Hoppa yfir valmynd
14. júní 2018 Innviðaráðuneytið

Byggðaáætlun 2018-2024 samþykkt á Alþingi

Þingsályktunartillaga um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 var samþykkt á Alþingi 11. júní síðastliðinn með öllum greiddum atkvæðum. Áætlunin lýsir stefnu ríkisins í byggðamálum og er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða um land allt og bæta skilyrði til búsetu.

Meginmarkmið byggðaáætlunar er að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla er lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. 

Margvíslegar áherslur á sviði byggðamála eru tíundaðar í áætluninni sem ýmist leiða til beinna aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð. Alls inniheldur áætlunin 54 aðgerðir og verða 30 þeirra fjármagnaðar af byggðalið fjárlaga, samtals að upphæð 3,5 milljarðar á tímabilinu.

Fyrir liggur að kostnaður við áætlunina verður umtalsvert meiri en það fjármagn sem kemur af byggðalið fjárlaga. Með samþættingu við aðrar opinberar áætlanir verður hægt að fjármagna aðgerðir, ýmist af fjárheimild viðkomandi málaflokks eingöngu eða með samfjármögnun málaflokksins og byggðaliðar. Þá eru nokkrar aðgerðir þar sem ekki er gert ráð fyrir verulegum kostnaði.

Byggðaáætlun byggist á víðtæku og opnu samráðsferli. Samkvæmt lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir vann Byggðastofnun áætlunina í umboði ráðherra í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Formleg vinna hófst í mars 2016. Á vinnslutímabilinu hélt Byggðastofnun samráðsfundi með öllum ráðuneytum, með samráðsvettvöngum í sjö landshlutum og fleiri aðilum. Á vef Byggðastofnunar voru öll gögn samráðsins aðgengileg og þar var haldið utan um tillögur, ábendingar og athugasemdir sem bárust í samráðsferlinu. Áður en þingsályktunin var lögð fyrir Alþingi var hún sett til umsagnar í opna samráðsgátt stjórnvalda. Fjöldi umsagna barst og var tekið tillit til þeirra eftir því sem kostur var. 

Með samþykkt byggðaáætlunar liggur vilji Alþingis í byggðamálum fyrir. Það verður meðal forgangsverkefna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að tryggja skilvirka og árangursríka framkvæmd áætlunarinnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum