.

Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. […], kemur m.a. fram að kærandi sé vel á sig kominn andlega og líkamlega. Að sögn kæranda hafi hann þó […]. Kærandi hafi hitt sálfræðing hér á landi og verið ávísað geðdeyfðarlyfi og hafi svefn hans batnað í kjölfarið. […]. Kærandi finni fyrir streitu en líði betur á Íslandi en í Svíþjóð. Kærandi hefur jafnframt borið fyrir sig að hafa sætt fordómum í Svíþjóð vegna uppruna síns og þá óttist hann tiltekinn einstakling þar í landi sem hafi veist að sér.

Aðstæður í Svíþjóð

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Annual Report on the situation of Asylum in the European Union 2017 (European Asylum Support Office, 18. júní 2018);
  • Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 28. mars 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Sweden (Freedom House, 28. maí 2018);
  • Good Advice for Asylum Seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, janúar 2018);
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016);
  • Sweden 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í framangreindum gögnum kemur fram að sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Þá kemur fram á áðurnefndri heimasíðu sænsku útlendingastofnunarinnar og í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð er tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Sveitarfélagið sem umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í hefur milligöngu um að útvega umsækjanda lækni og aðra heilbrigðisþjónustu við hæfi. Þá er tekið tillit til þarfa einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu, þ. á m. að því er varðar sérfræðiaðstoð. Greiða þarf vægt komugjald vegna heimsóknar á heilsugæslu en innlögn á spítala er umsækjanda að kostnaðarlausu. Fari kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fram úr ákveðinni upphæð er hægt að óska eftir fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Umsækjandi um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, sem fengið hefur neikvæða niðurstöðu í máli sínu hefur aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottför en nýtur hvorki fjárhagsstuðnings til að greiða fyrir slíka þjónustu né lyf.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Framangreind atriði eiga að mörgu leyti við um fylgdarlaus börn í Svíþjóð, þó að sérsjónarmiða geti gætt varðandi móttöku og aðbúnað þeirra sem og málsmeðferð hjá sænskum stjórnvöldum. Er þess m.a. getið í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað að fylgdarlausum börnum sé á fyrsta stigi málsmeðferðar boðin lögfræðiráðgjöf og þá sé þeim skipaður talsmaður eftir að þau hafa lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Þá kemur m.a. fram að fylgdarlaus börn séu ekki vistuð með fullorðnum einstaklingum í móttökumiðstöðum og við leit á húsnæði sé reynt að taka tillit til þarfa þeirra. Slíkt húsnæði geti t.d. verið fósturheimili, heimili ættingja eða sérsniðið húsnæði fyrir fylgdarlaus börn. Sveitarfélög beri ábyrgð á að sinna velferð og þörfum barna og þá fái fylgdarlaus börn eldri en 16 ára daglegan framfærslueyri sem eigi að mæta persónulegum útgjöldum þeirra, svo sem vegna fata- og lyfjakaupa eða afþreyingu. Þá sé þeim t.d. tryggður aðgangur að mennta- og heilbrigðiskerfinu.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Svíþjóð sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þess og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess meðferð sænskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þótt fyrir liggi að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að gögn málsins, þ.m.t. gögn sem kærandi hefur lagt fram um mál sitt, gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Svíþjóð, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a framangreindrar reglugerðar er að finna sérviðmið er varða börn og ungmenni. Er þar m.a. kveðið á um að við mat á því hvort Útlendingastofnun sé heimilt að taka mál barns til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli hagsmunir barns hafðir að leiðarljósi. Barni sem myndað getur eigin skoðanir skuli tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varði og skal tillit tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Þá kemur fram að sé barn fylgdarlaust beri að taka ríkt tillit til afstöðu þess og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu sem það er í samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun sé heimilt að taka umsókn fylgdarlauss barns til efnislegrar meðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, samrýmist það hagsmunum barnsins og afstöðu. Framangreint reglugerðarákvæði endurspeglar jafnframt þau sjónarmið sem koma fram í 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 þar sem segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi og að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Í máli kæranda liggur fyrir að um er að ræða fylgdarlaust barn sem fór frá heimaríki þegar hann var ungur að árum. Kærandi hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Þá liggur fyrir sú afstaða kæranda að hann vilji ekki fara aftur til Svíþjóðar, en hann telji hagsmunum sínum best borgið hér á landi. Þó liggur jafnframt fyrir að kærandi hefur dvalið í um þrjú ár í Svíþjóð þar sem hann hefur m.a. gengið í skóla auk þess að hafa náð góðum tökum á sænsku tungumáli. Gögn málsins benda þá og til þess að andleg og líkamleg heilsa kæranda sé almennt ágæt, þrátt fyrir að kærandi hafi m.a. glímt við nokkurn kvíða, streitu og svefnvandamál, en kærandi hefur m.a. sótt þjónustu sálfræðings og fengið ávísuð lyf til meðferðar þeim kvillum. Kærandi hefur þá og greint frá því að andleg líðan sín hafi batnað eftir komuna hingað til lands.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda séu slíkar að það samræmist hagsmunum hans og afstöðu að taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga líkt og það ákvæði er túlkað með hliðsjón af þeim sérviðmiðum sem varða börn og ungmenni í 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga. Með því reglugerðarákvæði hefur verið lögð rík áhersla á að málsmeðferð og úrlausn mála þar sem fylgdarlaus börn eiga í hlut skuli lúta sérsjónarmiðum á þann hátt að sjónarmið um sérstaklega viðkvæma stöðu þeirra hafi aukið vægi umfram önnur sjónarmið. Í ljósi atvika málsins, þ.m.t. afstöðu kæranda, sem litið er til með hliðsjón af aldri hans, og þeirra andlegu veikinda sem gögn málsins bera með sér að hann glími við er það mat kærunefndar að það sé kæranda fyrir bestu að vera áfram hér á landi og fá efnislega meðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þess ríkis á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá beri eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á þeim sjónarmiðum og gögnum sem liggja fyrir í máli kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar. 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellants application for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir                                                                               Erna Kristín Blöndal 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum