Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál 21/2016. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. janúar 2017

í máli nr. 21/2016:

HS Orka hf.

gegn

Ríkiskaupum og

Orkusölunni ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 10. nóvember 2016 kærði HS Orka hf. örútboð Ríkiskaupa (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) nr. 20418 innan rammsamnings um raforku nr. RK 05.07.  Varnaraðili skilaði greinargerð sinni ásamt fylgiskjölum 5. desember 2016, þ.á m. útfylltu tilboðsblaði Orkusölunnar ehf. vegna örútboðsins. Með tölvubréfi 12. sama mánaðar óskaði kærandi eftir því að fá afhent umrætt tilboðsblað. Leitað var eftir afstöðu varnaraðila og Orkusölunnar ehf. og bárust athugsemdir þeirra með tölvubréfum 29. sama mánaðar og 12. janúar 2017. Er því mótmælt af hálfu beggja aðila að skjalið verði afhent kæranda og vísað til þess að það hafi verið auðkennt sem trúnaðarmál.

Niðurstaða

Kærandi hefur óskað eftir að hann fái afhent útfyllt tilboðsblað Orkusölunnar ehf. sem fylgdi með greinargerð varnaraðila. Skjalið var afhent kærunefnd auðkennt sem „trúnaðarmál“ eins og heimilt er samkvæmt 4. gr. starfsreglna fyrir kærunefnd útboðsmála.  Hvað sem þessu líður telst skjalið til málsgagna í því stjórnsýslumáli sem rekið er fyrir kærunefnd á milli málsaðila, en um meðferð kærumála fyrir nefndinni gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993, sbr. 7. mgr. 108. gr. laga nr. 12/2016 um opinber innkaup. Ber því við úrlausn þessa álitaefnis að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga sem ganga framar ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. 2. mgr. 4. gr. síðarnefndu laganna.

Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Hefur óheftur aðgangur að gögnum máls verið talinn nauðsynlegur til að tryggja að réttur aðila til að koma að skýringum og leiðrétta fyrirliggjandi gögn nýtist að fullu. Gerðar eru undantekningar frá þessari grunnreglu í 16. og 17. gr. laganna, en að mati nefndarinnar er ljóst að einungis 17. gr. laganna getur komið til álita um þau gögn sem kærandi krefst aðgangs að. Samkvæmt þeirri grein er stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Við mat á þessum skilyrðum ákvæðisins verður meðal annars að líta til þeirra hagsmuna sem reglum um opinber innkaup er ætlað að þjóna, þ.á m. hvort afhending upplýsinga getur raskað jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup.

Í málinu heldur kærandi því fram að tilboð Orkusölunnar ehf. hafi verið í ósamræmi við ófrávíkjanlegt ákvæði skilmála örútboðsins um gerð tilboða og útfyllingu tilboðsblaða. Við opnun tilboða var tilboð Orkusölunnar ehf. þriðja lægsta af fjórum tilboðum en eftir endurútreikning varnaraðila var tilboðið metið lægst. Eru hagsmunir kæranda, sem átti lægsta tilboð fyrir endurútreikning tilboða, af afhendingu skjalsins því miklir. Um er að ræða upplýsingar sem gefa átti upp samkvæmt tilboðsblaði sem fylgdi skilmálum örútboðsins og lá til grundvallar endanlegri tilboðsfjárhæð.  Mega þátttakendur í opinberum innkaupum almennt vænta þess að slíkar grunnupplýsingar um fjárhæð tilboða geti orðið aðgengilegar öðrum bjóðendum í kjölfar þess að tilboð eru opnuð. Verður því ekki fallist á að svo ríkir almanna- eða einkahagsmunir í skilningi 17. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi svo réttlætanlegt sé að víkja frá meginreglu 15. gr. laganna að því er varðar afhendingu gagnsins í heild sinni.

Verður því fallist á kröfu kæranda um afhendingu skjalsins svo sem nánar segir í ákvörðunarorði.

Ákvörðunarorð:

Kæranda, HS Orku hf., er veittur aðgangur að tilboðsblaði Orkusölunnar ehf. vegna  örútboðs Ríkiskaupa nr. 20418 innan rammsamnings um raforku nr. RK 05.07.

                                                                                    Reykjavík, 20. janúar 2017.

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum