Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ný lög um opinbert stuðningsumhverfi nýsköpunar

Frumvarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um opinberan stuðning við nýsköpun er orðið að lögum.

Með því eru gerðar umfangsmiklar breytingar á opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands verður lögð niður, stofnað verður tæknisetur með áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni verða aukin og nýr sjóður settur á fót fyrir rannsóknir í byggingariðnaði auk fleiri aðgerða. Við breytingarnar verða 300 milljónir króna árlega eftir í ríkissjóði.

„Með þessum breytingum á opinberum stuðningi við nýsköpum höfum við náð að forgangsraða verkefnum í takti við Nýsköpunarstefnu,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Stuðningur við nýsköpun hefur aukist gríðarlega í tíð þessarar ríkisstjórnar og framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hafa vaxið um ríflega sjötíu prósent. Þetta kemur m.a. fram í stórauknum framlögum í Tækniþróunarsjóð, auknum framlögum í endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar og stofnun Kríu -  sprota- og nýsköpunarsjóðs.“

Breytingarnar fela það m.a. í sér að Nýsköpunarmiðstöð Íslands  verður lögð niður. Þegar tilkynnt var um breytingar á starfsemi NMÍ árið 2020 starfaði þar 81 starfsmaður í 73 stöðugildum. Í dag eru þar um 40 starfsmenn. Tæplega tuttugu starfsmenn hafa undanfarið  flust með verkefnum til annarra stofnana á vegum hins opinbera, eða munu flytjast á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að hluti starfsmanna fái boð um að flytjast á tæknisetur og hluti starfsmanna á rétt á biðlaunum.

„Á þessum tímamótum langar mig að þakka starfsfólki Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir þeirra góða starf í þágu nýsköpunar undanfarin ár. Með þeirra stuðning hefur tekist að skapa frjóan jarðveg fyrir frumkvöðla og með þessum breytingum trúi ég því að nýsköpunarumhverfið muni halda áfram að vaxa og dafna,“ segir Þórdís Kolbrún.

 

Fjölmörg verkefni sem áður var sinnt af NMÍ mun haldið áfram undir nýjum formerkjum og má meðal annars nefna að:

  • Stofnað verður tæknisetur (fyrra vinnuheiti var nýsköpunargarðar) á grunni Efnis-líf og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og frumkvöðlaseturs NMÍ á sviði tæknigreina. Tæknisetrið verður jafnframt vettvangur fyrir byggingarannsóknir og þær verða efldar með sérstökum framlögum í samráði við félagsmálaráðuneytið og útgáfa fræðsluefnis um mannvirkjagerð mun flytjast á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
  • Starfsemi Efnagreininga hjá Nýsköpunarmiðstöð var í upphafi ársins flutt á Hafrannsóknastofnun og öllu starfsfólki Efnagreininga boðið starf á þeirri stofnun.
  • Stuðningur við nýsköpun á landsbyggðinni hefur verið efldur, m.a. með stofnun Lóu nýsköpunarsjóðs.
  • Ráðuneytið hefur ráðið til sín tvo fyrrverandi starfsmenn NMÍ með aðstöðu á landsbyggðinni til að efla stuðning við nýsköpun á landsvísu og unnið er að því að efla samstarf við Byggðaáætlun um nýsköpun á landsbyggðinni.
  • Gerðir hafa verið samningar um starfssemi stafrænna smiðja (fab-labs) víðsvegar um landið og framlög til smiðjanna aukin.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum