Hoppa yfir valmynd
30. október 2008 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rannsóknarnefnd umferðarslysa vill takmarkanir á bráðabirgðaökuskírteini

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur lokið rannsókn tveggja banaslysa á þessu ári og rekur orsakir þeirra til hraðaksturs og vítaverðs aksturslags. Í framhaldi af því leggur nefndin til að ökuleyfisaldur verði hækkaður í 18 ár og að settar verði takmarkanir á akstur handhafa bráðabirgðaökuskírteina.

Annað slysið varð á Akranesi 18. febrúar þegar bíl var ekið framúr öðrum á Vesturgötu á Akranesi. Missti ökumaður stjórn á bílnum sem lenti á húsi og slasaðist hann mikið og farþegi lést af völdum áverka eftir slysið 10 dögum síðar. RNU kemst að þeirri niðurstöðu að vítaverður framúrakstur og of hraður akstur séu meðal orsaka auk þess sem hvorki bílstjóri né farþegi hafi verið spenntir í öryggisbelti.

Rannsóknarnefndin leggur til að við endurskoðun á umferðarlögum sem nú stendur yfir verði kveðið á um að hækka ökuleyfisaldur í 18 ár. Telur nefndin það skref í átt að auknu umferðaröryggi meðal annars vegna færri slysa með meiri þroska ökumanna. Þá beinir nefndin því til lögreglunnar á Akranesi í kjölfar banaslysa og alvarlegra umferðarslysa innanbæjar á Akranesi undanfarin ár að herða umferðareftirlit með sérstakri áherslu á að stemma stigu við of hröðum akstri innanbæjar.

Einnig leggur RNU til að settar verði ýmsar takmarkanir á handhafa bráðabirgðaökuskírteina, svo sem takmarkanir á afl bíla sem þeir aka, hömlur á aksturstíma, fjölda og aldur farþega og fleira. ,,Rök fyrir slíkum hömlum má finna í birtum vísindagreinum, bæði innlendum og erlendum,” segir í niðurlagi skýrslunnar um slysið á Akranesi.


Kappakstur ólíðandi

Hitt banaslysið varð á Kringlumýrarbraut í Reykjavík 31. mars. Telur RNU orsakirnar vera kappakstur ökumanna bíls og vélhjóls og hafi ökumaður ekki ráðið við hraða þess, ekið á kanstein og hann missti stjórn á hjólinu. Lést hann af völdum slyssins.

Rannsóknarnefndin segir að eftir rannsóknir á nokkrum banaslysum undanfarin ár þar sem ofsaakstur og kappakstur hafi verið aðalorsök beri það mikinn vott um dómgreindarleysi að ökumenn skuli stunda kappakstur á götum í þéttbýli og leggja í hættu líf og limi nærstaddra vegfarenda. Mikilvægt sé að hörð viðurlög gildi um þá sem geri sér slíkt að leik. ,,Kappakstur á vegum og götum ætluðum almennri umferð er með öllu ólíðandi,” segir í niðurlagi skýrslunnar um slysið.


 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira