Hoppa yfir valmynd
2. júní 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðstafanir til að sporna gegn neikvæðum áhrifum innstreymis erlends gjaldeyris

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mælti nú síðdegis fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingar á lögum um gjaldeyrismál, lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.

Frumvarpið hefur bein tengsl við áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta en megintilgangur þess er að skilgreina og lögfesta úrræði til handa Seðlabanka Íslands til að tempra innstreymi fjármagns til landsins og hafa áhrif á samsetningu þess.

Lögfesting ákvæða um varúðartæki af einhverju tagi í tengslum við vaxtamunarviðskipti hefur verið til skoðunar hjá stjórnvöldum um nokkurt skeið. Slík viðskipti geta, líkt og kunnugt er, raskað jafnvægi í raunhagkerfinu, innan fjármálakerfisins og  framkvæmd eðlilegrar hagstjórnar á sviði peninga- og ríkisfjármála.

Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabankanum verði veitt heimild til að setja reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna tiltekins nýs innstreymis nýs gjaldeyris. Hér er einkum um að ræða innstreymi vegna kaupa á skuldabréfum og víxlum og vegna nýrra bankainnstæðna, þar sem fjárfestar horfa til skammtímaávinnings vegna vaxtamunar á milli Íslands og annarra landa og gengisbreytinga. Bankinn geti þannig sett almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem fela í sér skyldu til að binda reiðufé, sem kann að nema allt að 75% af viðskiptunum, á reikningi hjá innlánsstofnun hér á landi til allt að fimm ára.

Ráðstöfununum er ætlað að draga úr þeirri áhættu sem verulegt fjármagnsinnstreymi getur skapað og styðja við aðra þætti innlendrar hagstjórnar.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum